Hófst stærsta bankarán aldarinnar fyrir nákvæmlega sjö mánuðum og lauk því fyrir tveimur vikum?

Þessa grein skrifaði ég fyrir 7 mánuðum. Þá hafði ég sterka tilfinningu fyrir að eitthvað alvarlegt væri að gerast í fjármálaheiminum og grunaði að stærsta bankarán sögunnar væri í gangi - og að það væri svo stórt að enginn sæi það - ég byrjaði að rannsaka málið upp á eigin spýtur, og leitaði mér upplýsinga víða um heim með Google að vopni.

 

Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?

Eru einhverjir að taka mikla fjármuni út úr bönkunum og skipta þeim yfir í erlendan gjaldmiðil, alltof hratt? Ef svo er, þá gæti eins verið komið fyrir Íslandi og fyrir Argentínu árið 1999, þegar fjárfestar hættu að treysta argentínska hagkerfinu, tóku allan pening úr bönkum, skiptu þeim yfir í dollara og sendu úr landi. Argentína var sem sviðin jörð í mörg ár á eftir. 

Árið 1994 lenti Mexíkó í hrikalegri niðursveiflu, nokkuð sem ég upplifði af eigin raun og skuldir margfölduðust á örfáum dögum. Forsendur málsins voru reknar til þáverandi forseta Mexíkó sem var að ljúka sínu síðasta ári á forsetastól, en hann dró sér gífurlegar upphæðir úr hagkerfinu, skipti yfir í erlenda mynt og flutti til Írlands. 

Er eitthvað samskonar að gerast hér á landi undir sofandi augum stjórnvalda, sem eru kannski að horfa of mikið út á við þegar mikilvægt er að við lítum aðeins í eigin barm?

Samkvæmt frétt mbl.is segir Davíð Oddsson seðlabankastjóri að "hugsanlega hafi einhverjir verið að hafa meiri áhrifa á gengi krónunnar að undanförnu en eðlilegt getur talist".

Þetta er stórfrétt í sjálfu sér, að minnsta kosti fyrir mig, því að ég hélt að ómögulegt væri fyrir fáa einstaklinga að leika sér með gengi krónunnar, og trúði að við værum í landi þar sem hlutirnir eru í föstum skorðum og gegna ekki frumskógarlögmálum, en nú hafa hagfræðingar og sjálfur Seðlabankastjóri fullyrt að það sé mögulegt. Athugið: "Að það sé mögulegt!"

Hvort að möguleikinn hafi verið nýttur er annað mál, og hugsanlega sakamál. Einnig má spyrja hversu lengi þessi möguleiki hafi verið til staðar og hvort að þetta sé í fyrsta skiptið sem svona lagað hefur hugsanlega verið gert á Íslandi, eða hvort að þetta sé líkari almennri reglu og bara fattast vegna tæknilegra mistaka?

Stýrivextir hafa verið hækkaðir um 1.25 prósent og eru því komnir í 15%. Það er mikið miðað við að stýrivextir hjá flestum öðrum Evrópuþjóðum eru um 2%, sem þýðir að lán verða ekki jafndýr fyrir almenning á endanum.

Ég ákvað að lesa mér til og reyna að fræðast um hvað stýrivextir þýða. Svo velti ég þessu fyrir mér, og þrátt fyrir að stundum hafi allt farið í hnút komst ég loks að þessari niðurstöðu:

Samkvæmt mínum skilningi þýðir þetta að ef fjármálastofnanir taka lán frá Seðlabanka Íslands verði vextir á þeim 15%. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að fjármálastofnanir taki þessi lán, því að þau geta ekki verið annað en óhagsstæð. Segjum samt að fjármálastofnanir taki þessi lán á þessum kjörum, hvað þýðir það fyrir almenna neytendur í landinu. Það er ekki um bein áhrif að ræða, þannig að spekingar geta fullyrt að þetta hafi engin áhrif á neytendur.

Aftur á móti getur þetta verið eins og tvíeggja sverð: ef fjármálastofnanir voga sér að taka lán á þessum kjörum er ljóst að þær verða að fá peningana til baka, og hvar annars staðar en hjá borgurum landsins - ef ekki í gegnum fasta vexti, þá í gegnum verðtrygginguna, - þar sem að verðtryggingar, verðbólga og stýrivextir haldast í hendur. Ef fjármálastofnanir taka hins vegar ekki lán á þessum kjörum, þá eru þær sjálfsagt ekki að endurfjármagna sig og munu þá áhrif þessara stýrivaxta vera skammvinn, og gengið byrja aftur í frjálsu falli, jafnvel innan viku.

Vinsamlegast leiðréttið mig með útskýringum sem venjuleg manneskja skilur fari ég með rangt mál.

 

Dæmisaga sem kemur okkur við:
 

 

 

mbl.isEinhverjir kunna að hafa haft óeðlileg áhrif á gengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 24.10.2008 kl. 21:46

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þörf upprifjun.  Það er hætta á að það fenni í þessa slóð ef ekki verður litið í baksýnisspegilinn.

Það var við gengisfall krónunnar í lok fyrsta ársfjórðungi sem eignaupptaka almennings hófst.  Það var við gengisfall krónunnar í lok annars ársfjórðungi sem það varð endanlega ljóst að stjórnmálamenn myndu bregðast þjóðinni með því að aðhafast ekkert, enda í sumarfríi.  Það var við gengisfall krónunnar í lok þriðja ársfjórðungs sem allt fór úr böndunum.

Magnús Sigurðsson, 24.10.2008 kl. 22:29

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

*dæs* - spjótin eru orðin enn fleiri, enn beittari og enn nær valdhöfum. Þetta var einmitt fyrirsjáanlegt og það er ekki nóg að vera vitur eftir á. Þú varst vitur fyrirfram en þau sem hefðu átt að lesa lásu ekki, hlustuðu ekki og svei mér ef þau létu ekki ógert að hugsa líka. Sorglegt fyrir okkur öll.

Berglind Steinsdóttir, 24.10.2008 kl. 22:50

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þetta er nú svolítið magnaður lestur Hrannar....!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 25.10.2008 kl. 11:50

5 identicon

Hrannar, ég held við verðum að ganga út frá þeirri staðreynd að ef glufa sé á kerfi þannig að hægt sé að græða á því, þá grípi alltaf einhver tækifærið og geri það, sé hann í stöðu til þess. Í þessu tilviki voru bankarnir í þessari stöðu og nýttu sér hana til hins ítrasta. Þetta er nátengt viðhorfi sem ég tileinkaði mér í sagnfræðinámi mínu og byggist á að því nær sem þú kemst að leið og ferli peninga í tengslum við ákveðna atburði kemstu nær sannleikanum. Followthemoney...

Eins og Magnús bendir á hér að ofan þá var einmitt harkaleg gengisfelling á mjög einkennilegum tímapunktum; rétt fyrir fjórðungsuppgjör bankanna og fyrir vikið kom upp allt önnur tala en ella hefði gerst! Fjölmiðlar fengu veður af þessu en gerðu ekkert til að rannsaka málið, bankastjórarnir svöruðu því til að um tilviljun væri að ræða! Sömu menn og eru búnir að hafa þjóðina að ginnungarfíflum í mörg ár! Síðan kemur Björgólfur gamli og segir að krónan sé orsakavaldurinn! En hún er aðeins afleiðing af spila-og græðgisfíkn manna eins og hans. Þeir voru orðnir svo stórir að þeir gátu leikið sér að krónunni að vild og Seðlabankinn gat ekkert gert í því. Lítil staðreynd sem hægt er að benda á í því samhengi: Gjaldeyrisvaraforði SÍ- 200 milljarðar, skuldir bankanna 10.000 milljarðar, aðgerðir ríkisstjórnar USA til að bjarga undirmálslánunum 70-80.000 milljarðar. Er hægt að tala um að SÍ eigi einhvern möguleika gegn bönkunum íslensku? Allar aðgerðir SÍ til að þykjast halda aftur af þenslunni sneru bankarnir upp í andstæðu sína og þöndu hagkerfið enn meira. Besta dæmið um það voru jöklabréfin sem bankarnir seldu eins og heitar lummur og héldu þar með sjálfir genginu gríðarsterku. Gerðu þeir sér ekki grein fyrir að jöklabréf upp á 1.500 milljarða myndu falla á gjalddaga og gengi krónunnar hríðfalla um leið? Í stað þess að 15% stýrivextir hefðu sint sínu hlutverki og bitið harkalega á lántökur þá hafði það þveröfug áhrif eingöngu vegna þess að bankarnir sáu sér hag að græða á þeim!

Það sem er hins vegar alvarlegast í þessu er að fjölmiðlar og ríkisstjórnin höfðu ekkert eftirlit með hvernig bankarnir fóru að þessu. Þeir litu á þetta eins og annálalýsingu, þetta bara gerðist af því það gerðist! Sú gagnrýni sem heyrðist var kæfð niður strax í fæðingu. Hver man ekki eftir orðum Sigurðar Einarssonar um að orðspor HÍ hefði beðið hnekki þegar dósent sagði opinberlega að bankarnir væru tæknilega gjaldþrota? Örfáum dögum síðar var Sigurður atvinnulaus. Hvað með orð sjálfs viðskiptaráðherra síðan í ágúst um að fjölgað hefði röddum þeirra sem væru að "væla" um slæma stöðu íslensku bankanna! Málið var að þeir voru ekki að væla heldur benda á hvernig staðan í raun og veru var. Hefði bankamálaráðherra hlustað og athugað stöðuna...? Málið er bara að það brugðust of margir; ráðherrar, fjölmiðlar, fjármálaeftirlitið, SÍ... á sama tíma... Það dapurlega er að þessir aðilar eru enn við völd; sömu aðilar og mokuðu skítnum yfir þjóðina eiga nú að moka hana upp úr honum!

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 17:10

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Galdraformúla Dabba var að taka af bindiskylduna, sem var tæki til að slá á þenslu og byggja baktryggingu. Í staðinn ætlaði hann stýrivöxtum að vera vopnið á þensluna, sem virkaði alveg þver öfugt, því fyrir vikið streymdi hér inn erlent fjármagn stjórnlaust í ávöxtunarleit og við tókum við eins og tröllkonan Gýpa og héldum að þetta yrði endalaus sæld.  Það var spilað á okkur eins og fiðlu. 

Plottið er samt flóknara eins og þú bendir á og þessi atburðarrás er með vilja stýrt, þótt þeir sem kæmu henni af stað áttuðu sig sennilega ekki á keðjuverkuninni, sem fylgdi.

IMF gengur hér erinda breta í blákaldri viðleitni til að sölsa undir sig auðlindir landsins.  Geir og Solla spila með.

Nú berst sú frétt að Bretar muni greiða innlánsreikninga ICESAVE innan 10 daga,eða jafn lengi og Geir hefur ákveðið að þegja um fyrirætlanir sínar.

Þetta þýðir að Geir hefur fallist á kúgunarkosti IMF fyrir hönd breta því ekki hafa bretar sí svona kúvent afstöðu sinni og ákveðið að taka skellinn, case closed. Þetta eru ískyggilegar fréttir og allar bjöllur ættu að hringja.

Geir þarf svo engu að kvíða því Jesúlöggan Geirjón hefur reddað honum lífvörðum og tekið saman aukalið, vopnað upp að tönnum, ef vera skyldi að fólk myndi æmta eða skræmta.  Hostile takeover með hjálp að innan.

Velkomin í New world Order. Ég bíð í 10 daga og sé til og svo panta ég mér flugmiða á lífvænni slóðir. Ég ætla ekki að gerast leiguþý breskra lénsherra.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.10.2008 kl. 19:41

7 identicon

Verð að taka undir með Jóni, þessi tímasetning Bretanna um að borga icesave er nefnilega æði merkileg í ljósi atburðarásarinnar undanfarið... tilviljun að þeir segjast allt í einu ætla að borga, strax eftir að við fáum lán frá IMF? Hefur einhver opinber aðili tekið saman af hverju við þurfum 6 milljarða dollara í lán? Hvaðan kemur sú tala? Hvað er það sem við þurfum að gera upp fyrir þá upphæð? Eigum við að halda að þetta sé peningur sem við þurfum bara að eiga á reikning til vara ef eitthvað kemur uppá? Stjórn Seðlabankans gaf út að við ættum forða til allt að 9 mánaða þó engar tekjur kæmu inn á móti. Var ekki furðulegt að þegar ISG og GHH héldu blaðamannafund og tilkynntu um lánveitingu IMF að engin spurði í hvað peningarnir ættu að fara? Ríkissjóður er svo til skuldlaus og SÍ sér um peningaútgáfu á Íslandi; því þurfum við lán uppá 6 milljarða dollara (guð veit hve mikið það sé í ISK)? Fyrir hvern erum við að fara nota þetta fé sem við ætlum að vera búin að borga fyrir 2015? Gerir fólk sér grein fyrir að miðað við gengi dollars í dag nemur þessi upphæð 5 Kárahnjúkavirkjunum? Getur verið að þessi upphæð stemmi við upphæðina sem Bretar og Hollendingar eru að krefja okkur um? Svör óskast...

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 03:17

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta var forvitnileg og gagnleg lesning. En mig langar til að lýsa eftir niðurstöðum þess sem Davíð Oddsson sagði á þessum tíma (25.03. 2008): „Ég vil ekki gefa mér að það hafi gerst en við munum fara gegnum málið til þess að sjá hvort líklegt sé að slíkar vísbendingar séu réttar.“ Fór þessi rannsókn fram? Kom eitthvað óeðlilegt í ljós? Hvar eru upplýsingarnar og hvað á að gera með þær?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.10.2008 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband