Eru Íslendingar hamingjusamir, en bara áhyggjufullir í augnablikinu?

 

helvfokkpy7

 

Mér finnst afar áhugavert þegar rannsökuð eru hugtök sem eru eðli síns vegna ekki rannsakanleg, og hljóta á endanum að vera skoðanir, annað hvort vel rökstuddar eða ekki. En Eric Weiner rökstyður sitt mál, og því sjálfsagt að velta fyrir sér hugmyndum hans.

Samkvæmt Eric Weiner eru þetta einkenni hamingju:

"Hlý, umhyggjusöm sambönd; mikið traust; sterkar fjölskyldur."

Í eldri grein skilgreinir Eric Weiner þetta sem megineinkenni hamingjunnar. Eftir bankahrunið heldur hann sig við þá fullyrðingu að Ísland sé hamingjusöm þjóð, og að það sé vegna þess að grunngildin séu ennþá til staðar, en hann heldur að Ísland sé einfaldlega á öðru stigi en áður, að nú séu Íslendingar kannski áhyggjufullir, en það sé eðlilegt miðað við aðstæður og hefur engin áhrif á hamingjuna sjálfa. Hann segir að Íslendingar hafi mikið til að byggja á, sé ævafornt samfélag með ríka menningu, list og áfengisneyslu.

Mér finnst sérlega áhugavert að hann skuli taka til andleg gæði og síðan áfengisneyslu sem hornsteina hamingjunnar, sem þýðir þá hugsanlega að ef fólk detti ekki í það stöku sinnum eigi það ekki séns á klakanum.

iceland

"Hamingjan er meira en bara peningar, það felst hamingja í mistökum."

Eric heldur því fram að Íslendingar séu enn hamingjusamir, þrátt fyrir bankahrunið - við séum bara áhyggjufull eins og er. Hann telur að hamingjan felist ekki í efnahagslegum gæðum, heldur fyrst og fremst í siðferðilegum og andlegum gæðum. Ég er í kjarnanum sammála því, en held samt að hann reikni þetta svolítið vitlaust, en efnahagsleg gæði eru efnisleg gæði, svona rétt eins og nammi og áfengi, og því hefur áfengisneysla ekkert með hamingju að gera frekar en peningar.

Þó að sum okkar séu miklar skepnur, að einelti grasseri í skólum og atvinnulífi, að fólk sé að missa heimili sín og skilnuðum fjölgar, þá erum við samt hamingjusöm af því að við vitum einfaldlega betur hvað það er sem við viljum ekki og getum dottið í það með góða bók undir höndum og Bubba á fóninum. Hljómar þetta ekki eins og útúrsnúningur?

 

 

bliss

 

9 einkenni Íslendingsins

Til að vera sanngjarn, þó bendir Eric Weiner á 9 einkenni sem gerir Íslendinga að hamingjusamri þjóð:

Áfengi: Íslendingar detta í það um helgar en drykkja á virkum dögum er merki um vandamál.

Kuldi: Kuldans vegna verður fólk að standa saman.

Skák: Íslendingar björguðu Bobby Fischer og hafa yfirleitt gaman af skák.

Mjög samheldin fjölskylda: Á eyju með aðeins 300.000 manns eru allir skildir hverjum öðrum, og ekkert eðlilegra en að á förnum vegi rekist fólk á ættingja sína.

Fagurfræðilegur smekkur: Íslendingar borða ekkert ljótt eins og humar eða þorsk, heldur selja það til Bandaríkjanna, en borða samt hákarl sem vekur upp spurningar um þroskaðan smekk, sem útskýrir þó drykkjuna.

Álfar: Margir Íslendingar trúa á álfa. Síðast þegar Bandaríkjamenn trúðu á álfa voru þeir hamingjusamir. Þeir voru börn, en hamingjusöm börn.

Sköpunargáfa: Allir á Íslandi eru tónlistarmenn, skáld eða rithöfundar í leit að hinn miklu íslensku skáldsögu. Dæmi um fagurfræði þeirra finnast í matnum og svo er Björk auðvitað íslensk.

Endursköpun: Í Bandaríkjunum, ef þú gerist bankamaður, verðurðu alltaf bankamaður. Á Íslandi er meiri sveigjanleiki og hægt er að skipta um starf án margra ára menntun, enda vita Íslendingar að málin reddast.

Stíll: Íslendingar hafa náttúrulegan stíl.

 

bjork_-_2004_olympics_-_lg_6433740

 

Húsráð til að redda sér hamingju samkvæmt Weiner:

Fáðu þér súkkulaði, súran hákarl og áfengi, og skrifaðu ljóð. Tefldu síðan. Á eftir skaltu þvo klósettið þitt, því ef þú verður ekki ánægður verður næsti notandi þess það. (Álfarnir að sjálfsögðu!)

Þá eru hugmyndir Eric Weiners um hamingju Íslendinga skýrar. Næsta spurning er hvort að þær séu réttar. Ég þekki mína eigin afstöðu ágætlega, en hvað um þig?

Hver er þín skoðun?

Er Íslendingar hamingjusamir, en bara áhyggjufullir í augnablikinu?



Heimildir og myndir: 

Happiness Index' Bucks Financial Woes 

Eric Weiner: Why Iceland is STILL happy

Happiness is Not 'One Size Fits All'

Málefnin.com


mbl.is Segir Íslendinga enn hamingjusama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Má ég vera áhyggjufullur og óhamingjusamur?

 btw, bíó í kvöld eða annað kvöld?

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 11:56

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég get að einhverju marki tekið undir með Eric Wiener.  Ég er áhyggjufull.  Ég hef áhyggjur af afkomu barna minna og annarra í þeirra sporum.  Ég hef áhyggjur af afkomu þjóðarinnar og orðspori.  Ég hef áhyggjur af þeim sem ekki gera sér fyllilega grein fyrir því hversu slæmt ástandið er og og ætla að synda í gegnum kreppuna eins lengi og þau geta haldið sér á floti.  Áfallið kemur þótt síðar verði.

En ég er líka bjartsýn.  Ég er bjartsýn á að þetta högg hafi vakið okkur upp af doða gagnvart siðleysi og græðgi.  Ég er bjartsýn á að við fáum betri og samfélagslegri reglur, þar sem réttlæti og jafnræði verði frekar í fyrirrúmi.  En ef sú ósk mín hefur möguleika á að rætast, verðum við öll að leggjast á eitt  til að svo megi verða.  Ég veit við getum þetta en er alls ekki viss um að viljinn sé fyrir hendi hjá allt of stórum hópum þjóðfélagsins.

Sigrún Jónsdóttir, 18.2.2009 kl. 20:42

3 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Þetta er stórskemmtileg bók og ég skrifaði smá blogg um hana um daginn, hér.

Minni aftur á það sem hann segir um samband hamingju og ríkidæmis: Recent research reveals that money does indeed buy happiness. Up to a point.  That point, though, is surprisingly low: about $1500 a year. After that, the link between economic growth and happiness evaporates.  

Íslendingar geta sem sagt áfram verið hamingjusamir miðað við þetta!

Þorsteinn Sverrisson, 18.2.2009 kl. 21:21

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég hef þá skoðun að hamingjan sé eitthvað sem hver og einn velur sér. Mér finnst muna mest um það að hafa getað minnkað stjórnun á öðru fólki og að taka ábyrgð á öðru fólki.

Hugsa um það sem ég hef, bæði hæfileika, heilsu, samastað, vini og svo framvegis. Ég hef með árunum lagt getað lagt áhyggju pakkann meira og meira frá mér Ég tel mig hafa svo oft fengið það sem ég hef óskað mér og trúi því að svo verði áfram.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.2.2009 kl. 00:42

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hamingja er tilfinning og þessi Weiner er lítill spekingur.

Til þess að njóta hamingu þarf fólk að vera nokkuð visst um öryggi sitt og barna sinna. Það þarf að geta gengið að því vísu að eiga heimili, hafa mat á borðið, hafa tilgang í samfélagi manna og síðast en ekki síst þarf fólk að hafa frelsi, t.d. tjáningarfrelsi.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.2.2009 kl. 01:39

6 Smámynd: Tómas Þráinsson

Ég mundi nú freistast til að kall þetta heilkenni, frekar en einkenni. En vissulega hefur Weiner eitthvað til síns máls. En þeim ameríkönum hættir nú gjarnan til að meta hluti á undarlegan máta, þó ég hafi nú ekki höggvið sérstaklega eftir þjóðerni þessa ágæta manns.

Tómas Þráinsson, 19.2.2009 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband