10 bestu ofurhetjumyndirnar: 2. sæti: The Incredibles (2004)

Ótrúlega fjölskyldan innheldur fimm meðlimi, fjölskylduföðurinn, Herra Ótrúlegan (Craig T. Nelson) sem hefur ofurkrafta, móðurina, Teygjustúlku (Holly Hunter) sem getur teygt líkama sinn nánast óendanlega langt, og svo börnin Fjólu (getur gert sig ósýnilega og búið til skjöld utan um sig og sína), Skot (getur hlaupið ótrúlega hratt) og Jóa Jóa (getur skipt um ham).


Vegna skaðabótamála og óvinsælda hefur ofurhetjum verið bannað að klæðast ofurhetjubúningum og lifa nú hversdagslegu lífi. Herra Ótrúlegur starfar í tryggingabransanum sem ráðgjafi sem ekki má gefa góð ráð, því að þá tapar fyrirtækið. Hann tollir hvergi í starfi því hann hefur hugarfar hetjunnar sem lætur sér annt um þá sem veikir eru fyrir. Það gengur ekki í samfélagi þar sem vinnuferlar og ósnertanleg fagmennska skipta öllu máli.


Þegar ofurhetjur taka upp á því að hverfa er ljóst að ekki er allt með felldu. Ofurskúrkurinn  Sjúkdómseinkenni (Jason Lee) hefur tekið upp á því að tæla til sín ofurhetjur og drepa þær með fullkomnum vélmennum sem hann hefur hannað. Herra Ótrúlegur gengur í gildruna, en tekst að sigrast á vélmenninu sem ætlað er að drepa hann. Þegar verkefninu lýkur er honum boðið í kvöldverð og starf; að berjast við svona vélmenni. Það sem hann veit ekki er að vélmennin safna upplýsingum um hann þannig að næsta útgáfa verður sífellt líklegri til að sigrast á honum.


Kemur að því að hann ræður ekki við ofurskúrkinn, sem fangar hann og gefur skúrksræðuna sem er svo ómissandi í James Bond bíómyndum. Teygjustúlkan kemst að því að eiginmaður hennar er í vanda staddur og fer í björgunarleiðangur, Skot og Fjóla smygla sér með. Flugvél þeirra er skotin niður, en þau komast lífs að og halda ótrauð í átt að eyjunni þar sem fjölskylduföðurnum er haldið nauðugum.


Tæknibrellur og þrívíddargrafíkin er með því besta sem sést hefur á tjaldinu. Persónurnar eru hver annarri betri, samtölin smellpassa og hasaratriðin koma adrenalíninu í gang; sérstaklega þar sem Skot hleypur undan fleygum illmennum á einhvers konar þyrlum.


Leikstjóra The Incredibles, Brad Bird, tekst það sem fáum teiknimyndaleikstjórum hefur tekist síðustu árin, fyrir utan japanska snillinginn, Hayao Miyazaki og Pixargúrúinn John Lasseter; hann gerir sína aðra mynd að meistaraverki, og sem er ekkert síðri en hans fyrsta mynd, The Iron Giant (1999). Einnig sló hann aftur í gegn með Ratatouille (2007). Brad Bird er nafn sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.

Hvernig get ég varið það að næstbesta ofurhetjumyndin að mínu mati skuli vera teiknimynd? Ég ver það ekki, kíktu bara á þessa mynd, helst með pottþéttri upplausn, pottþéttu hljóði og á stórum skjá - og þú sérð ekki eftir þessum 115 mínútum.

 

Þýðingar á ofurhetjunöfnum:

Mr. Incredible = Herra Ótrúlegur

Elastigirl = Teygjustúlka

Violet = Fjóla

Dash = Skot

Jack Jack = Jói Jói

Syndrome = Sjúkdómseinkenni 

 

10 bestu ofurhetjumyndirnar:

2. sæti: The Incredibles (2004) 

3. sæti: Spider-man (1999-2003)

4. sæti: The Matrix (1999-2003) 

5. sæti: Superman (1978-2006)

6. sæti: X-Men þríleikurinn (2000-2006)

7. sæti: Darkman (1990)

8. sæti: Ghost Rider (2007)

9. sæti: Unbreakable (2000)

10. sæti: Hellboy (2004)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Syndrome er nú ekki sama og symptom, er það?

Skemmtilegt orð, heilkenni :-D 

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 12:25

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég var búinn að hika lengi við að setja þessa í 2. sætið. Horfði á hana aftur til öryggis og sé ekki eftir því. Spurning hvort að Syndrome heitii ekki frekar Heilkenni en Sjúkdómseinkenni. Báðar þýðingarnar finnst mér svolítið súrar og skemmtilegar.

Hrannar Baldursson, 2.10.2007 kl. 13:55

3 identicon

Þessi mynd er fín og á vel heima á top 10, en það á einnig önnur mynd sem mér fynnst of vanta í þessum ofurhetjupælingum. V for Vendetta. 

Óskar (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 17:26

4 Smámynd: arnar valgeirsson

sá nú þessa svona með öðru og hef ekki kortlagt gripinn. en skemmtilegt hjá þér að setja þetta upp og duglegur að horfa á aftur svona til öryggis.

jamm, misjafn er smekkur manna og ég sætti mig alveg við listann, hef þó ekki séð hellboy og ghost rider, en sé allavega riderinn við tækifæri.

annars sé ég að namibíuferðin hefur verið mikið ævintýri og vel heppnuð, svona kannski fyrir utan flugið. þetta eru orðnir þvílíkir reynsluboltar og heimsborgarar, krakkarnir.

vonast til að sjá ykkur öll á sunnudaginn i perlunni, skelli upp tilkynningu bæði á bloggi og skákinni fljótlega.

eins og þeir segja" það er erfiðara að halda titli en ná í"......

arnar valgeirsson, 2.10.2007 kl. 21:17

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er svo heppin að eiga barnabörn þannig að ég hef horft á þessa, reyndar finnst okkur húsbandinu mjög gaman af teiknimyndum.  Nú býð ég spennt eftir 1.sæti.

Ásdís Sigurðardóttir, 2.10.2007 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband