Ratatouille (2007) ***

Remy rotta (Patton Oswalt) hefur einstaklega gott þefskyn. Faðir hans fær hann til að þefa af öllum mat sem fjölskylda hans étur til að forðast rottueitur. En metnaður Remy er meiri. Hann stelst reglulega inn á bóndabæ til að kíkja í bók með uppskriftum og fylgjast með sjónvarpsþætti um matreiðslu. Einn daginn fer illa þegar ráðskonan á heimilinu tekur eftir rottum í eldhúsinu. Hún tekur upp haglarann og aftur verður ekki snúið.

Á flótta undan kellingu verður Remy aðskila við fjölskyldu sína, en hann flýtur með holræsum undir Parísarborg. Hann ratar inn á veitingahús og undir verndarvæng hins hæfileikalausa pokastráks Linguini (Lou Romano), en þar sem Remy hefur mikið vit á kryddi og matreiðslu byrjar hann samvinnu og ólíklegt vináttusamband með Linguini sem gjörbreytir á einni nóttu orðspori veitingahússins.

Það er gaman að fylgjast með þessu samspili rottu og stráks. Einnig ber að minnast á skemmtilega persónu, matargagnrýnandann Skinner (Ian Holm) sem er þvengmjór því honum líkar illa flestur matur. Það verður verkefni þeirra Remy og Linguini að gleðja bragðlauka hans.

Ratatouille snýst algjörlega um mat og matargerð, og er spennandi að því leiti að hún vekur með áhorfandanum ákveðna forvitni um leyndardóma góðrar eldamennsku. Teikningarnar eru óaðfinnanlegar eins og má reikna með frá Pixar, og maturinn sem framreiddur er virðist svo girnilegur að hann kitlar næstum bragðlauka áhorfenda.

Illmennið í myndinni er ekkert voðalega illt, bara kokkur sem vill hætta klassískri matreiðslu á kostnað hraðsoðins pakkamatar; en rottan Remy og pokastrákurinn Linguini eru þeir einu sem geta staðið í vegi fyrir hans illa ráðabruggi, að nota uppskriftir veitingastaðarins í skyndibitamat í stað fágaðra rétta. Fyrir utan það að aðalhetjan og fjölskylda hans er rotta, er furðumargt sem er sannfærandi í þeim heimi sem leikstjórinn Brad Bird töfrar fram úr tölvuheilunum. Eldhúsið er trúverðugt sem eldhús fram í minnstu smáatriði.

Ratatouille er mjög flott mynd og fjölskylduvæn. Hún er ekki mesta snilld sem sést hefur á skjánum, en hún er notaleg og skemmtileg í þær 111 mínútur sem hún endist, en mér finnst hún engan veginn ná þeim hæðum sem fyrri myndir Brad Birds hafa náð, og þá er ég að tala um The Incredibles og The Iron Giant.

 

Sýnishorn:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Þetta verður sú mynd sem mun berjast við Beowulf sem besta teiknimynd ársins væntanlega og sumir segja að Rottan verði jafnvek útnefnd sem besta kvikmynd ársins enda án efa ein af þeim þetta er sko 4 af 4 stjörnum og ekkert kjaftæði , ein besta teiknimynd allra tíma að mínu mati og án efa ein af 10 bestu myndum ársins.

Ómar Ingi, 26.11.2007 kl. 23:39

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég skil þitt sjónarmið Ómar, enda mjög flott teiknimynd, vel byggð og skrifuð. Hún náði bara ekki til mín þrátt fyrir að hafa verið ein flottasta teiknimynd sem gerð hefur verið. Sagan var svolítið fyrirsjáanleg. Ég hefði auðveldlega getað sveiflast yfir í fjórar stjörnur hefði hún heillað mig algjörlega, sem hún gerði einfaldlega ekki.

Hrannar Baldursson, 27.11.2007 kl. 17:56

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég er sammála Ómari, þetta er topp-teiknimynd, fyrir börn á öllum aldri.

Greta Björg Úlfsdóttir, 27.11.2007 kl. 19:14

4 identicon

ég skemmti mér konungleg þegar ég sá hana, 3 og hálf er ásættanlegt:)

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband