Hefur ríkisstjórnin lært sína lexíu?

Nú er að ljúka sögulegum degi sem hvetur ríkisstjórnina til betri vinnubragða, meiri auðmýktar og samstarfs með þjóðinni allri. Hroki og hleypidómar skapa bara hindranir á okkar eigin vegi, sem verða okkur síðan fjötur um fót.

Stjórnin getur vel haldið áfram sýni hún auðmýkt, tekur sig á við að sameina fólk um að taka saman höndum í stað myglaðrar flokkapólitíkur, og berst fyrir málstað Íslendinga á erlendri grundu. Ég er sannfærður um að Ólafur Ragnar tók rétta ákvörðun í dag, það var verið að mótmæla ólögum sem hefðu orðið þjóðinni til langvarandi vandræða og sjálfsagt endað afar illa fyrir flesta, þó að einhverjir hefðu fengið svigrúm til að græða á ástandinu.

Úr sögunni eru þekkt augnablik um óvinsæl mótmæli sem sagan hefur síðan réttlætt, eins og þegar Gandhi ákvað að berjast gegn enskum yfirráðum á Indlandi þegar hann sá samlanda sína og fólk í öðrum nýlendum kúgað af Bretum á meðan hann var sjálfur breskur hermaður, Martin Luther King skipulagði mótmæli vegna handtöku blökkukonu sem settist í hvítra manna sæti í strætó, Thoreou sat í fangelsi þar sem hann borgaði ekki skatt sem notaður var til málstaðar gegn sannfæringu hans um frelsi blökkumanna. Íslenskir sjómenn klipptu á veiðarfæri breskra togara í þorskastríðinu.

Ég tel daginn í dag jafnast á við slíka atburði, og að sagan ein muni geta skorið úr um hvort það hafi verið rétt að færa þjóðinni völdin í hendurnar um jafn afdrifaríkt mál. Við getum haft skoðanir um þetta til hægri og vinstri, en enginn veit með vissu hvernig þetta fer, og hvernig þetta hefði farið, en ég sé skýrt og greinilega að þetta var hið eina rétta í stöðunni. Og ég átta mig á að þó ég sjái þetta skýrt og greinilega, get ég haft rangt fyrir mér eins og hver annar, en hef ekki enn séð rök sem færa mig af þessari skoðun. Þessi ákvörðun mun koma ýmsum illa í dag, en hún getur komið í veg fyrir afhroð komandi kynslóða Íslendinga.

Viljum við ekki vinna okkur saman út úr þessari kreppu, þar sem stjórnin hlustar á þjóðina og þjóðin á stjórnina, þingið vinnur saman sem heild og leggi flokkapólitík á hilluna þar til sér fyrir endann á þessum erfiðu málum? Ég hef fulla trú á því að Íslendingar geti unnið sig út úr þessum vanda, og er sannfærður um að leiðin sem forsetinn hafnaði í morgun var röng leið. Ég held að þessi leið sé rétt skref í átt að sameiningu þjóðarinnar, en hin leiðin hefði örugglega sundrað okkur.

Ef ríkisstjórnin hefur ekki lært neitt af þessari lexíu um mikilvægi auðmýktar og samstarfs ætti hún að fara frá og leyfa þjóðstjórn að taka við, en alls ekki öðrum pólitíkusum, en ég vona að hún haldi áfram, með aðeins meira hugrekki, fagmennsku og samstarfsvilja en hún hefur sýnt til þessa.

Ekki má gleyma því að þó nýfrjálshyggjan hafi reynst afar vafasöm hyggja, þá megum við ekki rugla þeirri hyggju saman við mikilvægi einstaklingsfrelsis, en í mörg hundruð ár hefur vestræn menning þróast í þá átt að virða frelsi einstaklingsins, án þess þó nauðsynlega að auka það eða draga úr því. Ég held satt best að segja að hugsjónirnar sem voru varðar í dag, eru þær að sérhver manneskja í þessum heimi, hvort sem um er að ræða Íslending eða manneskju af öðru þjóðerni, þá skulum við bera skilyrðislausa virðingu fyrir sjálfsvirðingu viðkomandi, og nauðsynlegt skilyrði fyrir slíka sjálfsvirðingu er frelsið. 

Nú hef ég (vonandi) sagt mín síðustu orð um þetta mál.


mbl.is Sammála um að lágmarka ókyrrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Sammála - flott færsla.

Fyrstu viðbrögð stjórnarinnar voru hræðsluáróður; sögðust sjá fyrir ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Hvernig sem það er hægt. Vonum að það séu bara fyrstu viðbrögð í panikk og hugrekki og samstarfsvilji komi þegar um hægist. 

Haraldur Hansson, 6.1.2010 kl. 00:05

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég tek undir með þér.

Sigurjón Þórðarson, 6.1.2010 kl. 00:06

3 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Það er nóg að þjóðin fái árásir utan frá, verra ef þær eru innan frá. Takk fyrir mig.

Jóhanna Magnúsdóttir, 6.1.2010 kl. 00:10

4 Smámynd: Halla Rut

Frábær lokaorð hjá þér.

Við skulum ekki fara 100 ár aftur í tíma verklagslega séð af því að eftirlitið á þessum áratug brást. 

Halla Rut , 6.1.2010 kl. 01:10

5 identicon

Er það þá skortur á samstarfsvilja núverandi ríkisstjórnar og auðmýkt sem hefur sundrað þjóðinni? Stjórnarandstaðan hefur þá sýnt ábyrgð í málinu og trúverðugleik?

Ef það er til önnur leið en Þessi sem ríkisstjórni er að fara, að semja við Hollendinga og Breta um að greiða þeim til baka hluta af því tjóni sem skattgreiðendur þeirra landa urðu fyrir vegna Icesave, hver er hún?

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 07:06

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir athugasemdirnar.

Þráinn: Mér líst ágætlega á þá hugmynd að halda alþjóðlega ráðstefnu um málið, til að byrja með.

Hrannar Baldursson, 6.1.2010 kl. 07:09

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Því miður virðist ríkisstjórnin ætla að vera áfram í fýlu og fara í stríð við meirihluta þjóðarinnar, þetta eru eins og óþekkir krakkar en ekki eins og fólkið sem var kostið til að stjórna landinu.  Það er von að ekki hafi þeim gengið betur með það verkefni. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2010 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband