Geturðu treyst siðblindum lygurum til að segja satt?

Hvernig greinum við á milli siðblindra lygara, þeirra sem segja næstum alltaf satt en eru siðblindir og þeirra sem segja alltaf satt og eru ekki siðblindir?

Þegar yfirlýstur siðblindur lygari fullyrðir að hann sé siðblindur lygari, eigum við að trúa honum frekar en yfirlýstum sannindamanni sem er hugsanlega siðblindur lygari sem segist ekki vera siðblindur lygari?

Þverstæða lygarans er ein af áhugaverðustu og ríkustu uppsprettum samræðna um lygar og sannleika. Hún er til í mörgum myndum. Mín uppáhalds útgáfa er þannig:

"Þessi setning er ósönn."

Hvert barn sér að ef þessi setning er ósönn, þá er hún sönn, en sé hún sönn, þá er hún ósönn. Þannig heldur vítahringurinn áfram að eilífu.

Það væri hægt að vekja sams konar áhrif með setningunni:

"Allir Íslendingar eru lygarar."

En þar sem ég er Íslendingur og held þessu fram, hvernig geturðu greint út frá setningunni hvort ég sé að segja satt eða ljúga? Samt liggur þarna einhvers staðar á bakvið spurningin um hvort ég sé að meina þetta sem dæmi, bókstaflega eða í raun og veru við allar aðstæður.

Það undarlega við þetta er að afstæðan til sannleikans og hins ósanna fer meira eftir því hvernig þér hefur tekist að mynda þér skoðanir um þessi hugtök.

  1. Felst sannleikur í orðum eða meiningu?
  2. Hvernig veistu hvenær sannleikurinn er í meiningunni og hvenær í orðunum?
  3. Er sannleikurinn þess eðlis að orð geti gripið hann?
  4. Er sannleikurinn þess eðlis að mannshugurinn geti höndlað hann?

Þegar ég held því fram að þessi setning sé ósönn, þá eru bara fjórir möguleikar til staðar.

  1. Setningin er sönn
  2. Setningin er ósönn 
  3. Setningin er bæði sönn og ósönn
  4. Setningin er hvorki sönn né ósönn

Er eitt af þessum svörum hið eina og rétta?

Þegar út í það er farið, getum við komist að hinu rétta án þess að rannsaka hvað sannleikurinn er, óháð birtingarformum hans eða dæmum um hann?

  1. Þekkjum við lygar frá sannsögli?
  2. Þekkjum við setningar?
  3. Hvernig eru ósannindi ólík sannindum?
  4. Er munur á sannleikanum og sannri setningu?

Þessa dagana þarf sérstakur saksóknari og teymi hans að glíma við svona spurningar. Þeir þurfa að átta sig á hinum afar litla mun sem getur verið á sannleikanum og lygakryddaða sannleikanum. Það getur verið afar erfitt að greina á milli örlítið kryddaðs sannleiks og sannleiks, sérstaklega ef við höfum í huga að 'ekkert nema sannleikurinn' þýðir í raun ósköp lítið ef ekki er litið á allar hliðar málsins, á alla þá smáu þræði sem spinnast út og suður. Stundum tekst að klippa á óþægilega þræði.


mbl.is Stein Bagger segist vera siðblindur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband