12 eftirminnilegustu atriði Afríkuferðar Salaskóla

Kl. 10:30 á eftir förum við Jóhanna og Patrekur í útvarpsviðtal á Rás 2 hjá Margréti Blöndal, þar sem rætt verður um Namibíuferðina.

Af þessu tilefni ákvað ég að rifja upp 12 eftirminnilegustu atriði ferðarinnar.

 

1. Dansinn

Gummi og Birkir tóku þátt í trylltum afrískum dans. Ég á eftir að birta myndskeið með þessu hérna á blogginu. 

2. Ljónaveislan

Við sátum klukkustund inni í búri og horfðum á ljónahjörð éta. Hegðun þeirra við 'matarborðið' og djúpt urr situr ennþá í mér. 

3. Fátækt í hamingju

Við ókum um fátæk hverfi þar sem húsin voru kofar byggðir úr bárujárnsplötum. Samt ríkti gleði í fasi fólks. Börn léku sér að beinum og steinum. Fólk var úti! Algjör andstæða við Ísland í dag. Ég hef á tilfinningunni að Íslendingar séu að verða alltof ríkir og farnir að krefjast svo mikils af öllu og öllum að hætta sé á að gleyma því að gleðjast yfir einföldum hlutum.

4. Skólabörn sem haga sér vel

Þar sem ég hef heimsótt skóla á Íslandi síðustu ár hefur verið erfitt fyrir kennara að fá hópinn til að hegða sér sæmilega, kannski vegna þess að Íslendingar eru svo miklir einstaklingshyggjumenn og börnin þarafleiðandi líka. En börnin í skólastofum Namibíu höguðu sér einfaldlega fullkomlega. Það var ekki að sjá ofvirknivandamál eða vanvirðingu gagnvart kennurum. Það var gaman að sjá þetta. Annað en maður sér á Íslandi í dag, því miður.

5. Sigur á skákmótum

Salaskólasveitin vann sveitakeppnina og Patrekur vann einstaklingsmótið, bæði í skólaskák 20 ára og yngri. Algjör snilld!

6. Fílarnir

Við keyrðum ansi nálægt villtum fílum í Safari. Einn þeirra nálgaðist okkur ískyggilega mikið og var farinn að breiða út eyrun í um þriggja metra fjarlægð frá zoom-linsu Stefáns Jóns.


7.  Oryx gómsæti og spjót bushmannsins

Við fengum máltíðir sem kitluðu bragðlaukana á skemmtilegri hátt en nokkrar aðrar máltíðir sem ég hef smakkað hvar sem er í heiminum. Oryk lundir eru hreinn unaður að kjammsa á, og svo er strúturinn alls ekki af verri endanum.

8. Flugan við morgunverarborðið

Fyrsta daginn í Afríku kom drekafluga að morgunverðarborðinu sem olli því að sum börnin hreinlega trylltust.  Þau veifuðu út öllum öngum, öskruðu og skræktu, bara vegna einnar flugu. Ég minnti þau á að þegar þau yrðu hrædd í Afríku væri best að sýna engin óttamerki, rétt eins og á skákborðinu, því að óttamerki er veikleiki sem getur gert ógn að veruleika.

9. Hópefli

Við fórum í hópefli á skemmtilegum garði. Þar stjórnaði stæltur Schwarzenegger aðdáandi að nafni Andre hópeflinu af miklum krafti. Gerði þetta að stórskemmtilegu ævintýri.

10. Stefán Jón Hafstein

Stefán Jón var skemmtilegur leiðsögumaður, og braut upp bíltúra með því að gefa sögustundir í forsælu og gaf góð ráð þegar kom að prúttkaupum. Þegar gírkassinn eyðilagðist gerði hann úr skemmtilegt ævintýri sem gleymist ekki í bráð.

11. Rudigur  

Rudigur var bílstjóri okkar í Windhoek. Börnin tóku ástfóstri við hann. Á síðasta deginum vorum við staddir inni í minjagripaverslun og ég spurði hann hvort hann langaði í eitthvað úr versluninni; fallegan penna, kveikjara eða eitthvað. En hann óskaði eftir íslensku landsliðstreyjunni í knattspyrnu. Spurning hvort að hægt væri að fá alvöru stykki fyrir hann?

12. Flugvallavandamál

Við flugum með British Airways út og áttum ferð til baka, en BA fær falleinkunn hjá mér. Þeir voru næstum búnir að klúðra ferðinni út vegna bókunarmála, og klúðruðu algjörlega ferðinni heim, rétt eins og Namibia Air. Vélin frá Namibia Air tafðist um tvær og hálfa klukkustund á heimleiðinni, þannig að við misstum af vélinni heim með British Airways. Hvorki Air Namibia né British Airways vildi nokkuð gera til að bæta hópnum þetta. Það var varla hjálparviðleitni til staðar! Tveir fullorðnir og fimm börn strand á flugvelli í London og enginn vildi hjálpa. Við hringdum í Icelandair og keyptum miða hjá þeim. Ég kem til með að forðast að ferðast með British Airways eins og heitan eldinn héðan í frá. Þetta þýddi þó að við Jóhanna höfðum 2 klst. til að kíkja til London. Við ráfuðum þar aðeins um Picadilly Circus.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband