Er Þráinn Trójuhestur Samfylkingarinnar?

Nú er ljóst að einkavæðing bankanna var einungis til þess gerð að fámennur hópur eignaðist allar skattgreiðslur Íslendingar og nú hefur verið réttlætt að þeir fái skattpeninga sem arðgreiðslur. Eignir til fárra, skuldir til allra. Hljómar vel fyrir þennan fámenna hóp sem rúið hefur þjóðina.

Til að fullkomna fáránleikann, skrifaði Þráinn Bertelsson smásögu sem átti að réttlæta atkvæði hans til að samþykkja aðgang kröfuhafa bankanna að íslensku skattfé. Hroðaleg vinnubrögð hjá Þráni, sem og reyndar flestum öðrum þingmönnum á þessum skemmtistað sem þingsalur virðist vera, en skemmtileg saga, bara algjörlega óviðeigandi. Ég sé eftir að hafa ekki skilað inn auðu og hafa styrkt Borgarahreyfinguna með skrifum mínum, fyrst að þetta er útkoman. Reyndar hafði ég alltaf áhyggjur af framboði Þráins til þessarar hreyfingar, og grunaði jafnvel að hann gæti eyðilagt starfsemina innan frá og gerði grein fyrir því í grein minni Af hverju mun ég kjósa X-O?

en ég á reyndar erfitt fyrir mér að sjá Þráin Bertelson á Alþingi að ræða ekki eitthvað mál sem kemur upp og er ekki tengt stefnumálum Borgarahreyfingarinnar. Hann er einfaldlega búinn að sýna í gegnum árin að sem listamaður kemur honum allt við og hefur ríka þörf fyrir að tjá sig. Samt er Borgarahreyfingin álitlegur kostur, þar sem að ég sé ekkert að því að stjórnmálamenn hafi skoðanir á hinu og þessu og komi þeim á framfæri, bara alls ekki með málþófi vinsamlegast.

Einnig skrifaði ég 14. ágúst 2009 í greininni "Eggið sem át hænuna" eða "egóið sem át okkur"? aðeins um þá veikleika sem ég hafði tekið eftir tengdum Þráni, veikleika sem virðast hafa orðið að veruleika: 

Helsti veikleiki Þráins Bertelssonar er stórt egó, enda einn besti kvikmyndaleikstjóri Íslandssögunnar, birti eigin dagbók í Fréttablaðinu í marga mánuði og hefur skrifað bækur sem ganga út frá þessu egói sem meginforsendu: Ég ef mig skyldi kalla : seinþroskasaga og Einhvers konar ég. Þetta var gefið.

Andstæðingar Borgarahreyfingarinnar virðast hafa misnotað þennan veikleika miskunnarlaust með því að birta stanslausar fréttir um deilumál þessara einstaklinga, hvort sem að slíkt mætti kalla raunverulegar fréttir eða ekki. Þetta hlaut að enda með sprengingu, sem hlyti að spretta úr einhverjum mistökum sem einhver hefur gert og þannig væri hægt að gera viðkomandi að blóraböggli.

Allir þekkja framhaldið.

Því miður er þessi saga of mikil einföldun á ICESAVE málinu, notuð af kunnri mælskulist, sem er til þess eins gagnleg að sannfæra fólk um að viðkomandi hafi rétt fyrir sér, en ekki til að kanna eðli málsins og taka ákvörðun byggða á viðeigandi rökum.

Að líkja ICESAVE við draug sem einhver hræðist eða föðurland sem einhver hræðist er fyndið, en ofureinföldun. ICESAVE er raunverulegt vandamál sem ekki er hægt að bæla niður með vantrú á drauga eða peningaþvætti. Því miður.

Þetta eru röksemdir Þráins fyrir máli sínu, rök sem eru augljóslega engin rök heldur hreinn skáldskapur með ímynduðum sögupersónum, sem byggðar eru á erkitýpum og fordómum um einstaklinga í samfélaginu. Markmið þingmanna Borgarahreyfingarinnar getur varla verið sá að skrifa stílfagrar smásögur í púlti?

“Í hreppsnefnd í afskekktri sveit norður við ysta haf urðu langar umræður um að eitthvað þyrfti að aðhafast vegna bújarðar sem hafði verið yfirgefin haustið áður og var viðskilnaðurinn slæmur. Það var mikið talað en lítið aðhafst.

Þessi jörð hafði verið í eigu hreppsins og notuð sem upprekstrarland fjár í almannaeigu uns nýr og atkvæðamikill hreppstjóri komst til valda í hreppsnefndinni og vildi selja eigur hreppsfélagsins, þar á meðal þessa jörð sem hentaði vel til fjárbúskapar.

Hreppstjórinn hafði sitt fram í þessu sem öðru og kaupandinn var sérvalinn úr vinahópi hreppstjórans. Hann hét Stórólfur. Nokkur kurr kom upp þegar það spurðist út að ætlunin væri að selja Stórólfi jörðina því að búskaparhættir hans voru umdeildir og hann hafði áður verið dreginn fyrir dóm fyrir óhefðbundna meðferð sína á fé og sérkennilega afstöðu sinna til búreikninga.

Hreppstjórinn og fylgismenn hans höfðu sitt fram og Stórólfur tók við búinu og gerði einkavin hreppstjórans að ráðsmanni sínum – en láðist með öllu að greiða það lága verð sem upp var sett fyrir jörðina.

Líður svo fram um hríð og verður mönnum tíðrætt um ríkidæmi Stórólfs sem barst mjög á og skorti aldrei skotsilfur, enda gat hann sótt lausafé að vild í skiptum fyrir ástarbréf til hreppstjórans sem hafði flutt sig um set og var nú orðinn sparisjóðsstjóri sveitarinnar.

Nú harðnar í ári og menn hafa á því orð að ekki séu lengur tvö höfuð á hverri skepnu á búi Stórólfs, en það sem verra er að nú fara að berast kvartanir úr öðrum sýslum yfir því að fé Stórólfs sé haldið þar til beitar í leyfisleysi og húskarlar hans taki í sína umsjá sauðfjáreign bændafólks í fjarlægum byggðarlögum og setji engar tryggingar fyrir því að þeir geti skilað fénu til baka loðnu og lembdu.

Til að gera langa sögu stutta brestur nú á með harðan vetur og fjárfelli sem kemur harðast niður á þeim bændum sem höfðu trúað því að með mikilli stóriðju og tilheyrandi heimshlýnun hefðu búskaparhættir á Íslandi gjörbreyst til hins betra og fé gæti gengið sjálfala allan ársins hring og þyrfti ekki aðra umhirðu en rúningu og slátrun.

Milli jóla og nýárs þagnar loksins hreppsnefndin málglaða og tekst ferð á hendur að kanna viðskilnað Stórólfs. Það er áliðið kvölds þegar nefndarmenn paufast heim að bænum við daufa týru frá þrettánda tungli þessa óhappaárs.

Þegar þeir koma heim að bæjarhúsunum rekur sá sem fyrstur gengur upp skaðræðisóp því að út úr myrkrinu kemur flyksa og vefur hann ísköldum örmum. Á bæjarhlaðinu er háð tvísýn glíma og angistaróp bergmála í klettum út yfir hjarnbreiðuna.

Hluti hreppsnefndarmanna telur þann kost vænstan að leggja hæla á bak og flýja undan draugnum. Þeir skunda til byggða og segja þar móðir og másandi frá því að magnaður draugur gangi nú ljósum logum í sveitinni og muni engu eira og eyða allri byggð.

Fólk sem heyrir þessar tröllasögur verður felmtri slegið og uggandi um framtíðina þegar sveitin sér forystumenn sína og trúnaðarmenn froðufella af æsingi og skjálfa á beinunum af ótta.

Þá víkur sögu aftur heim á hlað. Nýi hreppstjórinn og oddvitinn ákveða að reyna að koma til bjargar. Eftir harðan atgang kemur í ljós að draugur sá sem hefur vafið örmum sínum að hálsi hreppsnefndarmannsins er engin afturganga heldur er þarna á ferðinni svonefnt föðurland, ullarnærbuxur síðar sem Stórólfur bóndi hefur skilið eftir hangandi á snúru og hafa nú fokið og skálmarnar vafist að hálsi hreppsnefndarmannsins sem er viti sínu fjær af ótta og alls ekki viðmælandi.

Við skulum skiljast hér við þessa þjóðsögu sem við öll þekkjum í einni eða annarri mynd úr þúsund ára sögu okkar. Fyrst er þó ekki úr vegi að draga einhvern lærdóm af sögunni.

Til dæmis að maður á ekki að selja einkavinum sínum eignir almennings. Og maður á að vera vandur að vinum.

Til dæmis að nýjar hreppsnefndir geta ekki kjaftað sig frá því að takast á við vandamál úr fortíðinni – jafnvel þótt þær eigi ekki sök á þeim vanda.

Og til dæmis að hreppsnefndir eiga að leysa erfiðleika en ekki magna þá upp og allrasíst að hræða saklaust fólk með því að breyta skítugum nærbuxum eftir uppflosnaðan búskussa í mannskæðan draug.

Hvað svo sem líður sagnahefð okkar Íslendinga þá er kominn tími til að slá botn í þetta Icesave-mál – að sinni – og ganga óttalaus að því að slá marglofaðri skjaldborg um fjölskyldur og heimili. Nú er endurreisn efnahagslífsins komin af stað með tilheyrandi tugmilljarða afskriftum á skuldum banka og fjármálafyrirtækja. Nú er röðin komin að íbúum þessa lands, fólki af holdi og blóði, og tímabært að afskrifa eitthvað af þeirri skuldabyrði sem er að sliga almenning í landinu.

Kannski er eðlilegt að samviskubit vegna fortíðar brjótist fram í ótta við framtíðina – framtíð sem kemur hvort sem við óttumst hana eða ekki. Ef við höfum gæfu til að mæta framtíðinni af kjarki og heiðarleika verður þjóð okkar langlíf í landinu.”

Það er ljóst að egóið át Borgarahreyfinguna, enda var það í spilunum frá upphafi. 

Ljóst að þegar nýr stjórnmálaflokkur er stofnaður, er gáfulegt að senda Trójuhest inn í félagið, koma honum til valda og sprengja síðan flokkinn innanfrá. 

Það virðist hafa gengið upp í þetta skiptið. 

R.I.P. Borgarahreyfing. Fyrir löngu. Ég veit. En þetta eru svik.

Til hamingju Ísland.

Nú eru þegnar landsins skyldugir til að greiða skuldir auðkýfinga og óreglumanna, því að þetta mál snýst ekki bara um ICESAVE, það er fordæmisgefandi um að þegar íslensk stórfyrirtæki fara á hausinn, þá sé það skylda þegnanna að borga skuldirnar, sama þó að fyrirtækið hafi verið rekið á þeim forsendum að mikil áhætta sé réttlætanleg vegna þess að ríkið er ekki ábyrgt.

Jæja. Ég er ekki bitur út af þessu. Þetta kemur mér ekkert við í sjálfu sér. Er fluttur úr landi og kem sjálfsagt ekki til baka úr þessu.

Þetta eru mín síðustu skrif um þessi mál á þessum vettvangi.

Nú skilja leiðir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er einfalt. Það verða allir farnir héðan innan 7 ára. Þá skellur fjörið á mönnum af fullu afli.

 Ég bara næ ekki í hvaða landi þessir 33 þingmenn búa eða fyrir hverja þeir starfa, svo mikið er víst að það er ekki fyrir þjóðina.

Emil

Emil Emilsson (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband