Iron Man (2008) ****

Glaumgosinn, milljarðamæringurinn og vopnasölumaðurinn Tony Stark (Robert Downey Jr.) fer til Afganistan að sýna nýjustu uppfinningu sína, sprengju sem kallast Jerico og getur valdið gífarlegum skaða á miklu svæði. Ráðist er á bílalest hans og allir samfylgdarmenn drepnir, en hann handsamaður af hryðjuverkamönnum. Hann fær í sig fjölda sprengjubrota, og sum þeirra festast það djúpt í líkama hans að ekki er hægt að ná þeim út.

Með Tony í haldi er vísindamaðurinn Yinsen (Shaun Toub) sem hannar rafsegulapparat sem hindrar sprengjubrotin frá því að renna í hjarta Tony og kemur þannig tímabundið í veg fyrir dauða hans. Hryðjuverkamennirnir heimta að Tony smíði handa þeim öfluga sprengju, sem hann samþykkir að gera, en í stað þess að smíða sprengjuna smíðar hann utan á sig tölvustýrða brynju sem hann notar til flótta. Það var lítið mál fyrir hann að fá alla aukahluti sem hann þarfnast, því að hryðjuverkamennirnir eru með miklar vopnabirgðir frá fyrirtæki hans.

Þegar heim er komið er fyrsta verk Tony Stark að tilkynna á blaðamannafundi að Stark Industries sé hætt vopnaframleiðslu. Hann hefur ákveðið að snúa við blaðinu og vill í stað þess að taka þátt í biluðum stríðsleikjum, reyna að koma einhverju góðu til leiðar. Þessi tilkynning fellur í grýttan jarðveg hjá hans bestu félögum. Besti vinur hans, Jim Rhodes (Terrence Howard) sem er yfirmaður í vopnaþróun bandaríska hersins hættir að tala við hann. Aðstoðarmaður hans, Pepper Potts (Gwyneth Paltrow) hefur hug á að segja starfi sínu lausu. Og félagi hans til 30 ára, sem stofnaði Stark Industries ásamt föður hans, Obadiah Stane (Jeff Bridges) tekur fréttunum það illa að hann fær stjórn fyrirtækisins til að hunsa Tony.

Tony tekur til við að uppfæra brynjuna, þróar búnað til að geta flogið og skotið höggbylgjum, auk ýmissa aukatækja. Hann gerir margar spaugilegar tilraunir þar til hann er sáttur við tækið, og setur sér síðan að nýta þetta nýja vopn til góðs. En það er svikari í innsta hring, sem hefur meiri áhuga á að sjá Tony dauðan en lifandi. Þar að auki hefur dularfull leyniþjónusta aukinn áhuga á starfsemi hans.

Það er semsagt nóg að gerast í Iron Man, mikið drama, mikið grín og mikið fjör. Tæknibrellurnar eru hreint afbragð og þjóna sögunni afar vel. Robert Downey Jr. sýnir og sannar enn einu sinni hversu magnaður snillingur hann er, en hann gerir Iron Man að trúverðugri persónu sem maður fær djúpa samúð með. Gwyneth Paltrow er einnig góð í sínu hlutverki, Jeff Bridges hreint afbragð sem hinn gamli samstarfsfélagi, en Terrence Howard fannst mér óvenju stirður, sem fylgir reyndar kannski hermannahlutverkinu.

Ég get ekki séð hvernig Iron Man hefði getað verið betri mynd, miðað við efni og aðstæður, og því gef ég henni hæstu einkunn. Reyndar er töluvert ofbeldi í myndinni og hefur það raunveruleikablæ, þrátt fyrir að sagan sé byggð á teiknimyndasögupersónu. Ég held að Iron Man muni koma flestum sem gefa henni tækifæri skemmtilega á óvart. Þó að hún sé frá sömu framleiðendum og Spider-Man og Hulk, er hún allt annars eðlis. Það eru engir ofurkraftar til staðar, heldur bara snilldar uppfinningamenn sem nota nútímatækni á nýjan hátt.

Vísindaskáldskapurinn sem felst í sögunni er í raun orkulind brynjunnar, en það á að vera ný uppfinning frá Stark Industries sem getur geymt gífurlegt magn orku í litlu plássi.

Ekki fara heim þó að þú haldir að myndin sé búin. Á sýningunni sem ég var á voru aðeins þrjár manneskjur eftir í salnum þegar umrætt atriði birtist, með engum smáleikara. Það er ekki nóg með að við fáum allt þetta, því að í lok myndarinnar er áhorfandanum komið skemmtilega á óvart, og sérstaklega ef þú bíður þangað til allur texti um kvikmyndagerðarmenn hefur skriðið upp skjáinn í rúmar fimm mínútur, þá fáum við ansi góðan bita sem gerir ekkert annað en fá mig til að hlakka til næstu fimm ára í kvikmyndasögunni. 

Iron Man er ein af bestu ofurhetjumyndum sem gerðar hafa verið, og er í sama klassa og Batman Begins (2005), Spider-Man (2002) og X-Men (2000). 

Leikstjóri: Jon Favreau

Einkunn: 9

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Verð að sjá þetta

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 17.5.2008 kl. 08:25

2 identicon

áhugavert

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 08:41

3 Smámynd: Ómar Ingi

Já hún kom mér skemmtilega á óvart þessi mynd , og er hún að fá góða dóma og frábæra aðsókn , í USA vað hún aftur númer 1 eftir vikuna sem aðsóknarmesta kvikmyndin og nú búin að hala inn 191,2 milljon dollara og það aðeins í USA.

Mæli með því að fólk sjái þessa í bíó , áður en fólk sér hana bara á DVD , það er bara ekki það sama með svona myndir.

Ómar Ingi, 17.5.2008 kl. 11:07

4 Smámynd: Edda Sveinsdóttir

Frábært! Hlakka til að sjá þessa mynd. Robert Downey jr hefur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi. Spennandi að sjá hann í nýju áhugaverðu hlutverki! Ætli maður verði ekki að fara að skella sér í bíó - svo margar myndir framundan!

Edda Sveinsdóttir, 17.5.2008 kl. 11:17

5 Smámynd: arnar valgeirsson

sá hana og það vantar ekki að allt er tipptopp, nóg af peningum sem ég held að séu allir komnir til baka fyrir löngu.

sumt fannst mér dálítið to much en ok, þetta er eftir teiknimynd. fjórar stjörnur alveg í hærri kantinum, enda verða þær varla fleiri.

en bíómynd, engin spurning.

arnar valgeirsson, 17.5.2008 kl. 16:50

6 Smámynd: kiza

Furðulega skemmtileg mynd fannst mér; kannski líka út af því að það er í raun ekkert yfirnáttúrulegt í gangi þarna einsog geislavirkt köngulóarbit eða gamma-geislar eða eitthvað álíka.

Robert Downey Junior er bara snillingur, hef verið skotin í honum frá því á sukkdögunum hans hehe.  Og furðulegt nokk þá fór Gwyneth Palthrow ekki í taugarnar á mér eins og vanalega, hún var bara nokkuð þolanleg.

Missti því miður af kredit-senunum þar sem ég nálgaðist myndina á vafasaman hátt á netinu, en ætla mér að kaupa hana þegar BluRay útgáfan kemur út (it's all about the aukaefni maður ;)  .. get bara hlakkað til þess þá :)

kiza, 17.5.2008 kl. 17:18

7 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Takk kærlega fyrir upplýsingarnar. Frábær færsla.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 17.5.2008 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband