Þakkir til þingmannanefndar

Geir H. Haarde lofaði að allar innistæður í bönkum yrðu tryggðar þegar bankakerfið var við það að hrynja ofan á hann og okkur hin. Hann lofaði ekki að aðrar fjárfestingar yrðu tryggðar, eins og húsnæði, fyrirtæki eða skuldir.

Það þýddi að kostnaður hrunsins fór á alla hópa þjóðfélagsins nema einn, þá sem áttu pening í banka. Þetta hefur mér þótt ósanngjarnt frá upphafi hruns, og þess vegna er ég frekar sáttur við að Geir H. Haarde þurfi að standa skil á sínu máli frammi fyrir dómstólum.

Ég kenni honum ekki um hrunið. Ég kenni engum um hrunið öðrum en þeim sem unnu skemmdarverk með því að ræna bankana innanfrá og koma peningum undan með því að taka himinhá lán án veða, en ég held að þeir sömu hljóti að hafa verið beggja megin borðsins til að gera svona glæpi mögulega. Samskonar hegðun átti sér stað víða um heim. Og alls staðar er slík hegðun röng.

Í maí 2008 furðaði ég mig á því þegar Alþingi gaf leyfi til að taka 500 milljarða erlent lán til að dæla inn í bankana, og þá þegar var jafnvel mig farið að gruna hvernig á málum stóð. Ég bloggaði meira að segja um það, skrifstofublók úti í bæ sem átti ekki að hafa hundsvit á þessum málum. Mig grunaði að bankarnir höfðu verið rændir innanfrá vegna þess hvernig gengið gjörbreyttist alltaf rétt fyrir ársfjórðungsuppgjör. 

Það er óhugsandi að ráðamenn höfðu ekki fattað þetta eða grunað að eitthvað var í gangi, fyrst að einhver gaur út í bæ sá í gegnum þetta, án þess að hafa meiri upplýsingar en það sem Davíð Oddsson lét frá sér fara í febrúar 2008 og með því að kíkja á línurit yfir breytingar á genginu.

Þingmannanefndin vildi ákæra fjóra ráðherra, og ég tel ákærurnar allar hafa verið vel rökstuddar og finnst bara fyndið að einn af þeim settist strax aftur á þing. Það blossar ekki lengur upp í mér reiðin, heldur er ég farinn að hafa svolítinn húmor fyrir þessu fólki, enda tel ég mig hólpinn, fluttann úr landi á stað þar sem spilling sést varla, þar sem litið er niður á kappræðuform á þingi, þar sem heiðarleiki og dugnaður er vel metinn sem raunverulegt gildi. 

Ég vil hrósa þeim þingmönnum sem þorðu að standa á bakvið ákærurnar, enda var rökstuðningur þeirra og mál gott. Þau höfðu kynnt sér málið til hlýtar og komist að skynsamri niðurstöðu. Fyrir vikið eru þau að sjálfsögðu úthrópuð og fá á sig miklar skammir, þó að heiður þeirra sé mikill, fyrir utan fulltrúa Sjálfstæðisflokks, sem virðast ekki mega hafa sjálfstæða skoðun aðra en þá sem forysta þeirra skipar. Rök eru hætt að skipta Sjálfstæðisflokkinn máli. Sú var tíðin að rök og skynsemi voru aðalsmerki þess flokks. Ekki lengur.

Að Geir hafi verið ákærður en ekki hin þrjú er vissulega skammarlegt af þingmönnum, en þó má þakka fyrir að það tókst að opna Pandorukassann. Landsdómur fer í gang, og það eitt og sér ætti að gefa þingmönnum eitthvað aðhald, þó að það sé vissulega út í hött að þingmenn séu þeir einu sem geti ákært ráðherra - sem sjálfir eru þingmenn og þar af leiðandi samstarfsmenn eða fyrrum samstarfsmenn þeirra sem sitja á þingi.

Ímyndum okkur hvernig það væri ef aðeins dópistar fengju að taka ákvörðun um hvort  að fíkniefnasalar yrðu ákærðir fyrir sölu á fíkniefnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Ágætar hugleiðingar. Leitt að heyra þú Hrannar hafir yfirgefið okkur á Íslandi.

Jón Baldur Lorange, 30.9.2010 kl. 21:06

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það var aðeins tvennt í spilunum: yfirvofandi og óumflýjanlegt gjaldþrot fyrir að hafa tekið húsnæðislán árið 2005 eða koma í veg fyrir slíkar ófarir með því að flytja úr landi.

Ég hef ekki yfirgefið Ísland þó að ég sé farinn frá Íslandi. Það er tvennt ólíkt.

Hrannar Baldursson, 30.9.2010 kl. 21:27

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir mig Hrannar..

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.10.2010 kl. 02:43

4 identicon

Enn einn sem gleymir að hugsa lengra fram í tímann.  Hvernig halda menn að bankakerfið hefði staðið sig í framtíðinni ef innistæðar hefði ekki verið tryggðar?

Garðar Jóhannssin (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 07:43

5 identicon

"Rök eru hætt að skipta Sjálfstæðisflokkinn máli. Sú var tíðin að rök og skynsemi voru aðalsmerki þess flokks. Ekki lengur."

Hvenaer voru rök og skynsemi adalsmerki Sjálfstaedisflokksins?

Ha? (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 11:18

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk Jóna.

Garðar. Rétt hjá þér. Ég hugsa ekki langt fram í tímann þegar kemur að siðferðilegum ákvörðunum eins og þessum, og tel betra að breyta rétt en rangt, þó að réttlætið geti verið mun erfiðara viðfangs en ranglætið.

Ha? Það var mín tilfinning þegar ég var unglingur. Hugsanlega hafði ég rangt fyrir mér þá. Veit það ekki.

Hrannar Baldursson, 1.10.2010 kl. 15:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband