Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Fellur ríkisstjórnin?

johanna

Samfylkingarmönnum fjölgar ört sem sárnar að ekki sé rætt um mögulega aðild að Evrópusambandi, þrátt fyrir gjörbreyttar forsendur.

Verður þetta stjórninni að falli?

Ef svo er, hvernig verður næsta Ríkisstjórn skipuð og hversu traust verður hún?

Pabbi minn er ríkari en pabbi þinn

Þarf sérstaklega að rannsaka hnitmiðaðar gengisfellingar, ofurlaun, hagsmunatengsl, gjaldþrot og spillingu vegna fjármálakreppunnar?

 

 

 

Björn Bjarnason vill láta rannsaka hvort að tilefni sé til lögreglurannsóknar á grundvelli opinberra mála, og fagna ég því.

Af hverju fær efnahagsbrotadeild ríkislögreglunnar ekki einfaldlega hærri fjárhæðir til að rannsaka málin, í stað þess að stofna nýja nefnd til að rannsaka hvort að tilefni sé til rannsóknar?

Nokkur atriðið sem mér dettur í hug á augnablikinu að þurfi að rannsaka:

  • Það þarf sérstaklega að rannsaka af hverju gengið féll þrívegis rétt fyrir árfjórðungsuppgjör á þessu ári og hvort að eitthvað svipað hafi verið í gangi fyrir fyrri uppgjör, og hverjir hafi þá verið að stýra þessu - hvort sem um innlenda eða erlenda aðila var að ræða.
  • Það þarf sérstaklega að rannsaka hvort að fengin lán hafi verið reiknuð sem árangurstengdur hagnaður í bankakerfinu og því greiddur út sem ofurlaun. Lán og laun sem ætlast er til að almenningur borgi til baka næstu árin. Einnig má rannsaka hversu mikið af þessum upphæðum fór til eigenda.
  • Það þarf sérstaklega að rannsaka hagsmunatengsl milli stjórnmálamanna, greiningarstofnana, auðmanna og banka, og hvort að óeðlilegar ákvarðanir hafi verið teknar vegna þessara tengsla.
  • Það þarf sérstaklega að rannsaka hvort að Glitnir hafi sannarlega verið gjaldþrota þegar Seðlabankinn lýsti hann gjaldþrota.
  • Það þarf sérstaklega að rannsaka og koma í veg fyrir spillingu hjá íslenska Ríkinu, sama þó að hún mælist lítil í samanburði við alþjóðamælikvarða. Lítil spilling er of mikil spilling.

Er eitthvað fleira sem þarf að rannsaka?

 

Af ruv.is:

 

Boðar rannsókn á fjármálakreppunni

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, boðaði sérstaka rannsókn á fjármálakreppunni og falli þriggja stærstu banka landsins á Alþingi í dag. Til stendur að stofna sérstakt rannsóknarembætti til að skoða kærur um meinta refsiverða verknaði sem tengjast falli bankanna.

Markmiðið er að kanna, hvort tilefni sé til lögreglurannsóknar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Skýrsla mun liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2008. Á grunni hennar verður tekin ákvörðun um saksókn.

 

Dómsmálaráðherra hefur fundað með ríkissaksóknara og óskað eftir því bréflega að embættið afli staðreynda um starfsemi bankanna þriggja, útibú þeirra og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. Markmiðið er að kanna hvort tilefni sé til lögreglurannsókna.

Skýrsla með niðurstöðum rannsóknarinnar á að liggja fyrir í árslok. Á grunni hennar verður tekin ákvörðun um saksókn. Ríkissaksóknari verður í samstarfi við Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitið og skattrannsóknarstjóra. Ráða þarf sérstaka starfsmenn til að vinna skýrsluna og því þarf að tryggja verkinu fjármagn, sem Björn hét á Alþingi að gera. Hann sagði jafnframt að unnið væri að lagafrumvarpi í dómsmálaráðuneytinu um umgjörð þessarar rannsóknar.

Björn segir að stofnað verið til tímabundins rannsóknarembættis sem taki við rannsókn á kærum um meinta refsiverða verknaði sem sprottnir séu af eða tengist falli bankanna.  Ráðinn verði sérstakur forstöðumaður þessa embættis sem starfi í nánu samstarfi við hverja þá opinberu stofnun, innanlands eða utan, sem geti lagt lið við að upplýsa mál og greiða fyrir rannsókn þeirra. Embættið starfi undir forræði ríkissaksóknara sem, gæti ásamt forstöðumanni að ákvarða hvaða rannsóknarverkefni falli til þess, sagði Björn á Alþingi í dag.

Björn sagði mikilvægt að hrapa ekki að ályktunum, gefa sér ekki fyrirfram að lög hafi verið brotin. Hann sagði jafnframt að eðlilegt væri að velta fyrir sér að koma á fót nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem hefði eftirlit með rannsókninni.


Hvort eigum við að standa saman og borga skuldir einkavæddra banka, eða standa saman og neita að borga skuldir sem aðrir bera ábyrgð á?

 

 

 

Þrír einkavæddir bankar fara á hausinn og skilja eftir sig skuldahala sem jafnast á við tólffalda ársframleiðslu íslensku þjóðarinnar.

Þjóðin mun borga fyrir ballið og hreingerningarnar sem skildu samkomuhúsið eftir sem rjúkandi rústir. Annars myndi enginn gera það, og fólk sættir sig ekki við að  búa í brunarústum.

Talað er um að hin skuldlausa þjóð þurfi að taka lán til að borga skuldir. Lán af Hollendingum til að borga Hollendingum. Lán af Bretum til að borga Bretum. Lán frá Rússum til að borga öllum hinum. Lán frá IMF sem enginn veit hvað þýðir.

Við erum að tala um lán fyrir þúsundi milljarða og lán þarf að borga til baka. Af hverju á ég og mín fjölskylda að taka lán til að borga fyrir mistök og glæpi annarra einstaklinga?

Ég spái því að þetta muni kosta eins og eitt skólakerfi, íbúðalánasjóð, heilbrigðiskerfi, félagslegt velferðarkerfi og nokkrar orkuauðlindir, auk hærri skatta í nokkur ár.

 

Samviskuspurning:

Hvort eigum við að standa saman og borga skuldir einkavæddra banka, eða standa saman og neita að borga skuldir sem aðrir bera ábyrgð á?


Er efnahagskreppan kosningaútspil Bush og McCain?

 

 

Sú kenning barst í tal fyrir nokkrum mánuðum að forvitnilegt væri að sjá sveiflur í efnahagslífinu rétt fyrir kosningarnar í Bandaríkjunum. Mig grunaði að repúblikanaflokkurinn ætti eitthvað svakalegt útspil, annað hvort í tengslum við olíuverð eða húsnæðismarkaðinn. Mig óraði samt aldrei fyrir að staðan yrði eins og hún er í dag.

Nú er sú staða komin upp að heimskreppa blasir við. Ef repúblikönum tekst að koma í veg fyrir hana, að minnsta kosti í Bandaríkjunum, eru þá ekki góðar líkur á að þeir taki kosningarnar?

Ég er einfaldlega að pæla í hvort að hugsanlegt sé að einn af sökudólgunum á bakvið fall allra íslensku bankanna geti verið kosningabrella í vestri. Allt leikur á reiðiskjálfi, en svo mun eldsneytisverð lækka gífurlega, hlutabréf rjúka upp, og þeim Bush og McCain þakkað fyrir vegna þeirra 700.000.000.000 dollara sem dælt var inn í kerfið og ná að treysta hagkerfið ytra rétt fyrir kosningarnar í nóvember.

Langsótt samsæriskenning?


mbl.is Mesta dagshækkun Dow Jones
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru sökudólgarnir? Ert það kannski þú?

 


Margir hafa þegar verið stimplaðir (hengdir af fjölmiðlum án dóms og laga): Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Jón Ásgeir, Björgúlfsfeðgar, Darling og Brown, Árni Matt, Pétur Blöndal, og þannig heldur runan endalaust áfram.

Ég hef heyrt að ekki sé rétt að leita uppi sökudólgana vegna hruns fjármálaundursins, og velti fyrir mér hvers vegna ekki. Á meðan hinir raunverulegu sökudólgar hafa ekki verið dregnir til saka, verða áberandi embættismenn og heiðarlegt fólk stimpluð sem sökudólgar, á meðan hinir seku fá góðan tíma til að fela slóðina og koma sér undan.

Væri ekki skynsamlegt að hafa upp á raunverulegum sökudólgum til þess að hlífa þeim saklausu? Og þá meina ég fólk sem sannarlega hefur verið að selja sjálfu sér eignir til þess eins að blása upp verð þeirra, fólk sem hefur leikið sér að íslenska hagkerfinu til að láta ársfjórðungsútkomu líta vel út á kostnað gengis og verðbólgu? Fólk sem hefur haft alvarleg áhrif á heildina til eigin hagnaðar?

Ef ekki er rétti tíminn til að hafa uppi á sökudólgunum núna, hvenær er þá rétti tíminn til þess?

  • Þegar þjófur hefur farið um er best að hafa sem fyrst upp á honum til að hann steli ekki meiru eða komi sér ekki undan.
  • Þegar brennuvargur hefur brennt nokkur hús þarf að stöðva hann. Ef honum hefur tekist að brenna heila borg, þarf þá ekki að refsa honum?

Getur samt verið að sökudólgurinn sé ekki persóna, heldur hugmyndafræði? Að við höfum lifað í útópíu og hún einfaldlega ekki gengið upp frekar en aðrar útópíur, þrátt fyrir að okkur hafi virkilega langað til að hún væri sönn? Er sökudólgurinn þá við sjálf fyrir skort á gagnrýnni hugsun og viðeigandi aðgerðum?


Af hverju má ekki lækka tekjuskatta í 10% og stýrivexti í 5% ?

 

taxbarrel

 

Ég bara spyr.

Mér þætti þetta eðlileg neyðarlög við ástandinu í dag, sem gæti hjálpað fólki að rétta sig við.

Hins vegar segir efasemdarmaðurinn einhvers staðar í huga mínum að ástandið yrði einfaldlega misnotað til að keyra upp verðlag enn frekar, rétt eins og gert var í tilraun til skattalækkana fyrir ári.

Það mætti lækka skatta tímabundið í einhverja mánuði og frysta verðlag á meðan. Mér finnst vanta töluvert af frumkvæði til að gera svona góða hluti, og hef á tilfinningunni að ekkert sé gert fyrr en í óefni er komið. Ríkisstjórnin hefur staðið sig vel síðustu dagana, þegar hún loks greip inn í ástand sem hefði þurft að grípa inn í fyrir mörgum mánuðum, en hún framkvæmdi loks og gerði það vel. Nú væri óskandi að hún framkvæmdi aðeins meira, en drægi sig síðan í hlé.

Lækkun stýrivaxta er náttúrulega nauðsynleg og óskiljanlegt af hverju hún hefur ekki þegar verið framkvæmd.

Ég veit að það er mikil einföldun að taka þá Geir Haarde og Davíð Oddsson sérstaklega fyrir sem mennina sem ráða, enda eru þeir einfaldlega að stjórna, sem þýðir að þeir verða að vinna í samvinnu með sínu fólki. Slíkt tekur skiljanlega tíma. Það væri áhugavert að heyra rætt um kosti og galla þessara hugmynda, og góða ástæðu fyrir af hverju þetta er ekki gert strax.

Að lækka tekjuskatta og stýrivexti væri góð leið til að létta undir með þeim sem tapað hafa miklu og skulda enn mikið.

Leiðréttið mig fari ég með rangt mál.


Á að reka Davíð Oddsson, leggja hann í einelti og ásaka hann um ófarir bankanna?

 


 

Eftir að hafa heyrt kröfur frá fólki héðan og þaðan um að reka ætti Davíð Oddsson úr Seðlabankanum fyrir viðtal sem hann tók þátt í á þriðjudaginn var í Kastljósi, og fyrir að standa sig illa í stjórn Seðlabankans, verð ég að viðurkenna að ég tel þessa heift í garð Davíðs á misskilningi byggð.

Reiðin í garð Davíðs virðist byggð upp á sögusögnum og ærumeiðingum sem haldið hefur verið uppi af fyrrum eigendum Glitnis og fjölmiðlum sem þeir hafa undir hælnum, um að Davíð hafi verið að hefna sín á Jóni Ásgeiri með því að þjóðnýta Glitni. Davíð svaraði þessari ásökun á mjög sannfærandi hátt, í Kastljósviðtalinu á þriðjudag þar sem hann segist hafa krafist þess að hinir bankastjórar Seðlabankans væru með í ráðum, og að reynt hefði verið að hjálpa eigendum Glitnis með því þó að taka ekki allan bankann af þeim.

Bankinn var kominn í greiðsluþrot og var þar af leiðandi gjaldþrota. Ef Seðlabankinn hefði lánað 84 milljarða króna, hefði sá peningur sjálfsagt bara gufað upp og verið tapað fé, á meðan þjóðin hefði setið uppi með miklar skuldir. Önnur leið var farin sem við þekkjum vel.

Davíð varaði í mars síðastliðnum við árásum á íslenska hagkerfið, og það var reyndar fyrst þá sem ég fékk mikinn áhuga á að fylgjast með þessum málum, og hef gert það vandlega síðan. Ég sé ekki betur en að Davíð Oddsson hafi komið heiðarlega fram við annað fólk, en að hann hafi verið ataður aur úr öllum áttum, en eins og gefur að skilja er erfitt að hreinsa sig af aur sem aðrir skjóta á mann, nema með mjög traustum karakter. Það eina sem að mínu mati hefur veikt orðspor og trúverðugleika Davíðs var ráðning Þorsteins sonar hans sem dómari fyrir norðan, og þætti mér vænt um að vita hvort að hann hafi komið að því máli, sem mér finnst reyndar afar ólíklegt þar sem slíkt passar einfaldlega ekki við karakter Davíðs.

Öll spjót standa á honum. Það er vinsælt að vera óvinur Davíðs núna. Hann segir nákvæmlega það sem hann meinar og hann virðist segja satt og rétt frá því sem hann má segja frá. 

Ég er sammála þeirri fullyrðingu hans að við stöndum betur í dag en fyrir þremur vikum, einfaldlega vegna þess að í dag þekkjum við betur okkar stöðu. Ef vandamál er til staðar er mun verra að vita ekki af því, en að þekkja það.

Þeir einstaklingar sem vilja nornabrennu vegna Davíðs, ég bið þá að hugsa sig tvisvar um og telja upp að tíu. Hann er ekki í öfundsverðri stöðu, og hefur reyndar varað þjóðina við - oftar en einu sinni, og oftar en tvisvar- það var einfaldlega ekki hlustað á hann, fyrst og fremst vegna þess óorðs sem menn hafa verið að rembast við að hella yfir hann, og þar að auki af því að fólk trúði um of á efnishyggjuna og virðist ekki átta sig á að efni eru ekki endalaus í þessum heimi. 

Ég er hvorki dýrkandi Davíðs né sjálfstæðismaður, en ber mikla virðingu fyrir þeim heilindum sem hann sýnir í sínu framferði. Ég er viss um að sagan mun dæma hann mun betur en nútíminn.

Þó að Davíð hafi komið frjálshyggjunni inn í íslenskt samfélag ásamt Hannesi Hólmsteini og fleiri félögum, þá bera þeir varla ábyrgð á svikunum og prettunum sem fjárglæframenn hafa stundað með því að eigna sér hlutfall af lánum, eins og ef um hreinan hagnað væri að ræða. Það er eins og að ásaka foreldri fyrir að gefa unglingi bíl, sem hann svo notar til að keyra á 150 km hraða með hörmulegum afleiðingum.

Mikilvægasti greinarmunurinn sem fram hefur komið er að bankarnir eru fyrirtæki sem farnir eru á hausinn, og rétt eins og önnur fyrirtæki er gjaldþrot þeirra ekki á ábyrgð fólksins í landinu, eða Ríkisins. 

Mikilvægt er að Davíð Oddsson haldi sínu striki í stjórn Seðlabankans þrátt fyrir stöðugar árásir á hann. Ég vona að honum og hans starfsfélögum verði veittur vinnufriður. Það er verið að ráðast á rangan aðila.

Ef ég leyfi mér að segja það, og án þess að ég telji mig vera að taka djúpt í árinni, þá tel ég Davíð Oddsson satt best að segja vera eina af fáum frelsishetjum íslensku þjóðarinnar gegnum tíðina. Nútíminn er að dæma manninn alltof harkalega.

Kíkið á viðtalið við Davíð Oddsson í Kastljósi 7.10.2008, og hlustið vandlega á það sem hann hefur að segja og hvernig það tengist samhengi sögunnar síðustu fjögur árin, og jafnvel síðustu tuttugu árin, en ekki hugsa bara um síðustu viku. 

Það er erfitt að hugsa um Davíð Oddson án þess að gera sér fordómafulla mynd af manninum. Hann hefur verið það mikilvæg persóna í íslensku samfélagi og það umdeildur af mörgum aðilum, að hann mun sjálfsagt aldei fá sanngjarna meðferð af núlifandi Íslendingum, sérstaklega þegar haft er í huga að hann hefur ekki fyrir því að leggjast á sama plan og þeir sem kasta hann auri.

Frekar en að ásaka Davíð vil ég þakka honum kærlega fyrir að koma hreint fram og segja einfaldlega satt, þó svo að sannleikurinn geti verið mörgum óþægilegur, og fólk muni nota hann til að ýfa upp enn meiri illindum.

Sagan mun dæma. Nú er bara spurningin hver skrifar hana.


mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að fórna lífeyrissparnaði síðustu áratuga til að bjarga bönkunum?

 

 

 

Einkareknir bankar riða til falls. Kreppa er í sjónmáli. Þeir vilja fá pening til að bjarga sér á þessum gjalddaga í dag. 

Góðu fréttirnar eru að lífeyri þjóðarinnar er borgið í erlendri mynt. Vondu fréttirnar eru þær að þessu síðasta hálmstrái hins venjulega launamanns er ógnað, þar sem stjórnendur og stjórnmálamenn vilja skipta einhverju af þessum sjóði yfir í krónur á tíma þegar enginn kaupir krónur, til að redda bönkunum út úr krísu sem þeir bjuggu til sjálfir með alltof miklum tengslum og hreinni græðgi.

Ég treysti ekki stjórnmálamönnum Íslands í dag til að vera réttlátir gagnvart lífeyrissjóðum.

Þeir hafa:

  1. Veitt uppreist æru manni sem var dæmdur fyrir brot í opinberu embætti, til að hann geti komist aftur á þing.
  2. Veitt einstaklingum dómaraembætti með afar vafasömum hætti.
  3. Veitt laun fyrir opinber störf á meðan viðkomandi er erlendis í námi.
  4. Sjálfur fjármálaráðherra er eigandi í bankastofnun og sér ekkert athugavert við það.

Ég treysti heldur ekki stjórnendum í bönkum sem:

  1. Eru ráðnir til starfa fyrir mörg hundruð milljóna í eingreiðslu, sem er náttúrulega meiri peningur en nokkur hefur þörf fyrir og hærri en ævitekjur flestra Íslendinga.
  2. Eru á mánaðarlaunum sem jafnast á við eða eru hærri en árslaun verkamanna.
  3. Eru á árangurstengdum launum þegar árangurinn getur snúist um að hafa sem mest fé að lánþegum og koma í eigin vasa.
  4. Eiga inni starfslokasamning sama hversu vel eða illa þeir stjórna.

Hins vegar treysti ég á að fólkið í landinu reyni að rífa sig upp. Það sem getur bjargað okkur núna er öflugt siðferðisþrek. Það er nokkuð sem við getum lært af forfeðrum okkar og við teljum kannski úrelt fræði, en menning okkar geymir hins vegar mun dýpri fjársjóði en nokkuð gull og glingur hefur upp á að bjóða - sanna reisn við hvaða aðstæður sem er, sama þó að aðstæðurnar séu þær að laun standi í stað á meðan vöruverð hækkar um helming, sama þó að erlend lán hækki um helming og verðtryggð lán um fimmtung eða fjórðung. Við verðum að standa saman.

Það sem þarf að heyrast:

  • Samstaða gegn spillingu.
  • Samstaða með fólkinu í landinu.
  • Lausn undan vaxtafangelsi vegna heimiliskaupa.
  • Ríkidæmi er ekki virðingarvert í sjálfu sér.
  • Búum til betri heim.
  • Við erum undir, en leikurinn er ekki búinn.

Mynd: Town of Beloit

Kvikmyndaviska: hvað getur einn maður gert gegn heimskreppu?

Fyrst, ástandið eins og það var 1929 í Bandaríkjunum, frá Britannica:

 

Hugarfar sem hvetur til spillingar og hvítflibbaglæpa, úr Glengarry Glen Ross:

 

Næst, hugmyndir John Steinbeck um hvernig best er að berjast gegn svona krísu. Hafa Íslendingar einhverja þjóðarsál í dag annars? Getur verið að hún eigi við vanda að glíma í dag, að við hugsum ekki nógu vel hvert um annað, að öll athyglin fari í að eignast, og alltof lítil í að deila og gefa? Úr Grapes of Wrath.


Vonarglæta í svartasta skammdeginu?

 


 

Krónan hefur fallið eins og steinn framan af háum hamri síðustu daga, og ekki hefur verið séð fyrir hvar hún lendir. Allt í einu er allt þjóðfélagið komið á endann í einhverri múgsefjun sem tengist þeirri hugmynd að himnarnir séu að hrynja.

Góðu fréttirnar eru þær að himnarnir eru ekki að hrynja og enginn hefur látið lífið í þessum fellibyl krónunnar. 

Slæmu fréttirnar eru þær að fólk sér fram á erfiða afborgunartíma, en það er reyndar nákvæmlega það sem fjöldi bloggara hefur séð fyrir síðan í mars.

Um daginn spurði ég hvað myndi gerast fyrir þriðja ársfjórðung bankanna í ár, en gengisfall varð fyrir síðustu tvo ársfjórðunga, og við vitum öll hvað er að gerast núna. Mig grunar, þó að erfitt sé að fullyrða um það þar sem margt fer leynt, að ríkisstjórnin sé loksins að gera eitthvað af viti. Það einfaldlega kostar.

Ríkinu hefur tekist að vekja athygli á þeirri stjórnlausu gróðahyggju sem hefur verið að auðga fáa en safna skuldum fyrir afgang þjóðarinnar. 

Þessi viðbrögð eru að skila árangri. Fyrst hríðfellur krónan af því að viðurkennt hefur verið að vandamál sé til staðar. En nú er einnig verið að vinna í næsta skrefi, að sjá fyrir sér velmegun á ný en samkvæmt betri leikreglum.

Krónan hætti að falla í dag, og stóð ekki í stað, heldur flaut upp um 0.2%. Þetta eru góðar fréttir. Þetta getur þýtt að botninum sé náð.

Aðrar góðar fréttir eru þær að fólk um allt land er að sýna þessu máli skilning, og heyrst hefur að skuldarar og skuldunautar eru að ræða sín mál og endursemja um greiðslur.

Ég heyri ekki betur en að Íslendingar séu að standa saman í þrengingunum, þó að háværustu fréttirnar séu vissulega frekar neikvæðar eins og venjulega.

Ég er einfaldlega feginn því að loksins er öllum ljóst að gróðahyggjan er vandamál. Ef við hefðum ekki áttað okkur á því, hefðum við bara komið okkur í enn meiri vanda.

Stjórnendur þessa lands hafa samt verið undarlega treggáfaðir að átta sig á vandanum og gera eitthvað af viti í málunum, kannski af hræðslu við afleiðingarnar.

Fyrst að bæði almenningur og Ríkið skilja nú að vandi er fyrir höndum og byrjað er að taka á honum er von um réttlátari og betri tíma þar sem ofurlaunakóngar og drottningar sitja vonandi ekki til eilífðar ein að þjóðarkökunni.

 

Mynd: LCS The Illustration News Portal


mbl.is Gengi krónunnar styrktist um 0,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband