Indiana Jones and the Raiders of the Lost Ark (1981) ****

 

Í tilefni þess að Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull verður frumsýnd í dag, gagnrýni ég Raiders of the Lost Ark, fyrsta ævintýri Indiana Jones á hvíta tjaldinu.

Fornleifafræðingurinn Indiana Jones (Harrison Ford) er stundakennari við fornleifafræði í háskóla. Hann hefur samt frekar lítinn tíma og áhuga til kennslu. Mestur hans tími fer þó í að stela menningararfleifðum annarra þjóða og koma þeim á bandarísk söfn, en hann telur það vera göfugt starf. Þegar hann er í fornleifagripaleit er hann alltaf með hatt, svipu og skammbyssu innan handar.

Hann stundar að stela vel vörðum forngripum, sem helst er lífshættulegt að nálgast. Þrátt fyrir að vera þjófur menningararfleifða hefur Indy hjartað á réttum stað, sérstaklega þegar kemur að því að velja sér stöðu á milli góðs og ills.

Helstu keppinautar hans er hinn franski Dr. Rene Belloq (Paul Freeman), en hann á það til að láta Jones um skítverkið og hirða svo af honum gripina þegar honum hefur tekist að komast í gegnum lífshættulegar þrautir og erfiðleika. Belloq er sniðugur samningamaður og fær ætíð stóra hópa í lið með sér, á meðan Jones er eins og smákrimmi sem fær sér smákrimma sér til aðstoðar, sem er síðan alls ekki treystandi.

Indiana Jones er afar fundvís og fer létt með að leysa hvaða þrautir sem er, og hann er snillingur að komast lífs af, sama hversu mikilfenglegt vandamál hann fæst við.

Eftir að hafa tapað fyrir Belloq enn einu sinni í æsilegu byrjunaratriði þar sem að Indiana Jones er svikinn af aðstoðarmanni sínum Satipo (Alfred Molina), reynir að stela fornum grip og er eltur af risastórri kúlu og síðan indíanaættbálk, og hann kominn í skólastofuna þar sem hann fræðir nemendur um muninn á staðreyndum og sannleika, fær hann og hans traustasti vinur Dr. Marcus Brody (Denholm Elliot)  heimsókn frá bandarísku leyniþjónustunni.

Lærifaðir Indiana Jones, Dr. Abner Ravenwood, hefur fundið hina fornu borg Tanis, þar sem sáttmálaörk Móses er geymd. Fara sögur af því að örkin geymi mátt Guðs og enginn geti sigrast á þeim sem stjórnar henni. Þar sem að árið er 1936 og stutt í síðari heimstyrjöldina, eru nasistar á höttunum eftir örkinni þar sem að þeir vilja að sjálfsögðu sigra heiminn fljótt og örugglega. Þeir eru þegar byrjaðir að grafa upp Tanis og hafa fundið kortaherbergi sem á að geta vísað á sáttmálsörkina, en til þess að finna hana þarf að hafa ákveðinn hlut í höndunum sem notar sólarljós til að vísa á réttan stað.

Þennan hlut á Marion Ravenwood (Keren Allen), gömul kærasta Indiana Jones og dóttir Abner Ravenwood. Hún á heima í Nepal þar sem hún rekur krá. Indy heimsækir hana og í humátt á eftir honum koma nasistar, sem brenna niður krána. Þannig að Indiana Jones fer ásamt Marion til Egyptalands, þar sem þau ælta að stela örkinni saman, ásamt góðum vini þeirra Sallah (John Rhys-Davies).

Indiana Jones, Marion og Sallah hefja nú afar spennandi kapphlaup við nasista um að finna örkina og koma henni undan. Nasistarnir hafa fengið Belloq til liðs við sig, en leiðtogar nasista eru hinn kvalarlostafulli SS maður Arnold Toht (Ronald Lacey) og Dietrich hershöfðingi (Wolf Kahler).

Nokkur af best útfærðu atriðum kvikmyndasögunnar er að finna í Raiders of the Lost Ark. Byrjunaratriðið er snilldarverk, sem og eltingarleikur þar sem Indiana Jones fer ríðanda á hesti og ræðst einsamall á bílalest nasista. Einnig er þarna að finna eitt besta slagsmálaatriði kvikmyndasögunnar, þar sem Indy slæst við risastóran nasista á meðan Marion er læst inni í flugvél, en umhverfið er fullt af bensíni, eld og nasistum. Einnig er að finna í þessu eitt fyndnasta ekki-bardagaatriði sögunnar, þar sem að Indy þarf að takast á við mjög svo vígalegan mann með stórt sverð.

Raiders of the Lost Ark er ein skemmtilegast ævintýramynd sem gerð hefur verið. Hver einasti rammi er skemmtilega leystur, og framvindan er snörp og spennandi. Spielberg tekst alltaf að finna áhugavert sjónarhorn, og svo er ekki verra að hinn fámáli Indiana Jones segir setningar sem auðvelt er að muna loks þegar hann hefur eitthvað að segja. Tónlistin eftir John Williams er einnig mögnuð og grípandi.

 

Leikstjóri: Steven Spielberg

Einkunn: 10


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Sá þessa kvikmynd núna í Lisbon í Portugal í kvikmyndahúsi og það var upplifun sem ég hafði ekki upplifað síðan ég sá hana fyrst í den í háskólabíói.

Ómar Ingi, 18.5.2008 kl. 19:54

2 Smámynd: AK-72

Ertu semsagt í Indy-maraþoni eins og ég og kvikmyndaklúbburinn sem ég er í?

Allavega hér er smá trivia fyrir ykkur. 

1. Shoot the swordsman-senan kemur reyndar áður fyrir í myndinni Seven frá 1979 og ef mig minnir rétt, þá var það Kínverji með sverð sem var skotinn.

2. Þjóðverjinn sem Jones slæst viið, í kringum flutningavélina, birtist í öllum myndunum og slæst við hann í hvert sinn ef mig minnir rétt.

3. Skilst að það sé hægt að spotta ákveðin vélmenni úr Star Wars í map room-senunni. 

AK-72, 18.5.2008 kl. 23:58

3 identicon

ekki buinn að sja hana... ekkert liggur á...vona samt að John Williams hafi ekki samið tónlistina... hann er sá tónlistarmaður sem hefur eyðilagt flestar bíómyndir!

Hef verið að skoða eldri Indy myndirnar og Star Wars og það er bara varla hægt að horfa a myndirnar fyrir háværri og leiðinlegri tónlist 100 manna sinfóniu hljómsveitar! 

sigurður örn brynjolfsson (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 14:09

4 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þetta er ein af mínum uppáhaldskvikmyndum og ég hlakka heil ósköp til að sjá þessa nýju Indiana Jones mynd.

Steingerður Steinarsdóttir, 19.5.2008 kl. 16:43

5 identicon

án efa ein besta mynd sem ég hef séð, brilliant Byrjunar atriðið er eins og lítil saga inn í allri myndinni, magnað

Oddur (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 17:55

6 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég bara elska þessar myndir...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 20.5.2008 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband