Hver er munurinn á herskárri gagnrýni og gagnrýnni hugsun?

Ekki aðeins á þessu bloggi, heldur í umræðum víðs vegar um vefinn, og í samfélaginu, bæði því íslenska og alþjóðlega, virðast tvær ólíkar merkingar vera lagðar í hugtakið gagnrýni. Önnur merkingin virðist líta á gagnrýni sem einhvers konar herskáan íþróttaleik, þar sem einn keppandi eða lið er gegn öðrum keppanda eða öðru liði. Þannig snýst kappræðan um það hver er meira sannfærandi og á endanum verður einhver að vera númer eitt: sigurvegari kappræðunnar. Hin merking gagnrýnihugtaksins, er mér meira hugleikin, en þá er gagnrýnin mikilvægur þáttur í samræðu þar sem sannleika málsins er leitað.  

Afskræmi málefnalegrar umræðu á sér stað þegar að minnsta kosti einn aðili í samræðunni er herskár, þar sem þeir sem umræðan er tekin í gíslingu og ekki gefist upp fyrr en aðrir eru komnir á þeirra skoðun, eða gefast upp á að ræða málin á þeirra kappræðuforsendum. Þá telja hinir herskáu gagnrýnendur sig sjálfsagt hafa sigrað í umræðunni, eins og það að geta haldið í sér andanum lengur en hinn geri viðkomandi að fiski. Vandinn er sífellt sá að í slíkri tegund gagnrýni hefur gagnrýnandinn valið sína skoðun og ákveðið að verja hana, frekar en að leita skoðunarinnar með gagnrýnni aðferð. Þannig er kappræðumaðurinn viss um réttmæti eigin skoðunar, en gagnrýni hugsuðurinn er það ekki, og áttar sig á að óvissa getur verið nær sannleikanum en fullvissa. 

Herská gagnrýni þarf að vera vel römmuð inn til þess að hún fari ekki úr böndunum. Gagnrýnin hugsun, aftur á móti, gerir út á að rannsaka forsendur hugtaka, fullyrðinga og hugmynda, og finni hún galla, reynir hún að lýsa gallanum af nákvæmni og alúð, og þar að auki reynir hún að finna forsendur gallans og hvort aðrar betri leiðir séu hæfar. Gagnrýnin hugsun er ekki skeytingarlaus gagnvart einum eða neinum, og er nákvæmlega sama hvort hún sé sannfærandi eða ekki, þar sem leiðarljós hennar er að leita sannleikans.

Öfgamenn eiga það sameiginlegt að þeir beita sjaldan gagnrýnni hugsun, því að slík hugsun krefst þess að viðkomandi setji sig í spor annarra aðila, gerir ráð fyrir þeim möguleika að þeir hafi rangt fyrir sér, en í hugum öfgamanna eru alltaf einhverjir andstæðingar á kreiki, og einhverjir áheyrendur, sem þarf að sannfæra um hvor aðilinn hefur réttara fyrir sér. Í það minnsta man ég ekki eftir einu einasta atviki þar sem öfgamaður taldi sig ekki eiga andstæðing eða andstæðinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

" Önnur merkingin virðist líta á gagnrýni sem einhvers konar herskáan íþróttaleik, þar sem einn keppandi eða lið er gegn öðrum keppanda eða öðru liði. Þannig snýst kappræðan um það hver er meira sannfærandi og á endanum verður einhver að vera númer eitt: sigurvegari kappræðunnar. "

Í anda gagnrýnnar hugsunar og umræðu verð ég að spyrja þig. Hverjir láta svona og hvar gera þeir það? Hvar finn ég þessa herskáu öfgamenn sem sjaldan beita gagnrýnni hugsun?

Ég spyr því þú segir þessa hegðun finnast víðs vegar á vefnum og í íslensku samfélagi.

N.b. til að umræðan verði gagnrýnin, en ekki bara "herskár íþróttaleikur" væri mjög gagnlegt að fá dæmi svo hægt sé að skoða þetta í stað þess að velta fyrir sér ímynduðum veruleika sem hugsanlega byggir ekki á neinu.

Matthías Ásgeirsson, 2.7.2012 kl. 17:34

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Matthías: Það er aldagömul hefð fyrir kappræðum annars vegar og gagnrýnni hugsun hins vegar, og það er fyrirbærið sem ég vil lýsa frekar en að taka einstaka dæmi. Það þarf ekki mikla leit til að finna slík dæmi. Til dæmis geturðu kíkt á athugasemdir við síðustu grein mína, en þar má bæði finna tilraunir til að sannfæra hinn aðilann, eða gera lítið úr málstað hans, og síðan er einnig farið dýpra í að greina hvernig umræðan fór fram.

Þennan ágreining kappræðuhefðar og samræðuhefðar má finna víðs vegar, og umræður verða oft sérstaklega herskáar þegar annað hvort er rætt um stjórnmál eða trúarbrögð, enda sannleikurinn ekkert endilega falinn í sannfæringu viðkomandi, þó auðvelt sé að trúa því.

Hrannar Baldursson, 2.7.2012 kl. 17:51

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Já, mér fannst ekkert sérlega einfalt að sjá þennan greinarmun á kappræðum og gagnrýnni hugsun í síðustu umræðum á síðu þinni.

Gagnrýnin hugsun krefst reyndar ekki einu sinni samræðu (nema kannski innri samræðu) þannig að mér finnst skrítið að stilla henni upp sem andstæðu kappræðna.

Segðu mér annars í framhaldi. Felst það ekki í eðli gagnrýninnar samræðu að ef einhver setur þar fram fullyrðingu sem byggir ekki á rökum þarf annað hvort að krefja raka eða benda á að rökin skortir - og að hugmyndin er þar af leiðandi ekki gild?

Varla eru það gagnrýnar umræður ef fólk kastar hugmyndum bara fram og til baka án þess að rýna í þær, án þess að skoða rökin og útiloka þær hugmyndir sem ekki standast skoðun. Kallast slíkar samræður ekki eitthvað annað en gagnrýnar? Eins og þú segir, umræður þar "sem sannleika málsins er leitað".

Hvað eru slíkar umræður án gagnrýni á hugmyndir? Hvaða sannleikur finnst ef allar skoðanir/hugmyndir eru réttháar?

Matthías Ásgeirsson, 2.7.2012 kl. 18:03

4 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Gagnrýnin hugsun er ekki skeytingarlaus gagnvart einum eða neinum, og er nákvæmlega sama hvort hún sé sannfærandi eða ekki, þar sem leiðarljós hennar er að leita sannleikans".

Á þessi setning að vera svona? Er þessu "ekki" ekki ofaukið?

Matthías Ásgeirsson, 2.7.2012 kl. 18:05

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Matthías: takk fyrir góðar og krefjandi spurningar.

Matthías (4): nei, þessi setning er rétt. Gagnrýnin hugsun er ekki skeytingarlaus gagnvart neinum, né stendur henni á sama um hvort hún sé sannfærandi.

Matthías (3): Málið er að öll rök eru rekjanleg aftur að einhverjum forsendum sem þurfa að vera gefnar. Þannig er í raun hægt að þræða upp alla þekkingu mannsins, þar sem þegar allt kemur til alls, þá er þekking ekkert annað en trú sem hefur verið réttlætt með ýmsum hætti. Göngur efasemdamannsins enda þar sem hann áttar sig á að hann hefur í raun ekkert markvert að segja, þar sem í raun er hægt að efast um sannleiksgildi alls, jafnvel þess að efahyggjan sé góð undirstaða undir lífið.

Það hljóta að vera einhver mörk fyrir hversu langt við komumst með rökunum einum, en leiðir skilja auðveldlega þegar kemur að trú tengdri lífsstefnu fólks, einhverri "visku" sem viðkomandi hefur á einhvern hátt lært úr umhverfi sínu, hvort sem við erum þá að tala um trúarbrögð eða stjórnmál.

Á endanum er ekkert eitt rétt svar sem segir þér hver var besta forsetaefnið í kosningunum sem lauk á laugardag, aðeins val meirihlutans sem látið er ráða. En í þeim leik var mælskulist mikið beitt.

Á sams konar hátt, þegar rætt er um trúarbrögð, þá eru trúarbrögð ekkert endilega spurning um hvað er satt eða ósatt í rökfræðilegum skilningi, heldur fer aðeins dýpra en rökfræðin nær, og spyr grundvallarspurninga um hvernig við viljum lifa lífinu. Sumir sætta sig við að lifa lífinu og trúa, og sætta sig við takmarkanir eigin þekkingar og telja rökhugsun ekki vera jafn góðan mælikvarða á hið góða val og þær hefðir og "visku" sem fyrri kynslóðir hafa safnað saman á ferð sinni í gegnum lífið.

Það má vissulega ræða um hvort að rök eða trú sé betra verkfæri til að velja lífsleið, og ég tel mig vita hvort fyrirbærið þú hefur valið, en er þó ekki viss um að þú áttir þig á mínu vali. :)

Hrannar Baldursson, 2.7.2012 kl. 18:38

6 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ég átta mig ekki á því hvernig gagnrýnin hugsun/umræða er eða er ekki skeytingarlaus. Ég tengi skeytingarleysi við manneskjur og tilfinningar. Ef þú ert að segja að þeir sem beita gagnrýnni hugsun eða taka þátt í gagnrýnni umræðu séu ekki skeytingarlausir finnst mér það frekar gildishlaðið. Ég tel að það sé alveg hægt að beita gagnrýnni hugsun eða taka þátt í gagnrýnni samræðu og vera algjörlega skeytingarlaus um leið, sé ekki ekki að það sé nokkur þversögn. Eflaust skil ég þetta bara ekki nægilega þarna.

Það er rétt að öll lokuð "kerfi" stóla á grundvallarsetningar/forsendur sem ekki verða sannaðar innan kerfanna.

Þar með er ekki sagt að öll kerfi séu rétthá eða öll þekking jafngild. Þarna þykir mér þeim *aðferðum* sem við höfum þróað til að meta forsendur og kerfi ekki gert nægilega hátt undir höfði. Það má vel vera að við vitum ekki allt um það hvernig sumt virkar en við höfum mjög góð tæki til að sannreyna hvort það virkar. Hér er ég að sjálfsögðu að tala um vísindin. Það er ekki jafngilt að hafa grun um eitthvað og að sýna fram á það með rökum og/eða tilraunum.

Það þarf ekki trúarbrögð til að ræða af dýpt um það hvernig við viljum lifa lífinu - en þú ert svosem ekki að segja það heldur. Ég hef nákvæmlega ekkert að athuga við það að fólk leiti að tilgangi lífsins í trúarbrögðum - en hef þó tekið eftir því að margir telja svo vera. Það virðist litlu máli skipti hve oft ég leiðrétti þann misskilning.

Matthías Ásgeirsson, 2.7.2012 kl. 21:01

7 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Eins og oft hjá þér Hrannar afar áhugavert innlegg, takk fyrir það.

Þá eru skoðanaskiptin hjá ykkur Matthíasi góð. 

Sigurður Þorsteinsson, 2.7.2012 kl. 23:11

8 identicon

Hrannar, í síðustu málsgrein pistils þíns segir þú: "Öfgamenn eiga það sameiginlegt að þeir beita sjaldan gagnrýnni hugsun, því að slík hugsun krefst þess að viðkomandi setji sig í spor annarra aðila, gerir ráð fyrir þeim möguleika að þeir hafi rangt fyrir sér ..."

Á þetta ekki að vera: "... gerir ráð fyrir þeim möguleika að þeir hafi rétt fyrir sér ..."?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 3.7.2012 kl. 00:17

9 identicon

Nei, ok ... ég sé nú hvað þú ert að meina.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 3.7.2012 kl. 02:15

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Matthías: það sem ég á við með að gagnrýnin hugsun sé ekki skeytingarlaus, er að þeim sem hugsar gagnrýnið er annt um að átta sig á afleiðingum dóma sinna, hvort dómarnir bæti þekkingu - eigin og annarra, hvort þeir bæti samfélagið, hvort þeir bæti umræðuhefðina.

Við berum ekki aðeins ábyrgð á hvernig við högum okkur, heldur einnig á því hvernig við hugsum (ekki hvað við hugsum); og þá hvernig við beitum hegðun okkar og hugsun í samfélagi með öðru fólki. Með hugsun í samfélagi er meðal annars átt við athugasemdir í bloggi, bloggskrif, blaðaskrif, bókaskrif, útvarpsviðtöl, sjónvarpsviðtöl, og svo framvegis.

Takk fyrir innlitið, Sigurður.

Bergur: :)

Hrannar Baldursson, 3.7.2012 kl. 05:35

11 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Hrannar

Takk fyrir ágætan pistil, þú bendir á margt sem er bæði gott og rétt að mér sýnist. Bak við pistilinn, og efni hans, liggur sú sannfæring okkar að þekkingarleit byggi á umræðu, samræðu, skoðanaskiptum. Ennfremur skín í gegn sú sannfæring okkar að sum umræðuform eru betur til þess fallin en önnur að styðja við þekkingarleit okkar.

Bak við þessa sannfæringu liggur sú grundvallar forsenda, sem við tökum sem gefinni, að þekking lúti forsendum samræðunnar. Þekking sprettur ekki upp af sjálfri sér (öfugt við reynslu í einföldustu mynd), hún er bein afleiðing umræðu. Matti bendir á að umræðan geti verið innlæg, innri orðræða, en ég efast um að slíkt leiði til þekkingar. Skoðanaskipti, orðræða, við aðrar manneskjur, með beinum eða óbeinum hætti, er forsenda þekkingar. (Lestur er auðvitað ágætt dæmi um óbeina orðræðu).

Forsendur rökræðunnar, samræðunnar, og þekkingarinnar eru því hinar sömu: Merkingarbærni hugtaka (að orð geti borið merkingu, og öfugt, að merking þarfnist orða), að afleidd hugtök hafi röklegt samhengi við frumhugtök (sem felur í sér að rökfræði sé frumforsenda), og ekki síst, að þekking eigi að endurspegla, svo vel sem hægt er, einhvern óskilgreindan raunveruleika sem við göngum út frá að eigi sér sjálfstæða tilvist óháð hverjum og einum.

Innri sannfæring er því ekki þekking, þekkingin liggur í samræðunni og samskiptum við aðra. Innri sannfæring er einkamál hvers og eins, við getum tjáð hana og lýst henni. En um leið og við reynum að telja öðrum trú um að okkar innri sannfæring sé á einhvern hátt betri eða réttari en annarra, eða öfugt, að við verðum fyrir tilraunum annarra og viljum vernda og verja okkar innri sannfæringu, þá erum við komin á svið þekkingar, sameiginlegrar vitneskju (sameiginlegrar sannfæringar ef hægt er að orða það þannig).

Þetta er algjörlega óháð því hversu "öfgakennd" sannfæring okkar kann að vera. Mér finnst vanta hjá þér að gera greinarmun á öfgakenndri aðferð og öfgakenndri sannfæringu. Hvorugt þarf að vera slæmt (þótt orðið "öfgar" hafi oftast neikvæða merkingu). Öfgar eru langt frá miðju, frá því sem flestir hugsa/gera. En hvort tveggja er tímabundið, miðjan færist og öfgar gærdagsins eru staðlar morgundagsins.

Sjálfur tel ég mig hafa öfgakenndar skoðanir á mjög mörgum sviðum. Ég krefst þess ekki að aðrir hafi sömu skoðanir. Ég forðast að nota öfgakenndar aðferðir við að verja mínar skoðanir en sjálfsagt gerist það stundum. (Öfgalangar færslur alla vega!)

Sjálfur lít ég ekki svo á að ég sé að reyna að fá aðra á sömu skoðun, ég er frekar að verja og réttlæta fyrir sjálfum mér eigin skoðun. Aðrir mega hafa sínar skoðanir í friði prívat og milli vina, en þegar ég tel þá vilja með einhverjum hætti koma sínum skoðunum yfir á mig snýst ég til varnar.

Mest stjórnast ég þó af löngunni til að eiga í samræðum við aðra, helst af öndverði skoðun, því án samræðna er skoðun mín, innri sannfæring mín, verðlaus. Ég get ekki réttlætt hana fyrir sjálfum mér án þess að geta varið hana fyrir öðrum. Og samræðurnar þroska mig, opna fyrir mér nýjar víddir og slípa til forsendur skoðana minna.

Hið mikilvægasta er þó, að mínu mati, sjálf þekkingin sem er sameiginlegt fyrirbæri, ekki einkamál hvers og eins. Ég á sama tilkall til okkar sameiginlegu þekkingar og aðrir. Ef einhver reynir að breyta sameiginlegri þekkingu okkar leyfi ég mér að krefjast haldbærra raka, nákvæmlega innan þeirra forsendna sem ég taldi upp að ofan. Merking, rökleiðsla, raunveruleiki.

Ég á því mjög erfitt með að líta fram hjá því þegar menn halda einhverju fram sem nýrri (eða gamalli) speglun raunveruleikans, nýrri (eða gamalli) þekkingu, án þess að geta rökstutt mál sitt með aðferðum umræðu og skoðanaskipta. Jafnvel frumforsendur þurfa að vera verjanlegar.

Brynjólfur Þorvarðsson, 3.7.2012 kl. 11:10

12 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hrannar. Athygliverð umræða hér. Gagnrýni: rýna til gagns, er vandasamt verk, og oft fellur maður í gagnslausa þrasgryfju með reiðina og tillitsleysið sem farastjóra. Þá er maður líklega komin í herskáa gagnrýni.

Það er ekki hægt að halda hugsunum og orðum aðskildum, því tjáning fer fram á svo margan annan hátt en með orðum. Líkama og hegðunartjáning segir meir en flest orð. Sá sem segir eitt en gerir annað missir traust og trúverðugleika. Gagnrýni frá slíkum einstaklingum er ekki til gagns.

Að gagnrýna af nærgætni og virðingu fyrir skoðunum annarra, krefst þess að maður hlusti á aðra af einlægni og reyni að skilja aðra. Ég er skapmikil og á oft erfitt með að sýna öðrum slíkt æðruleysi og tillitssemi, en reyni að vanda mig og setja mig í spor annarra eftir bestu getu. Ég hef áhuga á að skilja mannlegt eðli og sem flest sjónarhorn.

Að segja hálfsannleik, taka orð og setningar úr samhengi og bera út hreinan lygaáróður um aðra, er einungis til þess gert að niðurlægja og særa aðra, og er alls ekki til gagns heldur til skaða, bæði fyrir þann sem er gerandi og þolandi. Samfélagsheildin endurspeglar svo árangurinn, og fjöldinn reynir að fría sig allri ábyrgð, í staðinn fyrir að allir taki smá skerf af ábyrðinni og skapi tillitssama umræðu og mannúðlegt samfélag.

Það er alltaf ástæða fyrir öllu. Maður þekkir bara ekki ástæðurnar allar.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 3.7.2012 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband