Er það lýðræði þegar allir kostir eru slæmir?

Kreppan sýnir klærnar. Í gær las ég blogg um mann sem réð ekki við að borga vörubíl sinn og unnið fyrir lifibrauði sínu, og var jarðaður fyrir skömmu í kyrrþey. Í lok síðustu viku fóru hugrökk hjón í viðtal til að lýsa hvernig ástatt var fyrir þeim í kjölfar hrunsins. Því miður fengust kerfisbundin svör frá þeim stofnunum sem ábyrgð bera á ástandi þessara einstaklinga, og þetta fólk stimplað sem óreiðufólk, þrátt fyrir að meginástæða hörmunga þeirra hafi verið Hrunið. Nú þarf enn hugrakkara fólk til að ganga fyrir skjöldu og segja sínar sögur, þó að það verði talað niður til þeirra og reynt að sverta orðspor þeirra á kerfisbundinn hátt.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur algjörlega brugðist. Stjórn sem komst til valda vegna óánægju fólks sem annars vegar var sprottin úr þeirri gífurlegu spillingu sem fest hafði rætur í stjórnsýslunni, og hins vegar vegna aðgerðarleysis. Sama sagan virðist vera að endurtaka sig. Þegar ríkisstjórn lofar að allar upplýsingar verði gefnar upp um mikilvæg mál og leynir þeim síðan, er verið að ljúga, nema það séu náttúrulega gróusögur að gagnsæi hafi einhvern tíma verið yfirlýst markmið Samfylkingar og VG. Ef ekki er verið að standa við eigin fullyrðingar, er það náttúrulega ekkert annað en ein af mörgum birtingarmyndum spillingar.

Fyrirtæki eru byrjuð að segja upp starfsfólki í kjölfar hækkandi skatta, sem þýðir fleira atvinnulaust fólk sem ríkisstjórnin þarf að finna úrræði fyrir. Á sama tíma er ríkisstjórnin algjörlega lömuð á Alþingi, þrætir um matartíma (það er reyndar sjálfsagður réttur sérhvers starfsmanns að fá matartíma, enda er fólk ekki vélar), og á meðan hvíla stjórnarliðar sig fjarverandi frá fundi. Það er eins og þetta fólk skilji ekki, geti ekki troðið inn í gegnum sín þröngu eyru að það er fólk í þjóðfélaginu sem hrópar af lífs og sálarkröftum á hjálp. Börn eru í hættu. Fá hugsanlega ekki næringu. Foreldrar orðnir þunglyndir. Hvað verður um börnin falli foreldrar fyrir eigin hendi?

Þeir sem eru á Alþingi mættu vinsamlegast skola af sér sælubrosið sem fylgir því að vera við völd, og horfa til fólksins sem er virkilega illa statt, og sleppa því vinsamlegast að bera íslenska alþýðu saman við afrískar aðstæður, og fullyrða að hlutfallið hjá Íslendingum sé miklu betra. Slíkt er merkingarlaust gaul, sem ber að víta harðlega. Einnig er engan veginn við hæfi að bera ástandið í dag saman við aðrar hörmungar Íslandssögunnar, þegar fólk neyddist til að flýja land sitt í umvörpum, og voga sér að fullyrða að það sé minna af slíku í dag og því sé ástandið bara nokkuð eðlilegt.

Það er algjörlega ólíðandi að fólk sem starfar við stjórnmál sé atvinnufólk í greininni sem vinnur fyrst og fremst út frá líkönum og tölfræði, en ekki út frá eigin samvisku, samúð með náunganum og ávallt með almannaheill sem viðmið.

Það er gífurleg stjórnarkreppa á Íslandi. Stjórnvöld orðin álíka óvinsæl og Hrunstjórnin og því hugsanlega stutt í að hún falli þannig að hrægammarnir úr hinum flokkunum geti tekið völdin, hlakkandi yfir óförum andstæðinga sinna, án þess að gera sér grein fyrir að í sökkvandi skipi er enginn andstæðingur annars.

Þegar sagt var frá Óslóartrénu í gær, vék hugur minn ekki frá örlögum síðasta Óslóartrés. Ég þori ekki að spá fyrir um hvað verður um hið nýja tré, sem opnað var með ljóði frá Gerði Kristný, en hún hélt mótmælaræðu 4. desember í fyrra. Ákveðin írónía í þessu.

Lýðræði er hinn síendurtekni grunur um að meira en helmingur fólksins hafi yfirleitt rétt fyrir sér. (E.B. White)

Ég hef frekar einfalda sýn á íslenska stjórnmálaflokka. Vinsamlegast leiðréttið eða bætið við fari ég með rangt mál:

Sjálfstæðisflokkur:

  • Ber ábyrgð á Hruninu (vegna hagsmunatengsla) - (einkavæddi bankakerfið á skaðlegan hátt)
  • Hefur ekki beðið afsökunar (hroki)
  • Opinber fulltrúi auðmanna (Björgólfsveldið: auðræði, þar sem aðeins þeir ríku eru þjóðin)
  • Styður leynimakk (stuðningur við Íraksstríðið, upplýsingar um stöðu banka)

Samfylkingin:

  • Ber ábyrgð á Hruninu (vegna vanrækslu og vanþekkingar)
  • Hefur ekki beðið afsökunar (hroki)
  • Óopinber fulltrúi auðmanna (Baugsveldið, Hagar og 1988: auðræði, þar sem aðeins þeir ríku eru þjóðin, en þykist vera fulltrúi fjöldans, blekking sem þjóðin hefur ekki enn séð í gegnum, og sjálfsagt ekki heldur flestir meðlimir flokksins sem þar eru í hugsjónarham.) 
  • Styður leynimakk (en segist vilja allt upp á borðinu, nema sumt)

Vinstri grænir:

  • Bera ekki ábyrgð á Hruninu (enda var þeim aldrei treyst af þjóðinni til að fara með stjórn, fyrr en efnahagskerfið hrundi, og þá virðist fólk hafa talið að fyrst einir höfðu rangt fyrir sér hljóta hinir að hafa rétt fyrir sér. Ekki gleyma að á getraunaseðlinum eru þrír möguleikar: 1X2)
  • Hafa krafist afsökunarbeiðni (styrkir pólitíska stöðu þeirra)
  • Opinber andstæðingur auðmanna, einkavæðingar og kapítalisma, svo langt sem það nær
  • Styður leynimakk í leyni, en er opinberlega algjörlega á móti því

Framsóknarflokkur:

Flokkur sem þykist algjörlega endurnýjaður, en þegar forystan segir já eða nei, fylgja skilyrði sem á endanum þýðir að já þýðir nei og nei þýðir já.

Borgarahreyfingin:

Það var sjálfsblekkingin sem ég féll fyrir. Það voru eftir allt ekki bara 1X2 á seðlinum, heldur líka þrettán raðir. Hvað maður getur verið vitlaus.

Að skila auðu:

Túlkað sem ógildur seðill. Slíkt atkvæði ætti hins vegar að vera beiðni um aðra kosti heldur en endalaust slæma kosti.

 

Lýðræði snýst um að gefa þegnum þjóðar val. Þegar góðir valkostir eru ekki til staðar, er þá um raunverulegt val að ræða?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband