Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 12. sæti: Brazil

Síðasta blogg mitt skrifaði ég á öðrum í jólum. Síðan þá hef ég flakkað mikið um Spán, komið við í Þýskalandi og Danmörku, og tekist að ná mér í hlustaverk með tilheyrandi fylgikvillum, en er að ná mér. Þessi færsla er óvenju löng, enda hef ég óvenju mikið að segja um næstu margbrotnu mynd.

 Ég ætla ekki að þykjast hafa fullkomna þekkingu á öllum vísindaskáldsögum sem gerðar hafa verið frá árinu 1902 þegar sú fyrsta var gerð, Ferðin til tunglsins, en hef verið mikill aðdáandi þessarar frásagnagerðar frá því að ég man eftir mér. Vísindaskáldsögur spyrja nefnilega spurninga um tengsl mannsins við heiminn og endurspegla sjálfa heimspekina ansi vel.

Í heimsendasögum sjáum við heiminn eins og hann gæti orðið ef yfirráð mannsins yfir heiminum fer út í öfgar. Í framtíðarsögum getum við séð fyrir okkur heiminn eins og hann gæti orðið, útópíur sem ganga aldrei upp af einhverjum ástæðum. Í tímaflakkssögum lærum við um tengsl minnis og reynslu, og sérstaklega um mikilvægi minnstu ákvarðana. Geimverumyndir sýna okkur síðan hversu lítið við þekkjum heiminn í raun, og hvernig við tökumst á við hið óþekkta. Allt eru þetta spennandi hugmyndir sem næra vísindaskáldskap, sama hvort hann sé í bland við hroll, grín, drama, vestra, rómantík, eða einhverja aðra frásagnagerð. Oftast eru vísindaskáldsögur varnaðarorð um tækni sem fer út í öfgar.

Einnig vil ég minna á að þær vísindaskáldsögur sem ég fjalla um hérna eru þær sem mér finnst hafa mest skemmtanagildi og vekja hjá mér hugmyndir sem mér finnst gaman að pæla í. Listi næsta manns yrði sjálfsagt gjörólíkur, og minn eigin listi yrði sjálfsagt allt öðruvísi að ári, þar sem ég er töluvert að grúska í gömlum vísindaskáldsögum og reyni að fylgjast með öllu því nýjasta í þessum flokki kvikmynda.

12. sætið fer til kvikmyndar sem mér finnst hreint frábær, rétt eins og allar þær myndir sem ég á eftir að telja upp. Það getur verið erfitt að gera upp á milli þessara mynda og bið ég lesendur að taka þann greinarmun ekki of alvarlega. Ég er þó nokkuð viss um að einhverjir verði hneykslaðir, því að ég veit að nokkrar myndir sem taldar eru til mestu djásna kvikmyndasögunnar og eru vísindaskáldsögur, komast ekki inn á þennan lista minn. 

Jæja, áfram með smjörið:

 

Brazil (1985)****

Brazil er merkileg mynd fyrir fleiri sakir en að hún er frumleg, fyndin og djúp. Leikstjórinn, Terry Gilliam, lenti í hálfgerðu stríði við Universal Studios, þá sem höfðu útgáfuréttinn fyrir kvikmyndina í Bandaríkjunum. Þeir höfðu ekki trú á að hún höfðaði til almennings og kröfðust styttri útgáfu en leikstjórinn vildi gefa frá sér. Munurinn var sautján mínútur og endirinn gjörólíkur því sem Gilliam ætlaði sér. Myndinni var slátrað í Bandaríkjunum af mönnum sem voru hræddir við þetta meistaraverk, hræddir um að þeir myndu tapa aurum á því. Þessar kröfur voru álíka absúrd og söguþráður Brazil.

Terry Gilliam gat engan veginn sætt sig við þennan niðurskurð. Í stað þess að gefa eftir, skar hann upp herör gegn framleiðundum og skammaði þá með heilsíðuauglýsingum í helstu dagblöðum Bandaríkjanna. Hann var einn á móti öllum, Don Kíkóti kvikmyndaheimsins. Engin furða að ég held svona mikið upp á kallinn.

Á endanum var Brazil gefin út og sýnd í leikstjóraútgáfunni um allan heim þar sem að hún fékk stórgóðar viðtökur, nema í Bandaríkjunum þar sem hún var sýnd í ræfilsformi. Brazil fjallar um sams konar stríð og Gilliam háði við Universal Studios.

Fluga dettur ofan í prentara og verður til þess að stafur í nafni einstaklings kemur vitlaust út í útprentun. Afleiðing: rangur maður er hafður að rangri sök. Saklaus maður er handtekinn og drepinn í yfirheyrslu, enda eru upplýsingar sem pyntararnir vilja ekki til og pyntararnir vilja ekki vera þekktir fyrir að ná ekki upplýsingunum út úr viðskiptavininum.

Sam Lowry (Jonathan Price) starfar sem metnaðarlaus skrifstofublók. Hann vill helst að enginn taki eftir sér og lifa algjöru meðalmennskulífi. Samt dreymir hann um annan heim, þar sem hann er skínandi hetja með vængi.

Þegar hann kemst að þessum hörmulegu mistökum, býðst hann til að fara með ávísun til ekkjunnar. Á heimili hennar sér hann bregða fyrir andliti Jill Layton (Kim Greist) á hæðinni fyrir ofan, andliti sem hafði birst honum í draumi. Nú fær líf hans tilgang. Hann setur sér að finna Jill og vinna hjarta hennar.

Veruleiki Brazil er kassalaga þar sem vírar og túbur flækjast út um allt. Það er eins og að borgin sé ofvaxin tölva. Sam upplifir sig einmitt sem hluta af stórri vél sem tryggir að 'kerfið' virki, og hann vill helst að það virki án þess að þurfa að gera nokkuð í því sjálfur.

En þá kemur Harry Tuttle til sögunnar (Robert DeNIro) sem er sjálfstæður verktaki í heimi þar sem að sjálfstæðir verktakar eru bannaðir. Ef eitthvað er ekki í lagi á Ríkið að redda málunum með tilheyrandi skriffinnsku. Allt annað er lögbrot.

Harry jafnast á við hryðjuverkamann því að hann vinnur sín störf án reikninga. Hann þykir vera mikil ógn við Ríkið. Hann starfar sem pípulagningamaður en kerfisins vegna klæðist hann sérsveitarbúningi og ber skotvopn. Hann er boðberi frelsisins í augum Sam. Hann endar niðursokkinn í dagblöð, eða líðandi stund.

Í þessu samfélagi eru allir kúgaðir og viðhorf ráðamanna til lífsins og samfélagsþegna á sér sterkan hljómgrunn í fasisma og nasisma. Hefði Hitler sigrað væri heimurinn svona. Það sem Gilliam virðist halda fram að þó svo að Hitler hafi tapað, þá er hann fullur af kúgandi fasisma.

Mannúð og einstaklingurinn skiptir engu máli: Kerfið, völd og peningar skipta öllu máli. Það er algjört aukaatriði hvort að kerfið sé sanngjarnt eða réttlátt. Aðal málið er að það rúlli áfram og viðhaldi hefðarstéttum og ríkjandi kvótakerfum.

Stjórnendur og lögreglumenn eru eins og klipptir úr heimildarmyndum um nasista úr síðari heimstyrjöldinni, og reyndar er öll fatatíska myndarinnar tengd því sem var í gangi á fjórða og fimmta áratug 20. aldar.

Árið 1979 kom út kvikmyndin The Boys from Brazil, sem fjallar um tilraun til að endurskapa Adolf Hitler með klónun. Mér datt í hug hvort að Brazil væri tilvísun í þessa mynd, þar sem að stjórnendur, og sérstaklega yfirmaður Sam, M. Kurtzmann (Ian Holm), afar stífur kall með stutt yfirvaraskegg og gífurlegt ofsóknarbrjálæði, stjórnar eins og lítill Hitler.

Sam þiggur stöðuhækkun sem áhrifamikil móðir hans, Ida (Katherine Helmond) hefur lengi beðið hann um að taka, en hann tekur starfið eingöngu til að eiga auðveldara með að hafa upp á Jill.

Sam finnur upplýsingar um um Jill og kemst að því að leyniþjónustan er á eftir henni. Hún þykir hættuleg vegna þess að hún hefur spurt óþægilegra spurninga um saklausa manninn sem bjó á hæðinni fyrir neðan hana og var handtekinn og drepinn í yfirheyrslum. Spurningar hennar þykja það grunsamlegar að hún hlýtur að vera hryðjuverkamaður og forgangsatriði númer eitt hjá leyniþjónustunni er að yfirheyra hana með pyntingum ef með þarf.

Sam finnur hana umkringda fjölda vopnaðra varða í anddyri leyniþjónustunnar, þar sem hún er að spyrja enn frekari spurninga. Honum tekst að koma henni út, enda yfirmaður í leyniþjónustunni og saman leggja þau á flótta.

Hún skilur ekki hættuna sem hún er í og telur hann einfaldlega vera snargeggjaðan, enda er hann enginn snillingur í mannlegum samskiptum, og í stað þess að útskýra fyrir henni stöðu mála segist hann elska hana. Það hittir ekki í mark.

Brazil er margbrotin mynd með snúnum söguþráði. Hugmyndirnar eru oft krefjandi og svo furðulegar að maður stendur eftir með fullt af spurningum, en getur lítið annað gert en að rembast við að túlka.

Ég hef þrisvar séð Brazil, í fyrri skiptin klipptu útgáfuna og áttaði mig engan veginn á hvað reynt var að segja með henni. Í þessari mun betri endanlegu leikstjóraútgáfu eru skilaboðin kannski ekki skýr, en sagan er heilsteypt og áhrifarík.

Myndmálið er glæsilegt og gaman að upplifa svona undarlega kvikmynd stöku sinnum; sem er svo sannarlega Gillíamsleg, enda hefur hann leikstýrt jafn furðulegum stórmyndum og The Holy Grail, Meaning of Life, Time Bandits, 12 Monkeys, Fisher King, og fleiri góðum.

Ég mæli með Brazil fyrir alla þá sem vilja öðruvísi krydd í tilveruna og tilefni til að pæla í því hvort að samfélag okkar sé nokkuð að nálgast ógnarveröld Gilliams um of, í leit okkar að því mesta, flottasta og besta. Brazil minnir okkur á að hið góða, fagra og næga getur týnst í slíkri leit.

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum

12. sæti: Brazil

13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sæll Hrannar.  Þetta er eina myndin á listanum sem ég hef aldrei séð.  Man hreinlega ekkert eftir henni, hvorki auglýsingum né öðru. Afskaplega gaman að lesa grein þína um myndina.  Alveg þess virði að horfa á tel ég.  Takk fyrir kærlega og ég vona að hellan fari.

Ásdís Sigurðardóttir, 11.1.2008 kl. 14:31

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdina Ásdís. Mundu bara að fá útgáfu leikstjórans.

Hrannar Baldursson, 11.1.2008 kl. 17:49

3 Smámynd: arnar valgeirsson

afar langt síðan ég sá brazil. hún er sjónrænt listaverk, vantar ekki.  gillian er snillingur.

arnar valgeirsson, 12.1.2008 kl. 22:55

4 identicon

Góð umfjöllun.

Mín uppáhaldsmynd fyrr og síðar.  Alltaf eitthvað nýtt sem hægt er að sjá í þessari mynd. 

Bertel Ólafsson (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband