VANDAMÁLIÐ VIÐ VERÐTRYGGINGU: Af hverju einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki tapa á meðan bankarnir græða

Þegar tekin voru 80-100% húsnæðislán árin 2004 og 2005 fengu viðskiptavinir pappíra í hendurnar með útreikningum á hvernig mánaðarlegar greiðslur færu fram. Lánið var á kjörunum 4.3% sem þótti nokkuð gott, en verðtryggt. Útskýringar fylgja um að lánið væri verðbólgutengt, og að verðbólguviðmið Seðlabanka Íslands væri um 2.5%. Þú gast fengið tvenns konar útreikninga í hendurnar. Annars vegar ef verðbólga yrði 1% og hins vegar ef hún yrði í versta falli 3.5%.

Þremur árum síðar er veruleikinn allt annar en viðskiptavinum var boðið af bankanum. Þeir eru að borga þessi 4.3% eins og áður, en í stað þess að borga 2.5% eins og gert var ráð fyrir vegna verðtryggingar eru þeir að borga 15.5%. Samanlagt er lánið því á ársgrundvelli með vextina 19.8%, í stað 6.8%. Þessir vextir bætast síðan við höfuðstólinn á 12 mánaða fresti lögum samkvæmt, þannig að höfuðstóllinn eftir árið í ár á eftir að verða óviðráðanlegur. Í dag eru ný og endurnýjuð húsnæðislán á 6.5% vöxtum sem þýðir að nýir viðskiptavinir þyrftu að borga 22% í vexti árlega af nýjum lánum. Engin furða að staðan sé hæg á húsnæðismarkaði í dag.

Þetta er einföld stærðfræði.

Viðskiptavinir hafa verið sviknir af þremur aðilum í þessu máli.

Fyrst af eigin viðskiptabanka fyrir að kynna tölur sem sérfræðingar þeirra höfðu bent á, og voru kolrangar.

Einnig af Seðlabanka Íslands fyrir að hækka stýrivexti upp í 15.5%, sem þýðir að þeir sem skulda þurfa að blæða meira en nokkurn tíma áður, á meðan þeir sem lánuðu maka krókinn sem aldrei fyrr. Niðurstöðurnar af þessu óréttlæti má finna í launum stjórnenda hjá bönkunum, þeir eru að hagnast gífurlega á breyttum stýrivöxtum, á meðan einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki eru að fara á hausinn.

Það finnst mér óréttlátt.

Í þriðja lagi finnst mér ég svikinn af ríkisstjórn Íslands, sem hefur nákvæmlega ekkert gert til að vernda fólkið í landinu gegn þeim ofurkláru fjármálaspekúlöntum sem stjórna hagkerfinu sjálfu úr tryggum stöðum innan bankanna. Þegar í ljós kom að árás var gerð á íslenska hagkerfið sagði Árni Mathiesen í Silfri Egils að ríkið myndi standa með bönkunum. Þegar hann var spurður um fólkið í landinu, endurtók hann að bankarnir yrðu studdir. En hvað ef það voru bankarnir sem réðust á íslenska hagkerfið? Á þá samt að styðja þá frekar en fólkið í landinu?

Það finnst mér rangt.

Í apríl síðastliðnum tilkynnti forstjóri Seðlabanka Íslands að árás hefði verið gerð á íslenska fjármálakerfið, sem þýddi að hækka þurfti stýrivexti - sem hefur mest áhrif á blæðingu lána í dag - en það sem gerðist í raun og veru var að bankarnir keyptu inn gífurlegt magn af erlendum gjaldeyri og hættu að lána hann, þeir segja til að fyrirbyggja sína stöðu vegna erfiðleika sem þeir sáu fyrir í náinni framtíð, en sannleikurinn er sá að bankar í dag eru fyrirtæki sem þurfa að sýna eigendum sínum hagnað, og farið var í aðgerðir til að tryggja hagnað við ársfjórðungsuppgjör. Áhrifin: þessi aðgerð bjó til erfiðleika sem þýddi að allt nema laun hefur hækkað um 30%, auk þess að afborgun af öllum lánum, bæði bíla og húsnæðislánum sem tekin hafa verið með verðtryggingu, hafa aukist mikið.

now_you_can_have_any_type_of_loan

Þetta hefur verið aðal orsakavaldurinn í þeirri gjaldþrotahrinu sem er að skella á, auk þeirrar hagræðingar innan fyrirtækja sem veldur því að fyrirtæki hafa neyðst til að segja upp starfsfólki. Ekki skánar þetta þegar haft er í huga að það er einnig erfið staða víða um hinn vestræna heim vegna hækkandi olíuverðs, sem er hugsanlega hægt að rekja til meiri neyslu í Indlandi og Kína, eða spákaupmennsku hjá OPEC. Einnig hefur fall banka í Bandaríkjunum vegna gjaldfallinna húsnæðislána verið stór orsakavaldur.

Gífurleg lántaka bankanna í erlendri mynt olli gengisfellingu, en hún hafði þau áhrif að allar innkeyptar vörur hækkuðu, og Seðlabankinn sá sig tilneyddan til að hækka stýrivexti, til þess að bankarnir réðu við að greiða erlendar skuldir sínar - en þeir fengu að sjálfsögðu nauðsynlega aukningu tekna með hækkun stýrivaxta. Bankarnir hafa hætt útlánum um sinn, sem þýðir að fyrirtæki eiga ekki jafn auðvelt með að nálgast lausafé og áður, sem þýðir að spilaborgin fellur verði engu breytt.

Er efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að rannsaka þetta mál?

Getur það verið satt, að bankarnir hafi tekið þessi gífurlega háu erlendu lán, og haldið þessum peningunum fyrir sig, og í stað þess að neyðast til að borga sjálfir af sínum eignum, hafi þeir leitað í vasa allra þeirra sem eiga þegar lán hjá þeim, með því að leika sér að íslenska hagkerfinu?

Hvernig stendur á því að bankarnir græða á meðan allir hinir tapa?

Ég er ekki nógu lögfróður til að vita hvort að okurlán upp á minnst 19.8% séu ólögleg eða ekki á Íslandi, en mér finnst að svo ætti að vera.

Málið er að hugsanlega er verið að okra á skuldurum innan ramma lagana, en alls ekki í anda þeirra. Þeir einu sem geta gert eitthvað í þessu máli, er ríkisstjórnin, en þeim er mikill vandi á höndum og í raun óleysanlegur. Því hugsum okkar að ríkisstjórnin gerði það sem er rétt: hún fellir allar verðtryggingar úr gildi. Umsvifalaust færu allir viðskiptabankarnir á hausinn og hagkerfið yrði með því lagt í rúst, og þar sem Ríkið hefur verið að taka erlend lán og lánað bönkunum, er hætta á að það sama kæmi fyrir íslensku þjóðina. Sá sem vogaði sér að snerta við þessum verðtryggingum yrði sjálfsagt samstundis stimplaður sem geðveikur kommúnisti. En hvað getur ríkisstjórnin gert í dag?

Að mínu mati er aðeins eitt sem ríkið getur gert. Ef hún ætlar að halda höfði og gefa Íslendingum von, verður hún að tilkynna að hún standi fyrst og fremst með fólkinu í landinu, en ekki fyrst og fremst með bönkunum. Við verðum að vinna saman. Ríkið verður að kalla á þjóðarsátt, það verður að finna leiðir til að gera Íslendingum mögulegt að búa áfram á Íslandi.

 

Eldri bloggfærslur mínar tengdar þessum málum:

  1. Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? 25.3.2008 | 22:14
  2. Íslenskt réttlæti: Erum við að borga alltof mikið í skatta og af lánum vegna bankarána og skattsvika sem við botnum ekkert í? 12.4.2008 | 09:46
  3. Á íslenska þjóðin að redda bönkunum? 9.5.2008 | 22:46
  4. Til hvers þarf ríkið heimild til að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán? 30.5.2008 | 07:47
  5. Getur verið að vörubílstjórar noti trukka en ríkið löggur á meðan hinn sanni sökudólgur glottir í kampinn? 24.4.2008 | 19:03
  6. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið í landinu? 30.3.2008 | 19:36
  7. Dystópía eða veruleiki: Hvað ef Ísland verður gjaldþrota? 2.4.2008 | 08:48
  8. Hvar eru Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á meðan neyðarástand ríkir á fjármálamarkaði? 1.8.2008 | 06:25
  9. Af hverju hlusta ráðamenn lýðræðisþjóðar ekki á lýðinn? 4.4.2008 | 08:57
  10. Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn vinsælasti og besti stjórnmálaflokkur Íslands í dag? 8.5.2008 | 22:14
  11. Af hverju eru Íslendingar svona fljótir að gleyma? 31.1.2008 | 19:17
  12. Bóndinn sem seldi nautgripina - dæmisaga um framtíðarblindu 9.10.2007 | 22:42
  13. Hvernig verður Ísland eftir 100 ár? 23.6.2008 | 13:30
  14. Af hverju er mikilvægt að sýna frumkvæði? 3.4.2008 | 22:48
  15. Gætir þú hugsað þér að búa í gámi? 26.3.2008 | 19:48
  16. Tollurinn: með okkur eða á móti? 8.2.2008 | 18:06
  17. Hvernig stendur á því að þegar heimsmarkaðsverð á olíu lækkar, krónan styrkist og hlutabréf erlendis hækka, berast engar fréttar af lækkandi bensínverði á Íslandi? 29.7.2008 | 22:39
  18. Af hverju er eldsneyti allt í einu orðið svona dýrt? 26.6.2008 | 00:15
  19. Hvað er ábyrgð? (30 tilvitnanir) 23.3.2008 | 13:24

 

 

 

Myndir:

Loanshark: Foreclosure Educationa and Strategy

Get a Loan Through Us: IBER-Mortgages

Lánsgleði: BuckMoon.com

Vog: Brooklyn College Pre-Law



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisvert í þessu samhengi: 

http://www.youtube.com/watch?v=yP2JpY-J8MA

magga (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 10:49

2 identicon

Þegar ég horfði á þetta vídeó, þá skildi ég af hverju ríkisstjórnin mun bjarga bönkunum. Almenningur mun ALLTAF borga brúsann: með lækkandi launum, minnkandi lífeyri, minni atvinnumöguleikum.

Þetta er must-see vídeó, tekur u.þ.b. 45 mín, borgar sig að horfa.

Scandalous Banking...Money As Debt!

http://www.youtube.com/watch?v=qt_GhcQ5EtU&feature=related

magga (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 10:55

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég þakka guði fyrir að ekkert af börnum okkar var að fjárfesta í íbúðum á þessum tíma, þau sluppu við svona hrylling.  Kveðja inn í daginn

Ásdís Sigurðardóttir, 3.8.2008 kl. 12:19

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Magga: Þetta eru áhugaverð myndbönd. Mér finnst þó það fyrra frekar öfgakennt, en Scandalous Banking...Money as Debt! er furðu nálægt því sem ég hef verið að velta fyrir mér um bankamál á Íslandi.

Ásdís: Hver einasti Íslendingur sem fjárfesti í íbúð á þessum tíma er eitt af börnum þjóðarinnar sem gætu lent í vanda verði ekki brugðist við þessu. 

Einhverjar hugmyndir um hvað Ríkið getur gert í þessari stöðu?

Hrannar Baldursson, 3.8.2008 kl. 12:28

5 identicon

Frábær grein! Það sem ávallt hefur pirrað mig að aldrei er talað um ábyrgð bankanna. Stundum gæti ég óskað að allir lansmenn myndu fara í göngu til að mótmæla þessu óréttlæti sem hér á sér stað, mótmæla framkomu og siðferði bankanna og mótmæla aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Það væri svolítið flott ef allir landsmenn myndu taka sig saman og fjölmenna á höfuðstað hverns fjórðungs og sýna að það láti ekki allt yfir sig ganga. Kannski þá myndi ríkisstjórnin fara að gera eitthvað. En þú spyrð, hvað getur Ríkið gert? Reynt að koma jafnt fram við bankanna og almenning.

Rúna (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 13:20

6 identicon

Góðar pælingar hjá þér Hrannar, eins og svo oft áður:) Ég kíki oft inn á bloggið þitt og þó svo að ég komi ekkert með comment þá er gaman að fylgjast með umræðunum;)

Húsnæðislánið mitt er einmitt búið að hækka um ca milljón síðasta árið! Frekar fúlt. Ég hef svo sem engar tillögur að lausnum en einhvers konar þjóðarsátt þarf að gera til að leiðrétta þetta ástand, það er nokkuð ljóst. Hvernig á að ná því fram að það verði gert, það veit ég ekki...

Bestu kveðjur 

Elín (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 13:34

7 identicon

Sæl Öllsömul.

Góð greinarskrif hjá þér, Don of Breiðholt.

Þeim sem finst þeir sviknir af bönkunum og íslenskri fjármálstefnu ættu að kíkja við í búð á Laugaveginum sem heitir Ranimosk , og kaupa sér bol með áletruninni :

"Bankanum þínum er sama um þig" 

Límmiðar með sömu áletrun eru einnig fáanlegir í annari verslun ekki allfjarri. 

Varðandi fjármálastjórn á Íslandi, þá er ekki furða að illa fari, þegar þeir sem eiga að vera fulltrúar fólksins, kjörnir af almenningi, standa með meintum glæpamönnum, þeim sem ábyrgð á ástandinu bera.  Samanber svar fjármálaráðherra í tilvitnun hér að ofan.

Vitið þið annars hvaða menntun núverandi fjármálaráðherra hefur ? Ég veit það.

Kveðja,

Heimir H. Karlsson. 

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 13:36

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Rúna, Elín og Heimir: Kærar þakkir.

Fjöldagöngur eru að mínu mati börn síns tíma og hafa nákvæmlega ekkert að segja. Þær eru bara hunsaðar af stjórnendum, rétt eins og hin mjög svo áberandi mótmæli atvinnubílstjóra. Einu aðgerðirnar sem hefðu einhver áhrif eru kolólöglegar og myndu rústa íslensku efnahagskerfi - þ.e.a.s. ef fólkið ákveddi að fara með bankaviðskipti sín eitthvað annað - stofna nýjan þjóðbanka sem starfaði ekki með hagnaðarsjónarmið í huga, heldur verndar - og vaxtarsjónarmið innan skynsamlegra marka. Banki sem byðist til að taka yfir núverandi lán á föstum vöxtum, og hugsanlega í Evrum, í stað verðtryggingar. Ef Ríkið gæti komið að þessu, værum við strax í betri málum.

Elín: Gott að vita af þér þarna hinu megið við netið. 

Heimir: Fjármálaráðherra er víst dýralæknir. En ég veit að með honum vinna gífurlega öflugir sérfræðingar í hagfræði. Getur verið að hann skilji þá ekki eða hlusti ekki á þá, rétt eins og mér sýnist hann ekki hafa áhuga á að hlusta á fólkið í landinu - og með að hlusta meina ég: reyna að skilja stöðuna út frá sjónarhorni þeirra sem hafa eitthvað um málið að segja. Ég veit að í fjármálaráðuneytinu er skynsamt og gott fólk sem hefur djúpa þekkingu á stöðu mála. Ég er bara hræddur um, en hef ekkert rótfast fyrir mér í þessu, að þetta góða fólk sé ekki að fá tækifæri til að koma visku sinni áleiðis.

Hrannar Baldursson, 3.8.2008 kl. 14:56

9 identicon

Fólk notaði samtakamátt sinn og fór í verkföll á árum áður til að knýja á um launahækkanir.  Hvernig væri að nota samtakamáttinn núna og fara í greiðsluverkfll? 

Magnús (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 17:22

10 identicon

"Gífurleg lántaka bankanna í erlendri mynt olli gengisfellingu"

Hvernig í ósköpunum?

Einar Dagur (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 17:32

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Einar Dagur: þessari spurningu hef ég verið að velta fyrir mér síðan um páskana, og byrjaði á því í þessari færslu hérna:

Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?

Magnús: Það hefði örugglega meiri áhrif en mótmælagöngur og verkföll.

Hrannar Baldursson, 3.8.2008 kl. 17:42

12 Smámynd: Sturla Snorrason

Ótrúlegar leikreglur í fjármálageiranum, bankarnir lánuðu 80-90% af kaupverði íbúða fyrir nokkrum mánuðum, en í dag eiga þeir 100 - 110 % af söluverði sömu fasteigna. Þeir sem áttu 10-20 % af kaupverðinu verða í dag að borga bönkunum til að geta losnað við íbúðir sínar í mörgum tilfellum. Er þetta verðtrygging eða RÁN? Ef ég á 20% í minni fasteign, á ég að eiga rúmlega 20% við sölu því ég hef borgað x % af láninu síðan ég keypti. Verðtrygging húsnæðislána ætti alltaf að fylgja húsnæðismarkaði, allt annað er óréttlæti.

Sturla Snorrason, 3.8.2008 kl. 19:13

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sturla, ég er sammála þér að verðtryggingin ætti að vera í samræmi við vöruna sem keypt er, en ekki staðla úr lausu lofti gripna. Góður punktur!

Hrannar Baldursson, 3.8.2008 kl. 22:31

14 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Hrannar!   Þarna veltir þú upp málefni sem mér er afar hugleikið og hef mikið fjallað um í 27 ár, eða frá haustinu 1981, er ég hóf gagnrýni á þáverandi "lánskjaravísitölu".

Raunar eru spurningar í þessum pistli þínum sem þarfnast skýringa, einkanlega vegna þess að fjölmiðlar og fjármálafyrirtæki halda fram röngum þáttum. Einnig er þarna svolítill misskilningur um útreikninga lána með verðbótavísitölu. Í tilraun til að einfalda þessi spursmál ætla ég fyrst að bregða upp mynd af þessum atriðum.

!:  Einnig af Seðlabanka Íslands fyrir að hækka stýrivexti upp í 15.5%, sem þýðir að þeir sem skulda þurfa að blæða meira en nokkurn tíma áður,,

Af þessu má ráða að þú teljir að vextir lánastofnana þurfi að vera þeir sömu og stýrirvextir Seðlabanka.  Þetta er ekki rétt. Seðlabanki er EKKI lánastofnun í eðli sínu og möguleikar hans til að LÁNA bönkunum er settur afar þröngur stakkur. Lántaka bankanna er því að afar litlu leiti frá Seðlabanka; efast um að hún nái 1% af lántökum bankanna.

Vextir sem bankarnir ákvarða á útlánum sínum, eru algjörlega ákvörðun þeirra sjálfra og hafa hvorki skyldu, eða þörf til að fylgja stýrirvöxtum Seðlabanka. Skýringu á stýrivöxtum getur þú fundið á bloggsíðu minni.

2:  Þessir vextir bætast síðan við höfuðstólinn á 12 mánaða fresti lögum samkvæmt, þannig að höfuðstóllinn eftir árið í ár á eftir að verða óviðráðanlegur

Þarna gætir svolítils misskilnings, sem ekki er óeðlilegur, því skuldabréfakerfið er afar flókið og margþætt kerfi.  Af því sem á undan þessari tilvitnun er skrifað, má ráða að þú sést að lýsa svonefndu "jafngreiðsluláni". Það felst í því að fyrri helming lánstímans borgar lántakinn ekki nema ákveðinn hluta útreiknaðra og áfallinna vaxta í hverri afborgun. Hinn hlutinn (sem ekki er greiddur) leggst við höfuðstóla lánsins, að mig minnir einu sinni á ári.

Útreikningur verðbótavísitölu fer fram einu sinni í mánuði og kallast "verðbótaþáttur". Fyrri helming lánstímans borgar lántaki, í hverri afborgun, einungis hluta af útreiknuðum verðbótaþætti mánuðarins, en hinn hlutinn leggst við höfuðstólinn um hver mánaðarmót.  Þess vegna finnst fólki lánin alltaf vera að hækka.

Það er rétt tilfinning og byggist á því að verðbótavísitalan okkar er byggð á röngum forsendum, sem ekki geta gengið upp með eðlilegum reikningsfærslum. Verðbótavísitala okkar byggir á því að kostnaðarhækkun valdi eignaaukningu, en slíkt er algjör þversögn við alþjóðlegar skilgreiningu.

Eins og ég sagði hef ég háð margar harðar snerrur við marga merka stjórnmála- og fjármálamenn, þó lílega sé frægust átök mín vorið 1988, við Jón Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, á fundi á hótel Loftleiðum; þar sem hann varð að gefast upp við að röksyðja  þáverandi lánskjaravísitölu. Eftir þá deilu var útreikingunum breytt, við mikil mótmæli  fjármagnseigenda, sem upp úr því stofnuðu samtök, þegar ég kvatti lánsfjárnotendur til að stofna samtök.

Á þessum tíma var Danskt sérfræðingafyrirtæki fengið til þess að leggja mat á lánskjaravísitöluna okkar.  Átti það að vera til þess að þagga niður í mér. Því miður fyrir stjórnvöld, var niðurstaða þeirra nákvæmlega eins og niðurstöður mínar, með nákvmlega sömu fylgni í flæðiritum fyrir árin 1980 - 1988. Ég á eintak af þessu plaggi.

Því miður fyrir lánsfjárnotendur, sáu fjölmilar ekki ástæðu til að  geta þessara ófara viðskiptaráðherra, en hömlur voru settar á að blöð birtu eftir mig  greinar eða annað efni.

Útskýringar á því hvers vegna þessi svikamilla (veðbótavísitalan) er svona óhagstæð lánsfjárnotendum er svolítið flókin, en ef þú hefðir áhuga; umfram það sem finna má á bloggsíðu minni, skal ég reyna að skýra þessa vitleysu á mannamáli.Viljir þú það, láttu mig þá vita. 

Með kveðju frá fyrrverandi hagdeildarmanni í banka. 

Guðbjörn Jónsson, 3.8.2008 kl. 22:50

15 Smámynd: Hrannar Baldursson

Blessaður Guðbjörn, og kærar þakkir fyrir góðar athugasemdir. Öll aðstoð við að botna í þessum málum er vel þegin. Svar eins og þitt er ómetanlegt

Ég velti fyrir mér hvort að stjórnmálamenn, stjórnvöld og þjóðin ráði við fjármálakerfi sem eru langtum öflugri en nokkuð kerfi sem ríkið ræður yfir.

Það er gott að fá uppbyggilega gagnrýni sem þessa sem vísar leiðina að nákvæmari þekkingu. Það er nefnilega þannig í málum sem þessum, þá þarf fyrst að vakna grunur um að eitthvað gruggugt sé á seyði, síðan finna vísbendingar um að svo sé, reyna svo að setja þessar vísbendingar og grun í samhengi, um leið og grafa má eftir góðri þekkingu. Ég geri mér grein fyrir eigin takmörkunum. Mitt daglega vinnukerfi er ekki í fjármálaheiminum, né í pólitík, en ein af mínum sterkasta hliðum er rökfræði, og henni reyni ég að beita til að komast að kjarna mála. Ljóst er að kjarni þessa máls krefst enn frekari könnunar, og það er engin spurning, ég kafa áfram - og tjái síðan uppgötvanir mínar á máli sem ég vona að allir skilja.

Ég mun leggjast í dýpri pælingar á:

  • lánskjaravísitölunni
  • verðbótavísitölunni
  • skuldabréfakerfinu 

Og jú, það er rétt hjá þér að dæmið fjallar um jafngreiðslulán.

Stóra spurningin er: hvernig tengjast stýrivextir verðbólgu og vöxtum bankanna, ef rétt er að bankarnir nýta sér lítið þau 7 daga lán sem Seðlabankinn hefur upp á að bjóða?

Þetta eru afar spennandi pælingar, og er mikilvægt að sem flestir átti sig á þessum hlutum, því að við erum með veikt og lítið hagkerfi sem verið er að ráðast á, sama hvort að það sé frá ytri eða innri öflum í fjármálaheiminum. Ljóst er að þeir einu sem hagnast á meðan þetta ríkir, og að auðmönnum fjölgar í bankastéttunum, á meðan almenningur blæðir í viðskiptum við sömu stofnanir.

Getur þetta verið tilviljun?

Ég spyr, á hverju eru bankarnir að hagnast ef ekki á fólkinu í landinu? Einu lélegu kúnnar bankanna eru þeir sem ekkert skulda, því lítið er á þeim að græða. Skuldir keyra fjármálaheiminn áfram og hvetur fólk til að vinna hörðum höndum til að fylla upp í tómarúmið sem sífellt getur stækkað á milli þess sem það á og þess sem það skuldar.

40 ára lán væru í lagi ef hægt væri að borga þau upp á meðallaunum. En á meðan höfuðstóllinn hækkar stöðugt, er nokkuð ljóst að meðalmanneskjan er bara með "eign" sína á leigu hjá bankanum, sem getur tekið rekið viðkomandi út á gaddinn fari greiðslur að klikka. Vandinn er að líkurnar á því að þessar greiðslur fari að klikka eru stöðugt að aukast með minni kaupmætti og hærra verðlagi.

Hrannar Baldursson, 3.8.2008 kl. 23:46

16 Smámynd: Sverrir Einarsson

Ég veit ekkert um vexti eða vaxtavexti, og legg því til í umræðuna það sem bankarnir nota sér til að "verða" að haf sína vexti svona háa að æðstráðandi í Seðlabankanum haldi bara áfram að hækka þessa stýrivexti til eins og hann segir sjálfur -slá á verðbólguna- það hefur gefist svo rosavel (hér lyggur mér við að æla)

Bankarnir segjast neyddir til að hafa vextina svona háa af því að stýrivextir séu svo háir,,,,en ef það er ekki rétt, við sjáum það í afkomu bankanna,,,,,hver er þá að ljúga? (þetta væri sennilega orðað hjá fjölmiðlum "að segja ekki satt")

Svör óskast send á svei(hjá)heimsnet.is (mitt email).

Sverrir Einarsson, 4.8.2008 kl. 02:04

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hrannar, hún er dálítið góð þessi setning þín:

Einu lélegu kúnnar bankanna eru þeir sem ekkert skulda, því lítið er á þeim að græða.

Hún er að vísu ekki alveg rétt, en einu sinni héldu bankamenn þetta.  Fyrir langa löngu var til sjóður sem hét Iðnlánasjóður.  Hlutverk hans var að lána iðnfyrirtækjum fyrir nýjum vélum og tækjum.  Faðir minn, sem þá rak Prjónastofuna Iðunni, var einu sinni sem oftar að leita eftir fyrirgreiðslu hjá sjóðnum, sem var auðsótt mál.  En hann fékk að heyra það, að það væri svo erfitt að lána honum.  Hann stæði alltaf í skilum og því hefðu þeir ekkert á hann.

Ég hef svo sem enga trú á því að menn hugsi svona í dag, en geri einhver það, þá er viðkomandi bara vorkunn.

Annars held ég að þú sért að berjast við vindmyllur og að einhverju leiti misskilur þú hlutina.  Enn sem komið er, er verðtrygging lána ekki komin upp í nema 13,6% á ársgrundvelli.  Það sem lánin hafa hækkað um á síðustu mánuðum eru mun lægri prósentur.  Milli mars og apríl var hækkunin 3,4%, milli apríl og maí var hún 1,4%, milli maí og júní var hún um 0,9% og loks 0,9% milli júní og júlí.  Þetta eru þær hækkanir sem hafa orðið á verðtryggðum lánum á sama tíma. Þær eru því hvorki 15,5%, eins og þú segir, eða 13,6% eins og ársverðbólgan stendur í, heldur er hækkun lánanna frá því í mars 6,74% eða 67.433 kr. á hverja milljón.  Frá því í ágúst í fyrra er hækkunin aftur 136.000 kr. á hverja milljón. Þannig leggja síðustu fjórir mánuðir til tæplega helming árshækkunarinnar á móti næstu 8 mánuðum þar á undan.  Þetta er mun minni hækkun, en kemur fram hjá þeim sem skulda í erlendri mynt.  Munurinn er sá, að höfuðstóll erlenda lánsins lækkar, ef gengið hækkar aftur, en höfuðstóll verðtryggðalánsins lækkar ekki nema annað tveggja gerist: a) verðhjöðnun verði milli mánuða, b) þú greiðir sjálfur niður höfuðstólinn.  Vandamálið er, að afborgunarhluti greiðslna er sjaldnast nógu hár í verðbólgu eins og núna er til að höggva skarð í verðtryggðan höfuðstólinn.  Það gerist ekki fyrr en annað hvort verðbólgan lækkar eða verðtryggður afborgunarhluti greiðslunnar er orðinn verulega hár sem er svona um miðjan lánstímann.

Ég er alveg sammála þér í því að verðtrygging er barn síns tíma og þarf að hverfa.  Ég gef lítið fyrir þau rök að það sé ekki hægt vegna lífeyrisskuldbinda lífeyrissjóðanna og gef heldur ekki mikið fyrir þau rök að verið sé að verja réttindi sparifjár eigenda.  Í fyrsta lagi er sparnaður utan lífeyrissjóðanna mjög lítill hér á landi og í öðru lagi hafa menn undanfarin ár ekki verið að leggja mikið í verðtryggða pappíra.  Aðrir pappírar hafa verið að gefa betur af sér og menn flýja ekki í verðtryggðu bréfin fyrr en gefa tekur á bátinn.  Ég gef heldur ekki mikið fyrir að menn geti tekið óverðtryggð langtímalán, þar sem slík lán eru almennt ekki í boði með föstum vöxtum heldur með breytilegum vöxtum.  Og jafnvel þegar þau eru boðin með föstum vöxtum, þá er í lánskjörunum að finna ákvæði sem leyfa viðkomandi lánastofnun að hækka þá myndist mikið misvægi.

Marinó G. Njálsson, 4.8.2008 kl. 02:08

18 identicon

Bankarnir komu inn á húsnæðismarkaðinn fyrir 4 árum síðan. Þeir skelltu 400 milljörðum á borðið og sögðu: Við skulum lána öllum sem vilja kaupa sér íbúð 100% lán á lægri vöxtum en Íbúðalánasjóður." Á þeim tíma kostaði 4 herbergja íbúð í vesturbænum milli 12-14 milljónir. Í dag kostar sambærileg íbúð 25-28 milljónir. Ekki slæm fjárfesting á sínum tíma, afleit í dag. Áður en bankarnir fóru inn á íbúðamarkaðinn var ekki óvenjulegt að kaupendur þurftu að eiga 35-40% fyrir kaupverði íbúðarinnar en með tilkomu bankalánanna þurftirðu ekki einu sinni að eiga fyrir vaksinum á salerninu. Eðlilega hlupu allir sem bjuggu á leigumarkaðaði og áttu ekki lausafé til og keyptu sér íbúð. Eftirspurnin margafaldaðist og verðið rauk upp úr öllu valdi. Bankarnir gáfu út yfirlýsingar að þeir gætu haldið áfram að lána á þessum vöxtum í langan tíma, það væri ekkert sem gæti stöðvað þá í lánaveitinugm. Fólk streymdi í bankana og skrifaði undir lán en jafnframt þrælayfirlýsingu um að verða bankanum að eilífu trúr viðskiptavinur meðan verið væri að greiða 40 ára lán niður. Fyrir vikið var fékk viðskiptavinurinn meira lán til að greiða niður aðrar skuldir sem hugsanlega voru hjá öðrum bönkum eða til að kaupa ný húsgögn eða nýjan bíl. Þannig voru viðskiptavinirnir húkkaðir hver af öðrum. En spáði einhver í hvað 40 ára lán er langur tími? Vissu þeir sem voru að taka lán til 40 ára að fyrir 25 árum síðan var verðbólga á Íslandi yfir 100%? Vissu þeir sem voru að taka lán til 40 ára að Seðlabankinn hefur síðustu 40 mánuði náð verðbólgumarkmiði sínu innan við 25% á tímabilinu? Vissi sá sem var að taka 10.000.000 kr. lán til 40 ára að hann verður búinn að greiða bankanum 48.000.000 í lok lánstímans ef verðbólga helst í 2,5% út lánstímann? Vissi sá sem var að taka 10.000.000 lán til 40 ára að hann verður búinn að greiða banakanum 77.000.000 í lok lánstímans ef verðbólga helst í 5% út lánstímann? Rán?

En bankarnir hættu ekki og freistuðu nýrra viðskiptavina með erlendum lánum, einmitt á uppsveiflutímabili íslensku krónunnar. Sem þýddi að það var afar auðvelt að freista íbúðakaupenda með léttri greiðslubyrði - meðan krónan var sterk! Og að sjálfsögðu til allt að 40 ára. En sé gengi krónunnar skoðað í sögulegu samhengi þá blasir við hvers konar óráð er að veita almenningi slík lán til langs tíma. Ástæðan er einföld og barnaleg; sveiflurnar eru gríðarlegar. Tökum tilviljunarkennd tímabil á gengi US dollars (frá árinu 2000 hefur hann hæst farið í 109 krónur, lægst í 58 krónur, á aðeins 8 árum (8 ár eru aðeins 1/5 af 40 árum!!)): des 2002-89 kr., mars 2003-71 kr., sept 2003-81 kr., mars 2005-58 kr., mars 2006-78 kr. Af þessu sést hve munirinn á greiðslubyrðinni er gríðarlegur og getur sveiflast um tugi prósenta á örfáum mánuðum.

En hvað gerðist síðan? Þar sem húsnæðisverð hækkaði vegna vaxandi eftirspurnar, þá hækkaði verðbólgan líka. Það var sama hvaða spár Seðlabankinn og hinir bankarnir birtu um verðbólgumarkmið; meðan húsnæðisverðið náði hæstu hæðum mánuð eftir mánuð komst verðbólgan á skrið. Og hvað þýddi það? Lánin hækkuðu stöðugt! Sömu lán og bankarnir voru að veita. Sömu lán og bankarnir töldu að miða ætti við 4-5% verðbólgu! Vissu sérfræðingar í bönkunum ekki að erfitt yrði að ráða við verðbólguna meðan húsnæðisverð var að hækka? Hvernig átti að vera hægt að ráða við verðbólguna ef einn stærsti liðurinn í vísitölunni var á stjórnlausri hraðferð í hæstu hæðir? Og á meðan verðbólgan hækkaði, þá hækkuðu lánin. Og greiðslubyrðin varð erfiðari. Og margir sem ekki áttu möguleika á að kaupa sér íbúð áður einmitt vegna þess að þeir stóðust ekki greiðslumat, lentu og lenda verst í því. Og þegar þeir geta ekki borgað eignast bankarnir íbúðirnar. Og þeir selja þær síðan áfram á lánum sem tekin eru hjá þeim. Og þannig tekst þeim á 10-15 árum að grafa undan íbúðalánasjóði! Sem var markmið þeirra í upphafi, en það er önnur saga. Og krónan féll! Og greiðslubyrðin hækkaði enn meira hjá fjölskyldum landsins...

Þú afsakar þessa langloku mína Hrannar, ég skal hætta núna. Reyndar langaði mig frekar til að tala um siðferðið í þessu máli sem mér finnst mun áhugaverðara en þegar ég byrjaði að skrifa festist ég á þessari braut. Mig langar bara samt segja að lokum að kaldhæðnin í þessu öllu er sú að nú verða stjórnvöld að vonast til að húsnæðisverð lækki svo hægt verði að halda aftur af verðbólgunni. Það þýðir að fjölskyldur og einstaklingar sem keyptu sér hús á 100% láni hafa þrjá kosti: Láta bera sig út, selja eignina og borga með henni eða vera í átthagafjötrum næstu árin og borga mun hærri afborganir af eign sem er mun minna virði... Gæfulegt...

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 4.8.2008 kl. 02:19

19 Smámynd: Sævar Einarsson

Góð grein hjá þér Hrannar ! ég er með lausnina á öllum þessum vanda og hún er að einkavæða Alþingi og gera það að Alþingi ehf og láta fólkið í landinu stjórna, (við erum jú valdið á 4 ára fresti !), ekki fégráðuga karla sem eru siðblindir með meiru, rétta klink í spítalana og reisa sér hallir og ráðuneyti og fleira fínt fínt, það þarf stjórnarbyltingu og það fljótt.

Sævar Einarsson, 4.8.2008 kl. 04:03

20 identicon

Eftirfarandi greinarstubb skrifaði ég og lét birta í MBL 27.11.2006. Ég get ekki betur séð en hún eigi bara enn betur við í dag

"Í verðtryggðu samfélagi eins og á Íslandi er það enginn hvatning fyrir lánastofnanir að vera Seðlabanka og ríkisstjórn til aðstoðar í baráttunni við verðbólgu og er það vegna þess að þeir fá alltaf sitt og að auki vexti. Með öðrum orðum það er enginn ástæða fyrir þá að vera að ómaka sig með þessu og halda niðri verðbólgu, þeir eru öruggir með sitt. 

Þegar samfélag er ekki verðtryggt þá fá lánastofnanir ekki verðbætur og svo vexti þar á ofan heldur bara vexti, þetta þýðir að þegar verðlag fer hækkandi og þar með verðbólgan þá byrja lánastofnanir strax að tapa og þá draga þær strax úr lánveitingum og þar með kaupgetu fólks og fyrirtækja. Þetta hefur þau áhrif að verðbólgan hjaðnar fljótt og lánastofnanir halda sinni álagningu (vöxtum). En í nútíma markaðshagkerfi er það vilji til að kaupa og aðgangur almennings og fyrirtækja að fjármagni en ekki Seðlabanki og ríkisvald sem stjórna, þar sem opinberir aðilar eru orðnir peð í krónum og aurum talið.

Þegar verðtrygging var sett á var ekki svoleiðis umhorfs á fjármálamarkaði. Þá réðu misvitrir stjórnmálamenn ferðinni og áttu þeir auðvelt með að draga úr framboði peninga með einföldu pennastriki.Þetta er hagfræði í sinni einföldustu mynd og lítur að framboði og eftirspurn. Áhrif þessara breytinga myndi helst koma fram í mun jafnari og minni hagsveiflum sem eru til mikilla bóta fyrir alla, en það er aðalmálið.

Tregða við að breyta þessu kerfi strax er bara en ein birtingarmynd vanþekkingar alþingismanna á markaðshagkerfi. Það er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af bönkunum þeir eru með sérfræðinga í þessum málum sem passa þá, og vita þetta allt saman nú þegar. Þegar verðtrygging er afnumin þá er það bara á nýjum lánum. Eldri lán njóta strax verndar þess umhverfis sem þá kemst á það er óverðtryggðra lána. Þau eldri hækka ekki mikið þar sem verðbólga verður strax minni og jafnari. Þessi lán verða svo greidd upp á einhverjum ótilteknum tíma sem er styttri en lánstíminn ef þau eru lántakanda óhagstæð af einhverjum ástæðum.

Þetta er ferli sem þarf að undirbúa vel en þegar það kemst á þurfa umskiptin að vera hröð og örugg til að fjármálamarkaðurinn verði ekki fyrir höggi."

Svona smá til viðbótar,

Það má líka ljóst vera að það að bankarnir gera ekki upp í Evrum hefur líka stuðlaða mikið að falli krónunnar vegna þess að nú aukast svo mikið eignir þeirra erlendis þegar allt er gert upp í ISL krónum.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 4.8.2008 kl. 08:25

21 Smámynd: Villi Asgeirsson

Virkilega góð færsla og athugasemdir. Hér í Hollandi erum við að borga uþb. 5% vexti af húsnæðinu. Hægt er ð taka lán með föstum vöxtum til 5, 10 og 25 ára, með hærri vöxtum eftir því sem lánstíminn er lengri. Eftir umsaminn tíma er samið um nýja vexti, eða maður getið farið annað með lánið. Lánið er óverðtryggt, enda er það séríslandkt kerfi, held ég. Er þetta ekki gullið tækifæri fyrir erlenda banka, eða fjársterka aðila, að koma sér fyrir á íslenskum markaði? Bjóða lán á eðlilegum vöxtum, án verðtryggingar? Ég er viss um að þeir fengju nóg af viðskiptum, jafnvel þótt lánin væru í erlendri mynd þar sem krónan er nú sennnilega "rétt" skráð.

Villi Asgeirsson, 4.8.2008 kl. 08:37

22 identicon

nr. 9 - Magnús: Góð hugmynd að fara í greiðslu-verkfall.

Ef næðist almenn samstaða. En þegar almenningur fer að komast í aukin vanskil, þá er þeim ráðlagt að byrja alltaf á því að greiða af lánum sínum áður en peningarnir eru notaðir í annað. Og þá er að skera niður: áhugamálin, ferðalögin, föt, snyrtingu.

Þegar það er búið, þá kemur að matnum. Og ef það er ekki hægt lengur, Steingrímur í hvert mál (hrísgrjónagrautur fyrrv. forsætisráðherra, en sá hinn sami var sá sem opnaði fyrir leigu á kvóta í den).

Allt til að bankarnir fái sitt?

hildur (IP-tala skráð) 4.8.2008 kl. 09:12

23 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kærar þakkir fyrir góðar samræður.

Sverrrir: Ég vil einmitt staldra við þessa setningu hjá þér: "Bankarnir segjast neyddir til að hafa vextina svona háa af því að stýrivextir séu svo háir." Hefurðu séð þetta einhvers staðar á prenti? Mér finnst þetta afar áhugaverð tenging og væri spennandi að komast til botns í muninum á milli kenninga um hvað á að gerast og því sem gerist í raun og veru, því ég sé að það er himinn og haf á milli.

Marínó: Ágætt að vísa í Don Quixote de La Mancha, að ég sé að berjast við vindmyllur, enda kallaður Don Hrannar de Breiðholt og besti bloggfélagi minn Sancho. En er ég að ráðast á vindmyllur? Ég veit ekki til þess að ég sé að ráðast á einn eða neinn, eða eitt eða neitt. Ég er einfaldlega að setja fingur á það sem mér finnst mest truflandi í tilverunni í dag, og leita lausna. Ég er ekki hræddur við að misskilja einhverja tæknilega hluti, svo framarlega sem ég misskil ekki kjarna málsins. En ég er afar þakklátur fyrir leiðréttingar á slíkri ónákvæmni.

Hvar finnur þú upplýsingar um að verðtrygging lána sé 13.6% á ársgrundvelli? Það þýðir reyndar að 4.3% lán sé 17.9% en ekki 19.8%, og 6.8% lán sé 20.4%; sem þýðir að einhver ónákvæmni var í greiningu minni, en tókst samt að vera furðu nálægt sannleikanum. 

Hvernig leggur þú til að leggja skuli niður verðtryggingar? Það er nokkuð ljóst að erlendir bankar hafa engan áhuga á að koma inn á okkar markað, þar sem þeir meta húseignir okkar ekki jafn hátt og markaður okkar gerir. 

Hver er leiðin út úr þessum vítahring sem hefur verið skapaður, áður en allt fer í óefni á nákvæmlega þann hátt sem Kristbjörn lýsir í athugasemd hér fyrir ofan?

Sævarinn: Þessi tilfinning að Alþingi gagnast ekki þjóðinni er áhugaverð. Við mættum spyrja okkur hvort við værum eitthvað verr stödd ef við legðum stjórnkerfi okkar niður og byrjuðum upp á nýtt.

Magnús Orri: Það er rétt að það er mikið áhyggjumál hversu mikið gap virðist vera á hæfni bankastarfsmanna og ríkisstarfsmanna þegar kemur að þessum málum. Ég lít svo á að Ríkið sé tæki þjóðarinnar til að verjast aðsteðjandi ógnum, en það er bara ekkert að gerast í þeim málum. Ríkið virkar óvirkt og áhugalaust gagnvart þörfum og högum almennings, og gleymir að það var fólkið í landinu en ekki bankarnir sem kusu það til starfa. Ég hef djúpar áhyggjur á þessu.

Villi: Þakka þér. 5% vextir er eðlilegt og viðráðanlegt fyrir alla þá sem þurftu að taka sér lán til að fjárfesta í húsnæði. Spurningin er bara hvort að nokkur erlendur banki myndi treysta okkur nógu mikið til að lána okkur slíkar upphæðir á þessum eðlilegu kjörum.

Hildur: Þú ert að lýsa veruleikanum eins og hann var í kreppunni miklu árið 1929 og gæti hæglega gerst hér á Íslandi innan skamms, nema gripið verði í taumana. Það er bara eins og enginn sé í brúnni.

Kristbjörn H: Frábær greining hjá þér og svo sannarlega á mannamáli, það væri óskandi að þú skrifaðir langlokur við allar mínar greinar.  Þá værum við með samloku.  Mér sýnist þetta einmitt vera veruleikinn sem er rétt handan við hornið, en sem betur fer, ennþá rétt handan við hornið:

Það þýðir að fjölskyldur og einstaklingar sem keyptu sér hús á 100% láni hafa þrjá kosti: Láta bera sig út, selja eignina og borga með henni eða vera í átthagafjötrum næstu árin og borga mun hærri afborganir af eign sem er mun minna virði.

Er þetta framtíð sem við viljum fyrir íslensku þjóðina?

Ekki ég.

Hrannar Baldursson, 4.8.2008 kl. 10:50

24 identicon

  • Endurbirt vegna fljótfærni.

Þakka þér fyrir Hrannar,

að koma þessari umræðu á stað í gegnum síðuna þína.  Auðvitað ætti þetta að vera efst á baugi fjölmiðla miðað við hvað það snertir marga, en eignarhaldið á þeim leifir það kannski ekki.  Verðtryggingin eins og á hana er spilað í dag, er að mínu mati svo siðlaus að það að  greiða ekki af vonlausum lánum ætti að vera forgangsatriði hvers hugsandi manns,  hann getur ekki tapað á því.   Mig langar til að benda á efni sem birtist  1. feprúar á síðunni www.vald.org  þar sem meðal annars þetta er að finna.

  • Nýtt fyrirtæki í Kaliforníu (verður brátt miklu víðar) er tímanna tákn. Það kennir fólki, gegn hóflegri greiðslu, hvernig það getur grætt á að fara undir hamarinn! Þetta er allt löglegt og byggist á að ótal hús kosta minna en lánin sem á þeim hvíla. “Hættið að borga bankanum, búið frítt í húsinu í a.m.k. átta mánuði (lágmarkstími þegar menn kunna á kerfið) , eyðið ekki centi í viðhald og labbið síðan út.”
  • Stofnanir sem veita fasteignalán hafa á undanförnum árum “pakkað” þessum lánum og selt til þriðja aðila. Oft hefur þeim síðan verið endurpakkað mörgum sinnum. Það færist því í vöxt að þegar handhafar síðustu keðjubréfanna fá ekki borgað og þeir ætla að setja veðið (húsin) undir hamarinn að þeir eru ekki með neitt afsal í höndunum. Nokkrir dómarar í Bandaríkjunum hafa neitað að bjóða húsin upp á þeirri forsendu að einhverjir skuldapappírar (t.d. afleiður) sanni ekki eignarrétt. Ef þetta viðhorf breiðist út þá er fjandinn laus því milljónir einstaklinga geta hreinlega hætt að borga af fasteignalánum og haldið áfram að búa í húsum sem ekki er hægt að bjóða upp. Þetta plagg sýnir eina höfnun dómstóla:

Magnús (IP-tala skráð) 4.8.2008 kl. 12:38

25 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

svona pistill eða postilla er ekki fyrir gamla kalla eins og mig. Við sofnum yfir svona löguðu.

En þú greinilega ekki fengið að ríða lengi.

Sigurður Sigurðsson, 4.8.2008 kl. 13:19

26 Smámynd: Ómar Ingi

Skítt með Kerfið

Ómar Ingi, 4.8.2008 kl. 14:08

27 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir þettta Magnús. Ég varð var við þessar auglýsingar þegar ég var í Bandaríkjunum í sumar, en leyfi mér að efast um að þetta sé góð hugmynd, því að jú, eins og þú segir: þá verður fjandinn laus. Viljum við það?

Sigurður:

Ómar: Ertu farinn að auglýsa fyrir símafyrirtæki?

Hrannar Baldursson, 4.8.2008 kl. 14:13

28 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Upplýsingar um vísitölubreytingar eru á vef Hagstofunnar www.hagstofan.is undir hagtölur >> Verðlag og neysla >> Visitala neysluverðs

Marinó G. Njálsson, 4.8.2008 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband