Back to the Future, Part III (1990) ***

Doc Emmett Brown (Christopher Lloyd) hefur tekist að senda Marty McFly (Michael J. Fox) frá árinu 1955 til 1985, en honum að óvörum birtist Marty sekúndum síðar í allt öðrum fötum og segist vera önnur útgáfa af sjálfum sér sem búin er að fara til 1985, síðan 2015 og aftur til 1985. Svo fóru þeir félagar til 1955 til að koma í veg fyrir framtíð þar sem Biff ræður ríkjum.

Þetta er of mikið af upplýsingum fyrir kallinn. Þegar hann hefur jafnað sig og þeir félagar komast að því að Doc Brown verður myrtur í villta vestrinu, ákveður Marty að fara til villta vestursins vini sínum til bjargar. Yngri Doc Brown mótmælir ekki og sendir Marty til ársins 1885. Við það að bjarga vini sínum leggur Marty eigið líf í hættu, þar sem Mad-Dog Tannen (Thomas F. Wilson), sem hafði hug á að myrða Brown, hefur nú fengið áhuga á að myrða Marty.

Félagarnir ákveða að forða sér inn í framtíðina, en vandinn er sá að tímavélin er bensínlaus og engin bensínstöð nálægt næstu áratugina. Því verður þeim þrautin þyngri að koma tímavélinni upp í 88 mílur á klukkustund til að ferðast um tímann.

Þeir ákveða að ýta á eftir bílnum með lest. Enn einu sinni keppa þeir við klukkuna. Lestin á að koma klukkan átta að morgni, en Mad Dog ætlar í byssueinvígi við Marty á nákvæmlega sama tíma.

Til að flækja fléttuna kynnist Doc kennaranum Klöru Clayton (Mary Steenburgen) sem hann bjargar frá því að hrapa til bana ofan í Clayton gil (sem heitir þá ekki lengur Clayton gil í framtíðinni). Þau verða ástfangin við fyrstu sýn og allt í einu langar Doc Brown alls ekki að ferðast til framtíðar með Marty félaga sínum.

Þessi framhaldsmynd gerir sömu mistök og númer tvö, nefnilega gefur sömu leikurum mörg hlutverk, sem virkar einfaldlega klúðurslega og ódýrt. Michael J. Fox leikur langa-langafa Marty, og Lea Thompson leikur langömmu Lorraine, auk þess sem að Thomas F. Wilson leikur langa-langafa Biff. Þarna hefði frekar mátt bæta við fleiri góðum leikurum sem hefðu getað gefið þessum aukapersónum einhverja dýpt.

Tæknibrellurnar eru flottar sem fyrr, og sagan nokkuð skemmtileg. Hún er langt frá frummyndinni, en ef þú hafðir gaman af fyrri framhaldsmyndinni, þá er þessi töluvert betri.

Sýnishorn úr Back to the Future, part III:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daníel Sigurður Eðvaldsson

Ég keypti mér þessar þrjár myndir fyrir einhverju síðan og hef án efa notið þess að horfa á þær mörgum sinnum síðan, enda ekki svo slæmar myndir. Mjög gaman að geta spurt sig hvað ef þetta væri nú virkilega hægt? Trúi því samt ekki þar sem það er ólíklegt að geta breytt tímaröð með því að fara aftur í tíman. En þrátt fyrir það er mjög gaman að hugsa út í svona lagað :P

Daníel Sigurður Eðvaldsson, 11.12.2007 kl. 11:35

2 Smámynd: arnar valgeirsson

ógurlega ertu eitthvað duglegur að horfa á ævintýrin þessa dagana maður... er ekkert að gera svona fyrir jól??

annars tók ég nostalgíutripp fyrir nokkru og horfði á allar þrjár með sonum mínum og við skemmtum okkur ótrúlega vel.

ég hlakka til að sjá listann fullbúinn. vona að mín uppáhaldsmynd verði þarna... hún bara verður sko.

annars er jólamót á mánudaginn næsta í vin. á von á bullandi elostigum í heimsókn. manaðig.... kemur á skákinnipunkturis.

arnar valgeirsson, 11.12.2007 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband