Verður Ísland orðið að kommúnistaríki áður en árið er liðið?

 


 

Forsjárhyggja gegn frelsishyggju eða frjálshyggju?

Í gær skrifaði ég stutta grein um forsjárhyggju og uppskar mikið af athugasemdum sem væru fyndnar ef þær væru ekki skrifaðar af alvöru. Ekki veit ég hvort að mér hafi mistekist svona hrapalega að koma hugmyndunum vel frá mér eða hvort að hugmyndirnar hafi einfaldlega verið teknar úr samhengi. Segjum sem svo að hugmyndirnar hafi verið illa settar fram og séu kannski óskýrar að einhverju leyti. Er þá ekki um að gera að velta þeim aðeins frekar fyrir sér?

Öfgafull frelsishyggja

Ein gagnrýnin sneri að hugmyndinni um að öfgafull frelsishyggja væri jafnslæm og öfgafull forsjárhyggja, og í athugasemdinni var öfgafull 'frelsishyggja' skilgreind eins og hún gangi "einmitt út á ða (sic) treysta á skynsemi einstaklingsins til að taka ákvarðanir". 

Þarna er komin áhugaverð skilgreining á 'frelsishyggju' sem ég geri ráð fyrir að eigi að merkja það sama og 'frjálshyggja', en veit þó ekki hvort að skynsamlegt sé að leggja það að jöfnu. Í greininni ætlaði ég nefnilega að skrifa um 'frjálshyggju' en af einhverjum dularfullum ástæðum kallaði ég hana 'frelsishyggju'. Það væri reyndar áhugavert að skoða hvort að einhver munur sé á þessu tvennu. 

'Frelsishyggja' væri þá hugsanlega sú hugmynd að allir ættu að vera óháðir höftum, en 'frjálshyggja' sú hugmynd að haftir séu eitthvað sem er til að sveigja framhjá. Þannig að ég viðurkenni að færsla mín í gær var svolítið lek, og vantaði því kannski eitthvað blek. Bætum úr því.

 

 

Mig langar að benda á eitt lítið atriði: Ef við treystum ekki á skynsemi einstaklings til að taka ákvarðanir, þá höfum við einfaldlega sveiflast úr einstaklingshyggja yfir í félagshyggju (sósíalismi), þar sem talið er að einungis hópar geti tekið skynsamlegar ákvarðanir og skuli taka þær fyrir einstaklinga. Félagshyggja er nákvæmlega jafn vitlaus sem meginhugmynd og einstaklingshyggja, aðeins hinn endinn á brauðinu. Félagshyggja gæti sjálfsagt gengið undir nafninu forsjárhyggja og  einstaklingshyggja gæti gengið undir nafninu frelsishyggja, miðað við ákveðnar aðstæður, en ég er ekki tilbúinn til að alhæfa að það sé nauðsynlega þannig við allar aðstæður.

Mér finnst reyndar freistandi að nota hugtakið félagshyggja sem hóphyggja eða haftahyggja, í því samhengi sem notað er í þessari grein. Öfgafull félagshyggja er þekkt sem kommúnismi, og ber að varast, því hún byggir ekki aðeins haftir, heldur veggi og landamæri til að tákna þessar haftir. 

Er forsjárhyggja sú hugmynd að hópar taki ákvarðanir fyrir einstaklinga, og skynsemi einstaklinga afgreitt sem eitthvað óhollt og óþekkt? Ef svo er, þá er forsjárhyggja enn hættulegri en mig grunaði, enda þekkjum við sögur um hvernig er að vera einstaklingur í kommúnistaríkjum þar sem einstaklingurinn fær ekki að vera einstaklingur, heldur þarf stöðugt að vera undir hæl ríkisins, ekki aðeins þegar kemur að eignum og atvinnu, heldur einnig skoðunum.

 

fidel_che

 

Það hljómar eins og verið sé að lauma kommúnisma inn í Ísland, sem er reyndar rökrétt framhald af græðgivæðingunni og hruninu, ef maður nennir að lesa aðeins í speki Marx um það hvernig kommúnistaríki verður til. Satt best að segja virðist Ísland vera að fylla þessar kröfur í hárréttri röð og er komið ansi langt á leið. Næsta skref er að gera öll heimili landsins gjaldþrota þannig að þau krefjist sjálf kommúnisma, sem er algjör jöfnuður á eignarhaldi - þar sem enginn má eiga neitt, þar sem alþjóðlegt hagkerfi er ekkert annað en einhver óþægindi sem ber að blaka í burtu.

Ísland er komið þrjá mánuði á leið. Spurning hvort að barnið fæðist að hálfu ári, og Ísland verði að Kastrólausri Kúbu? Nokkuð ljóst að við erum sífellt að nálgast það takmark að vera á Kúbunni, en í heimsókn minni til Kúbu komst ég að þeirri viðteknu skoðun að flott hótel og byggingar sem byggðar höfðu verið í Havana hafi verið reistar með blóðpeningum bandarískra glæpona sem voru að arðræna þjóðina. Þjóðin trúði þessu. Þess vegna fengu þeir El Che og Castro þjóðina með sér í baráttunni við arðræningja þjóðarinnar, og höfðu sigur. En sigurinn hafði hins vegar kommúnisma í för með sér og stöðnun í verkfræðilegri þróun, þó að mennta- og heilbrigðiskerfið þar í landi sé til stakrar fyrirmyndar.

Lög

Snúum okkur aðeins að lögum í sambandi við forsjárhyggju. Þá vaknar spurningin um hvernig við þekkjum muninn á góðum lögum og vondum lögum. Svarið er einfalt, þó að útfærslan geti verið flókin: Öll þau lög eru góð sem eru réttlát og skýr við allar mögulegar aðstæður, innihalda ekki margræðni í orðum, gefa ekki færi á misbeitingu, mistúlkun eða misskilningi og eru viðmið sem þjóðin vill að allir fylgi.

Þegar deilt er um lög vegna orðalags eða hafta sem þau setja, og ef gagnrýnin er sett fram af skynsömum einstaklingi, en ekki vegna ákveðinna hagsmuna hóps eða einstaklings, þá er næsta víst að eitthvað er athugavert við viðkomandi lög. Hlutverk þingmanna er að vera skynsamir einstaklingar sem taka þátt í að setja lög, en því miður hefur mikill fjöldi þeirra reynst hagsmunatengdir.

Þegar hagsmunatengdir þingmenn setja lög, þá fáum við yfir okkur dæmi eins og einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkavinavæðingu banka og kvóta, og sjálfsagt á næstunni einkavæðingu fyrirtækja sem ríkið hefur tekið yfir en verða síðan seld aftur, hugsanlega fyrrum eigendum þeirra sem tekist hefur að skjóta undan nægu fé til að kaupa fyrirtækin aftur á meðan skuldir þeirra eru niðurfelldar.

 

 

Forsjárhyggja er þegar lög byggja á siðferðilegu mati, en ekki á siðfræðilegu mati. Siðferðilegt mat er þegar sá sem setur reglunnar er sannkristinn og frelsaður, og vill að allir aðrir verði sannkristnir og frelsaðir. Siðfræðilegt mat er þegar rætt er um viðkomandi lög út frá mörgum siðferðilegum viðmiðunum.

  • Segjum að ég banni allt klám vegna þess að trúfélag mitt bannar allt klám. Það er forsjárhyggja.
  • Segjum að ég banni aðgang að klámi vegna þess að rannsóknir sína að klám auki misnotkun, mansal og þrælkun á manneskjum í heiminum. Þetta má ræða á faglegum forsendum, en varast að taka ákvörðun of fljótt.
  • Segjum að allt klám sé leyft, sama hvað siðvenjur eða vísbendingar um þrælkun og mansal segja, þá erum við komin út í frjálshyggju. 

Það er nokkuð ljóst að það þarf að feta milliveginn, en af afar mikilli varkárni. Ræða málin frekar en að slengja fram niðurstöðum af einhverri heift og neita að hlusta á aðrar hliðar málsins.

Öfgafull frjálshyggja, frelsishyggja eða Kapítalismi og öfgafull félagshyggja, forræðishyggja eða Kommúnismi eru bæði af hinu slæma, og engu þjóðfélagi vil ég óska slíkra öfga, en sýnist óhjákvæmilegt að Ísland verði einmitt að slíku ríki, enda hefur það lifað við sjö ára frjálshyggju og á því kannski inni sjö ára félagshyggju. 

 


 

Ég sé ekki hvernig aurskriðan yfir íslensk heimili verður stöðvuð úr þessu. Hagsmunasamtök heimilanna eru þau enn að berjast fyrir réttlæti og munu mæta á Austurvöll næsta laugardag og reyna af veikum mætti að berjast gegn því að þjóð okkar verði undir þessari yfirvofandi fjárhagslegu og pólitískri aurskriðu.

Ég vil forðast að nota Kommúnismi og Kapítalismi sem upphrópunarhugtök notuð af skömm til að merkja andstæðing ákveðinna hugmynda, heldur tel ég að þessi klassísku átök hafi vaknað á ný til lífsins í raun og veru við valdasamsetningu Vinstri grænna og Samfylkingar, og tel við hæfi að nefna þau sínum réttu nöfnum.

Vel getur verið að sumum finnist þessa færsla fyndin eins og færsla mín í gær, en mér er alvara. Má vel vera að ég hafi rangt fyrir mér að einhverju leiti, en þá þætti mér vænt um að vita hvar rangfærslurnar er að finna. Nafnlausar upphrópanir er nefnilega erfitt að taka alvarlega.

 

Myndir:

Kapítalismi: Hall of Learning

Byltingarfáninn: Communist Realism

El Che og Castro: Travel in Cuba

Vog: Bouge

Aurskriða yfir byggð í El Salvador: perrosdebusqueda.com 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er allt af völdum sjálfstæðismanna. Eg helt allir íslendingar vissu það?

geræðisleg stjórn þeirr er buið að gera Island að viðundri í alþjóðlegu tilliti.

Þetta eru menn sem ættu að sitja inni fyrir afrek sín.

Árni Björn (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 08:05

2 Smámynd: Gunnar Freyr Rúnarsson

Ríkið belgdist út á 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins.  Samt kenndi forusta þess flokks sig við frjálshyggju.  Mætir menn sögðu í fullri alvöru að sovéski Kommúnistaflokkurinn væri hin eina og sanna fyrirmynd hægri stjórnarinnar. 

Um það skal ég ekki segja, eins og maðurinn sagði.  

Gunnar Freyr Rúnarsson, 21.5.2009 kl. 08:12

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Árni: Allt af völdum sjálfstæðismanna? Það hafa ekki bara verið sjálfstæðismenn við völd, og ekki eru þeir við völd akkúrat núna. Ágætt að líta aðeins til framtíðar en festast ekki í fortíðinni.

Gunnar Freyr: Hófsöm frjálshyggja og sú öfgafulla frjálshyggja (Nýfrjálshyggja skv. Jóhönnu Sigurðard.) sem varð ofan á er tvennt ólíkt. Málið er að allt fór einfaldlega úr böndunum og enginn réð lengur við neitt. Það er eins og Pandóruboxið hafi verið opnað, og engin leið að koma skrímslunum aftur í kassann.

Hrannar Baldursson, 21.5.2009 kl. 10:01

4 Smámynd: Ómar Ingi

Já á góðri leið til glötunnar.

Ómar Ingi, 21.5.2009 kl. 12:07

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Bara mér til fróðleiks: Hvað þýðir haftir? (sjá 3. málsgrein undir „öfgafull frelsishyggja“.) Er þetta fleirtala af einhverju orði? Hvaða?

Sigurður Hreiðar, 21.5.2009 kl. 12:41

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sigurður: Takk fyrir þessa góðu gagnrýni. Ég hugsaði þetta þannig að höft sé kvenkynsorð um einhvers konar festi, og haftir séu því fleirtalan af þessu kvenkynsorði.

Höft er samkvæmt íslenskri orðabók fjötur, band eða festi, reyndar í fleirtölu. "Haftir" er því fleirtala af fleirtöluorðinu 'höft', í nefnifalli og þolfalli. Hér eru haftir, um haftir, frá höftum, til hafta. Þar sem ekki er hægt að setja fleirtöluorð í fleirtölu samkvæmt góðum málvenjum, þá hef ég greinilega gerst sekur um villu. Samt er ég langt frá því að vera ósáttur við þessa villu og get vel hugsað mér að nota hana áfram, og legg því hérmeð til að kvenkynsorðið 'höft' sé notað í eintölu fyrir festi, og verði héreftir nýyrði, enda frekar fallegt orð.

Vonandi verður mér fyrirgefið þar sem dags daglega tala ég litla íslensku, nema kannski á blogginu. Fyrir utan það eru spænska, enska og norska þau mál sem verða fyrir valinu til tjáskipta.

Ómar: Ég er ekkert viss um að kommúnismi leiði til glötunar, enda hefur mér þótt afar merkilegt að heimsækja lönd sem hafa verið eða eru enn kommúnistaríki, en mér sýnist nokkuð ljóst að leið íslenskra stjórnvaldi liggi til kommúnisma.

Spurning hvort að það verði snúið til þess að banna kossa í kvikmyndum, eins og í 'Cinema Paradiso' og Bollywood kvikmyndum.

Ljóst að við erum stödd á þröskuldi inn í framtíðina, og mér sýnist næsta skref nokkuð ljóst: út úr kapítalisma og inn í kommúnisma.

Hrannar Baldursson, 21.5.2009 kl. 13:07

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hrannar, ég vona að þú verðir ekki sannspár með næsta skrefið.

Kapítalisminn er ekki alfullkominn (sums staðar vantar nokkra dropa af samfélagshyggju) en kommúnismann ætti að forðast! Að baki þessari fullyrðingu eru staðreyndir; allir sem vettlingi geta valdið hafa flúið kommúnistaríkin en þegnar hinna kapítalísku sitja sem fastast.

Að ekki sé nú talað um þann fjölda sem daglega sækist eftir búsetu og/eða hæli í hinum vestrænu kapítalísku ríkjum - og hætta margir lífi sínu fyrir.

Kolbrún Hilmars, 21.5.2009 kl. 15:31

8 identicon

Ég lít á thessa faerslu sem klór í panikk yfir "Hvad er forsjárhyggja?" pistilinn.

Blandad graenmeti (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 16:23

9 identicon

Kolbrún, það er ekki rétt að þegnar hinnna kapitalísku ríkja sitji sem fastast.

Í dag er hér landflótti af völdum kapítalískra viðhorfa. 

Hér er líka fólk sem mundi fara nema af því að það er í átthagafjötrum skulda sinna.  Fólk sem þorir ekki að flýja ástandið. 

Sigurður Þórðarson (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 16:53

10 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sigurður,  þú hefur ekki hrakið fullyrðingu mína um "hugmyndafræðilegan" flótta. 
Á kreppuárunum um 1970 flúðu þúsundir íslendinga til Norðurlandanna, Ástralíu og Kanada - ekki til Sovíet eða Kúbu.

Í sinni kreppu fyrir tæpum 2 áratugum misstu Færeyingar 40% af sínu fólki úr landi og hvert fór fólkið?   Til Sovíet - Kúbu - Angóla?  Ónei, færeyskir fóru til Danmerkur!

Kolbrún Hilmars, 21.5.2009 kl. 17:07

11 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir svarið. Okkar á milli sagt: Mér finnst fleirtölumynd af þessu fleirtöluorði ekki bæta neinu við.

Ég hef í sjálfu sér enga skoðun á efni textans, en finnst að þeir sem skrifa blogg á íslensku eigi að gera það, þó þeir noti önnur tungumál svona dags daglega. -- Með bestu kveðju út blíðunnu á Fróni.

Sigurður Hreiðar, 21.5.2009 kl. 22:30

12 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég dáist að elju þinni Hrannar við að skilgreina þessi hugtök sem oftast eru notuð sem regnhlíf yfir það sem flesta gruna en engin orðar, þ.e. að þær stefnur sem ætíð hafa verið og eru enn notaðar af íslenskum stjórnvöldum heita; hentistefna og geðþóttahyggja.

Engin stjórn á Íslandi hefur nokkru sinni staðið við þær hugmyndafræðilegu stefnu sem þær hafa kennt sig við í háleitum stefnuræðum eða á svitablettuðum samstarfssáttmálum. Flokkseigendafélögin, fjölskyldutengsl og efnahagsleg krosstengsl og það sem kallað er gamaldags fyrirgreiðslupólitík,  hafa ætíð komið komið í veg fyrir að hugmyndafræðileg stefnumótun ráði ferð þegar hagsmunum þeirra sem við völd sitja hverju sinni er ógnað.

Svanur Gísli Þorkelsson, 22.5.2009 kl. 02:10

13 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég tel ekki að það sé á nokkurn hátt verjanlegt að færa ræningjastéttinni aftur eignarhald á fyrirtækjunum sem þessa dagana falla til ríkisins. Ég sé svo hinsvegar ekki neitt samhengi milli eignarhaldi á stórfyrirtækjum þessa lands og svo það hversu nákvæmar siðareglur við setjum okkur í sameiningu. Það er kannski bara ég en ég sé barasta ekkert samhengi þarna á milli.

Héðinn Björnsson, 25.5.2009 kl. 23:20

14 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég efast um að við endum með kommúnisma. Líklegra er að við endum óvart með einhvers konar plutocracy (er til íslenskt orð yfir það?), þar sem stórfyrirtækin hafa pólitíkusana í vasanum og ráða ferðinni. Þá skiptir litlu máli hver er við völd, því þessi fyrirtæki sjá til þess að hafa fólk úr öllum flokkum á sínum snærum. Við erum kannski nú þegar komin þangað.

Hvað sem tekur við, er ljóst að lýðræðið berst fyrir lífi sínu.

Villi Asgeirsson, 28.5.2009 kl. 11:43

15 Smámynd: Hrannar Baldursson

Villi, ég vil meina að þannig hafi ástandið verið síðustu 10 árin. Kommúnisminn er það sem tekur við af auðræðinu. Mæli með að kíkja á Ríkið eftir Platón, það er hægt að lesa beint út úr pælingum hans um lýðveldi, auðveldi, hefðarveldi og einveldi hvað er að gerast á Íslandi í dag. Marx útfærði þetta líka skýrt í sínum ritum. Þetta virðist vera algilt orsakasamband.

Hrannar Baldursson, 28.5.2009 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband