Revolutionary Road (2008) ***1/2

revolutionaryroad

Revolutionary Road er afar vel leikinn og skrifaður harmleikur sem ætti sjálfsagt jafnmikið heima á fjölum leikhúsa og í bíó, enda leiksviðið annars vegar heimilið og hins vegar skrifstofan, en einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að heimilið og skrifstofan séu stórt hversdagsfangelsi, og að fangarnir viti ekki einu sinni að þeir séu í fangelsi, nema sumir - og þá hefst barátta upp á líf og dauða.

Þetta er í annað skiptið sem Leonardo DiCaprio og Kate Winslet leika saman aðalhlutverk. Fyrra skiptið var hinn sögulegi stórsigur Titanic, sem sló öll aðsóknarmet á sínum tíma, en Revolutionary Road, þó að hún sé á margan hátt betri kvikmynd en Titanic, mun aldrei ná slíkum hæðum.

revolutionaryroad01

Wheeler hjónin Frank (Leonardo DiCaprio) og April (Kate Winslet) hafa eignast fallegt heimili í úthverfum stórborgar, hann er í vel launaðri en merkingarlausri vinnu, og hún er heimavinnandi húsmóðir, sem þó lærði leiklist á yngri árum.

Á meðan Frank unir sér ágætlega og hefur sætt sig við hið vonlausa tómarúm sem líf hans er orðið, hefur April aðrar hugmyndir. Þegar þau fyrst kynntust höfðu þau hugmyndir um að kynnast heiminum betur, en svo kom fyrsta barnið, þau ákváðu að fá sér hús og nú eru þau föst í heimi sem þau geta ekki sloppið úr: Norminu!

Þau geta sagt sér að þau séu sérstakar manneskjur, en við ofurlitla íhugun sjá þau strax að þau eru bara ósköp venjuleg og ósæl hjón. Það sem nagar April er tilgangsleysi tilverunnar, hvernig allt þarf að vera eðlilegt og hvernig þau verða að aðlagast Norminu til að rugga ekki bátnum.

Hún fær þá hugmynd að flytja til Parísar, staðar sem Frank þekkir af eigin raun og er hrifinn af, enda vill hún brjótast úr viðjum vanans og fá að vera til, fá að vera hluti af samfélaginu, fá að vera eitthvað annað en kona sem hangir heima og tekur til, undirbýr matinn.

Hún vill reyndar að eigin sögn ekki komast út, heldur inn. Frank tekur ágætlega í hugmyndina og er bara nokkuð til í tuskið þar sem hann áttar sig á að April hefur fyllilega rétt fyrir sér, að líf þeirra er án merkingar og þau þurfa að gera eitthvað til að komast í burtu. En það eru hindranir á veginum.

Ein er sú að öllum öðrum finnst þetta vera barnaleg hugmynd, fyrir utan fyrrverandi stærðfræðinginn John Givings (Michael Shannon) sem hefur tapað stærðfræðigáfunni vegna of margra rafstuða í meðferð á geðspítala. Hann er næmur fyrir tilvistarkreppu hjónanna og segir nákvæmlega það sem hann sér. Sannleikurinn hefur ólík áhrif á fólk sem hefur aðlagast blekkingum. Og takist því ekki að aðlagast, getur það alltaf farið til sálfræðings.

revolutionaryroad02

Önnur hindrun í veginum er óvænt tilboð sem Frank fær frá vinnuveitanda sínum, um betri stöðu og hærri laun, og að auki kemur í ljós að April er ófrísk. Enn önnur hindrun felst í framhjáhaldi, tap á trausti og ást. Tilvistarkreppan sem þetta ágæta fólk upplifir er raunsæ og djúp.

Þau Winslet og DiCaprio leika sín hlutverk með afburðum vel, ég er reyndar ekki frá því að DiCaprio sé búinn að næla sér í nokkrar brellum úr vopnabúri Jack Nickolson - hann flýtir sér hægt og sýnir einstæða yfirvegun á meðan undir kraumar.

Afar eftirminileg kvikmynd sem á einstaklega vel við á krepputímum. Hún kennir okkur að meta það sem er mest virði í lífinu og hverjar afleiðingarnar geta verið hunsum við þetta kall til dýpri merkingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Langar einmitt mikið til að sjá þessa! Gaman að sjá þau aftur saman á tjaldinu. Spurning hvort þessi verði eins klassíks eins og Títanic Ætti það sennilega ekki síður skilið, eða hvað?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.1.2009 kl. 18:51

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þó að þetta sé klassamynd, Rakel, efast ég um að hún muni teljast til klassíkur eins og Titanic, þó að hún sé eitthvað betri. Reyndar gæti það svosem alveg gerst, en ég efast einhvern veginn um það.

Hrannar Baldursson, 25.1.2009 kl. 19:46

3 Smámynd: Ómar Ingi

Þessi frábæra kvikmynd hitti mig í hjartarstað Tónlistin hjá Thomas Newman á án efa stórn þátt í verkinu en leikur Winslet og Di Carprio er hreint magnaður og Sam Mendes sýnir hversu megnugur leikstjóri hann er þegr hann nær svo snyrtilega að tvinna saman sögunni samlíkingu í fari persónunna tökum klippingum og tónlist útkoman er stórbrotin og ef þú ert tilfinningarvera á þessi kvikmynd erindi við þig sérstaklega ef þú ert búin að vera í samabandi og lifað nokkur ár í sambandi , en myndin á að fá fólk til að hugsa fram á við eða til baka eftir því sem á við og gerir það með fyndni en aðalega miklu drama og meiningu.

Án efa ein sú besta sem við eigum eftir að berja augum í ár.

Ómar Ingi, 25.1.2009 kl. 20:38

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Já, Ómar. Fín gagnrýni hjá þér. Ég er viss um að margir verða á sama máli.

Hrannar Baldursson, 25.1.2009 kl. 21:05

5 identicon

Lesum bókina frekar.  Og lesum Richard Yeats ... hann er fantagóður höfundur en því miður gleymdur af samtímanum.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 23:06

6 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Já, ég ætlaði einmitt að sjá þessa. Takk fyrir að minna mig á.

Steingerður Steinarsdóttir, 26.1.2009 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband