Curious George (2006) ***1/2


Smelltu hér til að sjá sýnishorn úr Curious George

Í frumskógum Afríku býr api sem hefur gaman af listum og skemmtilegum uppátækjum. Hann þráir ekkert meira en að hafa leikfélaga og vin.

Einhvers staðar hinumegin við hafið starfar Ted (Will Ferrell) sem leiðsögumaður á safni sem er við það að fara á hausinn, enda eru fyrirlestrar hans með eindæmum þurrir og leiðinlegir. Honum tekst að snúa áhugaverðum staðreyndum um sögu mannkyns í augnablik þar sem þolinmæði er við það að bresta hjá áhorfendum, öllum nema Maggie (Drew Barrymore), kennara sem kemur í hverri viku með bekkinn sinn að heimsækja safnið, en sjálf hefur hún meiri áhuga á Ted heldur en því sem hann hefur að segja.

Apinn George kominn í heimsókn til TedSafninu er ógnað af nútímanum. Gestir hafa ekki gaman af því að heimsækja það, þar sem allt er ósnertanlegt og þeim sífellt fjarlægara. Herra Bloomsberry (Dick Van Dyke) stofnandi og eigandi safnsins vill allt gera til að halda því við, en hann er orðinn of gamall fyrir ævintýraferðir og leiðangra, og þar að auki hefur sonur hans (David Cross) áhuga á að leggja safnið niður og byggja bílastæði í staðinn, þar sem það er arðvænlegra.

Málin æxlast þannig að Ted er sendur til Afríku þar sem þessi litli og frumlegi api finnur og tekur ástfóstri við hann. Það er ekki alveg gagnkvæmt, en eftir að Ted hefur fundið minjagrip til að fara með heim, eltir apinn hann í stórborgina og alla leið heim í íbúð.Nú taka við fjölmörg ævintýri þar sem Ted lærir ýmislegt af apanum, sem hann ákveður að nefna George, eftir George Washinton.

Umfjöllunarefni myndarinnar er mjög áhugavert, en það snýr helst að vandamálinu sem felst í ófrumlegum og formbundnum kennsluháttum, - þar sem upplýsingum er mokað upp í nemendur án þess að þeir hafi nokkuð að gera sjálfir, og þeim í raun bannað að nálgast viðfangsefnið þar sem því verður að vera haldið við; og á móti þessu kemur prógressíva aðferðafræðin, þar sem börn eru hvött til að prófa sig áfram, gera hlutina og átta sig á frá eigin sjónarhorni á því hvernig heimurinn er. Þegar börn eru leidd um heim þekkingar þurfa þau að fá eitthvað til að leika sér með, eitthvað til að snerta.

Hver einasti rammi er gullfallegur og teiknimyndagerðin í hæsta gæðaflokki. Sagan er góð og persónur lifandi og skemmtilegar. Börnin mín höfðu mjög gaman að Curious George, sem er algjörlega án ofbeldis og virkilega frumleg á marga vegu. Ég hafði líka mjög gaman að henni.

Curious George er stjórgóð mynd fyrir alla fjölskylduna.

 

Heimildir og myndir:

http://imdb.com
Yahoo! Movies
IMP Awards


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband