Hot Fuzz (2007) ****

Leikstjórinn Edgar Wright hefur ásamt Simon Pegg og Nick Frost skilið eftir sig slóð frábærrar skemmtunar, en þeir Edgar og Simon skrifa handritin að öllu þeirra efni saman. Fyrst gerðu þeir Spaced, stórfyndna gamanþætti sem léku sér að því að troða stíl bandarískra stórmynda inn í breskan hversdagsleika. Þeir fylgdu þáttunum eftir með Shaun of the Dead, rómantískri gamanmynd með uppvakningum, en þar tengdi hún saman fjölmarga stíla bandarískra Zombie-kvikmynda og annarra hrollvekja, og fléttaði inn í söguþráð af starfsmanni í raftækjaverslun sem lifði það innihaldslausu lífi að hann minnti helst á uppvakning sjálfur. Hinn finnur loks tilgang í lífinu með því að flýja undan og berjast gegn heilaladauðum uppvakningum.

Hot Fuzz tekur aftur á móti fyrir það sérstaka form kvikmynda sem mætti á góðri íslensku kalla löggu- og bófamyndir. Vísanir úr Hot Fuzz í slíkar myndir eru óteljandi, sem dýpkar einfaldlega áhuga minn fyrir kvikmyndargerðarmönnunm. Þegar maður áttar sig á tengslunum koma stundum í ljós hugmyndir sem kitla hláturtaugarnar. Helsti styrkur myndanna eftir þá félaga er að þær fara aldrei út í tóma vitleysu, þó að þær séu kannski byggðar á tómri vitleysu.

Þeir nota ógurlegt magn skota úr öðrum myndum. Til dæmis gera þeir svolítið skemmtilegt grín að Michael Bay og John Woo skotum. Simon Pegg hefur Bruce Willis og Chow Yun Fat taktana á hreinu, það eru atriði þarna beint úr Kill Bill, Bad Boys, The Killer, Point Break, The Frighteners, Bad Taste, Twin Peaks, The French Connection, Beverly Hills Cop, Scream, Dirty Harry myndunum, Spaghetti vestrum Sergio Leoni; og þannig má lengi telja, reyndar svo lengi að mig langar helst að hlusta á greiningu frá þeim Edgar Wright og Simon Pegg sjálfum.

Nicholas Angel (Simon Pegg) er ofurlögga í London. Hann handtekur 400% fleiri glæpamenn en venjuleg lögga, er snillingur með skotvopn, hefur ályktunargáfu á við Sherlock Holmes (eða Ace Ventura Pet Detective), getur keyrt eins og Popey Doyle í French Connection; er vinsæll meðal fólksins þar sem hann heldur öllu í röð og reglu; en er öfundaður af starfsfélögunum sem finnst hann setja alltof há viðmið, sem þeir geta ómögulega fylgt eftir. Þess vegna er Angel hækkaður í tign og sendur gegn hans vilja til lítils landsbyggðarþorps sem hefur í mörg ár verið valið besta þorp Englands, enda hefur ekkert markvert gerst þar í tuttugu ár. Það er friðsælla en friðsælustu þorp geta verið. Aftur á móti er slysatíðnin í þorpinu frekar há.


Fólk á það til að deyja af slysni við ólíklegustu aðstæður, og engan virðist gruna að eitthvað skuggalegt gæti verið á seyði, nema Angel. Hann fær lögreglumanninn Danny Butterman (Nick Frost) sem starfsfélaga, þybbinn og vinalegan gaur sem getur ekki beðið eftir að komast í spennandi kringumstæður. Hann biður Angel stöðugt um að segja sér sögur frá ævintýrum hans í London, og brátt verða þeir félagar hinir mestu mátar.

En þegar líkin fara að hrannast upp í þessu vinalega þorpi, rétt fyrir úttekt frá þeim sem mæla bestu þorpin, kemst Angel á snoðir um samsæri sem ógnar orðspori bæjarins. Hann grunar að verslunareigandinn Simon Skinner (Timothy Dalton) hafi eitthvað gruggugt í pokahorninu, og ákveður að rannsaka málið upp á eigin spýtur þegar blaðamaður er myrtur á subbulegan hátt. Hann reynir að fá rannsóknarlögreglumenn bæjarins í lið með sér, en þeir gera bara grín að honum, halda að hann sé að missa vitið þar sem að aldrei hafi nokkuð gerst í þessum bæ á meðan þeir hafa starfað þar.

Þemað sem liggur undir niðri er líka stórsnjallt, en það snýst um hversu hættulegar öfgar, forsjárhyggja, fasismi og nytjahyggja geta verið, þegar hópur venjulegs fólks kemur saman og myndar stjórnmálaafl sem ekki er tilbúið til að hlusta á andstæð sjónarmið. Þetta minnir mig svolítið á öfgarnar sem maður hefur verið að heyra fyrir kosningabaráttuna hjá einstaklingum úr sumum flokkum, sem hafa sannfært mig um að kjósa þá ekki. Róttækir og öfgafullir feministar, umhverfisstjórnun sem miðar að því að stoppa vöxt fyrirtækja, bætt útlit umhverfisins á kostnað annarra gilda, vanhæfni og heimska - allt passar þetta inn í það sem Hot Fuzz gagnrýnir á frekar smekklegan en jafnframt blóðugan hátt.  

Ég mæli sterklega með Hott Fuzz fyrir alla þá sem gaman hafa af spennumyndum og fylgjast eitthvað með kvikmyndagerð. Viðkvæmum gæti þótt hún of ógeðsleg, jafnvel viðbjóðsleg, á köflum, og nokkuð ljóst að hún er ekki ætluð hverjum sem er. Það munu ekki allir fatta þennan húmor, en þeir sem gera það, eiga eftir að koma af sýningunni uppfullir af svolítið óhreinni ánægju. 

Ég fór út af myndinni skælbrosandi og var farið að verkja í brosvöðvana klukkustundu síðar. 

Kíktu á sýnishorn úr Hot Fuzz:



Smelltu hér til að lesa gagnrýni um miklu fleiri kvikmyndir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Frábært að hafa þig til að benda manni á góðar myndir. Ég er áhugamanneskja um að kaupa ekki köttinn í sekknum þegar ég fer út á myndbandaleigu. Gott að hafa svona menn eins og þig.

Steingerður Steinarsdóttir, 31.3.2007 kl. 23:44

2 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Takk fyrir góðann pistil. Shaun of the dead var snilld og þessi lýsing þín á þessari mynd er þannig að það er engin spurning að maður kíkir á hana. Svartur Breskur húmor er snilld :-)

Kristján Kristjánsson, 1.4.2007 kl. 13:03

3 Smámynd: Björn Heiðdal

Fleiri svona myndir takk.

Björn Heiðdal, 5.4.2007 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband