Óskarsverðlaunaspá 2009

 

vert330_81awards

 

Enn er komið að stóru stundinni þar sem gæði og vinsældir takast á í baráttu um verðlaun. Þar sem að bæði mat á gæðum og vinsældir eru frekar huglæg hugtök er vonlaust að segja til um hver fær hvaða verðlaun. Manni finnst að þetta ættu að vera gæðaverðlaun fyrir kvikmyndagerð, en þar sem að fólk er afar ólíkt, með afar ólíkan smekk og fordóma, auk samúðar eða andúðar með ólíku fólki, þá blandast breyskleiki fólks töluvert inn í valið.

Það er bæði helsti kostur og galli Óskarsverðlaunanna að kjósendur eru fólk sem er viðurkenndur hluti af akademíunni, fólk sem hefur atvinnu af kvikmyndagerð og hefur náð góðum árangri. Ég gæti flokkað mína spá eftir ímynduðum vinsældum, gæðum eða hverju sem er, hins vegar ætla ég aðeins að fylgja einu viðmiði í minni spá: þau áhrif sem viðkomandi hafði á mig, og fyrst og fremst mín eigin tilfinning fyrir gæðum viðkomandi fyrirbæris.

Besta kvikmyndin

The Curious Case of Benjamin Button

Frost / Nixon

Milk

The Reader

Slumdog Millionaire

Þetta er auðvelt. Þar sem að mér þótti hvorki Benjamin Button né Milk sérstaklega góðar myndir, og þó að mér hafi þótt Frost / Nixon og The Reader mjög góðar, þá er aðeins ein frábær mynd í þessum flokki, og það er Slumdog Millionaire.

Besta kvikmyndin: Slumdog Millionaire fjallar um mann í leit að konunni sem hann elskar, en henni er haldið nauðugri af indverskum mafíósa. Eina leiðin sem hann sér til að bjarga henni er með að brjótast úr sárri fátækt og verða bæði frægur og vellauðugur. Því tekur hann þátt í spurningakeppninni "Viltu vinna milljarð?" Leikstýrð af Danny Boyle, sem ég fyrirgef fyrir hina ömurlegu Sunshine.

Besti leikari í aðalhlutverki

Richard Jenkins í The Visitor

Frank Langella í Frost / Nixon

Sean Penn í Milk

Brad Pitt í The Curious Case of Benjamin Button

Mickey Rourke í The Wrestler

Ég hef ekki enn séð The Visitor og get því ekki dæmt um það hlutverk, og þótti ekki mikið til Sean Penn koma í Milk, þó að hann hafi vissulega staðið sig ágætlega. Frank Langella er frábær í Frost / Nixon, og Brad Pitt mjög góður sem Benjamin Button, þó að tæknibrellurnar hafi truflað mig svolítið við áhorfið - en langbesti leikurinn í ár, og hugsanlega allra tíma var hjá Mickey Rourke í The Wrestler.

Besti leikari í aðalhlutverki: Mickey Rourke í The Wrestler þar sem Rourke leikur fjölbragðaglímukappa sem kominn er yfir sitt besta skeið. Hann pumpar sig þó ennþá upp af sterum og leggur sig allan í glímuna. Vandinn er sá að Rourke er kominn í 21. öldina en hann telur sig ennþá vera einhvers konar ósigrandi Herkúles á 9. áratug 20. aldarinnar. Þegar hann fær hjartaáfall og sér fram á líf án glímu verður hann að taka ákvörðun upp á líf og dauða - hvort að lífið sé þess virði að lifa því án þess sem þú elskar mest. Leikstýrð af Darren Arronofsky.

Besta leikkona í aðalhlutverki

Anne Hathaway í Rachel Getting Married

Angelina Jolie í Changeling

Melissa Leo í Frozen River

Meryl Streep í Doubt

Kate Winslet í The Reader

Ég hef hvorki séð Rachel Getting MarriedFrozen River, en hinar þrjár hef ég séð. Meryl Streep var mjög góð í Doubt - þó að hún hafi verið enn skemmtilegri í Mamma Mia! Angelina Jolie var óaðfinnanleg í Changeling og Kate Winslet mjög góð í The Reader. Af þessum þremur hlutverkum fannst mér Angelina Jolie best, en samt tel ég að Kate Winslet vinni, og þá einnig verka leiks hennar í Revolutionary Road, þar sem hún var að mínu mati enn betri heldur en í The Reader. En eins og ég sagði, þá ætla ég að byggja spá mína á eigin tilfinningu frekar en trú, þannig að Angelina Jolie fær verðlaunin samkvæmt því.

Besta leikkona í aðalhlutverki: Angelina Jolie í Changeling þar sem Jolie leikur móður í Los Angeles á 3. áratug 20. aldar. Sonur hennar hverfur einn góðan veðurdag og lögreglan finnur annan dreng sem hún telur sannað að sé sonur Jolie. Þrátt fyrir að Jolie geti sannað að drengurinn sé ekki sonur hennar með því að sýna fram á tannlæknaskýrslur, ólíka hæð, og framburð kennara, kemur lögreglan henni fyrir á geðveikrahæli þar sem að gagnrýni hennar er orðin óþægileg. Á meðan tapast mikilvægur tími til að bjarga syni hennar, hugsanlega úr höndum fjöldamorðingja. Leikstýrð af Clint Eastwood.

Besti leikari í aukahlutverki

Josh Brolin í Milk

Robert Downey Jr. í Tropic Thunder

Philip Seymour Hoffman í Doubt

Heath Ledger í The Dark Knight

Michael Shannon í Revolutionary Road

Ég veit að Heath Ledger tekur þetta. Annað er óhugsandi. Enda var hann frábær sem Jókerinn í The Dark Knight, þrátt fyrir ákveðna galla í  lykilatriði myndarinnar þegar hann rétti Harvey Dent byssu. Josh Brolin sýndi nú enga stórmerkilega hluti í Milk, en hann hefur sjálfsagt fengið þessa tilnefningu vegna stórkostlegrar túlkunar sinnar á George W. Bush í W. Hann vinnur ekki en á tilnefningu skilið vegna hinnar myndarinnar. Robert Downey Jr. var frábær í ár bæði sem Iron Man og ástralski leikarinn sem leikur blökkumann í Tropic Thunder. Reyndar átti Tom Cruise líka frábært smáhlutverk í sömu mynd sem hefði alveg eins mátt fá tilnefningu. Philip Seymour Hoffman var frábær í Doubt sem kaþólskur prestur grunaður um að hafa misnotað dreng, en allra bestur fannst mér þó Michael Shannon í Revolutionary Road.

Besti leikari í aukahlutverki: Michael Shannon í Revolutionary Road þar sem hann leikur fyrrverandi snilling í stærðfræði sem hefur verið lokaður inni á geðsjúkraheimili og fengið svo mörg raflost að öll hans stærðfræðikunnátta er farin. Hins vegar sker hann sig í gegnum lygar og blekkingar eins og hárbeittur hnífur og sjálfsagt betri mannþekkjari en sjálfur Sherlock Holmes. Frábær karakter sem allir telja geðveikan, en reynist samt vera sá eini sem sér hlutina eins og þeir eru.

Besta leikkona í aukahlutverki

Amy Adams í Doubt

Penélope Cruz í Vicky Christina Barcelona

Viola Davis í Doubt

Taraji P. Henson í The Curious Case of Benjamin Button

Marisa Tomei í The Wrestler

Ég hef ekki séð Vicky Christina Barcelona, en sá ekkert framúrskarandi við Amy Adams í Doubt eða Taraji P. Henson í Benjamin Button. Hins vegar fannst mér Marisa Tomei mjög góð í The Wrestler, og Viola Davis afar eftirminnileg í Doubt. Ég held að Viola Davis hafi búið til kröftugasta karakterinn af þeim sem ég hef séð, og vona að hún taki þetta.

Besta leikkona í aukahlutverki: Viola Davis í Doubt þar sem hún leikur móður drengs sem á sér litla von um framtíð án menntunar, en hún er tilbúin til að sætta sig við ef prestur hefur misnotað son hennar, en hún telur það meira virði að drengurinn komist áfram í lífinu en verði stoppaður vegna slíkra mála. Davis varpar upp mynd af hrikalegu ástandi og þeim fórnum sem sumir þurfa að færa til að komast áfram í lífinu.

Önnur verðlaun vona ég að fari þannig:

Besta frumsamda handrit

In Bruges er stórskemmtileg saga um tvo leigumorðingja sem fara í frí til Belgíu eftir morð sem fór ekki eftir áætlun. Með þeim tekst mikil vinátta sem fær aukið flækjustig þegar annar þeirra fær skipun um að myrða hinn.

Besta aðlagaða handrit

Doubt má vinna þessi verðlaun, sérstaklega vegna þess hversu vel er farið með viðkvæm hugtök eins og efa og fullvissu og hvernig þau spila meginhlutverk í margbrotinni sögu, sem þó hefur frekar einfalda atburðarás.

Besta teiknimyndin

Bolt fannst mér besta teiknimynd ársins. Hún var fyndin, saklaus og skemmtileg. Ég veit að ég er í minnihluta hérna og 99% öruggt að WALL-E taki verðlaunin, enda fjallar hún um miklu meira en bara vélmenni - en framtíð alls mannkyns er í húfi vegna illrar meðferðar okkar á umhverfinu.

Besta leikstjórn

Danny Boyle fyrir Slumdog Millionaire. Það er einfaldlega við hæfi þar sem það er án vafa besta myndin og fyrst og fremst Boyle að þakka.

Besta kvikmyndatakan

Hérna má The Dark Knight sigra, enda afar vel kvikmynduð mynd sem nýtir sér Chicago borg til hins ýtrasta og gerir úr henni magnaða útgáfu af Gotham borg. The Dark Knight er uppfullt af gífurlega flottum atriðum sem hrein unun er að fylgjast með.

Besta klippingin

Þarna eru þrjár framúrskarandi vel klipptar mynd: The Dark Knight, Frost / Nixon og Slumdog Millionaire. Mér finnst Slumdog Millionaire best klippt af þessum þremur, enda afar flókið ferli að taka sögu sem gerist á þremur ólíkum tímaskeiðum og við afar ólíkar aðstæður og gera úr henni heilstæða og vel skiljanlega mynd. 

Besta sviðsmyndin

The Dark Knight má taka þessi verðlaun, þó að The Curious Case of Benjamin Button hljóti að gera ansi sterkt tilkall til þessara verðlauna. 

Bestu búningar

Ég skil ekki alveg hvað Milk er að keppa um bestu búningana - mér sýnist flestir leikaranna einfaldlega hafa tekið einhver klæði út úr skápnum - þarna hefði The Dark Knight eða Iron Man vera með í keppni, en af þeim sem keppa myndi ég taka Revolutionary Road, enda stíllinn á fötunum í þeirri mynd með því flottasta sem sést á tjaldinu, og spilar stóra rullu í að sýna firringu aðalpersónanna, sem vilja ekki falla í fjöldann en gera það samt.

Besta föðrun

The Dark Knight má taka þetta fyrir snilldarförðunina á Heath Ledger, sem passaði snilldarlega við persónuna, auk Tvíféss, sem var mátulega hryllilegur. Benjamin Button fannst mér ekki nógu góð í förðunardeildinni vegna þess hversu meðvitaður maður var um að maður væri að horfa á tölvugrafík, og Hellboy II: The Golden Army - þó að hún hafi verið ógeðslega flott, þá er ekki beinlínis hægt að segja að förðunin hafi verið eitthvað frumlegri heldur en í fyrri myndinni. Þannig að Dark Knight er það heillin.

Besta kvikmyndatónlist

Ég játa að tónlistin er ekki mín sterkasta hlið, en mér finnst tónlistin úr WALL-E eftirminnilegust.

Besta lagið

Down to Earth úr WALL-E, - enda man ég ekki eftir lögunum úr Slumdog Millionaire - var of upptekinn við að fylgjast með frábærri kvikmynd.

Besta hljóð

The Dark Knight tekur þetta léttilega.

Besta hljóðblöndun

Iron Man má eiga þessi verðlaun, enda hreint frábærar hljóðbrellur sem fá mann til að trúa að maðurinn að járnmaðurinn sé um tonn að þyngd og úr efni sterkara en stáli.

Bestu tæknibrellur

Þarna hefði ég gefið Hellboy II tækifæri, en þar sem sú mynd er ekki í boði, þá er það Iron Man sem má taka þessi verðlaun, enda trúði ég að járnmaðurinn gæti flogið og tekist á við orrustuþotur í háloftunum. Tæknibrellumynd ársins. Engin spurning.

Besta erlenda myndin

Ég hef ekki séð neina þeirra, en vona samt að Entre les murs taki þetta, enda víst afar frumleg kvikmynd um samband nemenda og kennara, og þar sem ég er kennari að mennt er ég svolítið veikur fyrir slíkum kvikmyndum.

Besta heimildamyndin

Ég hef aðeins séð eina þeirra sem tilnefnd eru, Man on Wire, sem vissulega er góð, en ef það er einhver sem ég hefði sérstaklega áhuga á að sjá er það Encounters at the End of the World þar sem Werner Herzog fylgist með vísindamönnum og lífinu á Antartíku.

Besta stutta heimildamyndin

Ég veit ekki nóg um neina af þessum til að kveða upp dóm, þannig að: ugla sat á kvisti, átti börn og missti, einn tveir þrír og það varst þú: The Conscience of Nhem En.

Besta stutta teiknimyndin

Presto er náttúrulega frábær. Ég hef ekki séð aðrar.

Besta stuttmyndin

Spielzeugland held ég að taki þetta einfaldlega vegna þess að hún er um þýskan dreng í seinni heimstyrjöldinni sem heldur að allir gyðingarnir sé á leið til Leikfangalands. Seinni heimstyrjöldin er yfirleitt sigursæl í þessum flokki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Ég er búin að sjá langflestar af þessum myndum.....en hver skyldi verða fyrir valinu? 

Bíð spennt.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 22.2.2009 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband