Rökin fyrir ICESAVE?

Á gangstéttinni undir ljósastaur sem logar ekki lengur liggur róni með brúnan bréfpoka vafinn um flösku. Í snjónum er gulur blettur. Þessa manneskju er að dreyma.

Ljóshærður þingmaður, Álfur út úr Arnarhóli, er að flytja þrumuræðu úr sjónvarpstæki sem stendur fyrir framan gríðarstóran spegil sem, steytir hnefa og hvessir brýnnar, og með þrumandi, en jafnframt svolítið skrækri rödd, segir hún í hljóðnema svo brakar í hátalarakerfi gamla miðbæjarins:

Við borgum ekkert í dag.

Við skulum fresta þessu. Framtíðin reddar málunum. Þá verðum við sjálfsagt ekki lengur við, heldur eitthvað allt annað. Fólk fattar aldrei hvað er í gangi fyrr en það er orðið of seint, og þegar það fattar það hafa aðalatriðin gleymst og víxlast með aukaatriðum sem enginn nennir hvort eð er að rifja upp, og þá verðum við stikkfrí, enda fyrnist ábyrgð okkar næstum áður en hún hefur verið tekin, eins og við höfum langflest ákveðið í sátt og samlyndi.

Næstu kynslóðir borga reikninginn. Þetta er ungt fólk, lifandi og á framtíðina fyrir sér. Sumir reyndar ekki fæddir enn. Samt betra að ókunnugt fólk í framtíðinni borgi þessar skuldir heldur en að maður fari að leggja þetta á sjálfan sig og vini sína.

Framtíðin er bara óljóst og þvælið hugtak. Núið er það eina sem til er. Framtíðin verður kannski aldrei. Hún varð aldrei fyrir mömmu. Hún heyrir fortíðinni til. Fólk í framtíðinni er jafn óraunverulegt og útlendingar sem maður hefur aldrei hitt. Milljarðar af framtíðarfólki á eftir að vera til löngu eftir að við verðum horfin héðan.

Kannski verður þessi svokallaða framtíð ekki einu sinni til? Það verður kannski ekkert ríkidæmi næstu áratugina, en hver kærir sig um slíkt? Við sáum hvað nýfrjálshyggjan gaf okkur: Agaleysi, svik og spillingu. Við bjóðum upp á framtíð þar sem agaleysi, svik og spilling verða framkvæmd undir nýjum formerkjum. Allt upp á borð, líka fæturnir. Skjaldborg um heimilin, svo þau sleppi ekki út. Þau verða að borga. Ekki ætla ég að gera það.

Róninn á gangstéttinni rumskar og ropar. Snýr sér svo á hina hliðina og hylur tættann frakka með pappakassa úr Bónus, en huggar sig við að hann er ekki einn, að pappakassabyggðin í kringum Arnarhól telji nú yfir fimmþúsund íbúa sem geta yljað hver öðrum með líkamshita. Síðan má borða snjóinn. Síðasti neysludagur 1. apríl 2027.

Hvað ætli 35.5 prósent skattur af engu sé há upphæð? heyrir róninn sjálfan sig hugsa og svífur svo aftur í draumalandið þar sem þögn er sama og samþykki, mótmæli sama og blóðug bylting, og vangaveltur sama og væl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ætli rónum fari ekki að fækka mikið, það hafa fáir efni á því að drekka áfengi þegar nýir skattar leggjast með mestum þunga á óreglufólkið okkar.  Skerðing örorkulífeyrisins hjálpar þeim ekki heldur. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.12.2009 kl. 02:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband