Erum við plöntur?

Við erum eins og plöntur. Flest okkar. Við festum rætur okkar nálægt staðnum þar sem við fæddumst, og ef ekki þar sem við fæddumst, þar sem við ólumst upp. Við skilgreinum sjálf okkur út frá staðsetningu fæðingar okkar og fólkinu sem við umgöngumst í æsku, og sum okkar festa sig í þessari skilgreiningu og kemur ekki til hugar að efast um sannleiksgildi hennar.

Sjálfur sé ég Breiðholtið sem heimili mitt, nánar tiltekið, Fellin. Þangað flutti ég þriggja ára gamall og flutti þaðan tvítugur. Stundum dreymir mig um að flytja þangað aftur. Á stað þar sem allt er kunnuglegt. Stað þar sem maður getur séð kunnuglegum andlitum bregða fyrir á göngutúr að morgni og kvöldi. Eins furðulega og það kann að hljóma fyrir suma lesendur mína, þá er þetta ekkert annað en fjarlægur draumur. Bæði tími og vegalengdir skilja í sundur þá manneskju sem ég er í dag, og þá manneskju sem þekkti Fellahverfið eins og lófann á sér.

Fyrir fáum árum heimsótti ég gamla hverfið mitt og fannst það fallegasti staður í heimi. Þetta er djúp og sönn tilfinning.

Ég hef búið í Bandaríkjunum, Mexíkó og Noregi utan Íslands, kynnst góðu fólki, lært ný tungumál, aðlaðast framandi siðum, en finnst ég stundum vera eins og Ódysseifur á ferðalagi sínu frá Tróju til Íþöku, þar sem hann kynntist sannri fegurð og þægindum, en ekkert sem gat haldið sterkar í sál hans en hans gamla heimili.

Það er kannski þess vegna sem ég get ekki hætt að hugsa um þjóð mína. Ég veit vel að Íslendingar geta vel komist af án mín, en ég veit ekki hvort ég geti komist af án Íslendinga. Ég hef skrifað fjölmargar greinar um sjónarhorn mitt á Hruninu og fengið fádóma góð viðbrögð frá lesendum mínum, en þessar áhyggjur og rannsóknir hafa verið dýrar. Þær hafa kostað tíma sem annars hefði verið hægt að verja með fjölskyldu eða við launuð störf. 

Ég var svo einfaldur að trúa því að skrif mín gætu einhvern veginn hjálpað Íslendingum að takast á við þá hræðilegu óvætti sem ógna þeim. Og ég trúi að hjálp mín hafi verið einhverjum einhvers virði. Það var ekki fyrr en mér var bent á af mínum bestu vinum að ég þyrfti að huga meira að sjálfum mér en þeirri spillingu, lygum og ránum sem ég gat ekki lengur horft upp á, að ég ákvað að hætta því að skrifa um slíka hluti. Leyfa öðrum að gera það. Hugsa um mitt eigið umhverfi. 10 metra plús mínus. 

En ég get það ekki. Hugurinn ber mig stöðugt heim. Ég fletti upp á íslenskum fréttamiðlum og fylgist með umræðunni. Stundum tek ég líka þátt. Og ég veit að þessi bönd verð ég að slíta.

Það er eins og þegar útlendingar flytja til Íslands. Við ætlumst til að þeir læri íslensku og taki upp íslenska siði, og verðum jafnvel fyrir ákveðnum vonbrigðum þegar við sjáum að þetta fólk heldur í sína gömlu siði og vill jafnvel útbreiðslu þeirra á Íslandi. Sá sem flytur til annars lands verður að klippa á gömlu böndin, verður að segja bless við sína gömlu menningu, verður að læra nýtt tungumál og læra að hugsa upp á nýtt. Verður jafnvel að taka upp nýja siði og lifa eftir framandi siðferði. 

En viðskilnaður Íslands og Íslendings er erfiður. Það er erfitt að kveðja heimili sem virðist að hruni komið, bæði innan frá sem utan frá. Og það er útilokað að ég verði nokkurn tíma eitthvað annað en Íslendingur, sama þó að ég fái á mig annan þjóðernisstimpil með tíð og tíma. 

Ég hef þjónað þjóð minni án þess að hafa verið kosinn til þess af öðrum en mér sjálfum. Þetta val var gott. Nú er kominn tími til að velja nýjar áherslur, ný markmið, stíga upp úr öskunni og velja fyrir nýjan stað og nýjan tíma. Leggja af stað í ferðalag úr fortíðinni og frá Íslandi, ekki bara í líkama, heldur líka í huga.

Stundum finnst mér ég vera planta. Með ræturnar svo djúpar í íslenskri þjóðarsál að óhugsandi sé að grafa þær upp og flytja annað. Þessar rætur eru kannski ósýnilegar öllum öðrum en mér sjálfum, en þær eru sterkar, og sjálfu sér ágætis sönnun á því að það sé eitthvað meira en bara mólíkúl sem gera manneskju að manneskju.

Þær manneskjur sem festa aldrei rætur á einum stað í æsku? Verður það dæmt til að flækjast um heiminn án þess að skilgreina sér nokkuð heimili? Hvað um fólkið sem hefur misst heimili sín og allar fyrri aðstæður eftir náttúruhamfarir eða mannlega eyðileggingu?

Hvað verður um þetta fólk sem hefur ekki þetta plöntueðli? Verður Jörðin öll þeirra heimili, eða er það eins og borgarskáldið kvað: "Við erum gestir og hótel okkar er Jörðin"?

Stundum finnst mér við koma fram við heiminn eins og að Jörðin sé gestur en við sjálf hótelið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Also....für dich Breidholt (Fellahverfi) ist heimelig?

"Stundum finnst mér við koma fram við heiminn eins og að Jörðin sé gestur en við sjálf hótelið."

Já...finnst thér thad ekki ergilegt thegar jördin tekur upp á thví ad kasta minibarnum út um gluggann?

HEIMELIG (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 16:24

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég er þá rótlaus planta

Óskar Þorkelsson, 12.9.2010 kl. 16:28

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

HEIMELIG: Hreint óþolandi

Óskar: Ég öfunda þig.

Annars eru þessar hugrenningar viðbrögð mín eftir lestur á grein George Santayana: The Philosophy of Travel, þar sem hann veltir fyrir sér muninum á fólki sem ferðast um heiminn og þeim sem gera það ekki. Hann heldur því jafnvel fram að með ferðalögum öðlist þú aukna greind, áttir þig betur á heiminum og sjálfum þér, og að sá maður hugsi betur sem situr ekki kyrr.

Er ennþá að melta þessar pælingar hans.

Hrannar Baldursson, 12.9.2010 kl. 17:43

4 identicon

Skemmtileg pæling!  Kv. B

Baldurkr (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 19:29

5 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 12.9.2010 kl. 20:11

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér finnst ég líka vera planta, ég fæ hræðilega heimþrá þegar ég ferðast í útlöndum.  Ég get varla beðið eftir því að komast heim og heyra flugfreyjuna segja velkomin heim. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.9.2010 kl. 01:45

7 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Ég er þá líka planta. Fædd og uppalin í sveitaþorpi á Suðurlandi og eftir áratuga búsetu í Reykjavík flutti ég yfir hálft landið og bý núna í sveitaþorpi á Austurlandi sem svipar mjög til þorpsins sem ég ólst upp í. Og finnst næstum eins og ég hafi búið þar alla ævi.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 13.9.2010 kl. 14:59

8 identicon

Sæll Hrannar.

Þetta verð ég að seigja var þín besta grein :) og ég skora á þig að senda hana á einhvern fjölmiðilinn hérna á skerinu.

 kveðja, Alli.

Albert Þór Sverrisson (IP-tala skráð) 16.9.2010 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband