Contraband (2012) ***1/2

Contraband%20wallpaper

Baltasar Kormákur leikstýrir "Contraband" af öryggi sem aðeins hæfustu leikstjórar hafa til að bera. Hann er greinilega leikstjóri leikaranna, því þar er mestan styrk myndarinnar að finna. Eitt atriði á heimsmælikvarða, og gæti talist til eins flottasta skotbardaga í sögu kvikmyndanna. Flestir kvikmyndaunnendur muna eftir atriði úr "Heat" eftir Michael Mann, þar sem löggur og bófar lentur í mögnuðum skotbardaga. Svipað atriði er að finna í "Contraband", og afar vel útfært. 

Eini veikleikinn sem ég kom auga á var frekar klaufaleg meðhöndlun myndavélarinnar í samtölum, þar sem andlit færðust úr og í fókus, hugsanlega með ráði gert, og hugmyndin sjálfsagt að fylgja sjónarhorni og tilfinningum viðmælanda, en virkar frekar truflandi á köflum, sérstaklega í upphafi myndar. 

Mark Wahlberg er traustur í sínu hlutverki. Hann kann að leika þessa þöglu og sterku týpu sem virðist hafa þunga reynslu að baki, og líklegur til að sigrast á öllum vandamálum sem upp koma, af festu. Og vandamálin spretta heldur betur upp fyrir hann, lausnirnar hver annarri betri. Sumar fyndnar, aðrar snjallar, en aldrei kaldrifjaðar eða grimmar. 

Aukaleikararnir fylla vel í sín hlutverk, sérstaklega Ben Foster, Giovanni Ribisi og J.K. Simmons, en ég hefði viljað sjá meira frá Cate Beckinsale, sem býr yfir miklu meira en hún fékk tækifæri til að sýna í þetta skiptið. Það hefði sjálfsagt verið sniðugt að bæta aðeins við hlutverk hennar, sem hún fyllti vel, en hún hefði getað fengið að sýna aðeins meiri karakter.

Það er góður húmor í myndinni. Hún er vel yfir meðallagi þegar kemur að b-hasarmyndum, því hún leitar sífellt frumlegra leiða og finnur þær. Ég hafði gaman af raunveruleikablænum í andrúmsloftinu. Maður hafði alltaf sterka tilfinningu fyrir hvar persónurnar voru staddar og hvers vegna þær voru þar. 

Þétt mynd og skemmtileg, sem endar þannig að maður fer út úr salnum með bros á vör. Ég hef séð "Reykjavík-Rotterdam" og finnst "Contraband" mun betur heppnuð, þó að þær séu báðar unnar eftir sama handriti. 

Baltasar Kormáki óska ég til hamingju með þetta heillaspor á leikstjóraferlinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband