Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 19. sæti: Total Recall


19. sætið skipar Schwarzenegger myndin Total Recall. Hún leynir svolítið á sér, því undir hasarnum og blóðbaðinu má finna dýpri spurningar um tengsl drauma og veruleika. Ég met skemmtanagildi mynda mikið á þessum lista. Ef mér finnst mynd leiðinleg, þó að hún sé gífurlega vel gerð og innihaldi magnaðar hugmyndir sem fær mann til að pæla í lífinu og tilverunni alveg upp á nýtt, þá mæli ég ekkert endilega með henni. Ég vil að bíómyndir séu skemmtilegar og fullar af spennandi hugmyndum; ekki bara annað hvort.

Ég viðurkenni fúslega að það er miklu meira af hugsunarlausri skemmtun en djúpum pælingum í Total Recall; en í henni er sköpuð áhugaverð framtíð, þar sem er líf á mars, mörghundruðþúsund geimverur blandast inn í söguna, hugarferðalög, efasemdir um uppbyggingu veruleikans, spurningar um sjálfsmynd, val á milli góðs og ills, stökkbreyttar manneskjur, sönn ást. Þetta eru umfjöllunarefni rússíbanareiðarinnar Total Recall. 

 

Total Recall (1990) ***1/2

Douglas Quaid (Arnold Schwarzenegger) dreymir oft sama drauminn. Hann er á gönguferð um plánetuna Mars ásamt fagurri konu, en honum strikar fótur og hann rúllar niður fjall. Hjálmur hans brotnar og augu hans springa úr tóftunum vegna súrefnisskorts. Þegar Doug vaknar í svitakófi við hlið eiginkonu sinnar Lori (Sharon Stone) fyllist hann einkennilegri löngun. Hann vill fara til Mars.

Doug starfar sem verkamaður og leiðist líf sitt. Honum finnst að lífið mætti hafa upp á eitthvað meira að bjóða. Þegar hann sér auglýsingu frá ferðaskrifstofu sem selur draumaferðir, í bókstaflegri merkingu, fer hann á staðinn og óskar eftir að fá í heilann tveggja vikna minningu um ferð til Mars. Honum er ekki aðeins boðin ferðin til Mars, heldur líka að skipta um persónuleika í ferðinni. Doug ákveður að vera leyniþjónustumaður og velur lýsingu af konunni úr draumnum sem viðhald.

Annað hvort fer allt úrskeiðis eða eftir áætlun. Það fær áhorfandinn aldrei að vita. Svo virðist sem að innsetning draumsins hafi mistekist þegar Doug einfaldlega tryllist í stólnum. Hann er svæfður, honum endurgreitt og komið fyrir meðvitundarlausum í leigubíl. Frá þeirri stundu er hann hundeltur af leyniþjónustumönnum sem hafa greinilega ekki áhuga á neinu öðru en að drepa hann, enda fer þar fremstur í flokki Richter (Michael Ironside), hægri hönd Vilos Cohaagen (Ronny Cox), en hann svífst einskis til að drepa Doug þar sem að Lori er í raun kona Richters.

Doug sleppur frá nokkrum tilræðum, en fjölmargir saklausir áhorfendur og illmenni eru drepin á flótta hans. Allt ofbeldi í Total Recall er mjög ljótt. Það er mikið af blóði og það er eldrautt. Sum atriði eru svo grafísk og óaugnalega nákvæm að þau voru klippt úr kvikmyndaútgáfunni á Íslandi þegar hún kom fyrst í bíó. Samt jafnast hún sjálfsagt ekkert á við gróft ofbeldið í myndum eins og Saw og Hostel.

Doug heldur til Mars eftir hjálp frá Hauser, en það var hann sjálfur áður en minni hans var þurrkað út og nýju komið inn í staðinn. Þar finnur hann Melina (Rachel Ticotin) sem er lykilmaður uppreisnarmanna á Mars; en Cohaagen stjórnar öllu á þeirri plánetu, er ríkastur og frekastur - hann ræður yfir lögreglunni og leyniþjónustunni, og getur líka slökkt á loftræstikerfinu og kæft alla íbúa plánetunnar langi hann til þess. Og hann langar til þess.

Þegar Doug fær svo minnið aftur og áttar sig á að hann var aðeins handbendi síns fyrra sjálfs og Cohaagen, verður hann að gera upp við sig hvort að hann vilji gera út um uppreisnarmennina eða hjálpa þeim. Hann gæti hugsanlega hjálpað þeim með því að koma af stað risarafali sem fannst neðanjarðar, sem talinn er vera búinn til af geimverum og vera um hálfs milljón ára gamlan. Kenningin er sú að ef kveikt verður á honum mun annað hvort súrefni vera dreift um alla plánetuna og gera öllum fært að bjarga sér sjálfum, eða þá að losað verður um efni sem drepur alla íbúa Mars.

Total Recall er bráðskemmtileg. Ég kann betur að meta myndir sem hafa töluvert skemmtanagildi um leið og þær kynna hugmyndir sem gaman er að pæla í. Arnold Schwarzenegger er í fullu fjöri. Doug veit ekki sjálfur hvort að hann vaki eða dreymi draum sem virðist raunverulegur, en þeirri spurningu þarf hver áhorfandi að svara fyrir sig.

En hvernig er það, hefur þig einhvern tíma dreymt eitthvað sem þú trúðir að væri veruleiki á meðan þig var að dreyma? Ef svo er, hvernig geturðu vitað með vissu að það sem þig dreymdi var ekki veruleiki?

 

Sýnishorn úr Total Recall

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:  

19. sæti: Total Recall 

20. sæti: Pitch Black 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Snilldar mynd - á skilið að vera hærri á listanum ,en best að bíða og sjá næstu myndir

Halldór Sigurðsson, 4.11.2007 kl. 23:28

2 Smámynd: arnar valgeirsson

ætlaði akkúrat að segja það sama og halldór. mætti vera ofar mín vegna. en fyrst þarf maður jú að sjá 18 og upp í eitt ha. man að mér fannst myndin ótrúlega mögnuð þegar ég sá hana í gamla daga í austurbæjarbíói. hef séð hana oftar en einu sinni síðan og hún er svolítið barn síns tíma en samt algjörlega frábær.

sagði ekkert um pitch black og riddick enda ekki séð. en á eftir að sjá. kannski um jólin bara. það er hryllingsmyndatíminn minn... svo hef ég ekki séð matador því ég hélt hún væri algjört hland. sem hún þó virðist ekki vera.

en þetta er sérlega flott gert hjá þér og svei mér þá, bara virðingarvert....

svo er henrik vinur minn að standa sig eins og hetja. bara ofurhetja... gott hjá honum og þeim öllum.

arnar valgeirsson, 4.11.2007 kl. 23:50

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég gat engan veginn þokað henni hærra á listann. Það eru reyndar nokkrar mjög fínar rmyndir sem komast ekki inn á topp 20. Gerir þetta bara meira spennandi. :)

Hrannar Baldursson, 5.11.2007 kl. 01:21

4 identicon

Þetta verður vonandi alminilegur listi og bind vonir við að demantar á borð við Aliens, RoboCop, Dark City, Blade Runner og vitaskuld 2001: A Space Odyssey (sem er, að mig grunar, alveg sjálfgefið) verði á þessum lista, ásamt öðrum frábærum sæfæ-kvikmyndum.

Ég, sem tiltörulega nýlegur "áskrifandi" af þessari vefbók, mun fylgjast spenntur með.

Þórður Ingvarsson (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 09:22

5 Smámynd: Páll Thayer

Þetta er áhugaverð saga en mér fannst Ahnóld skemma myndina svolítið með steratrölla aulahúmor. En varðandi söguna sjálfa þá er tæplega við öðru að búast þar sem myndin er unnin eftir sögu Phillip K. Dick, "We Can Remember it for You, Wholesale." Þetta er jú sami maðurinn og skrifaði "Do Androids Dream of Electric Sheep?" sem snilldin, "Blade Runner" var gerð eftir.

Páll Thayer, 5.11.2007 kl. 09:37

6 identicon

frábær mynd, arnold er snilld í henni:)

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 17:13

7 identicon

Þetta er þvílíkt spennandi, það eru svo margar góðar SiFi myndir að velja úr.

Gerða M (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 21:36

8 identicon

Hey fyndið við vorum einmitt að horfa á hana í gærkvöldi! Mjög svöl miðað við að hún er tæpra tuttugu ára !!

Fannst Arnold frekar pínlegur en margt mjög áhugavert við þessa mynd!

Anna Brynja (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband