Thor (2011) *1/2

thor_poster_1

"Thor" er full af góðum hugmyndum, eins og þeirri að hinir norrænu guðir séu geimverur frá hátæknivæddu samfélagi, og myndirnar frá Hubble af stjörnuþokum sýni ekkert annað en greinar og laufblöð af hinu gríðarstóra tré Aski Yggdrasil. Einnig fyllir Chris Hemsworth vel út í búning þrumuguðsins, það er ágætis húmor í nokkrum atriðum sem og flottar tæknibrellur í bardagasenum.

Ef svoleiðis er nóg fyrir þig, gott og vel. Þá geturðu farið í bíó og haft gaman af.

76027_gal
Chris Hemsworth passar í búninginn.

Ég geri hins vegar kröfur um góða sögu og persónur. Hver einasta persóna fyrir utan Thor er algjörlega flöt, fyrir utan kannski Óðin (Anthony Hopkins) sem virðist vera meira í karakter Messíasar heldur en hins grimma og miskunnarlausa Óðins - þar sem hann virðist sækjast eftir friði og ró á meðan kjarninn í hinum gamla Óðni goðafræðinnar er að hann sækist eftir átökum til að búa til hetjur, sem var hans helsta tómstundargaman. Það er reyndar aukaatriði hér. Reyndar er Thor svolítið flatur sjálfur, hann syndir í grunnu lauginni frekar en þeirri djúpu, og örkin hans er fyrirsjáanleg frá fyrsta atriði.

76040_gal
Skugginn af svarta svaninum heilluð af Todda þegar hann er loks kominn í flott föt. 

Natalie Portan leikur stjarnvísindamann sem heldur að hún hafi fundið eitthvað merkilegt stjarnfræðilegt fyrirbæri yfir eyðimörk Nýju Mexíkó. Það eru svona skrítnir stormar, eða ormaholur, sem eru í raun vísbendingar um ferðalög geimveranna sem Heimdallur stjórnar með því að stinga stóru sverði í stein. Því miður er Portman eins og skugginn af Svarta svaninum sem hún lék svo snilldarlega á síðasta ári. Í þessu hlutverki er hún dauf og litlaus, og persóna hennar algjörlega flöt, en svolítið sæt samt. Hinn ágæti Stellan Skarsgaard er fínn sem lærifaðir hennar, en hefur úr litlu að moða, og leikur persónu sem hefði getað verið eitthvað miklu meira. 

76024_gal
Hið fagra föruneyti Þórs. Á myndina vantar Siv. Lengst til hægri er hinn ósköllótti Ray Stevenson.

"Thor" hefur svo mikið sem hefði getað verið frábært. Hún er full af glötuðum tækifærum. Til dæmis hefur Thor fjóra félaga sem berjast með honum hvert sem hann fer, en maður nær engu jarðsambandi við þessar persónur - fyrir utan að ein þeirra er leikin af hinum ágæta Ray Stevenson, sem áður lék aðalhlutverkið í annarri Marvel mynd, "Punisher - War Zone", en eins og áður segir, þá eru þessar persónur algjörlega flatar. Það eina sem gerði þá persónu áhugaverða var að ég kannaðist við leikara sem er þekktastur fyrir frábæra persónu úr sjónvarpsþáttunum "Rome". Þar var hann sköllóttur. Hér er hann hærðari en dvergarnir í "Lord of the Rings".

image-B357_4DA003541
Þór, Óðinn og Loki glansandi fínir og flottir.

Önnur mögulega góð persóna var "Laufey", en eins og þeir sem kannast við norrænar goðasögur var Loki Laufeyjarson. Þá var Óðinn faðir hans. Í þessari útgáfu er Laufey ekki bara karl, heldur konungur frostrisa sem langar til að ryðjast inn í Ásgarð og drepa Óðinn. Og Loki er ekki beinlínis sonur Óðins, heldur fóstursonur, barn sem hann fann í höll Laufeyjar. 

Loki er í sjálfu sér spennandi persóna, en mér fannst Tom Hiddleston ekki ná neinum tökum á þeirri lævísi sem mætti nota í þennan geðveika karakter. Það hefði verið meira spennandi að fá leikara með almennilegt vægi til að leika Loka.

1742747-thor17_super
Svona lítur "hún" Laufey móðir Loka út í kvikmyndinni um Þór.

Mér var nokkuð sama hvað yrði um þessar persónur, sama hversu vel umhverfi þeirra var umlukið og upplýst í skrúði tæknibrella.

Það var nokkuð um vísanir í "The Avangers" sem kemur út á næsta ári. Jeremy Renner birtist í nokkrar mínútur, Samuel L. Jackson á lítið atriði eftir kreditlistann, og svo er líka vísað í Hulk sem horfinn vísindamann. Einnig er minnst á Stark, til að tyggja ofan í okkur að þessi saga gerist í Marvel heiminum. 

76020_gal
Heimdallur samgönguráðherra.

Ég hefði búist við að Kenneth Brannagh sem leikstjóri, uppalinn í Shakespeare hefð, legði meiri áherslu á sögu og karakter, en því miður gerir hann það ekki. Þessi mynd er gerð með hangandi hendi og er svona eins og máluð eftir númerum.

Þegar kemur að ofurhetjumyndum, þá er hún ekki jafn léleg og "Batman & Robin" eða "Superman IV: The Quest for Peace". Hún er meira eins og "Hulk",  "Spider-Man 3" og "Iron Man 2". Jæja, þá veistu hvað mér finnst.

Þó verð ég að játa mig sigraðan í einu atriði sem mér fannst fyndið, þegar Thor gengur inn í gæludýrabúð og biður um hest, eða nógu stórt dýr til að geta notað sem fararskjóta.

"Thor" er á endanum frekar létt mynd og kannski aðeins of mikið léttméti fyrir undirritaðan. Ég keypti mér Timex Expedition armbandsúr samkvæmt ráðleggingu frá Roger Ebert fyrir nokkrum árum, en ef maður ýtir á hnapp kviknar grænt ljós og maður getur séð hvað tímanum líður. Líti maður einu sinni á úrið meðan myndin er í gangi, er það ekki gott tákn. Ég leit þrisvar á úrið og var samt ekkert að flýta mér. Hafði ekkert að gera annað en að horfa á myndina. Engin ytri pressa. Mér fór að leiðast síðasta hálftímann, og tel það vera vegna þess að sagan var slök og persónurnar flatar.

timex.jpg
Kvikmyndaúrið Timex Expedition


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óðinn var ekki grimmur, en vitur og lævís.  Hann er sá sem færði norðurlandabúa frá þeim stað, sem sagt er svartárfjall, en er eyðimörk á mörkum Kína, og átti í eilífum erjum við þá bálka sem síðar unnu þau héruð. Þar bjuggu menn af Norðurlanda ættum, fyrir um 6000 árum, eða um það bil sem þeir fluttu til Norðurlanda.  Í ynglingasögu er sagt frá því að Sjáland hafi verið dregið frá Svíþjóð, man ekki af hverjum, en með uxum.  Á botni kattegats, má sjá leifar af mannabyggðum frá um 6000 árum síðan, þegar Kattegat var á, og ekki haf, sem skildi af danmörk og Svíþjóð.

Ofangreint eru fornleifar og staðreyndir.  Að saga Íslendinga skuli skrifa þessa þætti, áður en vísindi staðfestu þær, bendir til þess að saga þessi er söguleg arfleifð Íslendinga.

Að sjá þessi ofurhetju dýrkun, tekið úr samhengi, hvort sem það er gert af bandaríkjamönnum eða nasistum. Er nánast nauðgun á arfleifð landsins, og þó svo að maður taki þessu ekki á sama hátt og múslimar með muhammed, þá get ég nú ekki ímyndað mér að þetta sé neitt annað en hundleiðinleg hetjudýrkun.  Sem varla er þess virði að eyða peningum til að horfa á.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 30.4.2011 kl. 11:58

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk. Ég les alltaf kvikmyndagagnrýnina þína ef ég get. Er samt ónýtur við að horfa á kvikmyndir sjálfur. Er skrýtinn hvað kvikmyndir snertir. Var t.d. að horfa á Castaway í fyrsta skipti um daginn. Nennti ekki að horfa á hana alla. Fannst Lord of the Rings hundleiðinleg og Jurassic Park ómerkileg mjög.

Sæmundur Bjarnason, 30.4.2011 kl. 12:00

3 Smámynd: Ómar Ingi

Þú hefur verið illa fyrirkallaður eða í slæmu skapi DON , en já myndin er léttmeti og sumar popp og kók.

Það er alveg á tæru og fyrir slíkt ætti hún að fá meira af stjörnum hjá þér , þú dæmir myndina á röngum forsendum enda ætlaðir þú greinilega að fara sjá allt aðra mynd , varstu ekkert búin að sjá sýnishornið eða lesa þig um myndina ?

PS: Farðu svo að horfa aftur á Blade Runner

Ómar Ingi, 30.4.2011 kl. 12:26

4 identicon

Lord of the Rings, var langdregin vælumynd ... Blade Runner, var innihaldslaust rugl ... svona á við Space Odyssey.  Bókin Blade Runner, var ágæt.  Aftur á móti verð ég að segja að Dune, þá var myndin mun skárri en bókin.  Bókin fannst mér, treg lesin, en myndin ágæt.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 30.4.2011 kl. 13:20

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar Ingi: Búinn að sjá Blade Runner þrisvar. Hún batnar ekkert við enduráhorf. Það vantaði ákveðið fútt í Þór, söguþráð sem vit var í og persónur sem skiptu einhverju máli. Yfirborðskenndar myndir leiðist mér.

Sæmundur: Takk fyrir innlitið. Ég hef ekki skrifað kvikmyndagagnrýni í lengri tíma. Sjálfsagt ágætt að endurskoða það fyrir sumarsmellina.

Bjarne: Hverjar eru staðreyndirnar sem þú bentir á? Sjálfum finnst mér goðasögur miklu merkilegri en nokkur staðreynd sem ég hef rekist á í þessu lífi.

Hrannar Baldursson, 30.4.2011 kl. 18:37

6 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Sæll Hrannar og aðrir hér.  Tek undir með Sæmundi hef gaman af því þegar þú ferð í bíómyndagagnrýnina. Tek mark á þessum skrifum þínum.

EN rakst á þetta hér þannig að það sér hver "hörmungina" með sínum augum:  http://www.thesun.co.uk/sol/homepage/showbiz/sftw/3553722/Sun-film-review-Thor.html

Gísli Foster Hjartarson, 30.4.2011 kl. 21:21

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gísli, flestir sem gagnrýnt hafa myndina virðast sjá eitthvað meira í henni en ég. Það eina sem ég geri er að tjá mína tilfinningu og segja satt frá upplifun minni.

Það verður áhugavert að sjá hvort aðrir sjái það sama og ég, að þessi keisari er alsber.

Hrannar Baldursson, 30.4.2011 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband