LÝÐVELDIÐ eftir Platón: 330 - Verður vondur maður aldrei sáttur við sjálfan sig þrátt fyrir að vera auðugur?

Þessi blaðsíða úr Lýðveldi Platóns passar eins og flís við rass við Kastljósþátt gærkvöldsins þar sem fjallað var um svikafléttur Milestone og Sjóvár. Maður hlýtur að spyrja hvort að þessir einstaklinga trúi því að hægt verði að komast hjá ellinni og kaupa sér kannski eilíft líf og hamingju. Ljóst að ég mun halda áfram að þýða þetta stórmerkilega rit í stað þess að skrifa um alla þá spillingu og það ranglæti sem fram hefur farið á Íslandi og enn er í gangi, en Lýðveldi Platóns fjallar um nákvæmlega þessa hluti, bara í stærra samhengi. Það sem Platón skráði fyrir um 2400 árum um borgríkin í Grikklandi og sérstaklega Aþenu, eiga vel við í dag.

Það má reikna með smávægilegum villum í þessum færslum, enda hafa þýðingarnar ekki verið prófarkarlesnar, en ég geri mitt besta að halda merkingunni skýrri og þýðingunni á hversdagslegri íslensku sem allir ættu að skilja án vandræða.

 

 

 

Herkúles berst við Cerberus, þríhöfða hund Hadesar,
sem stjórnaði einhvers konar Milestone grískrar goðafræði.

 

330a

"Sama lögmál á við um þá sem ekki eru ríkir og eiga erfitt með háan aldur. Það er satt að góðum manni þætti hár aldur ekki sérstaklega auðveldur væri hann fátækur, en það er einnig satt að vondur maður yrði aldrei sáttur við sjálfan sig þó að hann væri ríkur."

"Erfðir þú mest af auðæfum þínum, Cefalus," spurði ég, "eða aflaðirðu þeirra sjálfur?" 

330b

"Hvað ertu að segja, Sókrates?" spurði hann. "Aflaði þeirra sjálfur? Sem kaupsýslumaður kem ég á milli afa míns og föður. Afi minn (sem ég er nefndur eftir) erfði eignir sem eru nánast jafn verðmætar þeim sem ég á í dag, og hann bætti töluvert við þær; faðir minn Lysanias, hins vegar, minnkaði þær í minna en það sem þær eru núna. Ég verð ánægður ef synir mínir erfa frá mér ekki minna, heldur aðeins meira en ég erfði sjálfur."

"Ég skal segja þér af hverju ég spyr," sagði ég. "Það er vegna þess að mér sýnist þú ekki hafa neinn sérstakan áhuga á peningum, og þetta á yfirleitt við um þá sem hafa ekki aflað þeirra sjálfir. Á meðan fólk sem hefur aflað þeirra þykir tvisvar sinnum vænna um þá en nokkur annar."

330c

"Skáldum þykir vænt um eigin ljóð, feðrum þykir vænt um syni sína; á sama hátt bera kaupsýslumenn hug til peninga sinna, ekki vegna gagnsemi þeirra (sem er ástæða þess að allir aðrir hafa áhuga á þeim), heldur vegna þess að þeir eru afurð þeirra eigin vinnu. Þetta verður til þess að pirrandi verður að umgangast þá, þar sem peningar eru það eina sem þeir meta mikils."

"Þú hefur rétt fyrir þér," sagði hann.

330d

"Já," sagði ég. "En mig langar að spyrja þig annarrar spurningar. Hver heldur þú að sé mesti hagurinn sem þú hefur öðlast af ríkidæmi þínu?"

"Nokkuð sem mörgum þætti líklega ósennilegt," svaraði hann. "Sjáðu til, Sókrates, þegar hugsanir um dauðann byrja að reka á huga manns, finnur hann fyrir ótta og áhyggjum um hluti sem honum hafði aldrei áður dottið í hug. Áður fyrr hafði hann hlegið að sögum sem segja frá því sem gerist hjá Hades - um hvernig einhver sem hefur athafnað sig ranglega í þessum heimi er bundinn til refsingar hinumegin - en nú trufla þessar hugmyndir huga hans, og hann veltir fyrir sér hvort þær geti verið sannar."

330e

"Þetta gæti verið vegna veikleika sem felst  í ellinni eða þetta gæti verið vegna þess að nú þegar hann er kominn nær næsta heimi sér hann skýrar; og afleiðingin er sú að hann fyllist af streitu og ótta, og byrjar að reikna út og greina hvort hann hafi brotið af sér gagnvart einhverjum á einhvern hátt. Hver sá sem uppgötvar að hann hefur í lífinu framið fjölda glæpa, vaknar stöðugt í skelfingu upp frá draumum sínum, eins og börn gera, og lifir einnig við kvíða; en á hinn bóginn, hver sá sem er meðvitaður um ekkert rangt í eigin fari horfir til framtíðar með trausti og bjartsýni sem, eins og Pindar segir svo vel, 'veitir honum þægindi í ellinni'."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband