Er íslenska hagkerfið ennþá að hrynja, hægt og hljótt?

Fjármálastofnanir svindluðu grimmt og sköpuðu sér gríðarlegan sýndargróða, bæði með því að fjármagna eigið féð á ólögmætan hátt og með því að taka stöðu gegn krónunni árið fyrir október 2008. Um þessar forsendur má lesa hér í afar góðri grein í Viðskiptablaðinu eftir Magnús Halldórsson. Ég er sammála þeim forsendum sem hann gefur sér í þessari grein, en ekki þeirri trú hans að neyðarlögin hafi verið af hinu góða fyrir þjóðina. Reyndar komu þau í veg fyrir þjóðargjaldþrot á þeirri stundu, og hafa skapað svigrúm til aðgerða, en aðgerðir hafa ekki verið nýttar sem skyldi og stofninn er fúinn, og mun fyrr eða síðar gefa eftir.

Mikið af þessum sýndargróða var breytt í raunverulegan pening fyrir fólk sem tók virkan þátt í svindlinu, og skapaði þannig nýja yfirstétt í íslensku samfélagi. Þessi nýja stétt hefur varið blóðpeningum sínum á ólíkan hátt, með kaupum á eignum hérlendis sem og erlendis, og með því að ávaxta þennan (sviksamlega) arð á innlánsreikningum með föstum vöxtum (og tryggða með verðtryggingum), en þessir reikningar voru varðir með neyðarlögum í október 2008. Lífeyrissjóðir voru virkir þátttakendur í svikamyllunni og eru það enn, þar sem innistæður þeirra eru orðnar miklu hærri en þær hefðu verið án fjármálakerfisblöðrunnar. Og líffeyrissjóðir verja þessa peninga eins og dreki á gulli sínu, og ekki nóg með það, heldur er krafist reglulegrar og verðtryggðrar ávöxtunar á höfuðstólnum.

Það er aðeins ein leið möguleg til að fjármagna slíkar ofurupphæðir; það er með því að hækka höfuðstóla á lánum lántakenda langt umfram það sem upphaflega var gert ráð fyrir. Lántakendur hafa engan annan kost en að ganga við þessum auknu og ósanngjörnu kröfum, þar sem að annars gætu þeir misst húsnæði eða atvinnutæki, með gjaldþroti. Þetta er mun alvarlegra þegar um einstaklinga er að ræða en fyrirtæki, því að manneskja sem verður gjaldþrota lendir í miklu óvissuástandi og getur hæglega tapað öllum sínum eignum, á meðan gjaldþrota fyrirtæki getur skipt um kennitölu og fært eignir sínar yfir á það, en skilið skuldirnar eftir. Í það minnsta virðast þetta vera leikreglurnar í dag. Og þetta virðast fáir vilja skilja eða hafa áhuga á.

Ég hef verið þeirrar skoðun að neyðarlögin voru galin, þó ég skilji vel af hverju sumir telja þau snilld, að þau hafi verið sett til að bjarga fjármálakerfi sem er dæmt til að hrynja á endanum, aðgerð til að tefja hrunið, þar sem grundvöllur þess að fá peninga frá lánþegum hlýtur á endanum að þverra. Hið nýja kerfi, sem er reyndar spegilmynd hins gamla, byggir á fúnum grunni sem hlýtur að gefa eftir. Það verður eitthvað hægt að sparsla í hinn fúna við, en á endanum munu þessir plástrar ekki lengur duga til annars en að fela sárin tímabundið.

Hrunið er ennþá í gangi. Með neyðarlögunum var því frestað og hinni nýju yfirstétt og líffeyrisjóðum gefið tækifæri til að skjóta eignum sínum undan. Allt sem gert hefur verið gert miðar að því að bjarga hinni nýju yfirstétt, á meðan almúginn má bíta í skjaldarendurnar og éta þær á meðan lengt er í hengingarólinni sem ennþá er vafin um hálsinn.

Samfélag og fjármálakerfi sem byggir á ranglátum grunni mun aldrei standast tímans tönn. Spurningin er hvenær næsti skellur verður og hvort að spilaborgin muni þá hrynja til grunna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mjög góður pistill hjá þér og því miður sannur.

Sumarliði Einar Daðason, 15.6.2011 kl. 19:51

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir góðan og sannan pistil...  Ég tek undir hvert orð hjá þér...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.6.2011 kl. 01:08

3 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Þetta er skrítinn pistill hjá þér. Fyrst má nefna að neyðarlögin voru á sínum tíma, eins og viðurnefni þeirra bendir til: Neyðarlög. Sett í neyð, til að bjarga því sem bjargað varð. Slík lög eru ekki sett til að gilda um lengri tíma. Þar á því við: Veldur hver á heldur. Fram hefur komið að núverandi ríkisstjórn, sem tók við í byrjun febrúar 2009, hefur í veigamiklum atriðum vikið frá hugmyndum neyðarlaganna, án þess þó að afnema þau, nefni þar fráhvarfið frá þeirri stefnu og hugmynd að færa niður skuldir heimila og fyrirtækja við bankana þegar lánin voru færð með um helmings niðurfærslu til nýju bankanna, svo mætti líka nefna stjórnun bankanna og mönnun í stjórnendastöðum þeirra.

Þú talar um lífeyrissjóðina eins og þeir séu einkafyrirtæki fárra auðmanna. Þú virðist alls ekki gera þér neina grein fyrir hvað þeir eru eða hvernig þeir starfa. Um lífeyrissjóði og starfsemi þeirra gilda lög, mjög ströng lög, auk reglugerða. Þeim eru settar mjög strangar skorðum um það hvernig þeir ávaxta fé sjóðfélaga sinna. Já, sjóðfélaga, þeir eiga sjóðina, það er nánast allt vinnandi fólk í landinu. Almenningur. Sem væntir þess að lífeyrissjóðirnir ávaxti eins og mögulegt er það fé sem þeim er trúað fyrir, það er líka lagaskylda þeirra. Síðan greiða þeir það fé til baka sem lífeyri, þegar starfsævinni lýkur.

Lífeyrissjóðirnir eiga enga möguleika á að ávaxta fé sitt nema með tvennum hætti: Leggja inn á innlánsreikninga (sem bera jafnan lága vexti) eða fjárfesta í verðbréfum. Finnst þér þeir eigi að hætta því? Hvaðan á þá lífeyririnn að koma? Nú eru möguleikar þeirra til að ávaxsta féð afar takmarkaðir vegna gjaldeyrishaftanna, að mestu bundnir við að kaupa ríkistryggð skuldabréf. 

Mér sýnist þú agnúast út í verðtrygginguna. Það er mál út af fyrir sig og kemur starfsemi á fjármálamörkuðum ekki mikið við, það er hversu heiðarlegir eða óheiðarlegir menn hafa verið. Á meðan Alþingi afnemur ekki lög um verðtryggingu (Ólafslög), þá verðum við að búa við hana. Annars er ég ekki viss hvernig ég eigi að skilja þennan pistil þinn, nema jú ég skil að þú ert að tjá reiði og vonbrigði sem er út af fyrir sig skiljanlegt. Hins vegar er óþarfi að fara með rangindi og jafnvel hreinasta bull í reiðikasti, eins og þegar þú talar um að lífeyrissjóðirnir komi eignum undan. Hvað ertu að tala um? Eignum hverra, almennings í landinu? Undan hverju þá? Almenningi?

Þórhallur Birgir Jósepsson, 16.6.2011 kl. 10:31

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kærar þakkir fyrir athugasemdirnar.

Þórhallur: ég er ekki reiður, heldur fyrst og fremst undrandi á að fólk sjái ekki samhengið. Neyðarlögin eins og þau standa í dag eru því miður hinn versti óskapnaður, og því miður voru þau ekkert verri óskapnaður við völd fyrri ríkisstjórna. 

Það eru tvær heilagar kýr eða tabú í þessu dæmi öllu saman: innistæður á bankareikningum og lífeyrissjóðir. Þegar tvennt er valið til að standa algjörlega af sér algjört efnahagshrun, hljóta spurningar að vakna um af hverju aðeins þessi tvö fyrirbæri eru varin, en allt annað látið hrynja, sem á endanum veldur því að turnarnir tveir falli líka.

Líffeyrissjóðirnir bólgnuðu út í "góðærinu" og ætlast er til í dag að vöxturinn haldi áfram, þrátt fyrir kreppu. Peningurinn fyrir vextinum verður að koma einhvers staðar frá. Þessi vöxtur kemur að miklu leyti til vegna innistæðna í bönkum. Þessar innistæður eru verðtryggðar. Til að tryggja þessa ávöxtun verða bankarnir og þjóðfélagið að fá peningina inn. Hvaðan fá þeir þessa peninga? Jú, með því að þvinga upp verðtryggð lán og spenna þannig bogann eins mikið og mögulegt er.

Ég vil ekki dæma líffeyrissjóði sem illa eða góða, hins vegar tel ég þeim stjórnað af skammsýni, bæði þegar kemur að þeim sem starfa fyrir sjóðina og þá sérstaklega af ríkisstjórn og þingi sem ekkert hafa gert til að minnka spennuna.

Ég tel að það ranglæti og sú þensla sem verðtryggingin veldur hljóti á endanum að gefa eftir. Um það fjallar greinin.

Hrannar Baldursson, 16.6.2011 kl. 13:16

5 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Útskýrðu aðeins fyrir mér, þú segir: "Það eru tvær heilagar kýr eða tabú í þessu dæmi öllu saman: innistæður á bankareikningum og lífeyrissjóðir. Þegar tvennt er valið til að standa algjörlega af sér algjört efnahagshrun, hljóta spurningar að vakna um af hverju aðeins þessi tvö fyrirbæri eru varin, en allt annað látið hrynja, sem á endanum veldur því að turnarnir tveir falli líka."

Hvaða varnir voru settar um lífeyrissjóðina?

Þórhallur Birgir Jósepsson, 16.6.2011 kl. 14:03

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þórhallur: vörn lífeyrissjóðana felst fyrst og fremst í ávöxtunarkröfunni, og sú krafa er ekki í takt við íslenskan hagveruleika. Það er ekki að nýjar varnir voru settar, heldur standa þeir vörð un gamlar kröfur án þess að taka tillit til breyttra aðstæðna.

Hrannar Baldursson, 16.6.2011 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband