Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Uppeldi, fræðsla og menntun

William-Adolphe_Bouguereau_%281825-1905%29_-_A_Calling_%281896%29Hafsteinn Karlsson skrifar frábæra grein í dag, Á skólinn að sinna uppeldi eða menntun? Mig langar nánast til að vísa í hverja einustu málsgrein sem hann skrifar, en það gengur víst ekki. Spurningin hvort að skóli eigi að vera fræðslustofnun, menntastofnun eða uppeldisstofnun, (eða allt þetta) og hvaða merkingu beri að leggja í þessi hugtök finnst mér gífurlega spennandi og ætla að gera tilraun til að ráða aðeins í þessi hugtök, og þá vonandi án þess að tapa sjóninni á veruleikanum. 

Til þess að komast dýpra er kannski ágætt að byrja á einföldum spurningum. Ég mun ekki kíkja í aðrar heimildir, en svara þessum spurningum eftir mínu höfði. Síðan mun ég reyna að finna leiðir til að dýpka minn eigin skilning á hvað þessi hugtök þýða. Þó að ég hafi unnið sem kennari og heimspekingur í 14 ár, og hef nægan bakgrunn til að hafa sterka skoðun á þessu, geri ég mér grein fyrir að það er alltaf hægt að finna nýja vinkla á öllum hugtökum og hvað þau merkja fyrir okkur.

1) Hvað er menntun?

 Menntun er áætlun og framkvæmd sem snýr að því að gera einstakling að meira manneskju, en ekki nauðsynlega að meiri manneskju. Menntunarhugtakið er að vissu marki regnhlífarhugtak yfir uppeldi og fræðslu.

2) Hvað er uppeldi?

 Uppeldi snýst um að kenna einstaklingi á þau viðmið sem ríkja í viðkomandi samfélagi, útskýra hvers konar athafnir eru réttar eða rangar og ræða við viðkomandi ástæðurnar fyrir því. Kennarar tel ég að geti stjórnað samræðum um það sem er rétt og rangt, en foreldrar barnanna eru yfirvaldið sem verður að setja þeim reglurnar. Ástæðan er einföld: börnin fylgja frekar siðferðilegum ráðum foreldra sinna en kennara. Hlutverk kennara er að leiðbeina og upplýsa, og vera góð fyrirmynd sem sýnir í verki hvernig hegðun er ásættanleg; en valdsvið kennarans er einfaldlega takmarkað hérna. 

3) Hvað er fræðsla? 

 Áður fyrr snerist fræðsla um það að auka hæfni í reikningi, skrift og lestri, leggja staðreyndir á munnið og kunna að koma þeim til skila á prófi. Ef kennarinn var mjög hæfur gat hann hjálpað börnum til að ná góðu valdi á námsaðferðum til að ná góðum árangri á prófum. Það sama á við um dag. Nema hvað að aðstæður hafa breyst. Internetið og farsímatæknin hafa gjörbreytt aðgangi okkar að ólíklegustu upplýsingum. Á einni mínútu er hægt að öðlast yfirborðskennda þekkingu um nánast hvað sem er með því að googla eða wikka viðkomandi hugtök. Og ef áhugi er fyrir hendi er hægt að kafa dýpra. Möguleikum til landafræðikennslu hefur til að mynda verið gjörbreytt með GoogleEarth. Stuðningur við stærðfræðikennslu er til að mynda mikill með notkun rasmus.is. Og þannig má lengi telja. Við búum í allt öðru umhverfi en áður - upplýsingamagnið er margfalt. Það sem við þurfum að kenna, eru ekki upplýsingarnar sjálfar, heldur hvernig hægt er að nálgast þær og vinna með þær á gagnlegan hátt, og einnig finna þeim stað í okkar heimi. Ég trúi því að heimspekileg samræða um allan þennan hrærigraut upplýsinga sem við höfum aðgang að geti hjálpað börnum við að finna skynsamlegar leiðir til að átta sig á þeim, skýra þau og leiðrétta, og jafnvel nýta.

 Þegar litið er á heildarmyndina er mér ljóst að fræðsla, uppeldi og menntun er nokkuð sem að skólar þurfa að leggja áherslu á fyrir nemendur; en alls ekki má gleyma því að uppeldið er samt fyrst og fremst á höndum foreldra. Þannig séð er misskilningur að kalla skóla uppeldisstofnanir, þar sem að skólar gegna einungis stuðningshlutverki þar við heimilin, sem eru hinar raunverulegu uppeldisstofnanir. Menntun fyrir hvern einstakling er markmiðið sem að bæði heimili og skólar ættu að stefna að, að viðkomandi geti orðið meira manneskja, vaxið út frá eigin áhugamálum og getu - í  stað þess að fylgja stöðluðum formúlum sem eiga betur við hluti en fólk, það er það sem menntun þarf að snúast um í dag.

Því miður eru háværar raddir sem sífellt krefjast þess að nemendur fái háar einkunnir og ef það gengur ekki eftir séu kennarar einfaldlega latir og lélegir. Spurningin er sú hvort að hlutverk kennara í dag sé að sjá nemendum fyrir háum einkunnum, eða hvort að hlutverk þeirra sé að mennta börnin.

Hvert sem maður fer heyrir maður talað illa um kennara, sagt að þeir vinni stuttan vinnudag, séu alltof lengi í sumarfrí, og séu alltaf að krefjast hærri launa og oft þarf ég að stappa í mig stálinu til að segja á mannamótum: "en ég er kennari", þó að ég starfi ekki lengur sem slíkur, en ég ákvað að skipta um starfsvettvang eftir kennaraverkfallið 2004. Sú dæmisaga sem hjálpar mér að muna það að standa við hlið annarra kennara er sagan um afneitun Péturs postula á Jesú þegar hann var spurður hvort að hann hafi ekki verið í hópi með honum. Hann afneitaði þrisvar til þess að vernda eigið skinn. Það vil ég ekki gera.

John_DeweyAð lokum smá hugarfæði úr verki John Dewey, Lýðræði og menntun (Democracy and Education), úr kaflanum Menntun sem þroski (Education as Growth): "Þróun, þegar hún er túlkuð með samanburðarhugtökum, það er að segja, með tillitil til sérstakra eiginleika barns og fullorðins, þýðir stýringu hæfileika í sérstakar rásir: mótun vana sem felur í sér hæfileika til að taka ákvarðanir, skýr áhugasvið, og ákveðin markmið eftirtektarsemi og hugsunar. En sjónarhorn samanburðarins er ekki endanlegt. Barnið hefur sérstaka hæfileika; það að hunsa þá staðreynd er að hamla eða afvegaleiða þau líffæri sem það þarfnast til að þroskast á eðlilegan hátt. Hinn fullorðni notar hæfileika sína til að breyta umhverfi sínu, og með því býr hann til nýjan hvata sem hann getur beint hæfileikum sínum að og haldið áfram að þróa þá. Það að hunsa þessa staðreynd er að handsama þróun, aðgerðarlaus ráðstöfun. Bæði eðlilegt barn og eðlilegur fullorðinn einstaklingur taka þátt í því að þroskast. Munurinn á þeim er ekki munurinn á milli þroska og ekki þroska, heldur á milli þroskahátta sem eru viðeigandi við ólíkar aðstæður. Með tilliti til þróunar hæfileika sem beint er að því að ná tökum á sérstökum vísindalegum og hagfræðilegum verkefnum, gætum við sagt að barnið sé að þroskast í fullorðinn einstakling. Með tilliti til viðkunnalegrar forvitni, fordómalausra viðbragða og opins hugarfars, gætum við sagt að hinn fullorðni ætti að þroskast í átt að hinu barnslega. Ein fullyrðingin er jafnsön hinni"


Infernal Affairs (Mou gaan dou) (2002) ****

InfernalAffairsPoster2Infernal Affairs hefst á þessum orðum: "Hið versta af hinum átta vítum er kalla hið endalausa helvíti. Það merkir endalausar þjáningar."

Infernal Affairs er um hið eilífa stríðs milli hins góða og þess illa, þeirra réttlátu og þeirra ranglátu.

Unglingsstrákar eru fengnir í lið með mafíunni og lögreglunni. Verkefni þeirra geta verið ansi margslungin. Við fylgjumst með sögu tveggja ungra manna. Annar þeirra er glæpamaður sem fær það verkefni að ganga í lögregluskóla og uppljóstra um leyndarmál lögreglunnar; en annar er tekinn úr lögregluskólanum og fenginn til að njósna um glæpastarfsemina innanfrá.

Þannig ganga hutirnir fyrir sig í tíu ár. Báðir hafa unnið sig upp í öruggar stöður innan stofnunar óvinarins þegar uppgötvast að svikarar séu í báðum liðum.

Tony Leung sýnir leik í hæsta gæðaflokki og leikur mjög svo eftirminnilega og tragíska persónu. Aðrir standa sig einnig gífurlega vel.

Fyrirfram bjóst ég við að þetta væri mikil ofbeldismynd, rétt eins og Hard Boiled og The Killer, sem var það allra vinsælasta frá Hong Kong fyrir um áratug síðan, en kvikmyndalistin hefur greinilega þróast mikið þar í landi, þar sem að dramað og persónurnar eru algjörlega í aðalhlutverki, og umhverfið aðeins notað sem karakter til að skoða þær betur á áhugaverðan hátt.

Báðar aðalhetjurnar, eða aðalandhetjurnar, þurfa að takast á við sinn innri mann og finna andlegt jafnvægi í því helvíti sem það að lifa í lygavef hefur skapað þeim. Mörkin á milli þess góða og þess illa verða stundum frekar óljós, en á endanum verður hver að gera upp við sig hvað hann velur: að vera góður eða illur í þessu lífi.

Þetta val er kjarninn í sögu Infernal Affairs, sem lýkur með þessari vísun í Búdda: "Sá sem er í endalausu helvíti deyr aldrei. Langlífi er það erfiðasta við endalaust helvíti."

Frábær mynd sem óhætt er að mæla með.

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.


Mexíkó - Ísland: 1-0

Isl_hundurÍ Mexíkóborg á nánast hver einasta fjölskylda hund sem gætir heimilisins. Í Reykjavík sjást hundar varla lengur. Maður getur ekki annað en hugsað til barnæskunnar í Breiðholtinu, þegar hundar voru meðal leikfélaga, - og þeir voru skemmtilegir leikfélagar - áður en bannað var að láta þá ganga lausa í borginni.

Ég held svei mér þá að Mexíkóar séu að þróast í rétta átt. Þeir viðhalda lífi dýranna og fólksins, og gera betur við þau; en við aftur á móti höfum nánast útrýmt þeim.

 Væri tímabært að endurskoða reglur um hundahald? 


mbl.is Hundar éta á veitingastað í Mexíkóborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Letters From Iwo Jima (2006) ****

photo_02_hiresLetters From Iwo Jima er stórgóð kvikmynd með djúpum og áhugaverðum persónum sem allar spretta fram ljóslifandi og maður getur ekki annað en haft mikla samúð með eða andúð á.

Sögusviðið er það sama og í Flags Of Our Fathers mynd sem gerð var samhliða, af sama leikstjóra, en mörgum gæðaflokkum fyrir neðan Letters From Iwo Jima.

Sagan fylgir óbreytta hermanninum (og fyrrum bakara) Saigo. Hann er ekki hrifinn af þessu stríðsbrölti og hugsar um fátt annað en að komast heim til eiginkonu sinnar og nýfæddrar dóttur. En yfirvofandi er gífurlega öflug árás frá flota Bandaríkjamanna og frekar ólíklegt að nokkur Japani muni komast lífs af eftir þau átök, enda hafa japönsku hermennirnir fengið þau fyrirmæli að þeir skuli vernda eyjuna eða deyja. Hvað á maður sem þykir vænt um lífið að gera við svona aðstæður?

Hann er í óþægilegri stöðu í upphafi sögunnar, en yfirmenn hans sýna grimmd og hörku þegar betur hefði verið að beita visku - og oft er þessari grimmd beint gegn honum, þar sem hann liggur vel við höggi og er ekki sáttur við ástandið. En þá kemur til eyjunnar hershöfðinginn Kuribayashi, sem umturnar hvernig komið er fram við óbreytta hermenn á eyjunni og tekur upp á því að skipuleggja snilldarlega hannaðar varnir, til að verja eyjuna í sem lengstu lög - þar sem að hann grunar að hann muni seint eða aldrei fá liðsauka.

Þessir menn sem berjast af innri sannfæringu eru hetjur myndarinnar, en hinir sem berjast aðeins vegna heiðursins eru að uppfylla innantóm loforð sem á endanum skila engu, en myndin fjallar einmitt fyrst og fremst um mikilvægi þess að hugsa sjálfstætt, komast að eigin sannfæringu og breyta samkvæmt henni. Hún fjallar um mannlegan breyskleika, hugrekki og heiður, bræðralag og fórnir, heimsku og visku. Hún tekur allan skalann.

Sagan um þá Ninomiya og Kuribayashi er gífurlega áhrifarík. Fleiri einstaklingar koma við sögu, og er saga þeirra ekkert síður vel sögð, en ég mun ekki fjalla nánar um þá hér. Það er óhætt að mæla hiklaust með þessari mynd, sem er að mínu mati ein best leikna mynd sem gerð hefur verið, enda er hún trúverðug og ekki eitt einasta feilspor tekið af þeim fagmönnum sem að verkinu komu.

Ótrúlegt að sami leikstjóri hafi gert Letters From Iwo Jima og Flags Of Our Fathers, þar sem að sú síðarnefnda er bara meðalmynd en sú fyrrnefnda hreint meistarastykki.

Smelltu hér til að lesa kvikmyndagagnrýni fyrir fleiri myndir.


Hópþrýstingur gagnvart hóteli

Satellite?blobcol=urlpicture&blobheader=image%2Fjpeg&blobkey=id&blobtable=ImageFile&blobwhere=1137686558081&cachecontrol=immediate&ssbinary=trueÞessi síðasta flétta í sögunni um yfirvofandi klámráðstefnu er gífurlega áhugaverð og spennandi.

Var þessi ákvörðun eigenda Hótels Sögu tekin á siðferðilegum forsendum eða efnahagslegum?  Eða geta efnahagslegar forsendur hugsanlega verið siðferðilegar?

 Ef aðstandendur hefðu rökstutt þessa ákvörðun með því að segja klám vera af hinu illa, skaðlegt samfélaginu, hefðu þeir verið að leggja siðferðilegan dóm á málið. Ákvörðunn var tekin í sjálfsvörn. Ljóst er að hún var úthugsuð og hafði allt með ímynd Hótels Sögu að gera, en lítið með siðferði. Annars hefðu bláar myndir aldrei verið leyfðar á hótelherbergjunum.

Einnig er nokkuð augljóst að íslenskt samfélag hefur sent frá sér skýr skilaboð um andúð þess á klámi, og því hefur það virst skynsamlegur leikur hjá Hótel Sögu að fara eftir vilja samfélagsins. Stóra spurningin er hins vegar sú hvort að íslenska samfélagið hafi verið að beita þrýstingi vegna þess að það er með svona gífurlega öfluga siðferðisvitund, eða vegna þess að þarna var fórnarlamb til staðar sem lá vel við höggi.

 Skilaboð hótelsins eru skýr: það vill ekki fá á sig stimpil sem stofnun sem hýsir siðerðilega vafasama starfsemi. Skilaboð þjóðfélagsins virðast einnig vera skýr: að þjóðin vill ekki klám. 

Er kannski komið að hámarki siðferðilegs frjálsræðis á Íslandi, þar sem að fátt eða ekkert er fordæmt, sama hvort að um kynferðislegar tilhneigingar eða gay-pride göngur er að ræða. Hefur mælirinn verið fylltur, og þjóðin farin að snúast gegn því sem hún gæti vogað sér að kalla 'óeðlilegt'?

Vinsæl ákvörðun hefur verið tekin, þjóðin þarf ekki að skammast sín fyrir klámráðstefnu á Hótel Sögu sem sjálfsagt enginn hefði tekið eftir ef ekki hefði verið fyrir gúrkutíð og athyglissýki fjölmiðla. Ljóst er að þetta getur breytt ímynd Íslands á þann hátt að við verðum hugsanlega álitin íhaldssöm þjóð sem er farin að leita aftur í kristin gildi eftir mikla trúarlega lægð; í stað þess að litið sé á okkur sem brjálaða drykkjubolta og lauslátar meyjar.

 Hvort viljum við vera; þjóð með siðferðilegan þroska sem fordæmir hluti sem vert er að fordæma, eða þjóð sem leyfir flest sem getur verið siðferðilega vafasamt.

 Reyndar læðist að mér sá grunur að ein meginástæðan fyrir þessum háværu mótmælum þjóðarinnar tengist sögunni um Guðmund í Byrginu og fréttum af níðingsverkum sem unnin hafa verið gegn íslenskum börnum. Ef það er satt, þýðir það að þjóðin okkar sé farin að hugsa sinn gang og vill ekki láta hvað sem er yfir sig og börn sín ganga. Og það er gott!

 Er það ekki?


mbl.is Eigendur Hótel Sögu vilja hætta að sýna ljósbláar myndir gegn gjaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott eða grikk: Öskudagur í andarslitrum

"Gott eða grikk?"

Drakúla og Grýla stóðu í dyragættinni hjá mér.  Ég átti ekkert nammi heima og bjóst því alveg eins við að þau myndu gera mér einhvern grikk. Þess í stað ypptu Drakúla og Grýla öxlum og löbbuðu í burtu.

Mér varð hugsað til öskudags úr eigin æsku. Ég man ekki til þess að börn hafi farið í fyrirtæki og sungið fyrir nammi þá. Aftur á móti var mikið í tísku að sauma ljóta poka, sitja fyrir fólki úti í búð og hengja þá aftan á úlpur þeirra sem gættu sín ekki nógu vel.

ashwedÞegar ég bjó í Mexíkó og kenndi þar við kaþólskan framhaldsskóla uppgötvaði ég fyrst hvaða merkingu öskudagurinn hefur að kristnum sið.

Á öskudegi mætti aðstoðarmaður prests inn í skólastofu og tilkynnti að nú væri komið að öskudagsathöfninini. Allir nemendur og starfsmenn skólans fóru til messu þar sem rætt var um merkingu öskudagsins, og í lok messunar teiknaði presturinn kross úr ösku á enni allra viðstaddra, sem ekki átti að fjarlægja fyrr en eftir að sólin var sest þann daginn.

Messan átti að minna okkur á fallvaltleika veruleikans og að allir munu einhvern tíma deyja. Um leið og krossinn var dreginn á enni mitt, sagði presturinn (á spænsku):

"Mundu, að þú ert af ösku kominn og að ösku munt þú aftur verða."

Þessi aska sem ég hafði á enninu allan þann daginn var ekki hvaða aska sem er. Heldur var hún sérunnin úr sérstökum efnum og á sérstakan hátt, og blessuð af prestinum, eða æðri kirkjunnar mönnum.

Þeir trúræknustu fasta frá öskudegi og fram á föstudaginn langa; þeir borða ekki fulla máltíð fyrr en rétt fyrir páska.  

Það er lengra síðan að ég bjó í Bandaríkjunum, en þá var "Gott eða grikk" kallað "Trick or treat" og heyrði til Halloween, hryllingshátíðar sem á sér stað hvert einasta haust á þeim bæ.

Mér finnst merkilegt að íslensk börn séu að rugla reitum á milli hausthátíðar í Bandaríkjunum og öskudags. Reyndar eru báðar hugmyndirnar frá kaþólsku komnar, en Halloween hét upphaflega "All Hallows Day" (Dagur allra heilagra) og var settur árið 835 af Gregory 4. páfa.

Á seinni tíð hefur Halloween þó verið tengd við hrylling og ótta, sem af einhverjum ástæðum virðist nú snúast um dauða, en sú hugmynd virðist sprottin af því að á Halloween séu tengsl milli þeirra lifandi og dauðu sérstaklega traust. Í upphafi voru þessi tengsl notuð til að dýrka hina heilögu einstaklinga sem fallið höfðu frá þar sem að lífi þeirra og gjörðum var fagnað, en í dag virðist þessu hafa verið snúið upp í andhverfu sína - að sú hugmynd að hinir dauðu geti nálgast hina lifandi sé meiri ógn en blessun. 

Á öskudegi er okkur ætlað að minnast þess að líf okkar varir ekki að eilífu. Á Halloween var okkur upphaflega ætlað að minnast heilagra manna sem fallið höfðu frá og að andar þeirra lifðu nú meðal okkar.

Gott eða grikk?


Þjóð í fjötrum fortíðar?

Khomeini, fyrrum herskár leiðtogi og æðstiklerkur ÍranaSífellt er reynt að takmarka getu Írana til nýtingar á kjarnorku, og þá formlega séð vegna ótta við að þeir muni nota kjarnorkuna til framleiðslu kjarnorkuvopna.

Skiptir ekki máli þó að ætlun Íransstjórnar sé tengd friðsællri nýtingu á kjarnorkunni, og þá líklega fyrst og fremst til að keyra raforku, og þannig þoka samfélaginu nær nútímanum?

Eru Bandaríkjamenn í raun að gagnrýna óstöðuga stjórnskipan í Íran, þar sem að ætlun í dag getur auðveldlega orðið allt önnur á morgun hjá þjóð sem hefur sýnt að hún getur verið mjög herská gagnvart nágrannaþjóðum og það á trúarlegum forsendum? Slíkt situr sjálfsagt enn í minni margra varnarmálasérfræðinga fyrir vestan.

 Stóra spurningin er þessi: er réttlætanlegt að hefta þróun á nýtingu kjarnorku Írana? 

 


mbl.is Larijani varar við fljótfærnislegum og hættulegum ákvörðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einelti er stríð

Gandhi_studio_1931"Ég hafna ofbeldi vegna þess að þegar það lítur út fyrir að vera af hinu góða, er hið góða aðeins tímabundið; en hið illa sem af því hlýst varanlegt." (Mahatma Gandhi, þýð. HB)

Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Full Metal Jacket, eftir Stanley Kubrick. Þó að hún sé formlega séð um Víetnamstríðið, áttaði ég mig á því að hún fjallaði fyrst og fremst um einelti, og ég ákvað að skrifa aðeins niður pælingar þær sem brutust um í kollinum mínum eftir þetta áhorf.

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um Full Metal Jacket.  

Einelti er mjög alvarlegt fyrirbæri, sem því miður virðist viðgangast í barnaskólum á Íslandi í dag. Það á sér ýmis birtingarform. Einelti getur til dæmis verið í birtingarformi slagsmála og ofbeldis, en þá verður það sýnilegt eða efnislegt; eða í formi illkvitnislegra athugasemda, hegðunar og jafnvel afskiptaleysis, en þá telst það ósýnilegt eða andlegt. 

Við erum helst tilbúin til að bregðast við sýnilegu eða efnislegu einelti, en eigum á hættu að láta ósýnilega eða andlega eineltið sem vind um eyru þjóta.

 Í samræðum mínum við ólíka einstaklinga um þetta vandamál hef ég margoft heyrt þá skoðun að einelti sé í raun ekkert vandamál - það sé einfaldlega nokkuð sem öll börn þurfa að upplifa og læra að takast á við í lífinu, það herði þau og geri þau líklegri til að verða sterkari fyrir í framtíðinni. Þessi rök eru óásættanleg.

FullMetalJacket04Börn sem verða fórnarlöm eineltis eru líkleg til að valda einelti síðar og verða fórnarlömbin þá líklega yngri börn. Einelti getur af sér meira einelti, rétt eins og ofbeldi getur af sér meira ofbeldi. Börn þjást vegna eineltis og allt það sem veldur slíkri þjáningu sem hægt er að koma í veg fyrir, er illt, og skylda okkar er að koma í veg fyrir að slík illska nái að festa rætur í veruleika barna okkar.  Ég hef séð börn þjást vegna eineltis og veit að það herðir þau ekki upp. Einelti brýtur börn niður, fyllir þau ótta, skapar fyrir þau skrýmsli sem enginn getur sannfært þau um að séu ekki til. 

 Það að segja einelti vera börnum hollt er í líkindum við að fullyrða að maður hafi gott af því að láta brjóta rúðurnar í bílnum sínum, því að þá muni maður einfaldlega verja bílinn betur í framtíðinni með því að kaupa sér bílskúr. Og þannig er hægt að segja að það illa sem fyrir okkur getur komið sé okkur í raun hollt, því að við munum læra að takast á við það. Þessu má líkja við að setja upp þjófavarnarkerfi þegar búið er að stela öllu, vörnin er komin upp - en skaðinn er skeður.

 Mér finnst full þörf á að við pössum börnin okkar betur og þá sérstaklega með því að hafna þessum rökum: að þjáning geti verið börnum holl því það gefur þeim harðari skráp.


Strax forvitinn!

0785109250.01._SS500_SCLZZZZZZZ_Það verður spennandi að fylgjast með hvernig hönnunin á þessum Þór verður. Verður hann fyndin teiknimyndafígúra eða hetjulegur eins og í Marvel teiknimyndasögunum?

Þessi mynd mun standa og falla með því hversu vel hannaður Þór verður. Alltaf gaman að heyra sögur úr goðheimum.


mbl.is Þór frumsýndur 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klám og siðgæði

"Sakleysi er svo sannarlega dásamlegur hlutur. Annars vegar er mjög sorglegt að það geti ekki viðhaldið sjálfu sér og auðvelt er að draga það á tálar. Jafnvel viska - sem samanstendur meira af hegðun en þekkingu - hefur þörf á vísindum, ekki til að læra frá þeim, heldur til að tryggja viðurkenningu og stöðugleika á lífsreglum. Gegn yfirráðum skyldurækninnar sem skynsemin tjáir manninum að verðskuldi virðingu, finnur hann í sjálfum sér mótvægi gegn þeim í löngunum sínum og tilhneigingum, alla ánægjuna sem hann síðan nefnir hamingju. Skynsemin gefur skipanir sínar með mikilli staðfestu, án þess að lofa tilhneigingum nokkur loforð, og jafnvel með skeytingarleysi og fyrirlitningu gagnvart þeim, sem eru svo hvatvísar, og á sama tíma svo sannfærandi, og sem vilja ekki leyfa sjálfum sér að vera þvingaðar undir nokkur yfirráð. Hér verður til náttúruleg togstreita, það er tilhneiging til að mótmæla þessum ströngu lögum um skyldu okkar og til að efast um gildi þeirra, eða í það minnsta hreinleika þeirra og hörku; og ef mögulegt er, að samræma þau óskum okkar og tilhneigingum, það er að segja, spilla þeim við rætur þeirra, og eyðileggja gjörsamlega virði þeirra - nokkuð sem heilbrigð og almenn skynsemi getur ekki sagt að sé gott." (Úr Undirstöðulögmálum frumspeki siðferðis, eftir Immanuel Kant, þýðing HB.)

klamHvað er klám og af hverju er vinsælt að vera annað hvort með eða á móti því?

Hvað er klám? Samkvæmt skilgreiningu á wikipedia.org er klám skilgreint sem afdráttarlaus framsetning á mannslíkamanum eða kynferðislegum athöfnum með það markmið að örva kynhvöt áhorfanda. Klámiðnaðurinn hefur vaxið hratt með tilkomu vídeóspólunnar, DVD og síðast en ekki síst Internetsins.

Ef sagt er að klám sé siðferðilega rangt, hlýtur það að vera vegna þess að það skaðar einhvern? Hvern skaðar klám?

Ljóst er að fólk almennt er mjög svo á móti barnaklámi. Við setjum strax samasemmerki á milli barnakláms og kynferðislegrar misnotkunar á börnum. Af hverju setjum við ekki sams konar samasemmerki á milli kláms og kynferðislegrar misnotkunar á konum eða körlum? Jú, svarið er ósköp einfalt. Börnin hafa ekkert val enda eru þau ekki sjálfráða fyrr en þau hafa náð ákveðnum aldri, en hinir fullorðnu hafa þetta val, er það ekki?

Það fer sjálfsagt eftir því hver spurður er, hvert svarið verður. Það að vera komið í slíkar aðstæður að þátttaka í klámi er orðið að valkosti, hvort sem um þátttakendur í kynferðislegum athöfnum eða tæknimenn sem festa athafnirnar á filmu, - þá er ljóst að þetta er hluti af veruleikanum í dag. Þetta er fyrirbæri sem fylgir flestum samfélögum, ef ekki öllum, og það er mikil eftirspurn eftir þessu og miklir peningar í spilinu.

Þeir sem meta mannvirðingu mikils eru oftast þeir sem snúa sér gegn klámi. Þeim býður við því að fólk sé að gera lítið úr því undri sem falist getur í heilbrigðu kynlífi. Trúarbrögðin standa oftast gegn klámi á þessum forsendum.

421343ASumir femínistar gagnrýna klámið á þeim forsendum að það geri lítið úr konum og að litið sé á konur (af körlum) sem hluti. Þetta geri að verkum að þessar konur munu sjálfar líta á sig sem hluti og glata þeim tækifærum sem felast í því að vera heilstæð manneskja. Aðrir femínistar hafa mótmælt og sagt að þetta hljóti að snúast um val hjá viðkomandi einstaklingum.

Þegar snýr að lögum, þá er málfrelsi settar skorður til verndar siðgæði manna og mannorðs, þar sem að litið er á það sem undirstöður lýðræðissamfélags að allar manneskjur séu virtar að verðleikum.

Í 73. grein íslensku stjórnarskráarinnar stendur: "Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum."

Stóra spurningin í sambandi við klám og bann á klámi er hvort að það skaði heilsu, siðgæði, réttindi, mannorð, mannvirðingu eða sjálfsvirðingu einstaklinga í lýðræðisþjóðfélagi? Hugsanlega snertir þessi spurning grundvallarspurningar um það í hvernig þjóðfélagi við viljum lifa.

Ef við viljum lifa í lýðræðissamfélagi, hvað þýðir það fyrir samskipti okkar og tengsl við annað fólk? Snýst lýðræði um frelsi til að gera það sem manni sýnist? Er klám afturhvarf til einveldishugsunarinnar þar sem að karlinn réð yfir þegnum sínum, rétt eins og karlmaðurinn í klámmyndböndum hefur algjöra stjórn á konunni?

Ljóst er að klám snertir okkur djúpt, hvort sem við erum því fylgjandi eða mótfallin. Hvers vegna? Er það vegna þess að fólk skiptist í tvo hópa: verndara og gerendur? Þá sem hafa íhugað þessi mál og komist að niðurstöðu og þá sem ekki hafa íhugað þetta?

Hvaða rök eru það sem styðja klám?

  • Tjáningarfrelsi?
  • Athafnafrelsi?
  • Skemmtanagildi?

Hvaða rök eru á móti klámi?

  • Skaðlegt mannvirðingu?
  • Sakleysi?
  • Siðgæði?
  • Þrælkun?
  • Ógeðslegt?

Hvaða rök vega mest á endanum? Er það ekki spurning sem hver og einn verður að svara, ef hann eða hún nennir að standa í því?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband