Hvort á að bæla reiðina eða virkja?

Því miður virðast alltof fáir vilja virkja sjálfa sig sem raddir og afl í baráttu við það óhugnanlega réttlæti sem skröltir yfir okkur eins og nasistaskriðdreki úr heimstyrjöldinni síðari. Slíkt réttlæti er náttúrlega fjarri því að vera réttlæti, en þeir sem stýra skriðdrekunum virðast sáttir. Þegar fólk hugsar þannig að þetta sé annarra mál og að þetta reddist, í stað þess að beita sér gagnvart vandanum, þá ná skúrkarnir skrefi lengra.

Ég hef viljað virkja mig og hef gert það, með alvarlegum afleiðingum sem hafa gjörbreytt mínu lífi. Það sem hefur komið mér mest á óvart í veikri baráttu minni fyrir réttlæti, er allur sá fjöldi fólks sem finnst að ég ætti ekki að vera eyða tíma mínum í þetta, að það sé mannskemmandi að pæla of mikið í þessum hlutum, og að málin geti ekki verið jafn slæm og þau virðast vera. Betra sé að standa af sér óveðrið. Þessu er ég ósammála, en íhuga samt hvort að ég ætti ekki að flytja hugann líka erlendis, fyrst að líkaminn er nú hvort eð er kominn þangað.

Er fólk að bæla niður reiðina, er það að virkja hana, eða er því bara nokk sama um ástandið?

Ekki má gleyma að þrátt fyrir að stór hluti þjóðarinnar þjáist í augnablikinu vegna ástandsins, þá virðist enn meirihluti þjóðarinnar varla finna fyrir því og getur hunsað það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Ég held að þeir sem taka þátt í baráttunni með almenningi fyrir réttlæti, nái að vinna betur úr reiðinni. Þeim bregður ekki lengur við fréttir af sukkinu en margir eru að fá áfall núna við fréttir af ofurlaunum skilanefnda o.þ.h. En þeir sem nota reiðina til framkvæmda, mæta á mótmæli, skrifa, lesa, mæta á upplýsingafundi og tala við náungann um stöðu mála, þeir eru ekki að byrgja inni tilfinningar heldur láta þær í ljós á þennan hátt. Innibyrgðar tilfinningar gera okkur veik. En reiði er kraftur sem má nota til uppbyggilegra hluta.

Margrét Sigurðardóttir, 21.8.2009 kl. 08:17

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég er ferlega sammála þér Hrannar! Verð einmitt vör við að fólk sé búið að stimpla mig sem óforbetranlega svartsýnismanneskju og ég eigi að "einbeita mér að því að vera jákvæð".

Skil þetta ekki alveg.... ég er algjörlega tilbúin til að vera jákvæð gagnvart jákvæðum hlutum en mér dettur ekki til hugar að fara í einhvern pollýönnuleik með það neikvæða

Og mér er eiginlega slétt sama hvort fólk vil heyra það sem ég hef að segja... mér líður betur að segja það. Og ég þarf að geta horft í spegil í framtíðinni og þá vil ég ekki að mæti mér andlit sem gerði ekki neitt

Og eins og Margrét segir... það er auðveldara að díla við og vinna úr reiði ef maður pústar. Ég vildi ekki vera sú manneskja sem fær sjokkið seinna og í einum skammti

....Margrét er eiginlega bara alveg með þetta :)

Heiða B. Heiðars, 21.8.2009 kl. 09:18

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég mótmæli hér með, Heiða, að þú sért ekki jákvæð. mér finnst þú bara aldeilis jákvæð. hins vegar hefur þú afar sterka réttlætiskennd, sem er stór kostur. fólk gerir kannski ekki greinarmun á þessu tvennu. kannski þekkir það ekki heldur muninn á appelsínum og eplum.

Brjánn Guðjónsson, 21.8.2009 kl. 10:14

4 Smámynd: Héðinn Björnsson

Maðurinn hefur vítt tilfinningasvið og getur vel verið reiður og bjartsýnn, glaður og hneykslaður, virkur og brosmildur. Ef byltingin er þunglyndisleg ertu líklega í vitlausu liði.

Héðinn Björnsson, 21.8.2009 kl. 10:38

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Eigingirni mannsins er svo ótrúlega sterk og á sama tíma sljóleikinn. Flestir sem maður talar við finnst allt mögulegt og eru reiðir, en gera þó ekkert í málunum.

Þetta er málið, þetta er það sem að mér finnst Plato vera að benda á í frasanum sínum margfræga: "The penalty for refusing to participate in politics is that you end up being ruled by worse men than yourself."

Í mjög einföldum heimi má stilla upp tveim týpum sem stereótýpum. Þeim sem vilja láta stjórna sér (láta aðra bera ábyrgðina) og þá sem vilja stjórna (bera ábyrgðina). Því miður virðist það æði oft þannig að þeir sem sækja fast í það að stjórna, eru ekki endilega með þann siðferðisgrunn sem ætti að vera lágmarkskrafa.

En við verðum öll að svara þessari vangaveltu fyrir okkur sjálf. Ætla ég að taka þátt eða bara að láta að stjórn öðrum til hagsbóta?

Baldvin Jónsson, 21.8.2009 kl. 11:21

6 Smámynd: Sævar Einarsson

Íslendingar eru ofdekruð þjóð sem mótmælir með því að stofna til facebook mótmæla, safna undirskriftlistum, nöldra á kaffistofum um hvað ástandið sé svo lélegt og óréttlátt en hvað gerir það ? jú fær sér meira kaffi og nöldrar meira... er fólk og upptekið að stofna mótmælalista á facebook ? Það er búið að brjóta niður sjálfstraust íslendinga og við erum lifandi afturgöngur og það er hlegið að okkur erlendis. Fólk er tilbúið að skella sér á allskonar uppákomur, sem dæmi mættu 30.000 manns á Fiskidaginn á dalvík, 30.000 manns ! og það mættu hvorki meira né minna en 80.000 manns á Gay Pride og þetta getur fólk mætt á en þegar það er verið að biðja fólk um að mæta til að mótmæla þá mæta nokkur hundruð hræður, t.d. mættu tæplega 3.000 mættu á samstöðufund vegna IceSave ... eru íslendingar með öll ljós kveikt og engan heima ? Um helgina er menningarnótt og má búast við 80.000 - 100.000 manns á þá menningarnótt, það er alveg kjörið að láta þetta verða stærstu mótmæli íslandssögunar og gera uppreisn "Power To The People" Ég vill fara að sjá 100.000 manns marsera að alþingi, bönkum og öðrum lánafyrirtækjum og bera þetta lið út með valdi eða gefa því viku til að hypja sig og kalla svo eftir aðstoð frá Interpol því hérna er verið að arðræna landið með aðstoð skilanefnda sem sendir almenningi reikninginn.

http://simnet.is/freebsd/facebook1.jpg

Sævar Einarsson, 21.8.2009 kl. 12:49

7 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

"Og ég þarf að geta horft í spegil í framtíðinni og þá vil ég ekki að mæti mér andlit sem gerði ekki neitt".

Sama hér :) 

Georg P Sveinbjörnsson, 21.8.2009 kl. 15:33

8 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ekki gera neitt virðist vera að virka í dag.  Enginn gerir neitt, að vísu með örfáum undantekningum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.8.2009 kl. 02:44

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mér er a.m.k. stoð í því að þú hugsir til okkar enn Ég get sagt eins og þú: „Ég hef viljað virkja mig og hef gert það, með alvarlegum afleiðingum sem hafa gjörbreytt mínu lífi.“ Ég vil þó engu breyta enda veit ég að ég hefði aldrei getað unnt sjálfri mér þess að sitja hjá.

Mig langar líka til að taka undir hið gullvæga innlegg Margrétar!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.8.2009 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband