Die Falscher (2007) ***1/2

 


 

"Die Falscher" er vel heppnað helfarardrama um rússneska falsarann Salomon 'Sally' Sorowitsch (Karl Markovics) sem handtekinn er og stungið í þýskar fangabúðir nasista á upphafsárum seinni heimstyrjaldarinnar. Við fylgjumst með hvernig honum tekst að bjarga sér úr erfiðri nauðungarvinnu í störf sem henta honum betur, að teikna og falsa peningaseðla fyrir þriðja ríkið.

Meginþungi myndarinnar gerist í prentverksmiðju þar sem gyðingar eru látnir falsa milljónir breska punda og síðan bandarískra dollara fyrir nasistaforingjann Friedrich Herzog (Devid Striesow) sem reynist reyndar aðeins mannlegri en aðrir nasistar. Sally áttar sig á að hann getur hugsanlega lifað helförina af, og hefur áhuga á að taka félaga sína með sér, en skilur líka að afleiðingar fölsunarinnar geti hjálpað nasistum að vinna stríðið.

Togstreitan er vel sviðsett. Meðal félaga hans eru Kolya (Sebastian Urzendowsky) ungur rússi með berkla, en Sally hefur sett sér að koma honum lifandi gegnum stríðið, hvað sem það kostar. Meðal félaga hans er einnig hinn uppreisnargjarni Adolf Burger (August Diehl) sem áttar sig á hversu mikilvægt er að tefja áætlanir nasista, þó að það geti kostað hann og félaga sína lífið. Hinn afar skotglaði nasisti Holst (Martin Brambach) gefur svo áhorfendum góða ástæðu til að hata nasista innilega. 

Það sem gerir söguna enn áhugaverðari en ella er aðalpersónan, sem er afar vel leikin af Karl Markovics og trúverðug. En sem falsari og glæpamaður er hann bæði útskúfaður af nasistum og gyðingum. Persónan reynist dýpri og betri en maður ætlar í upphafi, og ljóst er að átökin hafa gert hann að allt öðrum manni í lok myndar, en hann var í upphafi.

Það er hollt að horfa á góðar helfararmyndir. Þær minna okkur á hversu afvegaleidd heil þjóð getur verið þegar kemur að illa hugsaðri hugmyndafræði, sem er gjösneidd umhyggju gagnvart náunganum. Þannig var nasisminn illa hugsuð hugmynd, rétt eins og nýfrjálshyggjan og ýmsar fleiri kerfishyggjur, þar sem verðmætamat valdhafa snýst meira um kerfið en fólkið sjálft. Nasistar voru venjulegt fólk sem upplifði óvenjulegar aðstæður, og fylgdi leiðtogunum og kerfinu frekar en samviskunni. Sumir þeirra voru verri en aðrir, en allir tóku þeir þátt í hamförum sem valdið hafa óbætanlegu tjóni.

Samviskulausir kaupsýslumenn sem meta pening og fyrirtækjavöxt, arðgreiðslur og árangur, meira en velferð samfélagsins og hamingju fólks, eru einhvers konar nasistar. Eyðileggingin sem þeir valda eru þó ekki jafn augljós. Þeir skjóta ekki fólk í höfuðið fyrir að vera þeim ekki að skapi. Þeir loka fólk ekki inni í fangabúðum við ömurlegar aðstæður. Þeir taka hins vegar lifibrauð af fólki, húsnæði þeirra og möguleika til að komast af. Það að nasistar litu á það sem hermdarverk að rústa hagkerfi heimsins, vekur upp spurningar um hvort þeir sem rústuðu hagkerfi Íslendinga hafi verið einhvers konar nasistar.

 

Mynd: Rotten Tomatoes


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Yndisleg kvikmynd þetta , ertu búin að sjá A Prophet , þessa frönsku sem tilnefnd er til óskars, if not do.

Ómar Ingi, 28.2.2010 kl. 13:57

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hef ekki fengið tækifæri til að sjá "A Prophet". Reyni að ná henni.

Hrannar Baldursson, 28.2.2010 kl. 18:23

3 identicon

Á spillingin sér nokkur takmörk!

 Þessi gaur passar vel við lýsinguna á "hinum samvizkulausu"

http://www.ogmundur.is/annad/nr/3447/

http://silfuregils.eyjan.is/2010/02/28/saga-finns/

Ég átti um 100 þús kr inneign  í Gift. Finnur og Co stálu öllum peningunum.

 http://eyjan.is/blog/2009/08/09/gift-skuldar-45-milljarda-lan-kaupthings-til-giftar-tilraun-til-ad-halda-gengi-kaupthings-uppi/

Jónsi (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband