Prince of Persia: The Sands of Time (2010) ***

 

Prince_of_Persia_poster

 


"Prince of Persia: The Sands of Time" er ekki fullkomin, en vel heppnuð kvikmyndaútgáfa af tölvuleik. Sjálfsagt mætti flokka hana í sama gæðaflokk og "Harry Potter", "Pirates of the Caribbean" og "Tomb Raider". Ekki skemmir fyrir að flestir leikarar standa sig vel, fyrir utan suma, eins og pirrandi prinsessu með svo enskan hreim að ég vorkenni Persum, og Ben Kingsley, sem sífellt dregur niður þær ævintýramyndir sem hann leikur í, því hann leikur alltaf sama karakterinn, alltaf með sömu svipbrigðum. Benni Kóngalegi ætti að halda sig við dramað. Þar er hann oft frábær.

Innrásarher Persa ræðst til atlögu gegn heilagri borg vegna þess að njósnir hafa borist um að borgarbúar séu að framleiða öflug sverð og að undirbúa mikla styrjöld gegn Persum. Gjöreyðingarsverði, sko... Þannig að Bandaríkj... ég meina Persar gera árás áður en Írök... ég meina borgarbúum, tekst að ráðast á Persa.

Árásin gengur upp, prinsessan Tamina (Ginna Arterton) handsömuð, en hún hefur staðið vörð um heilagan rýting sem gengur fyrir tímasandi, og konungur Persa fær samviskubit og skammar syni sína fyrir að brjóta niður varnarhlið friðsælustu borgar jarðríkis.

Rýtingurinn er svoldið spes. Þegar og ýtt er á hnapp á skapti hnífsins, sem hlaðinn skal sérstökum galdrasandi, þá getur sá sem heldur á hnífnum ferðast allt að eina mínútu aftur í tímann. Sé hnífnum hins vegar stungið í uppsprettu hins heilaga sands og hnappnum haldið inni, væri fræðilega séð hægt að ferðast miklu lengra aftur í tímann. Um þetta snýst plottið.

Prinsinn Dastan (Jake Gyllenhaal) er einn af þremur prinsum Persíu sem leiddu árásina á borgina, hann var sá úrræðabesti og gerði það að verkum að varnirnar voru brotnar á bak aftur. Dastan er samt ekki alvöru prins. Hann var í æsku götustrákur sem sýndi mikið hugrekki. Sharaman konungur (Ronald Pickup) var vitni að hugrekki og fimi stráksins og ættleiddi hann á staðnum.

Þegar Sharaman konungur er myrtur fyrir augum prinsanna og fjölda vitna er Dastan ásakaður um morðið og allir menn hans drepnir. Hann leggur á flótta og tekur með sér Taminu prinsessu. Á flóttanum lenda þau í ýmsum ævintýrum og hrífast að sjálfsögðu hvort að öðru í leiðinni. Rekast þau meðal annars á skuggalega kaupsýslumanninn Amar (Alfred Molina) sem telur skatta uppsprettu alls hins illa í heiminum og rekur strútaveðreiðar. Amar er ekki jafn illur og hann virðist vera. Hans traustasti félagi er Seso (Steve Toussaint), sem er sérlega klár í hnífakasti. Besta atriði myndarinnar er stutt sena þar sem Toussaint fær að njóta sín í bardaga gegn öðrum miklum hnífameistara. Eftirminnilegur leikari þar á ferð.

Ég hefði viljað sleppa Ben Kingsley algjörlega, því hann er hreinlega ömurlega lélegur sem illmenni í fantasíumyndum. Þess í stað hefði mátt nota höfðingja Hassansin leigumorðingjanna betur og gefa honum aðeins meira en þann virkilega flotta persónuleika sem hann hafði og hina svölu samherja hans, en Gísli Örn Garðarson leikur þennan skúrk feikilega vel og tekst að búa til illmenni sem jafnast á við Mickey Rourke í "Iron Man 2".

Ég hafði gaman af þessu ævintýri.

Mikill hasar, sem er misjafnlega vel útfærður, ekkert sem jafnast á við það besta frá Jackie Chan eða Jet Li, og atriðin afar ójöfn. Jake Gyllenhaal er góð ofurhetja, í fínu formi og tekst að skapa eftirminnilega persónu. Góður endir bjargar myndinni frá því volæði og þeirri klisju sem hún stefndi í að verða.

Frekar brokkgeng mynd, en þegar á heildina er litið frekar skemmtileg stund með poppi og svörtu gosi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Hvernig færðu Date Night að fá 2 og hálfa og þessa að fá 3 ?

Ómar Ingi, 22.5.2010 kl. 02:18

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: Sérðu það ekki með því að lesa gagnrýnina?

Kvikmyndagagnrýni er ekki mjög vísindaleg iðja. 

Ég var mun nær því að gefa "Prince of Persia" **1/2 en ***1/2, enda engan veginn fullkomin mynd. Hins vegar var ég bara nokkuð sáttur í myndarlok og fannst ég geta mælt með henni sem ævintýramynd til að sjá í bíó, á meðan mér fannst varla verjandi að mæla með "Date Night" sem gamanmynd þess virði að sjá í bíó.

Taktu eftir samanburðinum við Harry Potter, Pirates og Tomb Raider. Þetta er nú varla talið með allra besta ævintýramyndum, en þó þess virði að sjá í bíó, svona flestar.

Hrannar Baldursson, 22.5.2010 kl. 05:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband