Á að þagga niður í óþægilegum röddum eins og Snorra í Betel og blaðamönnum Vikunnar?

Íslensk stjórnvöld og réttarkerfi virðast ekki átta sig á eðli málfrelsis. 
 
Tvær blaðakonur Vikunnar voru sakfelldar fyrir að hafa rétt eftir viðmælendum sínum og birta það á prenti. Mannréttindadómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að þessi dómur er á skjön við mannréttindi. 
 
Manni er vikið úr kennarastarfi fyrir að telja og skrifa um skoðun sína um samkynhneigð, sem virðist á skjön við íslenskan rétttrúnað. Ég get ekki skilið að þessi skoðun réttlæti brottvikningu, þó að hún virðist stríða gegn pólitískri réttsýni Íslendinga árið 2012. Mig grunar að þessi aðför að Snorra verði túlkuð sem brot á mannréttindum af sama mannréttindardómstóli.
 
Mannréttindasáttmáli sameinuðu þjóðanna fjallar um tjáningarfrelsið sem nauðsynlegan rétt, að við höfum öll rétt til að hugsa og tjá skoðanir okkar, sama hverjar þær eru, og sama þó að skoðanir okkar séu óvinsælar, þá á ekki að vera hægt að snúa þeim niður með lögum, svo framarlega sem að þessar skoðanir séu ekki beinlínis hættulegar öryggi manneskju eða hópi. Og þá á ég ekki við hvort að þær særi tilfinningar einhverra út í bæ.
 
Það er mikilvægt að virða rétt hvers og eins til að hafa eigin skoðanir og tjá þær, hversu ljótar og andstyggilegar manni getur þótt þær, því að þaggaðar skoðanir, séu þær ljótar og andstyggilegar, grassera miklu betur þegar þær fá að krauma undir niðri en þegar þær eru beinlínis tjáðar og gagnrýndar.
 
Það er mikilvægt að leyfa óþægilegum röddum að komast að. Óþægileg gagnrýni getur stuðað okkur til að hugsa málin upp á nýtt. Án slíkrar gagnrýni nær heimskan að skjóta rótum. Gagnrýni getur ekki blómstrað án þess að allar hliðar málsins fái að heyrast. 
 
Þurfum við ekki frekar að hugsa um það sem við heyrum og upplifum, frekar en að útiloka það sem við heyrum og upplifum? 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Er það að þagga niður í "óþægilegum röddum" að líða ekki haturs og öfgaáróður ef hann er byggður á trúarlegum forsendum?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 12.7.2012 kl. 22:11

2 identicon

Hver er fær um og hver fær að skilgreina hvað er haturs og öfgaáróður?

Erlendur (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 22:16

3 identicon

Hrannar. Blaðakonur höfðu rétt eftir viðmælendum, en vanhæfir dómarar þekktu ekki einu sinni stjórnarskrána og vissu ekki hvað orðið mannréttindi þýddi. Fávís kennari bullar um samkynhneigð í bland við ótímabær trúarbrögð og útkoman verður einn allsherjar þvættingur, hættulegur börnum og unglingum. Og þar finnur þú vörn í þessum svokallaða “réttrúnað”, hvað svo sem það orð þýðir.

Þú segir að það sé mikilvægt að leyfa óþægilegum röddum að komast að, að óþægileg gagnrýni geti stuðað okkur til að hugsa málin upp á nýtt, að án slíkrar gagnrýni nái heimskan að skjóta rótum, að gagnrýni geti ekki blómstrað án þess að allar hliðar málsins fái að heyrast. „Sounds good“, en er bara blaður hvað þetta mál varðar. Bara blaður. Hugsaðu betur um málið, þú ert vel manntaður Hrannar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 22:42

4 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Rósa Aðalsteinsdóttir, 12.7.2012 kl. 22:48

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Myndir þú vilja að samkynhneigt barn þitt væri í kennslutímum hjá Snorra í Betel Hrannar?  Ekki ég.  Þú ert að bera saman epli og appelsínur þarna að mínu mati. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.7.2012 kl. 22:49

6 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Þegar við sem börn og unglingar göngum í skóla, þá eru kennarar okkar með ýmsar og ólíkar skoðanir á öllu milli himins og jarðar.

Þessu verðum við nemendurnir að una, enda koma sjónarmið kennaranna ekki fram með þeim hætti, að þeir séu að innprennta sínar persónulegu skoðanir í kennslustundunum.

Hrannar talar hér á almennum nótum og er því réttu megin með sína skoðun.

Foreldri sem fer að kanna skoðanir (stjórnmálaskoðanir) kennara barna sinna eru aftur á móti á hálum ís. Kæmust þeir að því að kennararnir hefðu aðrar skoðanir (m.a. stjórnmálaskoðanir) en þeim er þóknanlegt, ættu þeir þá að fara fram á að fá aðra kennara fyrir börnin sín.

Með þessari röksemdarfærslu sem ég hér dreg upp, þá eru það foreldrarnir sem viðhalda þröngsýni og hættulegri skoðanakúgun, þegar þeir vilja að allir sem að uppeldi koma hafi sömu skoðun og þeir sjálfir.

Þá vantar allt umburðarlyndi og við erum komin til miðalda í þeim skilningi.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 13.7.2012 kl. 09:34

7 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Ég hef miklu við þetta að bæta.

Þegar ég var 19 ára gerðist ég jurtaneytandi, þvert á viðteknar skoðanir þjóðfélagsins.

Ætti þetta að gera mig óhæfan sem kennara, vegna þess að ég aðhylltist ekki matarvenjur sem 99% manna í minni sveit litu á sem sannar og réttar?

Hvað svo 50 árum seinna, þegar hlutfallið færist óðfluga í átt að því, að sérvitringurinn hafi alla tíð haft rétt fyrir sér?

Á þá maðurinn sem var í algjörum minnihluta og álitinn kjáni að fá uppreisn æru?

Þeim er því mikill vandi á höndum sem ofsækja Snorra kennara vegna hugmynda hans um kynhneigð.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 13.7.2012 kl. 09:45

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hér er verið að bera saman epli og appelsínur Sigurður minn.  Þú ákvaðst að gerast jurtaæta, þó þú hefðir talað þig bláan í frama yfir nemendum, hefði þeir ekki tekið þetta nærri sér.  En unglingur sem á í tilvistarvanda vegna óöryggis á kynhneigð, og mætir þessum skoðunum getur orðið fyrir varanlegum skaða í sálarlífinu.  Enda viðurkenndi Snorri að hann hefði stundum rætt svona mál við nemendur.  Þarna er verið að ræða um mann sem trúir staðfastlega á orð biblíunnar.  Þegar upp koma svona mál sem geta haft skaðleg áhrif, þá er þessi maður eins og fíll í postulínsbúð. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.7.2012 kl. 10:37

9 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Þegar ég var í barnaskóla þá var ég lagður í einelti, sem á hæðsta stigi lýsti sér þannig að einn ofsækjendanna henti hjartarsalti í augun á mér.

Hvað hafði ég sakleysinginn gert af mér? Jú, ég var ekki eins og fólk er flest, vegna þess að ég var það sem kallað er tileygður. Þessi afbrigðileiki nægði til að á mig var ráðist meðþessum hætti.

Ekki sé ég hvernig það réttlætir svona hegðun, þó ég sé ekki með heilbrigð augu.

Varðandi hinn nú ofsótta Snorra í Betel, þá er hann ekki eins og fólk er flest, eða hvað? Hann virðist vera afskaplega þægilegur maður og ekki gera nokkrum manni til miska. Hann á að eiga vísa vernd, vegna þess að honum er í stjórnarskránni tryggður réttur til skoðana sinna og trúar.

Hvert er þjóðfélagið að fara þegar það hefur ekki umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum þjóðfélagsins?

Er einhver búin að gleyma ofsóknum nazista og ofsóknum kommúnista og allra hinna sem engu eyra.

Getur þessi litla þjóð ekki verið fyrirmynd um góða siði?

Sigurður Alfreð Herlufsen, 13.7.2012 kl. 11:18

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er ekkert sem réttlætir einelti Sigurður minn.  Það er því miður alveg skelfileg lífsreynsla þeim sem lenda í slíku.  Ég þekki dæmi nokkur um fólk sem hefur lent í einelti í skóla og hefur í raun aldrei náð sér eftir það. 

En það er munur á því eða að setja af kennara sem hefur fordóma gagnvart ákveðnum hluta nemenda sinna.  Eineltið er að mínu mati hjá þeim sem eru öðruvísi  - hinsegin- Ég vona að Snorri finni sér starf við hæfi, þar sem hann getur ekki skaðað neitt með þessari þröngu afstöðu sinni til afbrigðilegs kynlífs. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.7.2012 kl. 11:31

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Afbrigðilegs að hans mati átti þetta að vera.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.7.2012 kl. 11:31

12 identicon

Það er kristaltært að Snorri á ekki að kenna börnum.. þeir sem sjá þetta ekki eru... well, úti á þekju, undir steini í dimmum helli.
Það er nokkuð ljóst að Snorri sjálfur myndi góla á fullu ef öfgamúslími sem úthúðaði krissum sem syndurum sem brenna í víti.. Snorri yrði bandóður.. en því miður með marga trúaða, þeir sjá bara eina hlið.. sína hlið

Sigurður er algerlega úti að aka með grænmetisætu samlíkinguna sína..

DoctorE (IP-tala skráð) 13.7.2012 kl. 11:49

13 identicon

Hrannar væri þú hlynntur að kennara fengi að kenna börnum sem væri hlynntur Sharía lögum?

Arnar Magnússon (IP-tala skráð) 13.7.2012 kl. 12:32

14 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl öll.

Ekki sammála vinkonu minni Ásthildi að þetta séu fordómar. Við erum kristin þjóð og Biblían er leiðarbók okkar. Við getum ekki breytt því sem þar stendur.

Þegar ég var í skóla þá var kennari sem var spíritisti sem reyndi að þröngva skoðunum inná okkur.

Annar var með pólitíska fundi í kennslu en hann var vinstri maður og hefur verið á þingi

Ef einhver væri hlynntur saría-lögum og myndi alls ekki tjá sig um þau við börnin þá getur varla verið skaði af því.

Við vitum ekki allt um kennara - við vitum ekkert hvað þeir aðhafast í sínu einkalífi. Gætu verið fíklar á hitt og þetta eins og barnaklám. Ef þeir geta aðskilið sína fíkn frá kennslunni þá í rauninni kemur okkur það ekki við.

Við eigum greinilega ekki lengur heima í lýðræðisríki nema útvaldir. Tek dæmi: Davíð Þór á einkablogginu sínu og Þórhildur Þorleifsdóttir gerði í kosningasjónvarpi ruv. Þau eru jú vinstri menn og kannski leyfist þeim allt því þau eru í réttum flokki??

Tökum þessu rólega - þetta skýrist allt.

Shalom/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 13.7.2012 kl. 13:03

15 identicon

Hrannar er eins og margur trúmaðurinn.. hann missir gagnrýna hugsun þegar trúarbrögð eru annars vegar.
Málið sem fór fyrir mannréttindadómstól er algerlega ólíkt máli Snorra.

DoctorE (IP-tala skráð) 13.7.2012 kl. 13:04

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Rósa mín elskuleg, biblían er leiðarbók þeirra sem hvað lengst eru komin í því að trúa bókstafnum.  Svo er allskonar hliðarskref sem túlka skynsemi og afstöðu mála eftir hjartanu.   Það er einmitt vegna þessa sem ég sagði mig úr kristinni trú.  Ég hef þó það val.  Börnin sem fara í kennslustund hjá kennara sem hefur svona einsleitar skoðanir og ekki bara skoðanir heldur lífstrú, getur ekki tekist á við þau dæmi sem ég nefndi hér að framan.  Menn sem jafnvel halda því fram að það sé hægt að afhomma fólk, og að samkynhneigð sé sjúkdómur sem sé andstæður kristi.  Og svo má spyrja hver skrifaði biblíuna? eða hverjir?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.7.2012 kl. 13:28

18 Smámynd: Hrannar Baldursson

1. Axel Jóhann: gefðu endilega dæmi

2 Erlendur: góð spurning

3 Haukur: Ég er ekki það vel menntaður að ég þykist geta dæmt fólk fyrir skoðanir þess.

4 Rósa: gott dæmi - ég sé ekki betur en að hægt sé að setja upp sams konar dæmi gegn Davíð Þór eins og gert hefur verið gegn Snorra í Betel, á þeim forsendum sem þú bendir á.

5 Ásthildur: er til eitthvað sem heitir "samkynhneigt barn"? Börn finna varla til samkynhneigðar fyrr en þau eru orðin kynþroska, eða hvað? Þar að auki er það rétt hjá Snorra að "hneigðir" eru tilfinningar, sem eru breytanlegar, því er afar vafasamt að festa ákveðna hneigð við hverja manneskju. Þannig gætum við farið að tala um að reiðar manneskjur ættu að hafa sinn sérstaka rétt, eða að glatt fólk verði að hafa rétt á að giftast glöðu fólki. Skilurðu hvað ég meina?

6-7 Sigurður: nákvæmlega.

8 Ásthildur: Hvernig geta skoðanir kennara verið skaðlegar barni, svo framarlega sem þær eru ekki það sem kennsla mannsins snýst um? Þetta þykir mér afar langsótt ákæra. Minnir mig á nornakæruna í Monty Python and the Holy Grail.

9 Siguður: Leiðinlegt að heyra af eineltisupplifun þinni. Þakka þér samt fyrir að tjá þig um hana. Það er einmitt svona nasista- og kommúnistabragur af því að draga fólk í dilka eins og virðist vera að færast í aukana á íslenskum bloggsíðum.

10-11 Hver er munurinn á fordómum og þekkingu í þessu máli? Ég sé ekki betur en að hann rökstyðji mál sitt afar vel. Hvort er það fordómur að trúa því að manneskja sé samkynhneigð frá fæðingu, eða telja samkynhneigð vera hneigð, eins og orðið gerir ráð fyrir, og þar með ekki bundna eðli manneskjunnar?

12+15 DoktorE: Trúirðu virkilega því sem þú lætur eftir þig? Þú mættir vinna aðeins í að fella sleggjudóma, pæla aðeins í mannþekkingu, og átta þig á að kannski vitir þú ekki allt sem þú trúir.

13 Arnar: Ég veit það ekki, enda þekki ég ekkert til Sharía laga. Sjálfsagt myndi ég kynna mér það vandlega áður en ég flytti á svæði þar sem slík lög ríkja.

14 Rósa: Þetta er einmitt málið. Kennarar eru jafn misjafnir og þeir eru margir, rétt eins og fólk í öllum öðrum starfsstéttum. Á kennsluferli mínum hef ég ekki kynnst einum einasta kennara sem ég er sammála um í einu og öllu, og þekki marga sem ég teldi hafa fordóma um ýmislegt, þar með talið kynhneigð, trúarbrögð, stjórnmál, jafnvel íþróttir, og sumir þeirra hafa átt í vandræðum með sjálfa sig af alvarlegri toga, en samt geta þeir verið afbragðs kennarar. Af hverju að yfirfæra eitt yfir á eitthvað allt annað? Slíkt er hættulegt.

16:

Hrannar Baldursson, 13.7.2012 kl. 15:23

19 Smámynd: Hrannar Baldursson

16 Rósa: Góð grein. Takk fyrir ábendinguna. Málfrelsið er of dýrmætt til að kasta á glæ fyrir svona mál.

17 Ásthildur: Fjöldi manns skrifaði Biblíuna og við ólíkar aðstæður. Fjöldi manns valdi efni til að setja Biblíuna saman. Ég hef lesið Biblíuna og dró þá ályktun af lestrinum að hún kemur nokkuð nálægt því að lýsa mannlegu eðli á skýran og greinilegan hátt. Reyndar þarf mikið að geta í eyðurnar, og það er kannski þess vegna sem að alls konar trúarhópar spretta upp með eigin túlkun. Ég hef haft mikla ánægju af því að lesa þessa bók, og hún er alls ekki leiðinleg, fyrir utan einstaka upptalningar sem hægt er að skoppa yfir. Þetta þýðir þó alls ekki að mér líki ekki fleiri bækur, og að ég taki Biblíuna sem heilagan sannleik. Langt í frá.

Hrannar Baldursson, 13.7.2012 kl. 15:27

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sumir foreldrar hafa gefist upp á því að ala börnin sín upp, þetta er viðtað.  Þeir ætlast til þess að skólinn ali börnin upp, þetta á sér í lagi við um þau börn sem eru í vandræðum.  Um þetta er ekki deilt.  Þegar upp kemur svona lagað eins og ég er að ræða hér og kennarinn er algjörlega á því að samkynhneigð sé synd, eða jafnvel verra að einhverjum hluta læknanleg og unglingur stendur frammi fyrir því að kennarinn hreinlega skilur ekki hvað er vandamálið, þá er bara hreinlega ill í efni. 

Ég þekki ágætlega til bæði með börnin mín og barnabarn sem ég hef alið upp.  Og mismunin á því hvernig kennarar sonar míns tóku á hans málum, þar sem hann var svo greinilega haldinn athyglisbresti og ofvirkni og slíku sem núna liggur ljóst fyrir og hvernig honum var ústkúfað úr skólanum sökum vanþekkingar, og fá svo að upplifa son hans við sömu aðstæður, þar sem ég ber ábyrgð á honum, þá segi ég.   Það skiptir máli hvernig kennarar taka á málefnum barnanna, þeir eru í raun og veru í hringiðunni með krökkunum, sem við foreldrarnir erum oftar en ekki fjarlægari en kennarinn. Auðvitað ætti það ekki að vera þannig, en  er það samt oft á tíðum. Og ég segi það bara hreint út, ég hefði ekki viljað eiga samkynhneigt barn í skólastofu hjá manni sem hefur þá lífsýn sem þessi maður hefur.  Þegar ég hef horft upp á barnið mitt eyðilagt af fyrst skólakerfinu og síðan kerfinu sjálfu, og ég barnaleg og áttaði mig of seint á hvað var að gerast.  Þá er það bara þannig.

Við þurfum stundum að gera greinarmun á þöggun og yfirgangi, sérstaklega þegar um unglinga er að ræða.  Þið vorkennið rosalega þessum bókstarstrúarmanni sem fer vælandi á netið og sækir sér samúð.  Málið er að fæstir af fórnarlömbum eineltis og þeir sem þurfa að horfast í augu við sína samkynhneigð fara þá leið.  Þeir líða bara fyrir og taka allt inn á sig. 

Svo farið nú að hugsa aðeins út fyrir rammann og sjá að þessi samúð ykkar í garð klerksins er stormur í vatnsglasi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.7.2012 kl. 16:45

21 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þú misskilur Ásthildur: ég hef ekki samúð með Snorra í Betel, heldur kennarastéttinni sem slíkri, hverjum einasta kennara sem nú getur átt á hættu að vera sagt upp fyrir að vera með skrítnar skoðanir, sama hversu vel viðkomandi vinnur verk sín.

Hrannar Baldursson, 13.7.2012 kl. 17:14

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég held að sú hætta sé ástæðulaus Hrannar í alvöru. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.7.2012 kl. 17:19

23 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ranglæti gegn einum getur fljótt snúist upp í ranglæti gegn fleirum.

Hrannar Baldursson, 13.7.2012 kl. 17:42

24 identicon

Sem bróðir samkynhneigðs manns get ég ekki verið sammála Snorra í Betel. Ég myndi hins vegar deyja fyrir rétt Snorra að tjá sig í stríði við fasista eins og þá sem vilja þagga niðri í honum. Væri málfrelsið ekki til, hefðu samkynhneigðir heldur engin réttindi. Málfrelsið er grundvallarhornsteinn allra lýðræðislegra réttinda. En hann vilja margir taka frá okkur núna, og þá hrynur húsið með og öll okkar réttindi, því bara "þeir sem eru alveg eins og ég" og segja hátt og snjallt "hæl!" við ráðandi öfl eiga að fá að eiga rétt á skoðun framar. Og það verður upphafið af dauða lýðræðisins nema frelsiselskandi fólk sem hefur smá heilbrigða skynsemi og söguþekkingu stöðvi það. Hvað er svo trú og ekki trú? Ég er trúlaus sjálfur, en sé ekki að Snorri sé meiri ofsatrúarmaður, það er að segja; blindur fylgjandi ákveðinna skoðanna og sammála sínum líkum, frekar en að hugsa sjálfstætt, hvað þá djúpt...en bara þessi venjulegi Samfylkingarmaður á Íslandi, en xS er stærsti sértrúarsöfnuður Íslands og er að slá út xD þegar sá deyjandi flokkur var upp á sitt versta (þeir hafa mildast í trúarhitanum)

Eiríkur (IP-tala skráð) 13.7.2012 kl. 18:49

25 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Hrannar ég skil þína afstöðu. Ef ég væri kennari og hefði einhverjar persónulegar skoðanir sem ég ekki myndi viðhafa í skólanum þá gæti ég átt það á hættu að vera REKIN.  Þetta er too much hér á þessu landi þar sem við eigum að lifa við tjáningafrelsi. Ef ekki þá verður að breyta lögum. Yfirmenn í Brekkuskóla hafa framið mannréttindabrot og heft tjáningafrelsi. Kannski verður kennurum sagt upp sem stunda framhjáhald í frítíma sínum? Það getur skaðað börnin að vita að góði kennarinn þeirra sem þau treysta, brjóti hjúskaparlög. Bara eitthvert dæmi.

Sæl og blessuð

Fólk skrifar um fordóma og hatur. Mér sýnist vera hatursskrif út í Snorra Óskarsson hér á þessari síðu sem að ykkar mati er með fordóma og hatur.

MARGUR HELDUR MIG SIG.

Hvernig væri að þið lituð í eigin barm og læsuð það sem þið skrifið. Ég get ekki séð annað en að þið viljið hefta málfrelsi og kannski kemur hnífurinn einhvern tímann að ykkar skrifum. Það væri auðvita ekki sanngjarnt eða hvað?

Á meðan við búum í lýðræðisríki megum við tjá okkur en þið verðið að fá þingmenn til að breyta lögum á Alþingi ef á að hefta tjáningafrelsi. Mikið minnir þetta mig á Sovétríkin sálugu og fleiri ríki. Kommúnískur andi svífur yfir Íslandi og aðför að þeim sem trúa á Jesú Krist hefur aukist og á eftir að aukast.

ÞETTA ER GREINILEGA ÞAÐ SEM ÞIÐ VILJIÐ. Hefta tjáningarfrelsi. Það er mikil afturför.

Mér finnst greinin hans Davíðs Þórs hreinn viðbjóður en hann má ausa drullu og skít yfir Ólaf Ragnar, Guðna og kjósendur Ólafs Ragnar. Viðtal við Þórhildi Þorleifsdóttir í kosningasjónvarpinu særði mig en ég verð að láta það yfir mig ganga er það ekki annars? því það er tjáningafrelsi og allir mega drulla yfir hvort annað.

Ef ég skrifa texta beint úr Biblíunni  er það þá sama og skrif Davíðs Þórs sem skrifaði að Ólafur Ragnar hefði byggt kosningabaráttu sína á ósannindum og níðrógi?

Ætla að enda með Biblíutexta: "" yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana." mælti Jesú við farísea og fræðimenn.

Shalom/Rósa

P.s. búin að kópera þessa frétt.

Ásthildur, margir eiga um sárt að binda frá því þeir voru í skóla. Ég fékk alveg minn skerf vegna þess að ég var feitari en hinar stelpurnar í skólanum, vegna flogaveiki og var ég kölluð  Kasta og Svínka, vegna trúarskoðana og meira að segja fékk ég oft að heyra það þegar okkur börnunum lenti saman: "Mikið er gott að mamma þín er dauð." Ég ætla að vona að þekking sé meiri núna en því miður finnst mér margar brotalamir þó svo að við séum upplýst.

Ég var s.s. oft lögð í einelti og líka vegna trúarskoðana. Þetta allt hefur tekið sinn toll en ég veit ekki um neinn sem hefur ekki eitthvað í bakpokanum sínum. Börn eru grimm en því miður erum við fullorna fólkið ekkert betri í skrifum okkar t.d. hér á blogginu. Það er ekki sama að skrifa skoðun sína og að skrifa skoðun sína :-) Er hægt að skrifa í hógværð í stað þess að vilja hengja einhvern t.d. vegna trúarskoðana eða skoðana í pólitík. 

Ásthildur, þú vilt örugglega ekki láta hefta málfrelsið þitt?

Enn og aftur höldum friðinn og nú bíðum við og sjáum hvað gerist í þessu máli. Ég vona að Snorri höfði mál, ekki eingöngu sín vegna heldur okkar allra. Vil ekki lifa í landi þar sem tjáningarfrelsi er heft. Ég hef valið að búa á Íslandi en ekki í Írak og Íran!   

Njótum þess að vera frjáls og verndum lýðræðið okkar og höldum okkur frá ESB.

Enn og aftur SHALOM.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 13.7.2012 kl. 20:31

26 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Ég vísa í færslu mína #9 um einelti.

Mig langar til að taka það fram að þetta er í fyrsta skifti sem ég opinbera þessa reynslu.

Nú tel ég mig vera að verja það mikla hagsmuni (réttinn til að hafa skoðun og mega tjá hana, og réttinn til að tilheyra minnihluta, án þess að það skerði mína möguleika í samfélaginu), að ég ríf mína 60 ára þögn um þennan atburð.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 14.7.2012 kl. 00:40

27 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sigurður, þakka þér fyrir að segja okkur sögu þína. Ég veit ekki um neinn sem hefur ekki eitthvað í bakpokanum sínum. Ég er að reyna að taka bakpokann af öxlunum, henda honum og setja allt aftur fyrir bak og halda áfram. Ég vona að þér vegni vel og getir orðið sáttur og átt góð ár. Guð veri með þér.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.7.2012 kl. 00:57

28 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Kærar þakkir Rósa (konan mín heitir Sigríður Rósa).

Ég hef sem betur fer aldrei horft til baka til að býsnast yfir mínu hlutskipti að þessu leyti sem hér er lýst.

Hef gengið í bjartsýni og reynt að vera skapandi og sjálfum mér samkvæmur alla tíð.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 14.7.2012 kl. 10:13

29 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hún Ásthildur er alveg að skilja þetta í botn, en nú veldur "heimspekingurinn " Hrannar mér vonbrigðum.

Það er himinnhár munur á málfrelsi blaðamanna og að vitna í viðmælanda í viðtali, heldur en að vera kennari og vitna í Guð með einhverja helvítis vitleysu!

Bæði blaðamaður og kennari og hver sem er getur síðan bloggað hvað sem er...mín vegna.

Jón Valur og hans félagar klöguðu mig og ég varð að loka minni síðu. Það er ok, en ég hef ekki klagað Snorra og hans síðu, þótt ég þekki sársaukan sem helgislepjan þar hefur valdið saklausu fólki og unglingum.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.7.2012 kl. 16:17

30 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Anna Benkovic.

Ég er alls ekki sammála. Blaðamenn eiga líka að gæta að sér eins og aðrir. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Við höfum jú málfrelsi en það er ekki sama hvernig við förum með málfrelsið.

Þú þolir ekki það sem Snorri skrifaði sem stendur í Biblíunni sem er sennilega 2000 ára skrudda í þínum huga en ekki hans huga og ekki í mínum huga. Fyrir okkur er þetta heilög bók og ég vona að þú  getir virt það við okkur.

Hvað finnst þér um skrif Davíðs Þórs sem skrifaði á einkabloggi sínu en hann starfar meðal barna og unglinga á Austurlandi. Hann er guðfræðimenntaður. Má hann drulla svona yfir fólk af því að hann er ekki í kennarastéttinni en samt fyrirmynd barna og unglinga eins og Snorri. Þetta er klikkað að ætla að hengja einhvern einn á meðan margir aðrir skrifa viðurstyggð á bloggið sitt og ekki var ég sátt þegar ég hlustaði á Kvennalista - sandfylkingarkonuna í kosningasjónvarpinu þegar hún drullaði yfir allt og alla sem ekki gengu í takt við hana og hennar skoðanir. Veistu að hún særði mig en það skiptir ekki máli eða hvað?

Shalom/Rósa

Er þetta ekki bara af því þetta er úr Biblíunni sem allt snýst á hvolf og þið ásakið Snorra um hatursskrif gegn samkynhneigðum en á sama tíma eruð þið með hatursskrif um Snorra. það er sjálfsagt í lagi.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.7.2012 kl. 16:37

31 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Sæl Rósa, gaman að sjá þig hér :-)

Nei , ég er ekki að hafna málfrelsi og það er að gæta sín, að vitna í viðmælanda.

Kennarar reyna að vitna í kenningar og vera sannleikanum samkvæmir, en allar manneskjur verða að vanda sig í skrifum....alltaf.

Það er ekki stafsetningarvillur sem ég meina þegar ég segi og skrifa "í skrifum sínum" heldur að nærvera sálar!

Kær kveðja

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.7.2012 kl. 16:50

32 identicon

Fólk með ákveðnar skoðanir á ekki að gegna ákveðnum stöðum. T.d. myndi ég ekki vilja að leikskólankennari væri á þeirri skoðun að barnagirnd væri eðlileg, læknirinn minn aðhyllist óhefðbundnar lækningar eða kennari barnsins míns þætti samkyhneigð óeðlileg.

Mér finnst frelsi foreldranna til að velja hvernig fólk kennir börnunum sínum eiga að ganga fyrir frelsi fordómafullra trúarofstækismanna til að tjá skoðanir sínar á samkynhneigð. En þetta er bara mín skoðun, just saying!

Bjöggi (IP-tala skráð) 14.7.2012 kl. 16:59

33 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ég er sammála pistli Hrannars og hef svipaðar skoðanir og hann á þessu deilumáli.

Athugasemdir hans #21 og #23, segja eiginlega allt sem þarf.

Kolbrún Hilmars, 14.7.2012 kl. 17:01

34 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Anna, algjörlega sammála þessu, skil alveg með stafsetningvillurnar.  Allir þurfa að passa sig ekki bara kennarar.

Vona að við sjáumst aftur á blogginu eins og í denn en ég viðurkenni að ég er löt og hef verið í nokkra ára fríi :-)

Kolbrún, tek heilshugar undir skrif þín með athugasemdir 21 og 23.

Við verðum að vona að þetta fari allt vel.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 14.7.2012 kl. 17:26

35 Smámynd: Steddi

Vá ég missti þráðinn, spurningin "á að þagga............." mitt svar er nei

Steddi, 14.7.2012 kl. 23:10

36 identicon

Viltu meina að trúarlegi eltihrellirinn Snorri kenndur við Betel eigi sér málsbætur?

Þrymur Sveinsson (IP-tala skráð) 15.7.2012 kl. 01:49

37 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Að sjálfsögðu Þyrmir. Góða nótt og ljúfa drauma.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 15.7.2012 kl. 03:05

38 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það á ekki að þagga sannleikann niður. Sama hvaðan hann kemur, né um hvern sá sannleikur er.

En það á að banna pólitískt sérvöld mál, sem fá fyrirgreiðslu hjá einhverjum nógu fjársterkum, og forgangs-meðhöndlun hjá þessum svokallaða mannréttinda-dómsstóli.

Snorri og aðrir kennarar eiga að kenna um öll trúarbrögð, eða sleppa trúarbragðakennslunni.

Skólar eiga ekki að vera verkfæri pólitískra trúarbragða af nokkru tagi.

Skólar eiga að kenna börnum að lesa, skrifa, reikna, og hlusta á sína sjálfstæðu og réttlátu skoðun, sem er styrkleiki, innsæi og vegvísir allra frjálsra einstaklinga.

Þetta er mín skoðun.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.7.2012 kl. 18:27

39 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála Hrannari í öllu sem hér er rætt um. Stuðningur hans við Snorra kemur kennslu ekkert við en er grundvallaratriði. Varðandi blaðakonurnar er ekki rétt að refsa þeim ef sá sem eftir er haft telur það rétt gert. Andi greina getur samt skapað ábyrgð.

Sæmundur Bjarnason, 15.7.2012 kl. 21:31

40 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Algjörlega sammála Hrannari, það veit á vont þegar hægt er að reka menn fyrir skoðanir sínar. Þar fyrir utan, því meiri athygli sem Snorri fær, því betra að mínu viti.

Brynjólfur Þorvarðsson, 16.7.2012 kl. 07:03

41 Smámynd: Einar Karl

Mér þykir það sérstakt hjá Hrannari að kalla það "rétttrúnað" að vilja virða mannréttindi homma og lesbía, að vilja að þau fái að lifa sínu lífi Í FRIÐI fyrir mönnum eins og Snorra.

Var það "rétttrúnaður" í Bandaríkjamönnum, þegar þeir ákváðu upp úr 1960 að leyfa svörtum að sitja í sömu sætum og hvítir í strætó?

Frelsi, mannréttindi og óhæfur kennari

Einar Karl, 16.7.2012 kl. 10:49

42 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Einar Karl.

Af hverju má ég ekki hafa skoðun um samkynhneigð eins og ýmsu öðru? Eru samkynhneigðir með spés vernd?

Má maður orðið nokkur? Má ég hafa skoðun á innflytjendamálum og hrista hausinn yfir 18 milljóna aukafjárlögum vegna kvennanna sem fluttu til Íslands frá Miðausturlöndum til Akranes? Nei sennilega ekki. Heft tjáningarfrelsi í kommúnistaríkinu Íslandi.

Mannréttindi en ekki rétttrúnaður  þegar  Bandaríkjamenn  ákváðu upp úr 1960 að leyfa svörtum að sitja í sömu sætum og hvítir í strætó? 

Shalom/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.7.2012 kl. 00:52

43 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sé enga ástæðu til að svara Einari Karli sérstaklega. Hrannar mun eflaust gera það. Það má alltaf finna eitthvað sem menn geta kallað "rök" til að styðja hvað sem er. Óþarfi er þó að fara heilu og hálfu aldirnar aftur í tímann til að finna slíkt. Endurtek bara að mannréttindi eiga að trompa allt. Kennsla kemur þessu máli ekkert við.

Sæmundur Bjarnason, 17.7.2012 kl. 09:36

44 Smámynd: Hrannar Baldursson

Einar Karl. Það á að varðveita mannréttindi allra.

Það væri áhugavert að sjá sönnunargögnin gegn Snorra. Maðurinn er úthrópaður sem flutningsmaður hatursfullra ummæla, en þessi upphrópun er frekar innantóm án sönnunargagna.

Hrannar Baldursson, 17.7.2012 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband