Chugyeogja (2008) ****

The_Chaser_film_poster
 

Hörkuspennandi tryllir eins og þeir gerast bestir, persónusköpunin trúverðug og illmennið verulega fúlt, og hetjan ekkert sérstaklega góð manneskja í upphafi sögunnar. Það að myndin er frá Kóreu og betri en flestar spennumyndir sem koma frá Hollywood segir okkur kannski eitthvað um að miðpunktur menningarinnar sé að færast í austur.

Joong-ho Eom (Yun-seok Kim) hefur verið rekinn úr rannsóknarlögreglu Seoul fyrir að þiggja mútur og hefur stofnað sitt eigið fyrirtæki. Hann gerir út vændiskonur, sem hefur fækkað hratt upp á síðkastið. Hann grunar að þær hafi einfaldlega strokið frá honum og vinni fyrir einhvern annan, en grunar engan veginn þann hrylling sem liggur að baki hvarfi kvennanna.

Þegar aðeins ein af stúlkunum hans er eftir, einstæða móðirin Mi-jin Kim (Yeong-hie Seo), fær hann hana til að sinna viðskiptavini þrátt fyrir að hún liggi heima í flensu. Joong-ho áttar sig á að allar stúlkurnar sem hurfu höfðu áður farið á fund manns með þetta símanúmer. Hann lætur Mi-jin vita, en hún er þegar á leið heim til viðskiptavinarins og er í bílnum með Young-min Jee (Jung-woo Ha), þegar hún fær símtalið. Hún lofar að láta Joong-ho fá heimilisfangið þegar hún kemst inn. En eitthvað fer úrskeiðis.

Joong-ho fer að lengja eftir hringingu frá Mi-jin og ákveður að leita hennar og sýnir að hann er snjall rannsóknarlögreglumaður, sem því miður hefur ekki nægilega mikla samvinnu frá lögreglunni, sem virðist samansafn af spilltum hálfvitum, skriffinnskupúkum og pólitíkusum sem hugsa meira um eigin frama en að réttlætið sigri. Þegar Joong-ho kemst að hinu sanna og nær fyrir einskæra heppni að handsama fjöldamorðingjann, er sagan rétt að byrja, þar sem hann hefur ekki handtökuheimild og engar sannanir sem leiða hann til Mi-jin, sem hann þráir að bjarga eftir að hann kynnist ungri dóttur hennar.

Myndin er gífurlega vel leikin og leikstýrð, sagan sannfærandi og ofbeldið miskunnarlaust, þó að flest af því eigi sér ekki stað fyrir framan myndavélina. 

 

Rotten Tomatoes: 81%

IMDB: 7.9


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Athyglivert

Ómar Ingi, 23.2.2010 kl. 19:09

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

SAM-bíóin ættu að sýna þessa. Hörkuspennandi.

Hrannar Baldursson, 24.2.2010 kl. 08:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband