Samið við Breta og Hollendinga: uppgjöf eða lausn? Hver borgar skuldirnar?

Þessi færsla er öll frá Kristbirni H. komin, mér finnst hún þess virði að birta hana í heild sinni, en hún birtist sem athugasemd við síðustu grein minni fyrr í kvöld. Kristbjörn finnur til mikillar örvæntingar vegna skuldarinnar sem íslensk stjórnvöld samþykktu fyrr í kvöld og mikil reiði kraumar í þessu bréfi, en ég tel að hann hitti naglann á höfuðið þegar kemur að tjáningu tilfinninga, og að svona líði mörgum Íslendingum í dag.

Það er ljóst frá mínum bæjardyrum séð að uppgjöf kemur ekki til greina. Ég mun ekki leggjast í duftið og vonandi takast að rífa með mér í baráttu fyrir betri tímum og bjartari tíð þá sem vilja leita góðra leiða til framtíðar.


 

Sæll Hrannar. Þú afsakar að ég skrifi þér hérna nokkrar línur, mér er nú svo flökurt að ég veit vart hvað skal til  bragðs taka. Fyrir skammri stundu sá ég í fréttum að ríkisstjórn Íslands hafi samið við Breta og Hollendinga um uppgjöf í Icesave kúguninni. Þar var samþykktur óútfylltur tékki fyrir breska og hollenska innistæðueigendur gegn því að verðlausar eignir Landsbankans væru settar uppí. Ég, þú, íslenska þjóðin og ófæddir
afkomendur okkar eiga sem sagt að greiða fyrir stjórnleysi, eftirlitsleysi, fjármálaóreiðu, svik, þýfi, blekkingar örfárra einstaklinga og ráðherra.


Við erum ofurseld lýðskrumurum. Veitir enginn því athygli að í tilkynningu ríkisstjórnarinnar stóð að ekki væri vitað hver upphæði væri sem þjóðin þarf að greiða? Getur einhver viti borinn einstaklingur samið á þann hátt?


Myndi einhver semja við byggingameistara um að láta hann byggja hús fyrir sig og borga svo þegar húsið væri klárað, það verð sem meistarinn vildi fá?

Eru menn gengnir af göflunum hérna?

Með þessu er verið að segja: Bretar og Hollendingar beittu áhrifum sínum í IMF til að kúga okkur til uppgjafar. Ætli það sé búið að segja Geir Haarde það tvisvar? Hvað les maður í fréttum? Að umsóknin til IMF hafi gleymst!

Það var svo sorglegt að horfa á Spaugstofuna gera grín að þessu.

Vissulega finn ég til með breskum og hollenskum sparifjáreigendum og vil að þeir fái sínar innistæður. En ég ætla ekki að borga þær meðan Björgólfur Thor Björgólfsson á enn Actavis, fyrirtæki sem metið er á 600 milljarða króna! Eða Straum fjárfestingabanka! Eða Novator! Og ég ætla heldur ekki að borga innistæðurnar meðan Björgólfur Þór Guðmundsson á West Ham! Eða Eimskip! Og ég ætla heldur ekki að borga meðan Sigurður Einarsson og Heiðar Már þurfa ekki að greiða Kaupþing banka skuldirnar fyrir hlutabréfabrask sitt! Og ég greiði ekki krónu meðan Jón Ásgeir Jóhannesson kaupir hér hvern fjölmiðilinn af öðrum og á enn Bónus! Og ég greiði heldur ekki krónu meðan ríkisstjórnin greiðir 11 milljarða í Glitnissjóð 9 og reynir þannig að breiða yfir misgjörðir þeirra sem sátu í stjórn sjóðsins. Einhver myndi segja: Dýr mundi Illugi allur!

Ríkisstjórnin ætlast til að við greiðum skuldir þessara manna. En ég ætla ekki að greiða hana. Ég ætla að krefjast þess og berjast fyrr að eigur þeirra verði gerðar upptækar og notaðar til að greiða breskum og hollenskum sparifjáreigendum. Þurfi að leita þá uppi um víða veröld þá skal það gert. Ég læt börn þjóðar minnar ekki gjalda fyrir gjörðir örfárra einstaklinga og óvita í ríkisstjórn.

Með "samkomulaginu" er búið að viðurkenna aðför Breta á Landsbankann hafi verið fullkomlega réttmæt, þvert á það sem ráðamenn sögðu þjóðinni. Bretar hefðu aldrei tekið yfir Landsbankann ef þeir tryðu að eignir hans hefðu dugað vel fyrir skuldum. Það hlýtur því að liggja í augum uppi að eignirnar voru ekki nærri eins verðmætar og bankinn gaf upp. Hafi Bretar séð að eignir bankans hafi dugað fyrir innistæðum þá hefðu þeir aldrei gert aðför að bankanum. Bretarnir vissu að viðskiptaráðherra sagði þeim ósatt um ástand bankanna, bæði rétt áður en þeir hrundu og líka í vor þegar gjaldeyrir þjóðarinnar var að verða búinn. Hins vegar blekktu íslenskir ráðherrar þjóðina og tóku undir með fjárglæframönnunum og sögðu Breta vera vonda við þá. Ráðherrar Íslands létu taka sig í það ósmurt og virðist greinilega líka það. Þeir eru ekki að gæta hagsmuna minna né íslensku
þjóðarinnar og ég segi hér og nú að þeir sitja ekki í mínu nafni!

Getur einhver á þessari stundu, með réttu ráði, sagst vilja fara í ESB með þjóðum eins og Bretum og Hollendingum eftir álíka aðför og kúgun sem þeir hafa sýnt okkur? Samt hamast stjórnmálaflokkarnir við að breyta skoðunum sínum til að komast þar inn sem fyrst. Af hverju? Jú svo við fáum ekki að vita hve ástandið sé í raun alvarlegt.

Ég er búinn að fá nóg. Gjörsamlega nóg. Það er búið að ganga fram af mér. Ég er með óbragð í munni og sting í hjarta. Búið er að svipta mig ærunni útí hinum stóra heimi og nú stend ég einn. Ríkisstjórnin hefur svikið mig og selt börnin mín. Aldrei þessu vant er ég orðlaus, hjartað kramið og heilinn dofinn. En ég sver þess dýran eið að berjast með öllum tiltækum vopnum að falli ríkisstjórnar þeirrar sem sveik íslensku þjóðina og svipti hana hér með umboði mínu!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég ætla að svara einum bút úr þessu langa bréfi.

Getur einhver á þessari stundu, með réttu ráði, sagst vilja fara í ESB með þjóðum eins og Bretum og Hollendingum eftir álíka aðför og kúgun sem þeir hafa sýnt okkur?  

já ég, því bretar og hollendingar hafa haft rétt fyrir sér allan tímann.. og samstaða ESB ríkjanna knésetti ósiðlega aðgerð Geirs Haarde, Sollu og Dabba kóngs. 

Óskar Þorkelsson, 16.11.2008 kl. 20:37

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Enginn er að neita því að Landsbankinn framdi bankarán í Bretlandi og Hollandi. En eiga skattgreiðendur á Íslandi að borga það sem landsbankamenn stálu?

Theódór Norðkvist, 16.11.2008 kl. 22:23

3 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég tel þessar skuldir ef til vill falla undir flokkinn ólögmætar skuldir sem sum þróunarlönd sitja undir.

Ég vil benda þeim sem vilja leggja sitt afl á vogarskálar þeirra sem vilja endurheimta lýðræðið úr krumlum spillingaraflanna að þá bendi ég þeim á að koma á borgarafundinn á NASA klukkan 20 mánudagskvöld sjá hérna:

www.borgarafundur.org

Héðinn Björnsson, 17.11.2008 kl. 01:49

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Áhrifamikil og sönn grein og spurning hvort ég fæ bara ekki að birta hana líka. Ég fyrirgef svo Óskari hérna fyrir ofan af því að hann veit ekki hvað hann er að gera.  Allur þessi hildarleikur er að miklum hluta til að knýja okkur inn i þetta fasistabandalag og ég strengi þess heit hér með að ég skal gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma í veg fyrir þá landsölu.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2008 kl. 14:04

5 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Já, Hrannar minn, svona líður okkur ansi mörgum og þetta er mjög góð úttekt á ástandinu. Við verðum nú að standa upp og beita áhrifum okkar til að koma þessu fólki frá sem er búið að setja okkur í þessar ógöngur.

Steingerður Steinarsdóttir, 18.11.2008 kl. 15:38

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég þjáist með þér Búin að fá meira en nóg! Flott hjá þér að benda á hvernig landslagið hefur breyst í sambandi við Evrópusambandaðild. Þetta er svo sannarlega punktur sem er þess verður að vekja athygli á!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.11.2008 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband