Fimm rithöfundar í uppáhaldi hjá mér - I. þáttur

Ég ákvað að skrifa stuttan úrdrátt um þá rithöfunda og ritverk sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér. Ég er ekki jafnmikill lestrarhestur og ég er kvikmyndagúrka, en ákvað að henda frá mér nokkrum línum um þessa áhrifavalda í mínu lífi.

Hómer (8. eða 7. öld fyrir Krist, grískur)

Hómer, hvort sem hann var einstaklingur eða hópur manna sem safnaði saman munnmælasögum á ljóðaformi, þá eru fáar bókmenntir sem jafnast á við skemmtanagildið sem hægt er að fá út úr Hómerskviðunum, Ilionskviðu og Odysseifskviðu.

photo_17_hires

Ilionskviða fjallar um stríðið á milli Grikkja og Trójubúa sem í sögubókum er kallað Trójustríðið. Reyndar var efast um tilvist Tróju allt fram á 20. öldina, en þá fundust einmitt leifar þessarar fornu borgar. Aðalhetjurnar eru öflugir hermenn í báðum herjum. Annars vegar eru það þeir Akkíles og Agamemnon í liði Grikkjanna, og hins vegar er  Hector mesta hetja Trójumanna, en bróðir hans, París, hefur rænt drottningunni Helenu fögru frá eiginmanni hennar, spartneska konunginum Menelási, sem er bróðir Agamemnons. Reyndar er hægt að deila um það hvort að Helenu hafi verið rænt eða hún farið viljug með París.

Til að endurheimta Helenu fögru, leggur grískur her í mikla siglingu til Tróju undir forystu Agamemnons. Meðal Grikkjanna eru hálfguðinn Akkíles og Odysseifur, sem sagt er meira frá í Odysseifskviðu. Bardaginn við Tróju inniheldur margar mikilfenglegar lýsingar af manndrápum, sem lýst er á ljóðrænan hátt, rétt eins og tókst að gera með kvikmyndinni 300 sem sýnd er enn í kvikmyndahúsum.

photo_47_hires

Á sama tíma og manneskjurnar herja á jörðu niðri er sagt frá guðunum sem fylgjast spenntir með og hafa gaman af ofbeldinu á jörðu niðri. Sumir guðanna halda með Grikkjum, en aðrir með Trójumönnum, og hjálpa þeir stundum þeim sem eru í uppáhaldi. Frá sjónarhorni hermannanna er stríðið mikill harmleikur, en aðeins gamanleikur frá sjónarhorni guðanna.

Sagt er frá herkænsku Odysseifs þegar hann finnur upp Trójuhestinn, sem notaður er til að smygla nokkrum hermönnum inn fyrir borgarvirki Tróju.

Þema sögunnar er reiði. Allir virðast vera reiðir og pirraðir út í einhvern annan. Agamemnon er brjálaður út í Trójumenn fyrir að vanvirða bróður hans og Spartverja fyrir ránið á Helenu fögru. Þessi reiði hans bitnar á þeim sem síst skyldi, því að í heift sinni tekur hann konu Akkílesar og sefur hjá henni. Við það verður Akkíles að sjálfsögðu brjálaður út í Agamemnon, og er nánast vonlaust að fá hann til að taka þátt í bardaganum, fyrr en góður vinur hans er drepinn af óvininum. Þá fyrst beinir hann heift sinni að Trójumönnum. Þeir Hektor og Akkíles er lýst sem ofurmönnum, þeir drepa yfirleitt marga í einu og fara létt með auma andstæðinga sína. Það er ekki fyrr en þeir mætast að óvíst verður um hvort stendur uppi.

Nokkrar tilvitnanir úr þýðingu Sveinbjörns Egilssonar á Ilionskviðu:

Bókin byrjar á þessari málsgrein: “Kveð þú, gyðja, um hina fársfullu heiftarreiði Akkils Peleifssonar, þá er olli Akkeum ótölulegra mannrauna, og sendi til Hadesarheims margar hraustar kappasálir, en lét sjálfa þá verða hundum og alls konar hræfuglum að herfangi, eftir það að þeir höfðu eitt sinn deilt og skilið ósáttir, herkonungurinn Atreifsson og hinn ágæti Akkilles. Svo varð fyrirætlan Seifs framgeng.”

Eða með öðrum orðum: “Þessi saga fjallar um reiði Akkílesar, sem drap og kvaldi marga hermenn á vígvelli, og það eftir ósætti Agamemnons og Akkílesar. Þetta er örlagasaga þeirra.”

Málsgrein úr bardaganum: “Turnarnir og vígin voru hvervetna drifin mannablóði, hvorratveggju, Trójumanna og Akkea, þó gátu Trójumenn ekki snúið Akkeum á flótta. Þeir voru hvorirtveggju, sem ráðvönd spunakona, er heldur á metinu og ullinni, og jafnar svo niður, að jafnþungt verður á hvorri skálinni, svo hún fái lítilfjörleg vinnulaun handa börnum sínum: svo hélzt bardaginn og orustan jöfn milli þeirra, áður en Seifur veitti Hektori Príamssyni vegsmuninn, þá hann hljóp fyrstu upp á garð Akkea. Hann kallaði hátt til Trójumanna, svo þeir heyrðu allir: “Rísið upp, þér hestfimu Trójumenn, brjótið garð Argverja, og skjótið loganda eldi í skip þeirra!”

Hér er eftirminnilegt bardagaatriði, þar sem Akkílesi er lýst: “Hinn seifborni kappi lét þar eftir spjót sitt, og lagði það í einn porsviðarrunn, stökk síðan, líkur óvætti, út í fljótið, með eintómt sverðið, og hafði ill verk í hyggju. Hann hjó á báða bóga; risu þá upp hræðileg andvörp, er mennirnir voru slegnir með sverðinu, en vatnið varð rautt af blóðinu. Svo sem aðrir fiskar flýja hræddir undan ákafastórum vagnhval, og fylla upp allar víkur í vogskornum fjarðarbotni, því vagnan étur drjúgum hvern fisk, er hún nær: svo flýðu Trjójumenn undir vatnsbakkana í straumum hins óttalega fljóts. En er Akkilles var þreyttur orðinn í handleggjunum að drepa, veiddi hann upp úr fljótinu tólf unga sveina, í vígsbætur fyrir Patróklus Menöytsson, og dró þá á land; voru þeir þá rænulausir af hræðslu, sem hindarkálfar. Hann batt hendur þeirra á bak aftur með vel sniðnum ólum, er þeir sjálfir höfðu á sér við hina riðnu brynstakka sína, fékk þá svo félögum sínum, að flytja þá til enna holu skipa, en hljóp sjálfur fram að fljótinu aftur, því hann langaði enn til að höggva niður mennina.”

Ilíonskviða er stórskemmtilegt bókmenntaverk. Reynt var að kvikmynda hana með kvikmyndinni Troy (2004) þar sem Brad Pitt lék Akkíles en Eric Bana lék Hector. Því miður var myndin ekki jafngóð og bókin. Aftur á móti var kvikmyndin 300 gerð árið 2006, og náði hún mjög vel andrúmsloftinu sem hægt er að finna með lestri á Ilíonskviðu.

Odysseifskviða fjallar aftur á móti um heimför Ódysseifs eftir Trjóustríðið. Þetta ferðalag tók hann um tuttugu ár! Heima býður hans eiginkonan Penelópa, trú honum fram á síðustu stundu, og sonur hans Telemakkus. En fjöldi manna biðla stöðugt til Penelópu, þar sem þeir halda að Ódysseifur hafi farist á heimleiðinni, en þeir girnast bæði hana og ríkidæmið, en Ódysseifur var konungur yfir Íþöku.

Ulysses-sirens-Draper-L

Á heimleiðinni lendir Ódysseifur í miklum þolraunum, og við þær þroskast hann úr villtum stríðsmanni í mann sem lesandinn þekkir af dýpt sem tilfinningaveru. Á leiðinni heim berst Ódysseifur við eineygða risa, sírenur sem tældu menn til dauða, Skyllu - skrýmsli með sex höfuð, hann þurfti að takast á við mögulega uppreisn á skipi sínu, fara til heljar, og margt fleira, - áður en hann lendir í lokauppgjörinu þar sem hann þarf að berjast við hlið sonar síns gegn öllum ofstopafullu biðlunum sem girnast eiginkonu hans.

ulysses

Odysseifskviða er æsispennandi skáldsaga, og mun léttari aflestrar en Ilíonskviða. Ævintýri Ódysseifs eru spennandi og grípa ímyndunaraflið heljartökum, og sleppa ekki lesandanum fyrr en eftir blóðugan lokabardaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

ég hef ekki ennþá lagt í kviðurnar, en maður kannski tekur sig til þegar staflinn á náttborðinu minnkar og maður er búinn að lesa þessa metra sem eru ólesnir í hillum. En þar sem þú ert nú; heimspekingur, skákmaður, kennari, framkvæmdastjóri, tæknihöfundur, ráðgjafi og fleira, þá vona ég að þú sért búinn að lesa "kertin brenna niður" eftir Sándor Márai. Eina bókin sem þýdd hefur verið á íslensku eftir þennan undrapenna og er svo flott skrifuð að maður fær barasta gæsahúð. Svo er hún aldeilis með heimspekilegu ívafi og leikrit verið sett upp í London með Jeromy Irons um söguna + að allir ungverskir framhaldsskólanemar sjá þessa mynd, kvikmyndaða þar í landi. Mín uppáhalds allavega og þú kíkir á hana ef þú ert ekki búinn allerede....

kv, AV

arnar valgeirsson, 20.4.2007 kl. 22:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband