Árásin á Hótel Borg

 


 

 

"Ég er búin að fá nóg af þessum helvítis mótmælum og mótmælendum," sagði hún rám. "Þetta er eintómur skríll. Helvítis pakk. Vanvirða Alþingishúsið og þjóðina við minnsta tilefni. Það á að byggja álver. Mættir! Ísrael og Palestína sprengja hvort annað í tætlur. Mættir! Gjöld fyrir læknisþjónustu hækka. Mættir! Skólamáltíðir hækka. Mættir! Skattar lækka. Mættir! Hvalur drepinn. Mættir! Það ætti að banna þetta helvíti."

Á leiðinni niður í bæ hlustaði Karl á móður sína í handfrjálsa kerfinu. Hann kinkaði kolli og svaraði með "A-ha, U-humm, já, ókey."

"Þeir vilja helst láta hlekkja sig við eitthvað til að vera táknræn, svo að allir skilji þau. Af hverju hlekkja þau sig ekki bara við fangaklefa á lögreglustöðinni?"

Karl fann bílastæði rétt hjá Bæjarins Bestu. Þar dró hann yfir höfuðið svarta lambhúshettu og setti á axlirnar þungan bakpoka. Hann fékk sér tvær pylsur með öllu og kók, borgaði með platínukorti og skundaði svo áleiðis að Hótel Borg. Það var enginn á svæðinu. 

Á bekk undir styttunni af Jóni Sigurðssyni sat hávaxinn og afar fölur maður. Hann horfði hugsi á Alþingishúsið. Karl ávarpaði hann.

"Heyrðu, þú? Eru ekki mótmæli?"

Maðurinn á bekknum hallaði höfði er hann leit upp til Karls. Þarna stóð smávaxinn karl með svarta lambhúshettu. Það sást aðeins í þykk augun og frekar óheppilegt frekjuskarð þegar hann opnaði munninn. Maðurinn benti í átt að Laugarvegi og sagði afar stilltum en djúpum og svæfandi rómi. 

"Sæll og blessaður. Mótmælin byrja við Stjórnarráðið."

Hann leit beint í augun á Karli, eins og hann væri að lesa úr myrkri sál hans. Karl var fljótur að líta undan. 

"Stjórnarráðinu? Þarna sem strætó stoppar?"

Maðurinn kinkaði kolli. 

Karl gekk í burtu og í átt að Stjórnarráðinu án þess að þakka fyrir sig. Maðurinn á bekknum horfði á eftir honum, en stóð svo á fætur, gekk í kringum styttuna og sagði:

"Er það þetta sem þú meintir gamli vinur, þegar þú sagðir Vér mótmælum allir? Þú veist að þegar allir mótmæla, allir hafa ólíka skoðun, og enginn er tilbúinn til að hlusta, þá fyrst byrja átökin." Jón Sigurðsson stóð grafkyrr og svaraði engu, en virtist hugsi.

Víkjum aftur að Karli.

Hann gekk þungum skrefum að Stjórnarráðinu, enda klifjaður tösku fullri af múrsteinum og lóðum. Hann kom að hópi fólks sem hrópaði alls kyns slagorð sem það las af skiltum eins og "Auðvaldið burt," "Niður með ríkisstjórnina," "Fokkins helvítis fokk."

Karl var ekki með skilti. Hann fékk allt í einu kefli í hendurnar. Kona með freknur sogaði sígó og gaf honum eld. Hann veifaði rauðu blysinu og öskraði slagorð sem hann las af skiltunum. Hann fékk fleiri en eitt klapp á öxlina og fólki brost til hans. Óvenjulegt.

Hópurinn lagði af stað í hrópandi skrúðgöngu að Borginni. Aðrir menn í lambhúshettum tóku af skarið, bönkuðu á glugga hótelsins og öskruðu slagorð til að trufla sjónvarpsþáttinn. Karl gerði það sama. Hann hugleiddi eitt augnablik að taka lóð úr töskunni og grýta gegnum gluggann, en það voru of mörg vitni. Múgurinn var ekki nógu æstur. Eftir góða stund af hrópum og köllum tóku nokkrir mótmælendur sig til og stukku yfir grindverk sem leiddi inn í portið að Hótel Borg. Þegar grindverkinu hafði verið rutt úr vegi streymdu mótmælendur inn í portið og Karl í broddi fylkingar. Þau æddu beint inn, en voru stoppuð af hvítklæddum þjónum og tæknifólki með eyrnatól. Hann sló þungum bakpokanum utan í þá sem reyndu að stoppa hann.

Þá kom lögreglan. Karl huldi augun með gleraugum þegar þeir byrjuðu að öskra "Gas! Gas! Gas!" og að þetta væru ólögleg mótmæli og að fólk ætti að koma sér út. Þá sá hann tækifærið. Einn lögreglumaðurinn byrjaði að spreyja alltof snemma úr brúsa yfir mótmælendur sem reyndu skrækjandi að forða sér út úr portinu. Það gekk ekki betur en svo að einn þeirra flæktist í snúru og datt kylliflatur á andlitið og missti blysið ofan á kaplana. Það kveiknaði í þeim. Allir horfðu á reykinn. Betra tækifæri gæfist ekki. Karl kom sér upp að vegg og tók töskuna af baki sér. Hann dró upp úr henni múrstein og grýtti inn í hópinn. Lögga fékk hann í andlitið.

"Shit!" sagði Karl við sjálfan sig og drífði sig aftur inn í þvöguna og út úr hópnum. Þarna lágu mótmælendur út um allt með þrútin augu. Einn þeirra fór úr að ofan og baðaði andlitið upp úr vatni og öskraði eitthvað í myndavél og að fréttamanni sem stóð hjá. Aðrir lágu á bakinu og fengu aðhlynningu sjúkraliða og annarra mótmælenda, sem voru með augndropa, mjólk og eitthvað fleira til að vinna gegn piparúðanum. 

Lögga var borin út í sjúkrabíl. Allt var brjálað! Verki hans var lokið. Hann tók af sér gleraugun og gekk af stað. En þá steig einhver í veg fyrir hann. Hann leit upp og beint í augu föla mannsins sem hafði áður vísað honum til vegar. 

"Af hverju?" spurði föli maðurinn.

"Láttu mig vera," sagði Karl og ætlaði að strunsa framhjá honum, en fannst eins og hann hefði gengið á klett. Þessi maður er úr grjóti.

"Hverju mun ófriður skila? Viltu sjá meiri reiði og örvæntingu? Óeirðir? Hvað viltu?"

Karl fann hárin rísa á hnakkanum. Hann leit í augu föla mannsins. Þau voru djúp og stillt eins og hafið sjálft. En það var eitthvað svo skelfilega óendanlegt við þau, eitthvað sem stóð gegn öllu sem Karl trúði á.

"Helvítis," stamaði Karl,  hopaði nokkur skref og hljóp svo aftur inn í þvöguna. Þá var ýtt við honum. Hann sneri sér við. Þarna var einn af hans gömlu flokksbræðrum, og bróðir hans. Hann gleymdi sér í skyndilegum fögnuði og ætlaði að heilsa þeim, en fékk þá slíkt högg í brjóstkassann frá öðrum þeirra að hann kom ekki upp orði. Hann missti andann um stund og fylgdist útundan sér með mönnunum tveimur ganga inn í þvöguna, slá til fólks og sparka í kviðinn á manni sem lá stokkbólginn í framan. Annar þeirra öskraði á mótmælendur með reglulegu millibili: "Kommúnistahommatittir!"

Þetta voru alvöru menn. 

Karl gekk í átt að Tjörninni og á milli bíla kraup hann niður og tók af sér lambhúshettuna. Hún var orðin rök af svita. Þunnt hárið sat klesst á enninu, hann sleikti fingurgómana og lagaði hárið til. Síðan gekk hann aftur áleiðis að Stjórnarráðinu og þaðan á bílastæðið. 

Hann settist upp í hátt leðursætið og bakkaði út af stæðinu. Hann snarstoppaði. Föli maðurinn var í baksýnisspeglinum. Hann stóð fyrir aftan bílinn. Karl sneri sér í sætinu og leit út um bakgluggann. Það var enginn þarna. Hann leit aftur í spegilinn. Þarna var hann, svartklæddur í hvítri skyrtu og með rautt bindi. En þegar hann leit aftur út um bakgluggan var enginn þar. Enginn!

Karl hristi höfuðið, bakkaði út úr stæðinu og keyrði heim á leið.

"Furðulegur andskoti," tautaði Karl og kveikti á Léttbylgjunni. Úr hanskahólfinu tók hann súkkulaðihjúpaðan próteinbita og raulaði með Madonnu, og söng loks af innlifun þegar hann keyrði framhjá Seðlabankahúsinu:

Some boys kiss me, some boys hug me
I think theyre o.k.
If they don't give me proper credit
I just walk away

They can beg and they can plead
But they can't see the light, that's right
cause the boy with the cold hard cash
Is always mister right, cause we are

Living in a material world
And I am a material girl
You know that we are living in a material world
And I am a material girl

 

* * *

 

Mynd: Daylife.com

Texti úr sönglaginu Material Girl: Madonna

 

Þessi saga er skáldskapur. Nöfn, persónur, staðir og atburðir eru að mestu hugarsmíð höfundar og finnist samsvörun í raunveruleikanum er um hreina tilviljun að ræða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Kannski var þetta svona?

Hólmdís Hjartardóttir, 5.1.2009 kl. 01:19

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fín saga. Ætlarðu ekki að senda hana á bjartsyni.is?

Ég kíkti þangað. Hef ekki séð þetta áður. Líst bara vel á. Ætla að skoða betur.

Sæmundur Bjarnason, 5.1.2009 kl. 03:43

3 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Góð lýsing, góð saga.

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 5.1.2009 kl. 14:47

4 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Sæll.

Mér sýnist þú vera byrjaður að skrá það sem er að gerast.  Hvet þig til að halda áfram.

Jón Halldór Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 16:18

5 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Þetta er náttúrulega í hnotskurn það sem hann Hörður Torfa var að reyna að vara fólki við að gæti gerst.... en gerði það á svo klaufalegan hátt að það hálfa væri nóg

Heiða B. Heiðars, 5.1.2009 kl. 17:20

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdirnar.

Hrannar Baldursson, 5.1.2009 kl. 23:19

8 identicon

Flott saga!

Atli Þór Þorvaldsson (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 00:11

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk frændi.

Hrannar Baldursson, 6.1.2009 kl. 00:40

10 identicon

Fín saga. Hvað segir þú um "the day the earth stood still" á fimmtudag. Smá innlegg frá mér ... Gaukurinn sem "BOLDAÐI" athugasemd, glerhús máske ??? Hann spreyjar kannski á sig slatta af tómatsósu og mætir á laugardaginn?

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 01:32

11 identicon

Snilld og alls ekki svo ótrúleg atburðarrás ...

Anna Brynja (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 16:06

12 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Georg P Sveinbjörnsson, 8.1.2009 kl. 01:58

13 identicon

Frábært Hrannar, skora á þig að skrifa sögulega (skáld)sögu í þessum stíl Ég verð að viðurkenna að mér var brugðið þegar ég las fyrstu setninguna því svona hugsunarháttur virðist vera breiða úr sér. Fólk er að blindast af Evróðuumræðunni og falla í þá gröf að halda áfram að hlusta á skrílinn sem kom okkur í skítinn...

En gleðiilegt ár

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 01:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband