Hvað er ábyrgð? (30 tilvitnanir)

Þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði um daginn að hann hafi axlað ábyrgð í REI-málinu með því að leggja sig allan fram um að upplýsa um hvað hafði í raun gerst, hrópaði fullt af fólki upp fyrir sig og sagði að það væri ekki að axla ábyrgð. Eina leið hans til að axla ábyrgð hefði verið að viðurkenna að hann gerði ekki bara mistök, heldur reyndi hann að villa um fyrir fólki og þröngva ósanngjörnu máli í gegn til samþykkis, án þess að nokkur fengi tækifæri til að segja nokkuð eða gera nokkuð í málinu.

Ég held að fólk þurfi að axla ábyrgð á gjörðum sínum, sama hverjar þær eru. Ef um mistök er að ræða, þá er hægt að axla ábyrgð með því að leiðrétta þau og gera sitt besta til að slíkt komi ekki fyrir aftur. Ef hins vegar er um vítavert viljaverk að ræða og ekki mistök, sem hann þrætir fyrir og heldur áfram að framkvæma þar til hann er stoppaður, án þess að taka tillit til viðvarana og þeim boðum sem komið er til hans; þá er um alvarlegra brot en mistök að ræða.

Fyrir leikmenn lítur út fyrir að íslenska efnahagskerfið sé að hruni komið, og fljótt heyrir maður að það sé fólkið í landinu sem ber ábyrgð, ekki fjármálastofnanir sem lánuðu fólkinu pening til að kaupa sér miklu meira en það þarf á að halda. En hver ber í raun ábyrgð á hagkerfinu? Eru einhverjir sem hafa meira vald en aðrir, og hvernig fara þeir með það? Það er fólkið með völdin sem ber ábyrgð, en enginn virðist vita hverjir það eru. Er eitthvað mál að finna þessa einstaklinga og athuga hvort að þeir séu að axla þá ábyrgð sem þeim er skylt?

Foreldrar bera ábyrgð á að veita börnum sínum klæði, fæði og húsaskjól. Ríkið ber ábyrgð á að skapa fólki aðstæður þar sem það getur haft klæði, fæði og húsaskjól. En nú eru aðstæður þannig á Íslandi að það er ekki sjálfsagður hlutur að fólk hafi efni á húsaskjóli, án þess að skuldbinda sig við banka í 5-40 ár. Þarna held ég að Ríkið sé ekki að axla eigin ábyrgð. Allir Íslendingar ættu að hafa sem grundvallarréttindi að þeir geti klætt sig, fætt sig og haft þak yfir höfuðið. Einstaklingar sem borgað hafa 40% af launum sínum til ríkisins til margra ára eru ekki einu sinni að fá grundvallarnauðsynjar til baka.

Nóg um mína samfélagsskoðun, og um að gera að vinda sér yfir í 30 tilvitnanir um ábyrgð:

 

 

"Manneskjan er vél. Allar hennar framkvæmdir, orð, hugsanir, tilfinningar, skoðanir og venjur eru árangur ytri áhrifa, ytra áreitis. Út frá sjálfum sér getur manneskjan ekki framleitt eina hugsun, eina athöfn. Til að átta sig á þessari staðreynd, til að vera sannfærð um sannleika hennar, þarf hún að losa sig við þúsundir tálsýna um hvað manneskjan er, um það að hún sé skapandi og á meðvitaðan hátt skipuleggjandi eigið líf, og svo framvegis. En það er eitt að skilja með huganum og annað að finna með eigin 'algjöru heild' að svona er þetta og gleyma því aldrei... Það er mögulegt að hætta að vera vél, en til þess er fyrst nauðsynlegt að þekkja vélina. Vél, alvöru vél, þekkir ekki sjálfa sig og getur ekki þekkt sig. Þegar vél þekkir sig þá er hún ekki lengur vél, að minnsta kosti ekki eins vél og hún var áður. Hún er þegar byrjuð að axla ábyrgð á eigin gerðum." (G. I. Gurdjeff)

 


"Andstæðingar fóstureyðingar hafa haft það miklar áhyggjur af að sanna sjálfstæði fóstursins til að sýna fram á rétt þess til að lifa, rétt eins og móðirin, að þeir hafa gleymt þeim stuðningi sem þeir gætu fengið með því að halda því fram að fóstrið reiði á móðurina, og sýna fram á að það sé móðirin sem ber ábyrgðina fyrir því, ábyrgð sem gefur því réttindi gegn henni sem engin sjálfstæð manneskja hefur." (Judith Jarvis Thomson)

 

 

Ef frjálst val er það dýrmætasta í heiminum, er frjálst val til að vera í rauðum sokkum jafn verðmætt og frjálst val til að myrða eigin föður eða fórna eigin lífi fyrir vin sinn. Slík trú er fáránleg. (Mary Warnock) 

"Föðurlandsást er lifandi skynjun á samfélagslegri ábyrgð. Þjóðernishyggja er asnalegur hani sem galar uppi á eigin skítahaug." (Richard Aldington)

 

"Eina ábyrgð rithöfundarins er gagnvart listinni." (William Faulkner)

 

 

"Völd án ábyrgðar: forréttindi vændiskvenna gegnum aldirnar." (Rudyard Kipling)

 


"Frelsi þýðir ábyrgð. Það er ástæðan fyrir því að menn óttast það. (George Bernard Shaw)
 

 

"Ábyrgð á sér upptök í draumum." (W.B. Yeats)

 

 

"Aldrei skaltu gleyma litlu hlutunum. Aldrei sleppa því að gera aðeins meira en þú þarft, þessar örfáu mínútur til viðbótar, þessum mjúku orðum sem fylgja hrósi og þakklæti, þessari afhendingu þess allra besta sem þú getur gert. Það skiptir ekki máli hvað öðrum finnst, hins vegar skiptir öllu máli hvað þér finnst um þig sjálfan. Þú getur aldrei gert þitt besta, sem þú ættir að gera að kennisetningu þinni, ef þú styttir þér leið og hörfar undan ábyrgð. Þú ert sérstakur. Framkvæmdu í samræmi við það. Aldrei gleyma litlu hlutunum." (Og Mandino)

 

 

"Það er auðvelt að svíkjast undan ábyrgð, en við getum ekki komið okkur undan afleiðingum þess að svíkjast undan ábyrgð." (Josiah Charles Stamp) 

 

 

"Að mistakast ætlunarverk er hluti af undirbúningi náttúrunnar til að taka við mikilli ábyrgð." (Napoleon Hill) 

 


 "Undirstaða allra viðskipta er að menn taki ábyrgð." (Mahatma Gandhi)

 

 

"Manneskja getur ekkert viljað fyrr en hún hefur skilið að hún getur engum treyst nema sjálfri sér; að hún sé ein, yfirgefin á jörðinni umvafin óendanlegum ábyrgðum, án aðstoðar, með engin önnur markmið en þau sem hún setur sér sjálf, með engin önnur örlög en þau sem hún setur sér sjálf á þessari jörð." (Jean-Paul Sartre) 

 


"Frelsi er pakkatilboð - það kemur með ábyrgð og afleiðingum." (NN) 

 


"Ábyrgðir laðast að þeim sem geta axlað þær og valdið til þeirra sem vita hvernig." (Elbert Hubbard)

 

 

"Spurningin er, innan ramma laganna, bera stjórnendur samsteypu einhverja ábyrgð gagnvart gerðum sínum aðra en þá að búa til eins mikinn pening fyrir hluthafa og mögulegt er? Og mitt svar við því er, nei það gera þeir ekki." (Milton Friedman)

 

 

"Mikilvægasta ábyrgð hinna frjálsu fjölmiðla er sú skylda að koma í veg fyrir að einhver hluti af ríkinu blekki fólkið og sendi það til fjarlægra landa til að deyja úr útlendum sjúkdómum og útlendum byssuskotum og sprengjubrotum." (Hugo Black)

 

 

"Ég lifi ekki mjög puntuðu lífi. Mín bíða ekki bílstjórar eða fólk sem gerir allt fyrir mig. Ég lifi eins og venjuleg manneskja. Það er ekki gott að lifa lífinu án ábyrgðar, veistu það?" (Liv Tyler)

 

 

"Ef þú vilt að börn þín hafi fæturna á jörðinni, leggðu þá einhverja ábyrgð á herðar þeirra." (Abigail Van Buren)

 


"'Ég verð að gera eitthvað' leysir alltaf fleiri vandamál en 'Einhver verður að gera eitthvað'." (NN)

 

 

"Manneskjan uppgötvar fyrr eða síðar að hún er garðyrkjumaður eigin sálar, leikstjóri eigin lífs." (James Allen)

 

 

"Ábyrgð: birgði sem hægt er að afhlaða og auðveldlega vísa til Guðs, örlaganna, forlaganna, heppni, nágrannans. Á dögum stjörnuspekinnar var venjan að vísa ábyrgðinni til stjarnanna." (Ambrose Bierce)

 

 

"Ábyrgð er eins og strengur þar sem við getum bara séð miðjuna. Báðir endar eru huldir sjónum." (William McFee)

 

 

"Viljinn til að axla ábyrgð á eigin lífi er uppspretta sjálfsvirðingar." (Joan Didion)

 

 

"Axlaðu ábyrgð á eigin líf, og hvað gerist. Hræðilegur hlutur: engum hægt að kenna um." (Erica Jong)

 


"Þegar þú kennir öðrum um, gefurðu frá þér vald til að breyta." (NN) 

 


"Skylda er nokkuð sem maður reiknar með frá öðrum." (Oscar Wilde) 

 


"Guð hefur treyst mér fyrir mér sjálfum" (Epíktet) 

 

 

"Miklu valdi fylgir mikil ábyrgð" (Spider-Man - Stan Lee) 

"Það ósanngjarnasta við lífið er hvernig því lýkur. Ég meina, lífið er erfitt. Það tekur mikið af þínum tíma. Hvað færðu svo þegar því lýkur? Dauða! Hvað er það, bónus? Ég held að lífsferlið ætti að vera í hina áttina. Þú ættir fyrst að deyja, losna við það. Síðan býrðu á elliheimili. Þér er svo sparkað út þegar þú ert orðinn of ungur, þú færð gullúr, þú ferð að vinna. Þú vinnur í fjörtíu ár þar til þú ert orðinn nógu ungur til að hætta. Þú fer í eiturlyf, áfengi, skemmtir þér, og undirbýrð þig fyrir menntaskóla. Þú ferð í gagnfræðaskóla, verður svo barn, án nokkurrar ábyrgðar, þú verður að litlu barni, þú ferð aftur í móðurkvið og þú eyðir síðustu níu mánuðunum fljótandi... og svo endarðu í fullnægingu." (George Carlin)

 

Myndir: Wikipedia.org og fleiri. Hægt er að finna upprunalega slóð allra mynda með því að hægrismella á þær og velja properties.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Skemmtilegar færslur hjá þér eins og þín er von og vísa Hrannar.

En Villi myndi ekki vita hvað ábyrgð er ef hún myndi bíta hann í afturendann.

Því miður , enda kom það á daginn að hann gerði til dæmis ekki það sem Þórólfur gerði á sínum tíma.

Axlaði Ábyrgð , efast ekkert um að Villi er góður maður en í þessu máli þá hreinlega missti ég allt álit á manninum en það er bara mín skoðun og mitt mat.

Friður

Ómar Ingi, 23.3.2008 kl. 16:04

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir það Ómar og gleðilega páska.

Hrannar Baldursson, 23.3.2008 kl. 17:28

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Gleðilega Páska Hrannar!..Egg Painting

Óskar Arnórsson, 23.3.2008 kl. 19:38

4 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Góð færsla að venju, takk fyrir mig.

Gleðilega páska

P.S sendi þér slóð litlu frænku þinnar í Ungverjalandi

http://katan.bloggar.is/ 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 24.3.2008 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband