Hvernig ber að túlka niðurstöður í Reykjavík?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur níu líf. Þó að þeir tapi tveimur borgarfulltrúum, þá tekst þeim að halda lykilstöðu í borginni með fimm fulltrúum, þar á meðal Gísla Marteini, sem hefur með þessum árangri sjálfsagt fengið leyfi til að fara aftur til útlanda í meira framhaldsnám fyrir næstu kosningar. Ég er ekki að grínast.

Samfylkingin gerði líka vel með að ná inn þremur fulltrúum. Dagur finnst mér reyndar að ætti að vera félagsmálaráðherra miðað við áhuga hans og baráttu fyrir betra atvinnulífi. Hann hefur stærri köllun í ríkisstjórn en borgarstjórn. Sjálfsagt á að nota hann sem tromp í næstu alþingiskosningum, á meðan hið rétta væri að nota eldmóð hans, skynsemi og starfskrafta strax í þágu þjóðarinnar.

VG stóð sig mun betur en ég átti von á. Sóley komst inn.

Framsókn og aðrir flokkar dissaðir algjörlega. Reykjavíkurframboðið hafði góð málefni en hefði betur mátt sameinast Besta flokknum, enda nauðalíkir flokkar, fyrir utan að Reykjavíkurframboðið hafði stefnu.

Besti flokkurinn er stóri sigurvegarinn. Aðrir flokkar munu samt túlka þetta sem eigin sigra, þrátt fyrir bla bla bla... BF kemur inn sex borgarfulltrúum, sem er mjög gott en samt minna en spár gerðu ráð fyrir. Mig grunar að mikil smölun hafi verið í gangi hjá stærri flokkum sem hafa haft áhrif á niðurstöðurnar, enda dræm þátttaka í upphafi kosningadags sem síðar skánaði eftir því sem á leið. Þannig grunar mig að Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu hafi tekist að lifa af.

Eðlilegt væri að Jón Gnarr yrði næsti borgarstjóri, enda virðist hann afar næmur fyrir að hvetja fólk til samvinnu og skilja hvað það er sem gerir fjórflokkinn að meini sem er að murka líftóruna úr íslensku þjóðinni vegna hagsmunabaráttu fyrir fámennar auðklíkur og hugarfari sem líkist meira kappleik heldur en samvinnu. Hann er ekki pólitískur andstæðingur eins eða neins, sem er gott.

Næststærsti sigurvegurinn eru vel smurðar áróðursmaskínur fjölmiðla. Þeim tókst að sannfæra mikinn fjölda fólks um að Besta flokkinn skyldi ekki taka alvarlega, að Hanna Birna væri Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann leggur sig og að hún hafi staðið sig vel sem borgarstjóri og eigi skilið að vera það áfram. Samfylkingin átti erfiðara uppdráttar í fjölmiðlum en tókst að nota vefmiðla og bloggið til að koma sér og sínum málefnum á framfæri.

Annars hefur mikil orka farið í að beita hugtakinu 'fjórflokkur' við ýmsar aðstæður. Mér sýnist merking hugtaksins ekki vera ljós. Ég lít á 'fjórflokkinn' sem samsteypu þeirra flokka sem hafa stjórnað íslenskum stjórnmálum frá upphafi. Þetta eru fjögur lið sem öll berjast fyrir ákveðnum hagsmunum, ekki fyrir hugsjónum. Þau líta á hvert annað sem andstæðinga og að þau séu að fylkja liði gegn þessum andstæðingum.

Það er svo mikil fáfræði spunnin í þennan hugsunarhátt að það er varla hægt að kalla þetta hugsun, kannski væri betra að flokka þetta sem hegðun, sem brýst út sem viðbrögð gegn andstæðum viðhorfum sem gætu hugsanlega ógnað hagsmunum þeirra sem styrkja viðkomandi flokk. 

Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Framsókn eru flokkar sem berjast fyrir þessum ákveðnu hagsmunum, en VG hefur hins vegar verið ógn gegn þessum flokkum þrátt fyrir að berjast ekki beint fyrir hagsmunum, heldur fyrst og fremst gegn þeim hagsmunum sem hinir flokkarnir standa fyrir. Þannig spinnst VG inn í fjórflokkinn, og festir sig síðan almennilega í sessi þegar í ljós kemur þegar inn í ríkisstjórn er komið að enginn munur virðist á VG og hinum þremur, þar sem að upp spretta hagsmunaaðilar sem VG byrjar að verja og koma í stöður innan stjórnkerfisins.

Besti flokkurinn er ferskur vegna þess að hann hefur ekki enn fallið í þá gildru að setja sig upp sem flokk sem berst gegn hagsmunum vernduðum af öðrum flokkum, heldur sem hóp af fólki sem vill berjast fyrir almannaheill. Það að þeir noti háð og spott til að koma sér á framfæri er hið besta mál. Fólk sem hugsar ekki út frá flokkspólitískum forsendum er nauðsynlegt til að koma stjórnkerfinu í lag. Flokkspólitíkin er krabbamein sem er að ganga frá stjórnkerfi Íslands dauðu.

Vonandi fer fjórflokkurinn í meðferð og áttar sig á hvað þeir hafa verið að gera þjóð sinni mikinn skaða með ábyrgðarleysi og flokkadráttum. Vonandi fara meðlimir þeirra að hlusta á þjóðina. Vonandi fara þeir að skilja að það er ekki flokksrígur sem fólkið vill, heldur samvinna og samstaða gegn meinum og glæpum, að heiðarlegt fólk sé stutt áfram, að duglegt fólk fái vinnu sem skilar gæðum til samfélagsins.

Vonandi fattar fjórflokkurinn að hann fékk spark í rassinn á landsvísu, en snýr ekki út úr með því að þykjast hafa runnið til í hálku eða að sparkið hafi ekki verið nógu harkalegt.

Fjórflokkurinn er mein sem þarf að reka út, með góðu eða illu. Og með fjórflokknum meina ég ekki bara Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu, Framsókn og Vinstri græna, heldur þann hegðunarhátt sem þessir flokkar standa fyrir í dag. Þeir gætu hæglega breyst í þríflokk eða fimmflokk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: ThoR-E

Jújú, fólk virðist vilja áframhaldandi nám Gísla Marteins á fullum launum frá borginni.

Einnig virðast kjósendur í kópavogi vilja áframhaldandi setu Gunnars Birgissonar í bæjarstjórn, þrátt fyrir öll spillingarmálin sem þar hafa upp komið.

Held að kjósendum sé ekki viðbjargandi. Held að það skipti engu máli hvað FLokkurinn geri landsmönnum, hann fær sín 30% og eins og á landsbyggðinni að þá var flokkurinn að bæta við sig í fjöldamörgum bæjarfélögum.

Þetta er dapurlegt. Fólk virðist ekki vilja breytingar. Það mundi kjósa FLokkinn þótt hundur væri í framboði. Eins og einhver sagði í gær.

ThoR-E, 30.5.2010 kl. 10:13

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Margir haga sér enn á hefðbundinn hátt. Þegar fólk er hrætt og reitt verður alltaf ákveðin vinstri sveifla í samfélaginu. Svo dvínar reiðin og eftir situr hræðslan og þá sveiflast fólk aftur til hægri. Þetta má augljóslega  sjá út úr kosningunum í Reykjavík þar sem "Sjálfstæðismenn er sækja í sig veðrið frá því í alþingiskosningunum. -

En hjá mörgum hefur hræðslan og reiðin umbreyst í einskonar skeytingarleysi og fyrirlitningu á kvölurum sínum, fjórflokknum. Við tekur Gnarrisminn.

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.5.2010 kl. 11:15

3 Smámynd: Sigurbjörg Sigurðardóttir

Mikið er ég sammála Don Hrannar,vel skrifaður pistill.

Sigurbjörg Sigurðardóttir, 30.5.2010 kl. 12:28

4 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Sæll Hrannar

Mikið er ég sammála flestu því sem þú skrifar í pistli þínum.  Ég hef lengi verið á þessum skoðunum að það þurfi að losna við fjórflokkinn.  Hef líka verið að skrifa um þetta í skjalinu mínu góða: "Okkar Ísland"

Guðni Karl Harðarson, 30.5.2010 kl. 16:18

5 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Niðurstöðurnar í sveitastjórnarkosningunum er sláandi.  Skilaboðin eru skýr:  Kjósendur eru reiðir og ósáttir við starfandi stjórnmálaflokka.  En ég get ekki tekið undir það sem þú skrifar um að allir flokksmenn og þar með ég sé ekki í stjórnmálum af hugsjónum.  Ég er í stjórnmálum af hugsjónum, sem ég hef tjáð bæði í ræðu og riti, og byggja á samvinnuhugsjóninni. 

Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar.  Að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu er að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar.  Að vinna að því að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annara sameignarfélaga sem hafa hagsmuni félaga að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað.  Menn segja svo við mig að þessar hugsjónir geti ekki átt við Framsóknarflokkinn, enda hafa þær brenglast á margan máta í gegnum tíðina - en þetta er hugsjónirnar sem flokkurinn byggði á í upphafi og hugsjónir sem ég trúi á.

Ég er að verða æ sannfærðari að það ekki nóg að skipta um fólk, líkt og búið er að gera bæði innan Framsóknarflokksins og í síðustu tveimur kosningum.  Við verðum að breyta vinnubrögðunum, viðhorfunum, skerpa á stefnunni og byggja þannig aftur upp traust. Leiðin til að byggja upp traust er að gera það sem maður segir, og segja það sem maður gerir. 

Ekki einfalt, - en það hlýtur að vera þess virði ef við viljum byggja upp réttlátt og sanngjarnt samfélag.

Eygló Þóra Harðardóttir, 30.5.2010 kl. 18:54

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Gaman að lesa um hugsjónir Eyglóar Þóru í Framsókn. Hún er samvinnumanneskja eins og Finnur Ingólfsson sem efndi til mikillar samvinnu við banka landsins um að yfirtaka þá. Já mikil samvinnukona eins og Halldór Ásgrímsson sem efndi til mikillar samvinnu við Bandaríkjaforseta um að láta Ísland styðja blóðbaðið í Írak.  En alltaf gott að skerpa á stefnunni Eygló.

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.5.2010 kl. 19:06

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Eygló: Það blasir við ákveðin félagsgirni innan fjórflokksins. Ég veit að Framsóknarflokkurinn hefur reynt að byrja aftur á upphafsreit, en er flokkurinn ekki enn að tefla eftir sömu reglum og kom honum upphaflega í vandræði? Það hefur ekkert að gera með einstaklinga innan flokkanna, en hugsjónir þeirra virðast gleyptar með húð og hári af þeim sem hafa hagsmuna að gæta.

Ég hef verið afar sáttur við vinnu þína, Eygló, og sé þig sem framúrskarandi manneskju sem bundin er í flokk sem er miklu stærri en þú. Það sama er hægt að segja um fleiri manneskjur á þingi.

Þetta kerfi hefur trausta varðhunda í lykilstöðum sem virðast ekki heyra þessi sömu hróp og við heyrum svo skýrt og greinilega. Það er erfitt að hafna kerfi sem maður telur þjóna sér.

Það er hárrétt að breyta þarf vinnubrögðum, en ég held að stærsta meinið sé þessi félagsgirni, sem er hinn póllinn á eigingirni. Við vitum að eigingjörn manneskja er blind á þarfir annarra og á erfitt með að hugsa skýrt vegna þess. Það sama á við um félagsgirna manneskju.

Annars, til hamingju með Sigga.

Hrannar Baldursson, 30.5.2010 kl. 19:17

8 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Hrannar: Er ekki annað orð yfir þetta hjarðhegðun? Við viljum tilheyra ákveðnum hóp og innan hópsins eru ákveðnar reglur. En við verðum að trúa að það sé hægt að breyta þessu, - er það ekki og breytingar taka tíma.

En það skal viðurkennast að manni falla hendur á stundum þegar maður fær athugasemdir eins og frá Svani þar sem dæma á mig og mína félaga stöðugt af verkum fyrri félaga Framsóknarflokksins, hvað þá að tengja þá við hugsjónir samvinnunnar.

Takk fyrir hlý orð og ég skila kveðjunni. 

Eygló Þóra Harðardóttir, 30.5.2010 kl. 20:54

9 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Nú er Guðmundur Steingrímasson búinn að kasta stríðshanskanum. Sigmundi Davíð hefur mistekist  gjörsamlega að reisa flokkinn úr  rústum segir Guðmundur  efnislega.  Það er rétt. Eftir  á verður  litið á  Sigmund Davíð sem hallærislegan millbilsformann, sem engu kom til leiðar.

Guðmundur verður formaður Framsóknarflokksins áður en langt um líður og þá mega  hinir flokkarnir fara að vara sig.

Eiður Svanberg Guðnason, 30.5.2010 kl. 22:33

10 identicon

Nú þurfa áróðursmaskínur flokkanna að súpa seiðið af misheppnuðum áróðri í kosningabaráttunni; öll áherslan sem fór í að hamra á að framboð Bestaflokksins hafi verið grín snýst nú í höndunum á þeim: Þeir töpuðu fyrir grínframboði! Stjórnmálaafli sem vill láta taka sig alvarlega er ekki stætt í umhverfi þar sem grín er tekið framyfir það. Það er bara svo einfalt.

Vonandi verður þetta til þess að stjórnmálaflokkar í núverandi mynd hverfi af sjónarsviðinu. Hins vegar blasir við sú sorglega staðreynd að flokkarnir fengu allt og mörg atkvæði og geta því enn haldið þessu blessaða landi í gíslingu.

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 31.5.2010 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband